Fréttatíminn - 14.10.2011, Side 16
Þegar sæluvíma fyrstu drykkjanna breytist
í þrúgandi þörf eftir áframhaldandi drykkju
þar til óminnið tekur við hellist skömmin
yfir fallna alkann og ekki tekur betra við í
þynnkunni. Síðast þegar Þráinn féll var hann
leikstjóri og rithöfundur en slíkir virðast í
hugum fólks oft hafa meira svigrúm til að
vera fyllibyttur en til dæmis stjórnmála-
menn. Jók það á skömmina að vera kjörinn
fulltrúi í þessu falli?
„Mesta sektarkennd gegnum tíðina hef
ég sennilega haft gagnvart konunni minni;
það var hún sem þurfti að umbera mig
þegar fíknin hafði mig á valdi sínu. En ég
fékk rosalega sektarkennd við að detta í það
núna, fyrst og fremst gagnvart sjálfum mér.
Ég var verulega reiður sjálfum mér fyrir
heimsku, trassaskap og kæruleysi,“ segir
Þráinn.
„Ég kann leiðir til að halda þessum sjúk-
dómi í skefjum en ég var að eigin áliti vaxinn
frá AA-samtökunum, vaxinn upp úr þeirri
auðmýkt sem maður þarf að sýna lífinu, og
þá var voðinn vís. Ég hef líka mikinn metnað
gagnvart minni vinnu og verkefnum sem
ég tek að mér og mér fannst skammarlegt
að leggjast í koju í staðinn fyrir að fylla
áheyrendahópinn á þessari ráðstefnu sem ég
var staddur á, þótt hún væri kannski ekkert
stórmerkileg. Huggun harmi gegn var að
ég komst í gegnum þetta fyllirí án þess að
skandalísera vegna þess að ég lokaði mig
inni til að drekka. Löngu áður en ég fór í
meðferð var ég hættur að þola sjálfan mig
drukkinn og þá ekki síður annað fólk undir
áhrifum.“
Fall þingmeirihlutans
Eftir að Þráinn gekk til liðs við Vinstri
græna komst hann í þá stöðu að líf ríkis-
stjórnarinnar hékk á eins manns meirihluta
og mátti því ekki við forföllum hans. Hann
segist þó ekki hafa haft áhyggjur af póli-
tískum afleiðingum fallsins í Færeyjum þótt
segja mætti að meirihlutinn hefði „fallið“
með honum. „Nei, alls ekki. Sumarfríið var
að byrja og engin hætta steðjaði að stjórnar-
samstarfinu. Undirmeðvitundin valdi handa
mér hárrétt augnablik til að falla. En ég veit
ekki hvað hefði gerst ef ég hefði haldið fyll-
iríinu áfram og jafnvel drukkið mig í hel. Þá
hefði orðið að kalla varaþingmann inn – úr
þeim væng Borgarahreyfingarinnar sem
styður Hreyfinguna – og þá hefði stjórnar-
meirihlutinn minnkað um einn.“
Þráinn bendir einnig á að staðan sé
þannig á þingi núna að ekki sé hægt að
ganga að því sem gefnu að hann og hans at-
kvæði séu eina líflína stjórnarinnar í erfiðum
málum. „Annars er erfitt að segja til um
hversu margir þingmenn núna myndu verja
stjórn ina gegn vantrausti. Guðmundur Stein-
grímsson er orðinn gnarristi og ólíklegur til
að fella stjórnina. Svo eru óþægu stelpurnar
Eygló og Siv sem Sigmundur formaður er að
reyna að beita húsaga eins og bændur vinnu-
konur forðum. Ég sé ekki að þær myndu
fella stjórnina. Og þá er enn eftir að nefna
Atla Gíslason og Lilju Mósesdóttur sem yfir-
gáfu VG. Ég veit ekki hvað þau myndu gera
ef vantrauststillaga væri borin upp á nýjan
leik. Það er nú kannski það sem er skemmti-
legt við pólitík – eins og hún er leiðinleg – að
í henni eru svo margar breytur sem tengjast
mannlegri náttúru að flestir spádómar eru út
í bláinn.“
Nokkuð hefur verið um það rætt undanfar-
ið að Alþingi Íslendinga sé orðið að einkenni-
legum vinnustað þar sem einelti sé óhikað
beitt. Þráinn segist ekki hafa orðið fyrir
slíku sjálfur og einhverjir þingmenn hafi
komið að máli við hann og hrósað honum
fyrir hugrekki í reikningsskilum sínum í
nýju bókinni.
„Í þinginu hefur fólk pókerfeis og flestir
temja sér svipbrigðalitla umgengni sem
skreytt er með brosi af og til þegar við á. En
þarna er líka fólk sem hefur komið til mín
og hvatt mig og hrósað mér fyrir að sýna
kjark því að margir þingmenn óttast almenn-
ingsálitið meira en páfinn pokurinn. Þarna á
þinginu eru þó nokkrir samstarfsmenn sem
ég er glaður yfir að hafa fengið að kynn-
ast. Og; nei. Ég hef ekki orðið fyrir einelti,
nema ef vera kynni síðastliðið vor eftir að ég
kallaði einhverjar þingkonur íhaldsbeljur.
Þá tók ég eftir því í nokkra daga að nokkrir
sjálfstæðisþingmenn höfðu talað sig saman
um að hætta að bjóða mér góðan daginn
í hefndarskyni. Það hafði nú ekki sérlega
djúp áhrif á mig. En einelti, nei, ég man eftir
einelti frá því ég var í skóla og það var ekki
skemmtilegt. Núna er ég orðinn fullorðinn
og tek vonsku mannanna ekki lengur jafn-
nærri mér og ég gerði þegar ég var barn. Og
vonska heimsins þekkist jafnt inni í Alþingis-
húsinu sem utan þess. Það eru jú fulltrúar
þjóðarinnar sem þar eru, og sumir mættu
kannski vera ólíkari umbjóðendum sínum.“
Vinnuálagið hafði sitt að segja
Þráni hefur orðið tíðrætt um leiðinlegan
starfsanda á Alþingi og þreytandi utandag-
skrárumræður sem hann hefur kallað „hálf-
tíma hálfvitanna“. Það er því ekki alveg út í
bláinn að spyrja hvort starf þingmannsins
hafi ekki grafið undan óvirka alkóhólistan-
um sem tók sæti þar fyrir tveimur árum.
„Kannski hefur vinnuálag verið einn
þáttur í þessu. Það er dæmigert fyrir fólk
sem vinnur mikið að veikjast um leið og
um hægist, um leið og það fær frí. Þá er það
gjarna einhver varnarmekanismi sem hefur
verið spenntur til hins ítrasta lengi sem
lætur undan. En það kom fleira til. Eins og
ég sagði áðan þá vanrækti ég edrúmennsk-
una og var ekki lengur þakklátur fyrir að fá
að vera edrú, heldur tók því sem sjálfsögðum
hlut,“ segir Þráinn enda er því sjaldnast
svo farið að óvirkur alki falli fyrirvaralaust.
„Það voru ýmsir samverkandi þættir sem
spiluðu saman; enda er alkóhólisti sem er
að reyna að vera edrú eiginlega furðuverk
ef honum tekst það. Þetta er lífshættulegur
sjúkdómur fyrir okkur þessi 20 prósent
mannkynsins sem þolum ekki hugbreytandi
efni. En það þarf mikla heimsku til að horfa
á langt genginn áfengissjúkling sem situr á
bekk niðri í bæ í öllum veðrum og reynir að
betla fyrir næsta sjúss og halda að hann geri
þetta sér til skemmtunar eða vegna þess að
hann nenni ekki að vinna. Þetta er hvorki
skemmtun né hvíld frá vinnu hjá alkóhólist-
anum, en þau 80 prósent fólks sem ekki
eru fíkin tengja hugbreytandi efni auðvitað
við frí frá vinnu, dagamun, tilbreytingu,
skemmtanir.“
Össur til bjargar og fordómar á Vogi
Þráinn segir frá því í Fallinu að sér hafi
komið á óvart að aðrir sjúklingar á Vogi litu
hann hornauga vegna þess að hann væri
þingmaður og teldu ekki við hæfi að hann
sækti sér hjálp á Vog.
„Ég tek yfirleitt ekki svo mjög inn á mig
hvað fólki finnst, en fordóma á Vogi meðal
sjúklinga í garð síns eigin sjúkdóms tók ég
til marks um að það þyrfti að fjalla meira um
þann veruleika sem alkóhólistar, fíklar, búa
við og ríkjandi skilningsleysi á sjúkdómn-
um.“ Talinu víkur í framhaldinu að því þegar
hægrivefurinn amx.is ýjaði að því að eitt-
hvað athugavert væri við að Össur Skarp-
héðinsson sótti Þráin á flugvöllinn þegar
hann kom fallinn frá Færeyjum.
„Hvað viðvíkur amx.is þá er þjóðfélagið
eins og mannslíkaminn að því leyti að þjóð-
félagið hefur heila til að hugsa með, en líka
endaþarm til að losa sig við saur. AMX er
endaþarmur mannlegrar hugsunar á Ís-
landi.“
Þráinn var í hópi þingmanna á ráðstefnu í
Þórshöfn í Færeyjum þegar hann féll. Sam-
fylkingarþingkonan Ólína Þorvarðardóttir
var í hópnum og veitti Þráni, ásamt öðrum,
fyrstu hjálp. Hún var í sambandi við Össur
sem tók á móti Þráni þegar hann kom úr
flugi og skutlaði honum nánast beina leið
upp á Vog.
„Það er gott að eiga góða vini. Ég er ekki
mjög mannblendinn og á fáa vini. Þeir fylktu
sér mjög þétt um mig þegar ég þurfti á þeim
að halda. Ég er þakklátur fyrir að eiga slíka
vini. Jafnvel í pólitík er að finna mikið mann-
kostafólk. Það finnst mér framganga bæði
vinar míns Össurar sýna og sömuleiðis
vinsemd og skilningur Ólínu Þorvarðardótt-
ur sem er mikill skörungur með fallegt og
djarft hjartalag.“
Þegar Þráinn er spurður hvað hafi rekið
hann til þess að greina frá falli sínu á bók
kemur á daginn að löngunin til að skrifa um
alkóhólisma hefur lengi blundað með honum.
Reynt að gera ófreskju skil
„Ég hef gert margar atrennur að slíku verki
síðustu 15 árin, en þegar ég útskrifaðist af
Vogi í fjórða sinn núna í júní var þessi bók
nokkurn veginn tilbúin í höfðinu á mér,“
segir Þráinn og bætir við að hann hafi
horft til þeirrar bókar sem hefur verið ótal
alkóhólistum haldreipi áratugum saman.
„Ég er auðvitað ekki að líkja bókinni minni
við AA-bókina en hún hefur verið mér mikil
fyrirmynd, bæði þegar ég var að nálgast
þetta verk og eins í mínu eigin lífi. Nógu
mörg skáld og rithöfunda hefur alkóhólism-
inn drepið eða eyðilagt þannig að mér finnst
ósköp eðlilegt að reyna að gera þessari
ófreskju skil.“
Þingmannaferð til
Færeyja endaði á Vogi
Þráinn Bertelsson er alkóhólisti. Það hefur ekki verið neitt leyndarmál. Hann
lauk sinni fjórðu meðferð í sumar eftir að hafa fallið í Færeyjum í júní. Hann segir
frá þessu falli og drykkjuferli sínum í bókinni Fallið sem kom út í vikunni. Þórarinn
Þórarinsson heimsótti Þráin og þar ræddu tveir alkóhólistar um fallið, skömmina
sem því fylgir og þetta andlega mein sem hrjáir um 20 prósent mannkyns, fer ekki í
manngreinarálit og leggst jafnt á lögfræðinga, lækna, verkamenn og alþingismenn.
„Alveg síðan ég fékk fyrst að kynnast
starfsemi SÁÁ og þeirri von sem þessi
samtök hafa fært fíklum, hefur mig
langað til að gera kvikmynd eða skrifa
bók til að taka þátt í að svipta leyndar-
hjúpnum af alkóhólisma, alkóhólistum
og áfengis- og fíkniefnameðferð.“ Ljós-
mynd Hari
En það þarf
mikla heimsku til
að horfa á langt
genginn áfengis-
sjúkling sem situr
á bekk niðri í bæ
í öllum veðrum
og reynir að betla
fyrir næsta sjúss
og halda að hann
geri þetta sér til
skemmtunar.
Þórarinn
Þórarinsson
toti@frettatiminn.is
16 viðtal Helgin 14.-16. október 2011