Fréttatíminn - 14.10.2011, Page 26
Þ
að verður enginn ríkur af fim-
leikum. Í það minnsta ekki ég,“
segir Csollány og hlær. Við
sitjum í þriggja herbergja íbúð
á sjöttu hæð á Austurströnd
sem hann leigir. Hann bíður eftir fjölskyld-
unni sinni, konu og tveimur dætrum, sem
kemur til hans í lok mánaðarins. Og hann
viðurkennir að lífið geti verið einmanalegt
á kvöldin og morganana þegar hann er ekki
að þjálfa.
Csollány, sem er 41 árs Ungverji, var á
sínum tíma einn af bestu fimleikamönnum
heims. Ferillinn hófst þegar hann var fimm
ára í leikskóla í bænum Sopron og endaði
þegar hann varð heimsmeistari í hringjum
á heimavelli í Búdapest árið 2002. Í milli-
tíðinni hafði hann náð í silfur í hringjum
á Ólympíuleikunum í Atlanta árið 1996 og
síðan gull á Ólympíuleikunum í Sydney
fjórum árum síðar.
„Besta tilfinningin var þegar ég kláraði
æfinguna í Sydney. Ég vissi að ég hafði
gert allt sem ég gat – að æfingarnar gengu
nákvæmlega eins og þær áttu að ganga.
Næstbesta tilfinningin var að sjá einkunnina
en þegar ég stóð á verðlaunapallinum með
ólympíugullið um hálsinn og hlustaði á þjóð-
sönginn þá hugsaði ég aðallega um að mig
langaði til að borða – ég var svangur,“ segir
Csollány og brosir.
Og menn verða ekki ólympíumeistarar
fyrir tilviljun eina saman. Að baki slíkum
árangri liggja þrotlausar æfingar frá unga
aldri og Csollány er engin undantekning.
Hann byrjaði að æfa fimleika fimm ára
og hefur helgað þeim líf sitt síðan. „Þetta
byrjaði allt þegar ég var fimm ára. Þá kom
maður í leikskólann minn og hélt próf til að
finna þá bestu. Ég hafði alltaf verið góður
í fimleikum og gat gert hluti
sem aðrir gátu ekki. Við byrj-
uðum sextíu að æfa en eftir tvö
ár vorum við orðnir fimmtán.
Við æfðum fimm til sex sinnum
í viku, þrjá klukkutíma í senn.
Og af því að ég var sterkur frá
náttúrunnar hendi þurfti ég ekki
að hafa jafn mikið fyrir þessu og
margir aðrir. Ég lærði hraðar og
var búinn að vinna minn fyrsta
meistaratitil þegar ég var níu
ára. Það var gríðarlega mikil-
vægt fyrir mig og gerði það að
verkum að ég fór beint aftur í
salinn til að æfa meira,“ segir
Csollány.
Og hann æfði meira. Á næstu
árum æfði hann fimmtíu vikur
ári; fékk aðeins frí eina viku á
sumrin og aðra um jólin. Honum
telst til að hann hafi æft þrjátíu
tíma á viku nær allan sinn feril
og sér ekki eftir einni einustu
mínútu af þeim tíma.
„Fimleikar voru lífið. Ég
ákvað snemma að verða bestur
í heimi og vissi að ég þyrfti að
fórna ýmsu til þess. Það versta
var að fimleikum fylgja mikil
ferðalög, á mót og í æfingabúðir,
og það bitnar á fjölskyldulífinu.
Ég á fimmtán ára dóttur frá fyrra
hjónabandi og ég sá hvorki hana
né fyrrverandi konu mína mikið.
Hún fæddist árið 1996, þegar ég
var að nálgast hápunkt ferilsins,
og ég var nánast aldrei heima. Það
er það neikvæða við fimleikana en
ég lifði eftir því að ég þurfti sífellt
að sanna hvað ég var góður. Því
fylgdu fórnir en sem betur fer
uppskar ég árangur erfiðisins,“
segir Csollány.
Og nú er hann kominn til Ís-
lands; ólympíumeistarinn að
kenna íslenskum drengjum
galdra fimleikanna. Csollány
segir að hann hafi fyrst komið
til Íslands í apríl á þessu ári í
tengslum við vinnubúðir í nýrri
íþrótt, Fit Kid, sem er að ryðja
sér til rúms víðs vegar um heim-
inn. „Ég kom hérna í gegnum
vinkonu mína, Krisztinu, sem
kennir Fit Kid. Það eru fyrir þrír
ungverskir fimleikaþjálfarar hjá
Gróttu og einhvern veginn æxl-
aðist það þannig að ég fékk fyrir-
spurn um hvort ég hefði áhuga á
að þjálfa á Íslandi. Ég hafði líka
kynnst Gróttufólkinu í æfinga-
búðum í Ungverjalandi. Mér leist
ekkert sérstaklega vel á að koma
hingað fyrst. Þegar ég var hérna
í apríl var ömurlegt veður en svo
ákvað ég að slá til. Ég þurfti að
keyra langar vegalengdir til að
þjálfa í Ungverjalandi og þetta
hljómaði mjög spennandi. Og ég
sé ekki eftir því,“ segir Csollány.
Þótt hann sé sjálfur af-
reksmaður og atvinnu-
maður í fim-
leikum hefur
hann áttað
sig á því að það er ekki aðalmarkmiðið að
vinna ólympíugull. „Mér líkar afskaplega vel
hugarfarið í fimleikum á Íslandi. Aðalatriðið
er að búa til umhverfi þar sem börnum
finnst gaman og þau fá tækifæri til að hreyfa
sig. Nú eru fjögur hundruð krakkar að
æfa í Gróttu og það er allt gert til að þeim
líði sem best. Tækin eru góð og aðstaðan
frábær. Þetta er eina leiðin til að gera þetta:
byggja upp eins mörg börn og kostur er og
síðan er hægt að velja hina framúrskarandi
úr – þá sem hafa getu til að ná langt. Mér
finnst magnað að það skuli vera níu þúsund
iðkendur í fimleikum á Íslandi á sama tíma
og þeir eru aðeins um þúsund í Ungverja-
landi þar sem eru þó um tíu milljónir íbúa,“
segir Csollány.
Hann kennir drengjum á aldrinum 6 til
15 ára og segist elska að kenna. „Fimleikar
eru frábær grunníþrótt fyrir allar aðrar
íþróttagreinar. Maður fær styrk, liðleika og
jafnvægi í fimleikum sem nýtast vel hvort
sem maður er að æfa fótbolta eða eitthvað
annað. Það er yndislegt að kenna ungum
og áhugasömum drengjum íþróttina og ég
vonast til að geta gert það í mörg ár í viðbót,“
segir Csollány.
Og þjálfun fimleikadrengja er ekki það
eina sem hann gerir. Hann kennir og þjálfar
áðurnefnt Fit Kid um helgar og í byrjun
nóvember mun hann byrja að þjálfa í World
Class á Seltjarnarnesi. „Ég talaði við fólkið
þar og því leist mjög vel á mínar hugmyndir.
Ég verð með tíma sem eru sambland af
gólfæfingum og síðan lyftingum með léttum
lóðum. Það verður gaman að sjá hvernig fólk
tekur því,“ segir Csollány.
Óskar Hrafn Þorvaldsson
oskar@frettatiminn.is
Þegar ég stóð
á verðlauna-
pallinum með
ólympíugullið
um hálsinn og
hlustaði á þjóð-
sönginn hugsaði
ég aðallega um
að mig langaði
til að borða – ég
var svangur.
Ólympíumeistari á Seltjarnarnesi
Ungverjinn Szilveszter Csollány þjálfar unga fimleikadrengi hjá Gróttu. Hann varð ólympíumeistari í hringjum á Ólympíuleikunum í Sydney í Ástralíu
árið 2000 og segir Óskari Hrafni Þorvaldssyni frá því hvernig á því stendur að maður með hans bakgrunn er kominn til Íslands í fimleikaþjálfun.
Csollány ásamt ungum fimleikadrengjum í Gróttu. Það vakti mikla athygli meðal drengjanna þegar hann mætti með ólympíugullið á æfingu. Ljósmynd/Hari
Szilveszter Csollány á hápunkti ferils-
ins í hringjunum í Sydney árið 2000
þar sem hann varð ólympíumeistari.
Hvað er
Fit Kid?
Fit Kid er hvorki
fimleikar né
sérhæfð þjálfunar-
tækni eins og
þolfimi, heldur
skemmtilegt,
alhliða heilsu
námskeið sem
brúar bilið milli
ofangreindra
íþróttagreina, dans
og styrktaræfinga.
Fit Kid snýst um
heilbrigða, eðlilega
krakka í góðu formi
og hvatningu til
heilsusamlegs lífs
án öfga. Nokkur
félög á höfuð-
borgarsvæðinu
standa fyrir Fit
Kidnámskeiðunum.
Þeirra á meðal eru
Björk í Hafnarfirði,
Stjarnan í Garðabæ,
Fylkir í Árbænum
og Grótta á Sel-
tjarnarnesi.
26 viðtal Helgin 14.16. október 2011