Bændablaðið - 26.05.2011, Blaðsíða 23

Bændablaðið - 26.05.2011, Blaðsíða 23
BLAÐAUKI BÆNDABLAÐSINS 26. MAÍ 2011 Ferðast um landið - 23 Bókaforlagið Salka hefur nýverið gefið út bókina 25 gönguleiðir á Hvalfjarðarsvæðinu eftir Reyni Ingibjartsson. Bókin kemur út í kjölfar bókar Reynis 25 göngu- leiðir á höfuðborgarsvæðinu, sem kom út í fyrra og nýtur mikilla vinsælda. Í 25 gönguleiðir á Hvalfjarðar- svæðinu er gönguleiðum lýst á svæði sem nær frá Esjunni að Akrafjalli og Skarðsheiði – og jafnvel alla leið upp í Skorradal – auk undirlendisins við Hvalfjörð. Oftast er um að ræða hringleiðir, að jafnaði 3–6 kílómetra langar og tekur um eina til tvær klukkustundir að ganga þær. Reynir hefur lagt á sig mikla rannsóknar- vinnu við gerð bókarinnar og hefur m.a. skoðað um 1.000 örnefnaskrár af Vesturlandi. Hann leggur sig fram við að leita uppi marga forvitnilega staði sem eru lítt þekktir en oft í alfaraleið, t.d. við þjóðveg 1. Brunað í gegnum áhugaverða staði „Þetta byrjaði nú með því fyrir tæpum áratug að ég fundaði með gömlum sveitungum mínum vestur á Snæfellsnesi um kynningu á við- komandi svæði. Mér fannst að þar væri bara brunað í gegn þrátt fyrir marga áhugaverða staði. Ég tók svo að mér að láta gera kort af innan- verðu Snæfellsnesi. Kortin urðu að lokum fjögur af Snæfellsnesinu og þar datt ég niður á þá aðferð að byggja kortin á hringleiðum og það sama á við um göngu- leiðir,“ segir Reynir um tildrög þess að hann hefur lagt fyrir sig skrif gönguleiðabóka. „Ég lagði mig eftir að leita uppi öll eyðibýli og fór þá rækilega í gegnum örnefnaskrár og aðrar heimildir. Sama átti við um gamlar alfaraleiðir, fjallvegi og götur milli bæja.“ Reynir segir að áhugi á við- komandi svæði ráði mestu um hvaða svæði hann fjallar um. „Ég var nokkuð kunnugur á Snæfellsnesi og reyndar á Vesturlandi öllu. Eftir að ég settist að á Höfuðborgarsvæðinu fórum við fjölskyldan mikið í göngu- ferðir. Nú bý ég í Hafnarfirði og þá er Reykjanesskaginn ekki langt undan. Það safnast því í sarpinn með árun- um. Þegar ég var krakki voru mínar uppáhaldsgreinar landafræði og saga. Og það hefur ekkert breyst.“ Perlur leynast víða á Hvalfjarðarsvæðinu Uppbygging bókanna er með svipuðu sniði. „Í gönguleiðabókunum hef ég miðað við tiltölulega stuttar leiðir; 3–6 km. Það er þá 1–2 tíma ganga eftir hraða hvers og eins. Í hvorri bók eru 25 leiðir og þær miðast allar við ákveðinn upp- hafs- og endastað og að gengið sé í hring. Ég sleppi yfirleitt öllum fjöll- um og fellum og held mig meira við sjávarsíðuna og vötn og læki. Einnig hef ég leitað uppi svæði, þar sem verið er að rækta upp útivistar- skóga. Markmiðið er að fá almenning til að fara út að ganga og stækka hópinn sem nýtur útivistar.“ Reynir segir að með tilkomu Hvalfjarðarganga hafi ýmsir mögu- leikar skapast til útivistar á þessu svæði. „Eftir að Hvalfjarðargöngin komu breyttist mjög ásýnd Hvalfjarðarins. Það hægði á öllu og Hvalfjarðarhringurinn varð að rólegum sveitavegi. En það vantaði meiri upplýsingar um allt það sem Hvalfjörður og nágrenni hefur upp á að bjóða. Ég gerði mér far um að leita uppi vanmetna staði og lítt þekkta og tengja saman það sem áhugavert er. Ekki bara fara á bílastæðin og horfa í kringum sig. Það er rétt að taka fram að þessar 25 gönguleiðir dreifast á nokkuð stórt svæði – kringum Hvalfjörðinn, Esjuna, Akrafjallið og Skarðsheiðina. Ein leiðin er uppi í Skorradal og tengist Síldarmannagötum úr Hvalfirðinum. Ég held að þessi bók komi ýmsum skemmtilega á óvart. Þarna leynist mörg perlan ef að er gáð.“ Las 1.000 örnefnaskrár Við undirbúning að ritun bókarinnar lagðist Reynir í mikla heimilda- vinnu. „Ég hef líklega lesið um 1.000 örnefnaskrár af Vesturlandinu. Aðeins nokkrar sveitir í Borgarfirðinum eru eftir. Örnefnaskrárnar sem nú eru hýstar hjá Árnastofnun eru mikill hafsjór fróðleiks um landið – og hvert örnefni á sér sína sögu. Þegar ég var að vinna að gönguleið kringum Dragháls í Svínadal, sá ég örnefnið Líksteinn í örnefnaskránni. Þá skrá hafði bóndi á Draghálsi, Sveinbjörn Beinteinsson (fyrrum allsherjargoði) áður tekið saman af mikilli nákvæmni. Steininum fylgdi sú saga að þar hefði verið lagt niður lík Þórgunnu nokkurrar, sem kom við sögu í Fróðárundrunum í Eyrbyggjasögu. Hún lagði svo fyrir eftir dauða sinn, að líkið yrði flutt suður til Skálholts og grafið þar. Þarna syðst á Geldingadraganum höfðu líkmennirnir tekið sér hvíld og fundið stein með passlegum stalli fyrir líkbörurnar. Svona varð- veitast sögurnar. Þegar ég var að skoða örnefni á Skógarströnd á Snæfellsnesi, kom nafnið Eiríkur mjög oft fyrir og tengt hólum og túnum, lækjum og ströndum. Eiríkur rauði bjó á Skógarströnd um skeið og fór þaðan til Grænlands. Hann hefur örugglega verið mjög frægur í þeirri sveit. Örnefnin eru tilefni endalausra bollalegginga. Hverri gönguleið í gönguleiðabókum fylgir gott kort af leiðinni og ég hef reynt að setja sem mest af örnefnum inn á kortin.“ Reykjanesskaginn er næstur á dagskrá Næsta bók er þegar komin á vinnslu- stigið hjá Reyni. „Ég er þegar byrjaður að skoða gönguleiðir á Reykjanesskaganum og stefni að því að hafa bók tilbúna vorið 2012. Þetta svæði er um margt ólíkt Hvalfjarðarsvæðinu en afar spenn- andi. Ótrúlega mikið er af minjum frá upphafi byggðar og til þessa dags. Það á ekki síst við um seljabúskap- inn. Á Reykjanesskaganum var búið bæði til lands og sjávar. Athugulir göngumenn eru stöðugt að finna nýjar rústir af gamalli byggð. Svo er náttúran stórbrotin og hraunin undra- heimur með öllum sínum hellum og gjám. Það er því framundan spenn- andi sumar fyrir mig.“ /smh Reynir Ingibjartsson gefur út bók um gönguleiðir á Hvalfjarðarsvæðinu Markmiðið er að fá almenning út að ganga – perlurnar leynast víða ef að er gáð Reynir Ingibjartsson - Í Langholtskoti er rekin farsæl kjötframleiðsla og -vinnsla. Árið 1980 tóku hjónin Unnsteinn Hermannsson og Valdís Magnús- dóttir við búi í Langholtskoti af for- eldrum Unnsteins. Í byrjun voru þau aðallega í mjólkurframleiðslu, en einnig með fjárbúskap um tíma. Unnsteinn segir að árið 2006 hafi þau staðið frammi fyrir því að taka ákvörðun um hvort þau myndu byggja nýtt fjós eða hætta mjólkurframleiðslu. „Fjósið var byggt 1952, endurbætt árið 1993 og þá byggður við það mjaltabás. Við tókum þá ákvörðun að breyta yfir í kjötframleiðslu til að nýta áfram gömlu byggingarnar, ræktun og vélakost. Haustið 2006 seldum við kýrnar og framleiðsluréttinn í mjólk og keyptum holdanautahjörð. Síðan höfum við verið að byggja upp nautakjötsframleiðsluna. Nú erum við með 43 holdakýr sem bera, einnig kaupum við nautkálfa af mjólkur- framleiðendum hér í sveit. Yfirleitt eru hér á fóðrum um 160 nautgripir. Engar framfarir Að sögn Unnsteins standa íslenskir bændur mjög illa að vígi í ræktun á holdagripum. „Það hafa ekki orðið framfarir í stofninum í tugi ára. Það er bæði vegna smæðar stofnsins og skyldleika. Eina hreina holdasæðið sem til er hér á landi er úr nautum fæddum 1995 og það sér hver maður að ekki væru orðnar miklar framfarir í hrossastofninum, ef eingöngu væru notaðir graðhestar frá árinu 1995. Við fórum til Hríseyjar síðastliðið sumar til að ná okkur í nýtt blóð í stofninn. Í Hrísey eru til hrein Galloway-naut úr gömlu einangrunarstöðinni. Þar er öll aðstaða fyrir hendi til að hefja á ný innflutning á nýjum stofni til kynbóta, svo við eigum möguleika á að bjóða neytendum upp á enn betra kjöt og meiri hagkvæmni við framleiðsluna. Það er mikilvægt að flytja inn fóstur- vísa til að bæta holdanautastofninn, sá innflutningur ætti ekki að ógna íslenska mjólkurkúakyninu.“ Fólk vill gæðavöru Holdakálfarnir í Langholtskoti fæðast í maí–júní og ganga undir kúnum í um átta mánuði, en það fer þó eftir tíðarfari. „Fyrstu mánuðirnir eru mjög mikilvægir fyrir vöxt kálfsins og gæði kjötsins,“ segir Unnsteinn. „Kálfarnir eru teknir á hús upp úr áramótum og eftir það eru þeir eingöngu aldir á úrvalsheyi. Byrjað er að slátra úr hópnum við 20 mánaða aldur. Til að auka tekjur af framleiðslunni og einnig til að skapa okkur sérstöðu var mjaltabás breytt í kjötvinnslu, vör- urnar eru markaðssettar undir vöru- merkinu Kjöt frá Koti. Við fengum starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands í byrjun desember 2009. Gripunum er slátrað hjá Sláturfélagi Suðurlands á Selfossi. Síðan eru skrokkarnir teknir heim í kjötvinnsl- una úrbeinaðir, látnir meyrna og þeim pakkað í lofttæmdar neytendaumbúðir. Við reynum að koma til móts við óskir viðskiptavina, sem er ört vax- andi hópur, bæði á netinu í gegnum samtökin Beint frá býli og sveitungar og sumarhúsaeigendur sem eru allt í kringum okkur. Hefur það sýnt sig að fólk vill kaupa gæðavöru milliliðalaust frá framleiðanda. Viðtökurnar hafa verið frábærar og önnum við ekki vaxandi eftirspurn.“ Hefðbundin flokkun ónákvæm Unnsteinn segir að það sé þeirra metnaður að bjóða einungis upp á gott nautakjöt. „Það er ekki hægt að meta gæði kjötsins eingöngu út frá flokkun úr afurðastöð, þar sem innan sama flokks geta verið mjög góðir gripir og einnig mjög slakir. Við metum gæði kjötsins áður en gripurinn fer í sláturhús þar sem við þekkjum vaxtarsögu hvers grips. Þar ræður mestu kyn, aldur og þyngd; því eldri sem gripurinn er þarf þyngdin að vera meiri. Aldurinn og þyngdin segja allt um það hvort gripurinn hefur fóðrast eðlilega. Gripur sem lent hefur í áföllum á vaxtarskeiðinu er léttari. Skrokkurinn getur samt litið ágætlega út við slátrun en gæði kjötsins verið mjög léleg. Ef við erum í vafa um gæði kjötsins þá prófum við það áður en það fer á markað.“ /smh Langholtskot selur holdanautakjöt beint frá býli: Anna ekki vaxandi eftirspurn – Hefðbundin flokkun á nautakjöti er ónákvæm „Á Hundastapa er rekið kúabú, auk þess sem þar eru um 80 kind- ur, hænur, einn hestur, hundur, kettir og tvö svín á sumrin, sem ég fæ frá Brúarlandi,“ segir Agnes Óskarsdóttir sem býr á Hundastapa ásamt manni sínum Halldóri J. Gunnlaugssyni og rekur litla sveita- verslun inni á bænum. „Ég hef verið með til sölu hjá mér te, krydd, egg, sápur, kerti, sultur og kálfakjöt og svo er ég með handverk, aðallega frá Kvenfélagi Hraunhrepps. Í dag er þessi búð inni í stofu hjá mér en það stendur til að fá eitthvað sem myndi vera hér úti á hlaðinu. Við gengum í félagsskapinn Beint frá býli nú í vor og því er allt ennþá í mótun. Teið og kryddið tíni ég bara úti, þurrka og set í poka. Sápan er aðallega gerð úr kúamjólk og kókosolíu og svo set ég sitthvað annað í hana. Nokkuð vin- sælt er að kaupa hana með kaffikorgi, því þá virkar hún sem skrúbbur og virkar mjög vel á smurolíu og slíkt. Ég er með egg til sölu ef þau eru til en ég á nokkrar íslenskar hænur. Kertin eru ennþá í vinnslu en ég hef gert kerti með skrauti utan á og svo er ég að prófa mig áfram í að skera þau út. Sultur eru bara þessar venju- legu íslensku en svo geri ég líka með ananas, mangó, chilli og fleiru.“ Mjólkurkálfakjöt í boði Á Hundastapa er boðið upp á afurð sem má teljast fremur sjaldséð á borðum landsmanna, kálfakjöt af veal) – en töluverð hefð er fyrir neyslu á þess konar kjöti í Evrópu, t.a.m. á Ítalíu og í Frakklandi. „Kjötið er mjög ljóst og fitusnautt. Kálfunum er slátrað í viðurkenndu sláturhúsi og pakkað. Við seljum hálfan skrokk í kassa og í honum er hakk í 500 g pokum, gúllas og svo þessar helstu steikur,“ segir Agnes. Agnes segir að verslunarreksturinn sé að mestu starfræktur að gamni, en það sé hennar skoðun að sem flestir eigi að kynnast íslenskum dýrum og náttúru; hvernig lífið gengur fyrir sig og hvernig kjötframleiðsla fer fram. „Margt fólk þarf að læra að kjöt sem þú kaupir í búðinni er ekki fætt í plast- poka heldur er lifandi dýr. Einnig er öllum hollt að vita hvernig mjólkin fæst og kryddið sem við þurfum er ekki bara í glerdollum, heldur er hægt að sækja það beint út í náttúruna hér utan við klett. Við ætlum að bjóða fólki í fyrsta skiptið í sumar að koma og sjá dýrin hér á bænum en við erum með þessi helstu; kýr, nautgripi á öllum aldri, heimalninga, hænur, hesta og svín sem eru bara laus og er það mjög gaman að mæta í hlaðið og þurfa að stoppa vegna að það eru svín á veginum – og eru kannski ekki til í að færa sig, en þetta eru mjög vinalegar skepnur og hefur þetta verið draumur minn lengi, að hafa eitt til tvö svín hér á bæ. Við erum bara að byrja á þessu og sjáum bara til hvernig gengur,“ segir Agnes Óskarsdóttir á Hundastapa. /smh Heimaunnar vörur í boði á Hundastapa Myndi | smh

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.