Bændablaðið - 03.12.2009, Qupperneq 20

Bændablaðið - 03.12.2009, Qupperneq 20
20 Bændablaðið | fimmtudagur 3. desember 2009 Líf og starf Það er ýmislegt lagt á sig til þess að efla íslenska sauðfjárrækt. Í haust gerðu sjö skaftfellskir bændur sér ferð þvert yfir landið til að sækja nýtt blóð í bústofninn, nánar tiltekið sextán hrúta sem sækja þurfti norður á Strandir og vestur í Ísafjarðardjúp. Þetta var heilmikið ferðalag sem tók þrjá daga en þátttakendur í því voru Torfi og Bjarney frá Bakkakoti og Sveinn á Lyngum í Meðallandi, Þóra og Eyþór frá Ásgarði í Landbroti og Gulla og Siggi frá Hörgsdal á Síðu. Þau fyrstnefndu, Torfi og Bjarney, tóku meðfylgjandi myndir í ferðinni og sendu Bændablaðinu stutta skýrslu um hana sem hér verður endursögð. Þau hjónin fóru á undan og gistu í Reykjavík en lögðu upp frá höfuðborginni snemma morguns þann 3. október og óku norður á Strandir allt norður að Melum í Árneshreppi þar sem fyrstu hrútarnir biðu. Hinir lögðu af stað um svipað leyti frá Klaustri og óku í náttstað á Felli í Kollafirði. Torfi og Bjarney óku á einum stað fram á afvelta rollu sem þau réttu snarlega við en þegar komið var á Ennishálsinn milli Bitrufjarðar og Kollafjarðar var föl á veginum og eftir það varð skyggni lélegt og éljagangur af og til. Eftir að hafa tekið nesti fyrir bíl og áhöfn á Hólmavík var ekið sem leið liggur um Bjarnarfjörð, norður Bala og heilsað upp á Kaldbak og Kamb áður en ekið var í gegnum Djúpavík í lélegu skyggni. Hyrnan í Trékyllisvík blasti við ferðalöngunum í vetrarskrúða og á Melum biðu þeirra tveir hrútar. Eftir að hafa drukkið kaffi og sporðrennt kökum með var hrútunum snarað upp í bílinn og honum snúið sömu leið til baka að Bassastöðum á Selströnd í Steingrímsfirði þar sem þau hjónin gistu. Full kerra af hrútum Morguninn eftir hittu þau hina ferðalangana fimm sem höfðu gist á Felli í Kollafirði. Ekið var yfir Steingrímsfjarðarheiðina og út með Ísafjarðardjúpi norðanverðu til fundar við Indriða bónda á Skjaldfönn. Þar var drukkið kaffi og spjallað áður en leiðin lá út í fjárhús að ná í þrjá hrúta sem Indriði hafði valið fyrir gestina. Aftur var snúið við og komið við á Bassastöðum þar sem þrír hrútar bættust í hópinn. Eftir enn meira kaffi og meðlæti var ekið áfram suður með viðkomu á Heydalsá og Smáhömrum í Steingrímsfirði og Broddanesi við Kollafjörð. Þá voru hrútarnir orðnir samtals 16 sem búið var að koma fyrir í yfir- byggðri kerru. Með það var ekið af stað og ekki numið staðar fyrr en heim var komið. Skaftfellskir bændur voru heldur kátir með árangurinn af ferðinni, en þeim brá nokkuð í brún þegar þeir sáu að veturinn var kominn í Skaftafellssýsluna og snjór yfir öllu. Það fylgir ekki sög- unni hvernig hrútunum leist á sig þar eystra en vonandi gera þeir sitt gagn á næstu vikum – til þess var leikurinn gerður. Hrútakaupaferðin mikla Sú afvelta komin á réttan kjöl að nýju. Við bæinn Reykjarvík í Bjarnarfirði voru leitarmenn frá Odda að koma úr fjárleit. Kaldbakur var mikilúðlegur að vanda… …og ekki var Kamburinn verri, en þá var skyggninu farið að hraka… …og í Djúpuvík var það orðið svona, en Hyrnan stóð fyrir sínu. Torfi úti fyrir Melum í Árneshreppi. Og hér er Skjaldfönn við Ísafjarðardjúp. Hrútarnir voru fluttir í þar til gerðri yfirbyggðri kerru og væsti ekki um þá á leiðinni. Mikið var drukkið af kaffi í ferðinni, m.a. á Skjaldfönn. Að sjálfsögðu þurfti bókhaldið að vera nákvæmt. Austur í Meðallandi var snjór yfir öllu þegar heim var komið. Svona, komdu vinurinn. Ánægður hrútakaupandi.

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.