Bændablaðið - 06.07.2004, Blaðsíða 10

Bændablaðið - 06.07.2004, Blaðsíða 10
10 Þriðjudagur 6. júlí 2004 Undanfarin ár hefur notkun bænda á sauðfjársæðingum aukist umtalsvert með hverju ári. Bændur hafa verið hvattir til þessa. Á þennan hátt hafa náðst meiri ræktunarframfarir en áður á mörgum búum. Um leið er rétt að leggja áherslu á að sæðingarnar eru lang besta leiðin til dreifingar á erfðaefni um leið og haldið er uppi virkum sjúkdómavörnum. Núna blasa við ákveðnar breytingar á rekstri stöðvanna. Gert er ráð fyrir að aðeins tvær stöðvar verði í föstum rekstri, stöðin í Laugardælum og við Borgarnes, en rekstur stöðvarinnar á Möðruvöllum mun hætta. Jafnhliða þessum breytingum þarf að gera ákveðnar breytingar á skipulagi í dreifingu sæðis frá stöðvunum fyrir næsta vetur. Bændur um allt land eru farnir að nýta sér sæðingarnar á hverju ári. Þess vegna þarf að vinna upp skipulag sem tryggir svæðum um allt land forgang að sæðingum tiltekna daga en ekki eins og verið hefur til þessa að slíkt hefur fyrst og fremst verið fyrir hendi á svonefndum "starfssvæðum stöðvanna". Um leið hefur verið ákveðið að bjóða upp á notkun á djúpfrystu hrútasæði að vissu marki. Þannig verður mögulegt að mæta aukinni eftirspurn án þess að fjölga stövunum og jafnvel að auðvelda starfið á háannatíma og skapa svigrúm þannig til að bæta alla þjónustu. Hér á landi voru gerðar tilraunir með notkun á djúpfrystu sæði fyrir rúmum tveimum áratugum. Þá þótti munur í árangri úr sæðingum með fersku og frystu sæði það mikill að aðferðin væri ekki áhugaverð. Á síðastu árum hefur verið feikilega hröð þróun í notkun sæðinga hjá sauðfé í Noregi og þeir farnir að nota fyrst og fremst fryst sæði með góðum árangri. Rétt er að nefna að þær aðferðir sem þeir nota þar eru byggðar á rannsóknum Þorsteins Ólafssonar frá námsárum hans þar í landi. Síðastliðinn vetur var gerð talsvert umfangsmikil tilraun með sæðingar með djúpfrystu sæði hér á landi. Sæddar voru á annað þúsund ær í þessum tilraunum. Árangur var eins og úr sæðingum með fersku sæði breytilegur, að meðaltali um 50%, en á nokkrum búum var árangur sem fyllilega stenst samanburð við notkun á fersku sæði. Það er ljóst að sæðingar með djúpfrystu sæði geta gagnvart kostnaði aldrei keppt fyllilega við ferska sæðið. Hins vegar er ljóst að ef samanburður er gerður við notkun sæðinga með fersku sæði ásamt samstillingu, sem verður alveg óþörf með notkun á djúpfrystu sæði, þá er djúpfrysta sæðið ákaflega vel samkeppnishæft hvað kostnað varðar. Kostir notkunar á djúpfrystu sæði eru margir og þeir augljósastir að með því bjóðast möguleikar á notkun sæðinga yfir miklu lengri tíma en með ferska sæðinu. Trygging er í því að sæðið er komið á staðinn fyrir notkun. Hægt er að velja ær til sæðinga á markvissan hátt um leið og þær eru að ganga án samstillinga. Á þennan hátt skapast einnig meiri möguleikar til að velja og fá sæði úr tilteknum sæðingahrútum til notkunar. Við byrjun sæðingavertíðar liggur fyrir hvaða sæði er til boða á tímabilinu öllu og auðvelt að skipuleggja notkun með tilliti til þess. Flutningskostnaður sæðis á svæðið verður minni en með ferska sæðið vegna þess að það kemur allt í einni sendingu, á móti kemur ef til vill í sumum tilfellum einhver aukin vinna við dreifingu sæðis innan svæðisins. Ákveðið hefur verið að bjóða djúpfrysta sæðið sem valkost á komandi vetri. Djúpfrysta sæðið þarf að senda og geyma þar til kemur til notkunar í köfnunarefniskútum líkt og menn þekkja í sambandi við nautasæði. Miklu varðar að fá góða nýtingu á þessum búnaði og aðeins mögulegt að bjóða upp á ákveðinn fjölda kúta í notkun. Eðlilegt er að reikna með að kútarnir rúmi 400-700 skammta hver (fer eftir dreifingu á sæðinu á hrúta). Ákveðið er að verðlagning á djúpfrysta sæðinu verði þannig að hver skammtur verði seldur á 300 krónur. Auk þess verður að krefjast greiðslu fyrir að lágmarki 90% af því sæði sem pantað er og sent verður í kútnum. Til að geta ákveðið hvar boðið verður upp á þessa notkun á komandi vetri verður farin sú leið að óska eftir umsóknum um notkun á djúpfrysta sæðinu. Í boði munu verða næsta vetur tíu kútar með djúpfrystu sæði. Þess vegna er nauðsynlegt að bændur á svæðum sem kunna að hafa áhuga á þessu komist að niðurstöðu um umsókn. Þarna virðast fjárræktarfélög á viðkomandi svæðum ein sér eða fleiri saman vera eðlilegasti vettvangur þessa. Umsóknir þurfa að berast fyrir 1. september til Jóns Viðars Jónmundssonar hjá BÍ. Í umsókninni þarf að koma fram fyrir hvaða svæði umsóknin er (bú þar sem á að nota þetta sæði), hvaða fjölda skammta sótt er um og hver er í forsvari fyrir umsókninni. Umsóknir frá þeim svæðum sem liggja fjærst stöðvunum og búa við ótryggastan og erfiðastan daglegan flutning á fersku sæði munu njóta forgangs. Einnig verður að sjálfsögðu að taka tillit til nýtingar á geymslukútunum. Umsóknunum verður svarað strax í byrjun september. Þau svæði sem fá þessa þjónustu á komandi vetri þurfa síðan að skila pöntun á hrútum til notkunar í lok október. Þetta er nauðsynlegt vegna þess að í byrjun nóvember þarf að velja hóp hrútanna af stöðvunum sem fryst verður sæði úr vegna þess að frystingin verður að eiga sér stað nánast allan nóvembermánuð. Breytt skipulag í sauðfjársæðingum Notkun á djúpfrystu hrútasæði Sérstaða ís- lenskra húsdýra Í mars sl. var haldin málstofa til heiðurs dr. Stefáni Aðalsteinssyni. Þar flutti hann erindi sem hann kallaði Sérstaða íslenskra húsdýra. Hér á eftir fer samandregið yfirlit úr erindi hans: Íslenskir nautgripir eru ættaðir frá Noregi, nánar tiltekið frá Þrænda- lögum og þar fyrir norðan. Reiknuð ættliðafjarlægð íslenskra kúa frá norskum er 221 ættliður eða 1105 ár, sé hver ættliður 5 ár. Sé reiknað til baka um 1105 ár frá 1995 hafa kýrnar komið til Íslands árið 890, en það er nálægt miðju landnámi. Kýrnytin er talin vera 1100 kg á ári frá 1150 til 1650 en síðan hækkandi og komin í rúmlega 2000 kg árið 1900 og rétt um 5000 kg árið 2000. Mjólkin er holl og hagkvæm til vinnslu og tekur fram mjólk nágrannakúa okkar. Kýr okkar eru marglitar, með sex aðalliti, svart, kolótt, rautt, bröndótt, sægrátt og grátt. Auk þess koma fyrir tvílitir, annars vegar skjöldótt sem er víkjandi og hins vegar þrjár ríkjandi gerðir af tvílit, hjálmótt eða húfótt, hryggjótt og grönótt. Íslenskir hestar eru komnir frá Noregi. Þeir eru mikið skyldir norður-norska hestinum og Hjalt- landshestinum og allmikið skyldir mongólska hestinum, sem hefur bæði skeið (dshoroo) og ákveðna gerð af tölti (saivar). Alls eru taldar vera fimm gangtegundir í ís- lenskum hrossum. Þær eru fet, brokk, tölt, stökk og skeið. Mörg erlend hestakyn hafa aðeins fet, brokk og stökk. Alls eru 15 aðallitir í íslenska hestinum: Jarpt, brúnt, rautt, leirljóst, moldótt, hvítingjar, bleikt, bleikálótt, móálótt,vindótt, grátt, litförótt, glóbrúnt, glójarpt og glóbjart. Með öllum þessum litum getur komið fyrir skjótt og slettuskjótt. Íslenskt sauðfé er komið frá Noregi og er náskylt gamla norska stuttrófufénu. Flutt hefur verið inn sauðfé frá ýmsum stöðum á umliðnum öldum og oftast með hörmulegum afleiðingum vegna sjúkdóma sem bárust með fénu. Í fénu eru til tvær gerðir af hyrndu (tvíhyrnt og ferhyrnt) og tvær af kollóttu (nauðakollótt og örðótt annars vegar og hnýflótt og sívalhyrnt hins vegar). Tvö stórvirk gen auka frjósemi í sauðfé, þokugenið og lóugenið. Einstakt fyrirbæri í stofninum er forystufé sem fer fyrir fjárhóp í rekstri og leiðir hann þangað sem hann á að fara. Það mun hvergi vera þekkt í heiminum nema hér. Íslenskar geitur munu vera ættaðar frá Noregi, eftir litum og hornalagi að dæma. Þær hafa alltaf verið fáar í landi. Þær mjólkuðu allvel meðan þær voru hafðar til mjólkur en nú ganga kiðin undir þeim. Þær hafa óvenju mikið og fínt þel í feldinum. Íslenskir hundar hafa verið til af ýmsum gerðum í landinu en talið er að fjárhundar fyrrum hafi verið með upprétt eyru og hringaða rófu og ekki stórir. Þeir eru skyldir norrænum hundum af svipaðri byggingu samkvæmt blóðflokkum og því líklegt að þeir séu komnir frá Noregi um landnám. Þeir voru í útrýmingarhættu um 1950 en var þá bjargað með snörpu verndunarátaki. Íslenskir kettir hafa komið hingað um landnám. Þeir eru náskyldir köttum í Svíþjóð og á Hjaltlandi að því er varðar tíðni einstakra lita og má því gera ráð fyrir að þeir séu komnir frá Noregi. Kettir í Boston og New York eru mjög líkir íslenskum köttum í tíðni einstakra lita og hefur það verið túlkað þannig að íslenskir landnemar á Vínlandi hafi haft ketti með sér frá Íslandi en kettirnir orðið villtir og lifað áfram í landinu þegar íslenskt landnám lagðist af. Þeir hafi síðan séð um að frjóvga læður sem komu vestur með nýju landnámi og afkomendurnir hafi fengið íslensk einkenni frá villiköttum ættuðum af Íslandi. Íslensk hænsni hafa komið hingað um landnám. Af þeim fara litlar sögur. Þegar vefjaflokkar úr gömlum íslenskum hænsnastofni voru bornir saman við norræna stofna í notkun á Norðurlöndum var lítið, eða 28%, sameiginlegra vefjaflokka í þeim en nokkur líkindi fundust með gömlum hænsnastofni í Noregi og íslensku hænsnunum. Íslenskar hagamýs hafa komið hingað um landnám. Þær lifa úti í náttúrunni á sumrin en lifðu að verulegu leyti í híbýlum manna á veturna áður fyrr. Þær virðast hafa komið til landsins frá Noregi, eftir einkennum á höfuðkúpum að dæma. Dreitill 00-891 frá Oddgeirshólum. Bændablaðið/Sveinn Sigurm.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.