blaðið - 24.06.2006, Blaðsíða 10

blaðið - 24.06.2006, Blaðsíða 10
10 ISAGA LAUGARDAGUR 24. JÚNÍ 2006 blaðið Margt undarlegt á sér stað á Jónsmessu samkvæmt gamalli þjóðtrú. Jurtir öðlast lækningamátt, framandi verur fara á stjá og kýrnar taka til máls. Jónsmessan er kennd við Jóhannes skírara en rætur hennar má rekja til fornra heiðinna sólstöðuhátíða. Talandi kýr og kynjaverur Jónsmessunótt er ein magnað- asta nótt ársins ásamt jólanótt, nýársnótt og þrettándanótt. Allar tengjast þær skammdeginu en Jóns- messan er sú eina þeirra sem á sér stað að sumri til. Þær þykja hafa á sér yfirskilvitlegan blæ og þá trúa margir að framandi verur fari á stjá. Á Jónsmessu getur ennfremur margt dularfullt gerst samkvæmt gamalli þjóðtrú og er meðal annars sagt að þá fljóti upp ýmiss konar náttúrusteinar auk þess sem vissar jurtir öðlast aukinn mátt. Þá þykir jafnframt heilsusamlegt að velta sér nakinn upp úr dögginni á Jónsmessunótt. Menn geta jafnvel læknast af sjúkdómum sínum við það enda öðlast döggin sérstakan lækningamátt þessa einu nótt. Síðast en ekki síst geta kýrnar talað á Jóns- messu samkvæmt þjóðtrúnni og selir farið úr hömum sínum. Dans og drykkja Hér á landi hefur Jónsmessan alla tíð haft á sér nokkurn annan brag en sunnar í Evrópu þar sem hún hefur verið miðsumarshátíð. Fyrr á öldum voru gjarnan haldnar miklar svallveislur þessa nótt. Kveikt var í bálköstum og trylltur dans stiginn sem oftar en ekki tengdist yfirskil- vitlegum verum svo sem nornum og djöflum. Á Islandi hefur Jónsmessan einnig verið tengd við framandi verur, álfa og huldufólk. Enn er víða slegið upp veislu á Jónsmessu þó að hátíðar- höldin séu ef til vill ekki jafntaumlaus og fyrr á öldum. Jónsmessan fyrr á tímum Á Vísindavef Háskóla íslands kemur fram að náttúrufar, atvinnuhættir og samfélagsforsendur hafi komið í veg fyrir að Jónsmessuhátíðin skipaði sama sess hér á landi og annars staðar. Samkvæmt gamla íslenska tímatalinu var sumarið ekki hálfnað fyrr en um miðjan júlí. Á þjóðveldisöld hófst Al- þingi um svipað leyti og Jónsmessan og því gafst ekki tími fyrir almenn hátíðahöld um landið. Hér voru enn- fremur nætur bjartari en sunnar í álfunni og í bók sinni, Saga daganna, bendir Árni Björnsson, þjóðháttar- fræðingur, til dæmis á að það sé ekki heppilegur tími fyrir drauga, tröll og aðrar óvættir. Slíkar verur eru yfir- leitt heldur ljósfælnar og eru því lítið á ferli þegar dagur er lengstur. Ekki hefur heldur þótt skynsam- legt að eyða eldivið í stórar brennur og bálkesti á þeim tíma ársins þegar bjart var og hlýtt enda ekki mikið um skóglendi í landinu og eldiviður af skornum skammti. Jónsmessuhefðir í ýmsum löndum Svíar gera sér gjarnan glaðan dag á Jónsmessunótt, klæða sig upp og dansa í kringum blómum skrýdda stöng að gömlum sið. Jónsmessan er mikilvæg hátíð í Svíþjóð og i meiri metum en aðrir hátíðisdagar í augum margra Svía. Nú á dögum er Jónsmessa haldin há- tíðleg á þeim laugardegi sem fellur næst 24. júní á ári hverju. Aðalhá- tíðarhöldin fara þó fram föstudags- kvöldið en þá reisa menn gjarnan háa stöng sem skreytt er blómum og grösum. Fjölskyldur koma saman og dansa kringum stöngina og syngja þjóðlög. Fólk klæðir sig oftar en ekki upp í þjóðbúninga í tilefni dagsins. Þá eru ennfremur krásir bornar á borð svo sem ný- uppteknar kartöflur, síld og jafnvel ferskjarðarber. í Svíþjóð eins og víðar er Jóns- messan öðrum þræði tengd yfirskil- vitlegum og kynngimögnuðum fyr- irbærum og þykir því upplagt að spá fyrir um framtíðina á þessum degi. Samkvæmt gamalli hefð hnýta ung- menni kransa úr ólíkum blómateg- undum sem þau leggja síðan undir kodda sinn í von um að tilvonandi eiginmaður eða eiginkona birtist þeim í draumi. Illir andar fældir burt I Danmörku er haldið upp á hátíð heilags Hans (Hans er önnur mynd Jóhannesar/Jóns) og var hún opin- ber hátíð þar í landi fram til ársins 1770. Hátíðarhöldin fara fram aðfar- arnótt 24. júní en á miðöldum söfn- uðu menn jurtum til að nota í lækn- ingaskyni á þessum degi enda sú trú útbreidd að þá öðluðust jurtirnar aukinn mátt. Upphaf Jónsmessu- hefðarinnar í Danmörku má rekja aftur til heiðins siðar en þá kveiktu menn í brennum til að fæla burt illa anda. Enn þann dag í dag tíðkast að kveikt sé í bálköstum á þessum degi og er bálkestinum yfirleitt fundinn staður í fjöruborðinu eða í grennd við vatn ef byggð er fjarri sjó. Fólk snæðir gjarnan saman, syngur og skemmtir sér í tilefni dagsins. Á þriðja áratugnum hófst sú hefð að - kasta norn úr hálmi á bálköstinn til minningar um nornabrennur kirkj- unnar fyrr á öldum. Drykkjuskapur og gleði Jónsmessuhátíð er ein af mikilvæg- ustu hátíðum ársins í Eistlandi og er kveikt í bálköstum víða um landið. Ýmsar hefðir hafa skap- ast í tengslum við hátíðahöldin. Sumir stökkva yfir logandi bálið og stúlkur tína blóm í þeirri von um að þá muni tilvonandi eiginmaður þeirra birtast þeim í draumi. Þó að gleðin sé í hávegum á þessum há- tíðahöldum fylgir þeim jafnframt mikill drykkjuskapur og er engin tilviljun að í aðdraganda þeirra er gjarnan ýtt úr vör átaki gegn ölv- unarakstri í landinu. Þrátt fyrir að dagurinn tengist Jóhannesi skírara líta flestir á hátíðina sem hefð frá heiðnum tímum. I Lettlandi er Jónsmessan einnig stór hátíð og í augum heimamanna næstum jafnmikilvæg og jólin. Allir sem vettlingi geta valdið taka þátt í hátíðahöldunum og víða má sjá bálkesti og brennur. Fólk gerir sér glaðan dag í mat og drykk og rifjar upp gömul þjóðlög og hnýtir blómkransa svo nokkuð sé nefnt. í Litháen var Jónsmessuhefðin sterk í upphafi síðustu aldar og í Lettlandi og Eistlandi en lögðust að miklu leyti niður á tíma Sovétríkjanna.

x

blaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: blaðið
https://timarit.is/publication/941

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.