Fréttablaðið - 02.01.2013, Qupperneq 36
2. janúar 2013 MIÐVIKUDAGUR| MENNING | 28
Kínverski slagsmálasnillingur-
inn Jackie Chan hefur tekið að sér
hlutverk í þriðju mynd Expend-
ables-seríunnar en mikill spenn-
ingur ríkir meðal hasarmynda-
áhugafólks yfir því hvaða hetjum
Sylvester Stallone stillir upp næst.
Chan var að vísu beðinn um að
vera í mynd númer tvö á sínum
tíma, en varð að afþakka boðið
vegna annarra verkefna. Nú
mætir hann sprækur til leiks, og
er þessi 58 ára gamli fjörkálfur sá
fyrsti til að staðfesta þátttöku sína
í þriðju myndinni.
Nóg hefur hins vegar verið spáð
og spekúlerað. Nöfn harðhausa
hafa verið nefnd af framleið-
endum, og dregin strax til baka.
Aðdáendur skeggræða mögu-
lega kandídata í skúmaskotum
internetsins. „Hvað með Michael
Dudikoff?“ spyr einn, á meðan
annar stingur upp á Hulk Hogan
og Mr. T.
Enn sem komið er, getum við
í raun ekki stólað á neinn nema
aðaldriffjöður myndaflokksins,
hinn eina og sanna Sylvester Stal-
lone, og núna Jackie Chan, en að
eigin sögn verður hlutverk hans
veigamikið og þrælskemmtilegt.
haukur@frettabladid.is
Jackie tekur slaginn
Sylvester Stallone og félagar undirbúa þriðju Expendables-myndina. Jackie Chan
er til í tuskið og er hann fyrsti slagsmálahundurinn til að staðfesta þátttöku.
TIL Í TUSKIÐ Mikil spenna ríkir yfir leikaravalinu í þriðju Expendables-myndinni en Jackie Chan hefur stðafest sína þátttöku.
Wesley Snipes
Það stóð til að fá hann í fyrstu myndina
en svo lenti þetta vanmetna vöðvatröll
í steininum fyrir skattsvik og þar dúsir
hann enn. Afplánun hans lýkur næsta
sumar og má því leiða að því líkur að
Stallone nýti sér krafta þessa forna vinar
síns. Hans helsti kostur er líklega sá að
hann getur bæði leikið hetju og skúrk.
Helstu hasarverk: Blade-serían, Demol-
ition Man, Passenger 57
The Rock
Þetta geðþekka búnt þótti á sínum tíma líklegt
til að erfa hasarhásæti þeirra Stallones og
Schwarzeneggers þegar þeir segðu nóg komið.
En The Rock kom öllum á óvart og hefur leikið í
myndum af öllum stærðum og gerðum. Hann er
líka lúmskt fyndinn og væri skemmtileg viðbót
við Expendables-gengið.
Helstu hasarverk: The Mummy-serían, Fast Five
Nicolas Cage
Maðurinn sem fólk ýmist elskar eða hatar. Hann
hefur verið í lágstemmdum verðlaunamyndum,
vitgrönnum vöðvamyndum og öllu þar á milli.
Framleiðendur Expendables-seríunnar létu hafa
það eftir sér að Cage yrði í þriðju myndinni en
Stallone hefur borið þær fregnir til baka. Hvað
verður veit enginn, en það eitt er víst að Nicolas
Cage myndi hífa upp hlutfall Óskarsverðlauna-
leikara í seríunni, yrði hann með.
Helstu hasarverk: Con Air, Face/Off, The Rock
Gina Carano
Þessi þrítuga snót er harðari en Expendables-
labbakútarnir allir til samans. Hún er bæði ung
og reynslulítil sem leikkona, en átti þrátt fyrir
það óaðfinnanlega frammistöðu fyrr á árinu
í hasarmyndinni Haywire, þar sem hún barði
alla í stöppu. Hún á fullt erindi í hóp Stallones,
og hefur meira að segja verið nefnd á nafn, en
það er spurning hvort af því verði þar sem hún
hefur nú þegar staðfest þátttöku í sambærilegri
hasarhetjuveislu kvennamegin.
Helstu hasarverk: Haywire
Clint Eastwood
Stallone hefur lýst yfir áhuga á að fá þennan
langafa hasarmyndahetjunnar til liðs við sig
í þriðju myndinni, en Eastwood lét hafa eftir
sér í viðtali að hann væri ólíklegur til að þiggja
slíkt boð. Hann grínaðist reyndar með að hann
gæti frekar hugsað sér að leikstýra myndinni, en
það má alveg eins vona að Stallone taki hann á
orðinu.
Helstu hasarverk: Dirty Harry-serían, Where
Eagles Dare, Dollaramyndir Sergio Leone
Vin Diesel
Þótti efnileg hasarhetja um síðustu aldamót
en einhvern veginn varð hann aldrei sú súper-
stjarna sem ætlast var til af honum. Hann hefur
þó haldið velli og gert til dæmis ágætis hluti í
seríunni Fast and the Furious. Hefur ekki verið
nefndur, en er samt mun ofar í goggunarröðinni
en margir úr Expendables-myndunum tveimur.
Sýndu biðlund Vin, Stallone hlýtur að hringja á
endanum.
Helstu hasarverk: Fast and the Furious-serían,
Riddick-serían, xXx
Steven Seagal
Stallone hefur ítrekað reynt að fá hann í liðið,
en Seagal segir þvert nei. Ástæðan er stirt sam-
band milli Seagals og Avi Lerner, framleiðanda
seríunnar, en þeim sinnaðist víst fyrir löngu. En
Seagal veit líka að hann þarf að leggja glassúr-
snúðana á hilluna, ætli hann sér að hafa roð við
Expendables-búntunum, þannig að kannski er
þetta allt saman bara fyrirsláttur.
Helstu hasarverk: Under Siege-tvennan, Hard to
Kill, Executive Decision
Kurt Russell
Flottur leikari sem svínvirkar í hasar. Honum
var boðið að vera í fyrstu myndinni en hann
afþakkaði. Sem er bölvuð sjálfselska í honum,
því heimurinn þarf og vill meira af Kurt Russell.
Helstu hasarverk: Escape From New York, The
Thing, Breakdown
Aðrir sem væru fullkomnir:
Harrison Ford, Mel Gibson, Vinnie Jones, Linda
Hamilton, Ray Liotta, Ice-T, Chow Yun Fat, Tom
Berenger, Sigourney Weaver, Danny Trejo, Roddy
Piper
Þessir hafa einnig verið nefndir
af framleiðendum, á internetinu,
við vatnskælinn og í Nexus.
OPIÐ
VIRKA DAGA. 11–18
LAU. 11–16
SUN. 13–16
LAGER
SALA!
KLÁRUM VETRARVÖRURNAR
FRÁBÆR VERÐ!