blaðið - 27.01.2006, Side 12

blaðið - 27.01.2006, Side 12
12 I TÓNLIST FÖSTUDAGUR 27. JANÚAR 2006 blaöiö Dýpt léttleikans Wolfgang Amadeus Mozart á 250 ára afmœli í dag. Hann er óumdeilanlega eitt helsta tónskáld heims ogsjálfsagt sá, sem mestri snillgáfu vargœddur. Andrés Magnússon tók afþessu tilefni tónskáldið til kostanna og veltirfyrir sér erindi tónlistar hans. I dag eru 250 ár liðin frá því að snill- ingurinn Wolfgang Amadeus Moz- art fæddist. Enn þann dag í dag eru menn nánast agndofa yfir snilldinni og að því leyti er Mozart í algerum sérflokki meðal tónsmiða heimsins. Hann er máske ekki vinsælasta tón- skáld heims (gleymum eitt augna- blik helstu dægurlagahöfundum vorra tíma, sem eiga tæknifram- förum og markaðsstarfi mikið að þakka), þar hafa þeir Bach og Beet- hoven sjálfsagt vinninginn. En hin fullkomlega fyrirhafnarlausa og létt- leikandi snilld, sem birtist á hverri síðu í tónbókmenntasafni Mozarts, hefur uppskorið verðskuldaða að- dáun, sem ekkert annað tónskáld keppir við. Sumir hafa enda sagt að ástæðulaust sé að takmarka sig við tónlistina þegar Mozart sé sungið lof, hann hafi verið eitt af undrum veraldar og með glæstustu merkis- berum mannsandans. Það segir kannski sína sögu að jafnvel á þessum tímum eftiráhyggj- unnar (póst-módernismans), þar sem nær engin gildi hafa fengið að standa óáreitt, hefur enginn gert atlögu að Mozart eða verkum hans. Að því leyti virðist hann ósnertan- legur. Undir þetta taka tónskáld og tónlistarmenn. Einn af fremri ein- leikurum íslands orðaði það svo við mig fyrir nokkrum árum að tónlist Mozarts hefði opnað fyrir sér mögu- leikann á tilvist Guðs, náðargáfan væri naumast mennsk. Og verkin hans lifa, bæði í flutn- ingi og sem hluti af okkur. Hringi- tónar eftir Mozart eru vinsælir á GSM-símum, margir söngla ABCD sér til glöggvunar á stafrófinu fram eftir aldri, hann Tumi fer enn á fætur og svo mætti lengi telja. Það má meira að segja halda því fram að smekkvísi Islendinga á Mozart taki öðrum þjóðum fram, því við hik- uðum ekki við að fá lánaðan söng úr Töfraflautunni og gera að einum fallegasta jólasálmi okkar: í dag er glatt í döprum hjörtum. Kannski það sé kjarninn í snilld Mozarts, tón- list hans er einstaklega vel til þess fallin að gleðja döpur hjörtu. Undrabarnið En auðvitað dáumst við líka að manninum eða undrabarninu öllu heldur, því Mozart var orðabókar- skilgreining á því fyrirbæri. Aðeins þriggja ára var hann farinn að end- urtaka fingraæfingar á píanó eftir eyranu, ári síðar samdi hann minú- etta og sex ára gamall var hann far- inn að ferðast milli hirða Evrópu sem undrabarn á fiðlu og píanó. Níu ára gamall samdi hann fyrstu sin- fóníuna, en hina síðustu aðeins 23 árum síðar, rétt fyrir fullkomlega ótímabæran dauða sinn. Mozart lést ekki aðeins í blóma lífsins, heldur vekur það furðu hvað hann skildi mikið eftir sig, ekki aðeins hvað magn varðar, heldur líka þegar litið er til umfangsins og þess þroska, sem verk hans bera með sér. Flest af höfuðtónskáldum heims hefðu verið fullsæmd af slíku ævistarfi um áttrætt. Menn deila enn um manninn að baki nafninu. Enn eru að koma út nýjar ævisögur, sem sýna nýjar hliðar á honum eða afsanna gamlar kenningar og þjóðsögur. Gleggsta myndin, sem flestir hafa af Mozart, er sjálfsagt sótt í kvikmyndina Ama- deus. Að hann hafi verið snillingur, en hálfgert fífl Hka. Að hann hafi getað samið létta og áheyrilega tón- list, en tæpast mjög veigamikla. En Amadeus var ekki nema lauslega byggð á ævi meistarans, aðalplottið um óvináttu Salieris var úr lausu lofti gripið og þó Mozart hafi vissu- lega ekki alltaf farið skynsamlega að ráði sínu var hann enginn kjáni. Sam- tímafólk lýsti honum sem afar venju- legum manni, vel gefnum, gaman- sömum en ekki sérlega menntuðum ef tónlistin er undanskilin. Bölvað popp? En sú gagnrýni er þrálát að einmitt vegna kætinnar og fyrirhafnarleysis- ins, sem einkenna svo mörg þeirra, séu þau fullléttvæg. Nánast bölvað popp. Þar gæti ekki nægilegrar al- vöru og skorti þá dýpt, sem önnur tónskáld hafi náð tökum á. Um leið vísa menn gjarnan til þess að Moz- art hafi ekki samofið stormasamt Hf sitt tónlistinni á sama hátt og Be- ethoven og Schubert, svo tveir séu nefndir, en þá má nánast sálgreina svona eftir á með því að hlusta á verk þeirra. Ástæðan er kannski sú, að menn finna fá ef nokkur verk eftir Mozart, sem hann samdi vegna þess að hann fann sig knú- inn af einhverri innri þörf til þess að yrkja. Kveikjan var nánast alltaf ytri þörf: einhver pantaði verk, það vantaði óperu í leikhúsið eða Moz- art var óvenjublankur. En þegar betur er skoðað má samt finna verk, sem hann málar myrkari litum en önnur. Og það er ekkert erfitt að finna þau, jafnvel fyrir leikmann. Það er í raun ekki flóknara en að leita uppi þau verk, sem Mozart skrifaði í moll. Þau eru tiltölulega fá: tvær píanósónötur af sautján, tveir píanókonsertar af 27 og tvær sinfóníur af 41. Nú skal því ekki haldið fram að þessi verk séu betri en hin, sem eru í dúr, en í þeim má finna magnaðri tilfinningar en gengur og gerist hjá Mozart. Og hið merkilega er að moll-verkin gætu nánast verið eftir annað tónskáld. Hinu má ekki heldur gleyma, en Sjávarfamj 2<r. 1$00.- Tlokkfislair í hndcijiuu á fösludötjuiii Sumir hafa enda sagt að ástæðulaust sé að tak- marka sig við tónlistina þegar Mozart sé sungið lof, hann hafi verið eittafundrum veraldarog með glæstustu merkisberum mannsandans. það er hversu ungur Mozart var. Yf- irleitt gera menn ekki ýtrustu kröfur til ungra listamanna um að þeir séu alvörugefnir og þegar menn ganga fram á alvöruþrungna, unga lista- menn er yfirleitt frekar ástæða til þess að kvarta undan óbærilegum leiðindum. Æska Mozarts er þannig kannski ein helsta ástæðan fyrir fjörinu og leiknum í flestum verka hans, jafnvel þannig að stappar nærri sprelli. En þegar Mozart tekst á við mollinn tapar hann sér ekki í sjálfhverfri tilfinningavellu, eins og oft hendir unga listamenn, heldur er hann þvert á móti agaður í þeim efnum. Harmurog gleði Svo má aftur spyrja hvort menn eigi eitthvað með að krefjast þess af Mozart að hann ætti að vera alvöru- gefinn og „djúpur“. Eða hvort rétt sé að leggja það að jöfnu. Sú greining er nefnilega arfleifð frá rómantíker- unum, en hver segir að gamansemi og kómedía geti ekki verið djúp? Því má ekki gleyma að velflest tón- list Mozarts er sprottin úr leikhúsi, nánar tiltekið úr „opera buffa“, hinum ítölsku gamanóperum 18. aldar, sem Mozart og flestir samtíðar- menn hans höfðu mikið dálæti á. En í kómedíu má líka finna djúpstæðar tilfinningar og við þekkjum það lík- ast til öll að það er oft bærilegra að koma slíkum tilfinningum á fram- færi í háði, hálfkæringi eða gaman- semi en með tilfinningaþrungnum ræðum. Að ekki sé minnst á árang- urinn. Hvað vitum við nema að Mozart og samtíðarmenn hans hafi einfaldlega haft annan skilning á tónmálinu en við? En auðvitað er lífið ekki svarthvítt og hjá okkur flestum skiptast kó- medíurnar og tragedíurnar blessun- arlega á og blandast yfirleitt talsvert saman. Kannski má segja að Moz- art hafi einmitt verið öðrum lista- mönnum fremri að því leyti til að skilin milli gleði og sorgar eru ekki alltaf fyllilega augljós. Við vitum að Mozart var dauðans alvara í Töfra- flautunni en þar vantar ekki kátín- una heldur. Brúðkaup Fígarós er gamanópera, en aðeins hársbreidd frá því að vera harmleikur. Don Giovanni gefur sig út fyrir að vera prédikun í harmleikslíki og Cosi fan Tutte á að heita veraldleg kómedía, en við nánari skoðun kemur í ljós að óperurnar eru hvorki gaman- né harmleikir, heldur sitt lítið af hvoru. I því felst dýpt, sem flestir skynja en jafnvel hálærðir tónlistarfræð- ingar eiga erfitt með að festa hönd á. Það er kannski það sem veldur aðdáun manna á Mozart, aðdáun sem bandaríska tónskáldið Aaron Copland sagði að væri á mörkum þess að vera undursamleg og þess að valda óttablandinni lotningu. En kannski okkur veiti ekki af slíkri lotningu fyrir undrum heimsins og mætti mannshugans þessa dagana. Tískan virðist fremur hneigjast til veraldarvanrar kaldhæðni annars vegar og hátíðlegrar skinhelgi hins vegar. Mozart á varla upp á pall- borðið hjá slikum pésum. En tónlist Mozarts er allt í senn, gamansöm og alvarleg, falleg og svipmikil, létt og þung. Hún endur- speglar nefnilega heiminn og mann- lega tilveru þar sem skiptast á skin og skúrir og undrin geta orðið til úr engu. Þess vegna lifir hún, ekki að- eins sígild heldur sífersk fyrir nýja áheyrendur sem gamla. Lífshlaup Wolfgang Amadeus Mozart fædd- ist hjónunum Leopold Mozart og Önnu Maríu Pertl, hinn 27. janúar 1756 í Salzburg í Austurríki. Hann var skírður Johannes Chryso- stomus Wolfgangus Theophilus Mozart, en blessunarlega stytti faðir hans nafnið síðar og þýddi Theophilus yfir á latínu í Amadeus. Wolfgang litli var þó ekki einn um tónlistargáfuna í fjölskyld- unni, því eldri systir hans, María Anna, var einnig frábær píanó- leikari. Eftir að íjölskyldufaðirinn uppgötvaði einstæða hæfileika sonar síns helgaði hann sig því að kenna honum og koma honum á framfæri. Hvert sem hann fór vakti Mozart athygli, ekki aðeins vegna þess hvað fólki þótti til um tónlistartækni barnsins, heldur líka vegna þess að hann hafði ein- stakt lag á áheyrendum. Hann lék sónötur af fingrum fram meðan áheyrendur sungu með, hann tók gömul lög og setti í eigin búning og samdi ný á staðnum eftir því sem andinn og aðstæður buðu. Þegar Mozart náði fimmtán ára aldri voru dagar hans sem undra- barns á enda, en þá réði erkibisk- upinn af Salzburg hann til sín og þar jókst frægð hans á ný. Um leið hafði hann tækifæri til þess að ferðast og þau nýtti hann, m.a. til Parísar, Englands og Ítalíu. Greina má margvísleg áhrif úr þessum ferðum hans, því hvert sem hann fór hlýddi hann á hið besta í tón- list gistilandsins. I Salzburg fann hann ástina í Aloysíu Weber, en áður hann gat knýtt þann hnút þurfti hann að fara í tónleika- ferðalag. Við heimkomuna komst hann sér til mikils harms að því að kjörfurstinn af Salzburg hafði tekið hana frillutaki, en ekki leið á löngu þar til hann fann huggun hjá Konstönzu yngri systur hennar, sem hann gekk að eiga. Þau hjónin fluttu til Vínar- borgar og þar náði Mozart hátindi sínum sem tónskáld. Þrátt fyrir að hann væri jafnan afar vel launaður - mun betur en önnur tónskáld - lifði hann hærra en efni stóðu til og átti í sífelldum fjárkröggum, sem gerði honum erfitt fyrir að mörgu leyti. Heim- ilislífið varð svo ekki einfaldara fyrir vinskap hans við ýmsar konur aðrar en Konstönzu. Síðasta árið var Mozart orðinn heilsuveill og haft var á orði að hann eltist hraðar en árin sögðu til um. Kenndu margir um eilífu flandri og ferðalögum frá barnæsku. Vangaveltur um að öf- undarmenn hafi flýtt fýrir dauða hans eiga sér ekki stoð í sagnfræði- legum heimildum. Mozart dó frá einu magnaðasta verki sínu, sálu- messunni, hinn 5. desember 1791, aðeins 35 ára að aldri. Þrátt fýrir að hann hafi verið nánast gjald- þrota við dauða sinn, fátækur og svangur, blandaðist engum hugur um að hann stæði á hátindi ferils síns og þvert á það, sem margur heldur, var útför hans fjölmenn og létu hvorki tónlistarmenn né aðall sig vanta. En að henni lok- inni var þessi mesti tónsnillingur heimsins lagður í ómerkta gröf.

x

blaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: blaðið
https://timarit.is/publication/941

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.