Bændablaðið - 01.04.2008, Side 10

Bændablaðið - 01.04.2008, Side 10
Bændablaðið | Þriðjudagur 1. apríl 200810 Um síðustu áramót fluttust tvær stofnanir frá landbúnaðarráðu­ neytinu og heyra nú undir umhverfisráðuneytið. Þar er að sjálfsögðu átt við Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins. Þessi tilflutningur var ekki alveg óumdeildur en ef marka má orð Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra hafa ekki fylgt honum nein þau vandkvæði sem orð er á gerandi. „Reynslan þessa fyrstu mán­ uði ársins er sú að þessar stofnanir hafa gengið hingað beint inn og samstarfið við þær er mjög gott. Starfsmenn ráðuneytisins hófu regluleg samskipti strax í sumar við forstöðumenn bæði Landgræðslu og Skógræktar og unnu með þeim að undirbúningi flutningsins. Það starf hefur gengið mjög vel og stað­ festa þá skoðun mína að þessar stofnanir áttu að vera komnar hing­ að fyrir löngu. Þær eru eðlilegur hluti af ráðuneyti umhverfismála. Það eina sem við hefðum viljað hafa öðruvísi var að við vildum fá alla skógræktina til okkar. Það voru hins vegar veigamikil rök fyrir því að nytjaskógræktin væri áfram í landbúnaðar­ og sjávarútvegsráðu­ neytinu og við unum því,“ segir Þórunn. Nýting og verndun Því var meðal annars haldið fram í haust að báðar þessar stofnanir ættu heima hjá landbúnaðinum vegna þess að starfsemi þeirra snerist að mestu leyti um nýtingu en ekki verndun. „Nýting og verndun eru ekki endilega andstæður. Þessar stofn­ anir og raunar allar stofnanir ráðu­ neytisins fjalla um landnotkun með einhverjum hætti. Ég lít á það sem ögrandi verkefni að samþætta starf­ semi þeirra betur. Skógræktin á að vera faglega leiðandi í stefnumót­ um um skógrækt, tegundanýtingu og þess háttar. Við viljum styrkja sambandið við landshlutaverkefni í skógrækt og bændur munu áfram fá alla þjónustu frá Skógræktinni sem þeir hafa fengið. Við megum ekki láta múra milli stofnana hamla okkur, þetta snýst einmitt um að brjóta þá niður og búa til þá stjórn­ sýslu sem hentar þeim verkefnum sem unnið er að.“ Ráðherra bendir á að löggjöfin um bæði skógrækt og landgræðslu sé komin til ára sinna, frá 1955 og 1965. Hana þurfi að endurskoða og laga að því sem er að gerast í samtímanum. Hún er raunar þegar farin að breyta stjórnskipan þessara tveggja sviða með skipan fagráðs í skógrækt og landgræðslu sem tekur til starfa á næstu vikum. „Fagráð á að vinna að stefnu­ mótun til langs tíma. Það ferli verður bráðlega opnað og leitað eftir umsögnum og athugasemdum. Vonandi klárast það fljótlega.“ Leysingjar og bindingjar Þegar samið var um flutning stofn­ ananna í desember sl. var ákveðið að ríkissjóður veitti töluvert meira fjármagn til landgræðsluverkefna en verið hefur. „Það er rétt og þau framlög renna bæði til verkefnisins Bændur græða landið og til rannsókna á kolefnisbindingu sem verður sífellt mikilvægari fyrir starfsemi þessara stofnana eins og annarra hér í ráðu­ neytinu. Í raun er unnið að loftslags­ málunum í öllum stofnunum okkar. Þær eru allar með einhver verkefni sem snerta þetta stóra mál, mismik­ il að vísu, en ég hef verið að reyna að stuðla að því að stofnanirnar tali betur saman. Kolefnisbindingin er því vissulega brýnt verkefni, bæði hjá Landgræðslu og Skógrækt.“ Nú var nokkur áherslumunur milli viðhorfa Samfylkingar og fyrri ríkisstjórnar sem batt mjög miklar vonir við kolefnisbindingu sem mótvægi við stóriðjufram­ kvæmdir. Þórunn kannast við það. „Í þessu máli er engin ein alls­ herjarlausn. Stefna þessarar rík­ isstjórnar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur 50­75% fyrir 2050. Við erum að vinna að aðgerðaráætlun í sérfræð­ inganefnd undir forystu Brynhildar Davíðsdóttur. Hún á að skila til­ lögum í vor um það hvaða leiðir er hægt að fara í því að draga úr losun og hvað þær kosti. Þarna koma margar leiðir til greina, bæði þær sem draga úr losun og hinar sem binda kolefni á móti. Við þurfum svo að velja réttu blönduna sem hentar okkur og er efnahagslega gerleg, auk þess sem hún dreifir byrðunum tiltölulega jafnt á atvinnugreinar og lands­ hluta, fyrirtæki og fjölskyldur. Kolefnisbindingin skiptir mjög miklu máli og hana þarf að rann­ saka vel, hvort sem um er að ræða bindingu í skógi, jarðvegi, votlendi eða með öðrum hætti. Við þurfum að standa á traustum vísindalegum grunni til þess að geta sótt það í alþjóðlegum samningaviðræðum að tekið sé meira tillit til bindingar en gert hefur verið. Fyrir því þurfa að vera pottþétt rök. Það er ekki þannig að eitt útiloki annað. Pólitískar deilur hafa staðið á milli leysingja og bindingja eins og það hefur verið kallað, en það er ekki hægt að einblína á aðra hvora leiðina heldur verðum við að skoða þær báðar. Þess vegna er svo mik­ ill fengur að því fyrir ráðuneytið að fá Landgræðsluna og Skógræktina hingað inn því þær eru einmitt að vinna að rannsóknum á áhrif­ um bindingar. Þá fáum við betri yfirsýn.“ Lífræn ræktun mikilvæg Hverjir­ eru­ möguleikar­ bænda­ í­ kolefnisbindingunni? „Þeir eru ýmsir eins og hefur sýnt sig. Starf bænda hefur breyst mikið og er orðið mun fjölbreytt­ ara en áður. Ég held að það liggi mikil tækifæri fyrir bændur í kol­ efnisbindingunni, rétt eins og ég er á því að þær verðhækkanir sem nú hafa orðið á áburði opni bændum mikil tækifæri til þess að fara út í lífræna ræktun í auknum mæli. Það eru að verða grundvallarbreytingar á heimsvísu. Ég hitti fólk að máli í Skeiða­ og Gnúpverjahreppi á dög­ unum sem stundar lífræna ræktun og það sagði mér að nú væri það í góðum málum. Verðhækkanir á áburði og matvælum hafa bætt sam­ keppnisstöðu lífrænnar ræktunar og það þurfa bæði bændaforystan og stjórnvöld að horfast í augu við og grípa til viðeigandi ráðstafana. Það gleður mig hve skýrt landbúnaðar­ ráðherra hefur talað í þeim efnum. Við hefðum þurft að gera meira fyrr, en við þurfum að nýta þau tækifæri sem gefast núna á því að auka lífræna ræktun. Ég var á fundi í Róm á dögunum hjá tveimur stofnunum Sameinuðu þjóðanna á sviði landbúnaðar og matvæla og þar voru þessar verðhækkanir mál málanna, samkeppnin við lífelds­ neytið og landnotkun. Menn voru að velta því fyrir sér hvernig þessar stofnanir gætu lagt sitt af mörkum. Þar var mikið rætt um lífræna rækt­ un. Á fundinum var bent á að stað­ an hefði breyst núna á allra síðustu vikum þegar verðið á olíufatinu fór yfir 100 dollara. Það sem breyttist við það var að lífeldsneytið er allt í einu orðið samkeppnisfært við olíu í verði. Þetta héldu menn að myndi taka mörg ár. Þetta eru stjórnvöld um allan heim að glíma við og þá skiptir miklu að finna tímabundn­ ar lausnir sem hjálpa bændum að takast á við þessar breytingar. Í því sambandi er mikilvægt að beina framleiðslunni í réttar áttir.“ Menn hafa bent á að það þurfi aukinn hvata fyrir þá sem vilja breyta yfir í lífræna ræktun. „Já, það vantar slíkan hvata. Það er betra fyrir landbúnaðinn og umhverfið og svarar óskum neyt­ enda, þeir kalla eftir lífrænum afurðum. Fólk er tilbúið að borga uppsett verð fyrir góða og heil­ næma lífræna vöru.“ Ný skipulagslög í fæðingu Umhverfisráðuneytið fæst við fleira sem snertir bændur og lands­ byggðarfólk en skógrækt og land­ græðslu. Þórunn mælti nýlega fyrir þremur frumvörpum sem varða skipulags­ og byggingamál. Í frum­ varpi til skipulagslaga er gert ráð fyrir því að ofan á þau þrjú skipu­ lagsstig – svæðisskipulag, aðal­ skipulag og deiliskipulag – bætist fjórða stigið, landsskipulagsáætlun sem samþykkt verður á Alþingi. Við það vakna spurningar um það hvernig slík áætlun samrýmist því að sveitarfélögin hafi skipulags­ valdið? „Landsskipulagsáætlun er sam­ kvæmt frumvarpinu stefnumótandi plagg, svipað og samgönguáætlun og fleiri áætlanir. Þannig verður það einnig með rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða sem þarf að fá lögformlega stöðu þegar hún verður tilbúin. Í frumvarpinu er lagt til að landsskipulagsáætlun verði unnin í nánu samstarfi við sveitarfélögin. Við leggjum til að menn einbeiti sér að miðhálend­ inu, það sé brýnasta verkefnið til að byrja með. Landsskipulagsáætlun verður bindandi en hún segir ekki fyrir um smæstu atriði eins og aðal­ og deiliskipulag gerir. Sveitarfélög eiga öll að vera búin að samþykkja aðalskipulag fyrir lok þessa árs. Skipulagsáætlanir eru pólitísk og stefnumótandi stjórntæki og mjög mikilvægar bæði fyrir sveitar­ félögin og landstjórnina. Þar eru miklir hagsmunir í húfi, sérstaklega á miðhálendinu, og ég er þeirrar skoðunar að um þær eigi að taka ákvarðanir á Alþingi Íslendinga. Þar verður landsskipulagsáætlun lögð fram og Alþingi tekur ákvörð­ un út frá heildarhagsmunum lands­ ins. Sveitarfélögin þurfa að sinna almannahagsmunum og til þess þurfa þau að vera stór og sterk. Sum þeirra eru því miður of lítil til þess að geta sinnt skipulagsmálum almennilega. Þetta vita allir þótt það sé viðkvæmt að tala um það. Landsskipulagsáætlun hjálpar okkur að sjá stóru myndina. Ég get tekið sem dæmi ef einhver hyggð­ ist reisa kjarnorkuver hér á landi. Það væri ekki á færi neins sveitar­ félags að taka afstöðu til þess. Mér finnst það sama gilda um virkjanir á hálendi Íslands. Þær varða hags­ muni allrar þjóðarinnar og þeir eru í sumum tilvikum rétthærri en hags­ munir einstakra sveitarfélaga. Ég tel því mjög brýnt að koma okkur upp þessu pólitíska stjórntæki, meðal annars til þess að losna út úr því fari að efna til pólitískra átaka um hvert einasta verkefni sem ráð­ ist er í, hvort sem það er vegarspotti eða virkjun. Þá getum við farið að vinna til lengri tíma,“ segir Þórunn. Óskemmtilegt áróðursstríð Þetta ákvæði er ekki óumdeilt, eins og ráðherra viðurkennir. „Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta er efni í árekstra. En þá dugar það eitt að fólk tali saman. Ég hef hins vegar orð Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir því að allt annað í þessu frumvarpi en ákvæðin um landsskipulagsáætl­ unina sé til mikilla bóta. Það er verið að skýra skipulagsferlið og færa afskipti almennings framar í ferlið. Nú er það þannig að það er ekki fyrr en allt er í rauninni klappað og klárt og framkvæmdir að hefjast sem almenningur hefur tækifæri á að setja sig inn í þau áhrif sem framkvæmdirnar hafa. Þessu er ætlunin að breyta og um það er alger samstaða.“ Þú varst í heimsókn á Suðurlandi fyrir skemmstu og ræddir við fólk sem býr við Neðri-Þjórsá. Hver er staða virkjanaáforma þar? „Hún er í raun óbreytt. Það eru landeigendur á áhrifasvæði virkj­ ananna sem ætla ekki að ganga til samninga um að láta land af hendi. Þetta útspil Landsvirkjunar um að ekki sé hægt að reisa hér gagna­ ver án þess að virkja þarna er mér óskiljanlegt vegna þess að þarna er um að ræða til þess að gera fá megavött. Virkjanir í Neðri-Þjórsá eru því engin forsenda þess að gagnaverin rísi. Mér finnst þetta vera liður í heldur óskemmtilegu áróðursstríði.“ Verður­virkjað­í­Neðri-Þjórsá? „Ég get ekki svarað öðru en því að við í Samfylkingunni telj­ um ekki að þarna séu neinir þeir almannahagsmunir í húfi sem kalla á eignarnám. Það er alveg skýrt af okkar hálfu,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráð­ herra og nær afdráttarlausu svari tókst blaðamanni ekki að þoka henni. –ÞH Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra ásamt dóttur sinni Hrafn- hildi. Þær mæðgur voru á leið á hárgreiðslustofu og þegar líða tók á við- talið fór sú stutta að reka á eftir, vildi komast í hársnyrtinguna sem fyrst. Kolefnisbindingin skiptir mjög miklu máli og hana þarf að rannsaka vel Rætt við Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir um­ hverfisráðherra hefur ákveðið að skipa fagráð í skógrækt og landgræðslu til næstu þriggja ára. Er það gert í samræmi við samning landbúnaðarráðu­ neytis og umhverfisráðuneytis frá 28. september 2007 þar sem meðal annars er kveðið á um flutning Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins á milli ráðuneytanna. Í bréfi sem Bændasamtökunum barst um skipan ráðsins segir að fagráðið sé „samstarfs­ og sam­ ráðsvettvangur aðila sem vinna að framkvæmdum og stefnumörkun í skógrækt, uppgræðslu og nátt­ úruvernd. Fagráðinu er ætlað að efla starf á þessum sviðum, miðla upplýsingum og veita stofnunum og ráðuneytum ráðgjöf, eftir því sem tilefni er til.“ Í bréfinu voru Bændasamtökin beðin að tilnefna einn fulltrúa í fagráðið fyrir 1. apríl nk. Stjórn BÍ hefur þegar tilnefnt Svönu Halldórsdóttur stjórnarmann samtakanna í fagráðið. Aðrir aðilar sem eiga fulltrúa í ráðinu eru umhverfisráðuneytið sem til­ nefnir formann ráðsins, sjávar­ útvegs­ og landbúnaðarráðuneytið sem skipar tvo fulltrúa, þar af annan vegna landshlutaverkefna í skógrækt, Landgræðsla ríkisins, Skógrækt ríkisins, Samband land­ græðslufélaga, Skógræktarfélag Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun. Alls sitja því 11 manns í fagráðinu sem á að funda svo oft sem þurfa þykir og ekki sjaldnar en tvisvar á ári. Fagráð skipað í skógrækt og landgræðslu

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.