Fréttatíminn


Fréttatíminn - 01.04.2011, Síða 14

Fréttatíminn - 01.04.2011, Síða 14
H ún heldur bráðum upp á tuttugu og eins árs afmælið sitt. Í fangelsi. Þar situr hún inni fyrir líkamsárás sem hún framdi þegar hún var átján ára. Hún segist hafa byrjað ellefu ára í neyslu fíkniefna og eftir það hafi leiðin legið beint niður á við. „Ég ólst upp í góðri fjölskyldu og gekk vel í skóla framan af. En ég byrj- aði að reykja hass þegar ég var ellefu ára og afbrotaferill minn byrjaði þegar ég var tólf, þrettán ára. Þá fór ég að brjótast inn með bróður mínum, sem er þremur árum eldri en ég, og standa vörð þegar hann var að brjótast inn. Svo byrjaði ég sjálf í afbrotum. Bróðir minn kenndi mér í raun og veru hvern- ig ætti að fara að þessu. Hvernig ætti að fjármagna neysluna.“ Eru fleiri systkin þín í neyslu? „Nei, en pabbi minn er fíkill.“ Af hverju heldurðu að þú hafir leiðst inn á þessa braut? „Ég var lögð í einelti þegar ég bjó úti á landi. Svo þegar ég flutti í bæinn var ég nýja stelpan, enginn þekkti bak- grunn minn eða hvaðan ég kom. Ég gat byrjað upp á nýtt og valið hvaða týpa ég vildi vera. Þá ákvað ég að ég vildi frekar vera gerandi en þolandi eineltis. Ég fór strax út í að vera þannig. Ég hef verið í dagneyslu á kannabis síðan ég var ellefu ára. Þrettán ára byrjaði ég svo að drekka.“ Hvernig varðstu þér úti um þessi efni? „Það var bara verið að selja þetta í hverfinu mínu. Það var ekkert mál. Ég var að vinna í sjoppu þegar ég var fimmtán ára. Þá skipti ég á sígarettum og innistæðum. Svo reyndar rændi ég sjoppuna. Líf mitt er í rauninni búið að vera „fokköpp“ frá því ég var lítil stelpa. Þá gekk ég í hús og þóttist vera að safna fyrir Rauða krossinn en fór svo út í búð með peningana og keypti mér bland í poka. Ég fór mjög hratt niður í neyslu og var byrjuð að sprauta mig þegar ég var að verða sextán ára. Ég hef sprautað mig nánast daglega síðan þá. Mamma henti mér út þegar ég var sextán ára. Ég hafði verið þrettán mánuði í lang- tímameðferð og var óheiðarleg allan tímann. Eftir þessa þrettán mánuði var mér boðið að byrja aftur í meðferðinni frá grunni eða fara heim og ég valdi að fara heim. Þar fór ég strax á djammið.“ Fannst þér þessi aðferð virka, þ.e. að henda þér út? „Nei og jú. Ég sé það í dag að mamma og amma hafa elst um mörg ár út af mér. Ég á litla systur sem er fimm árum yngri en ég þekki hana ekki neitt. Ég er búin að brjóta fjöl- skylduna mína niður. Mamma er búin að skipuleggja jarðarförina mína og bíður bara eftir símtalinu. Eftir því að einhver hringi í hana og segi henni að ég sé dáin. Ég er bara búin að rústa fjölskyldusamböndin mín en ég er að byggja þau upp aftur núna. Ég var í þriggja ára dagneyslu á morfíni. Þegar ég er í neyslu er ég mjög óheiðarleg og svört; ég ræni þig bara blákalt og mér er skítsama. Ég er rosalega dæmd af þjóðfélaginu. Ég var dæmd fyrir að vera með HIV, áður en ég vissi sjálf hvort ég væri með HIV eða ekki. Samt er ég ekki með HIV. Þá vex gremjan í mér. Það er rosaleg reiði og heift í mér. Ég nota ofbeldi mikið þegar ég er í neyslu. Sem mér finnst sorglegt því þegar ég er edrú get ég bara verið mjög falleg stelpa og rosa- lega góð. Amma talar alltaf um mig sem tvær manneskjur. Önnur er edrú og hin er í neyslu. Og mig langar að vera þessi sem er edrú og stendur sig. Sú sem gefur af sér í þjóðfélaginu en tekur ekki bara. Er virkur þjóðfélags- þegn.“ Besta vinkonan og kærastinn látin Hún segist hafa horft á eftir bestu vin- konu sinni í gröfina árið 2009. Hún hafði tekið of stóran skammt. „Svo horfði ég á eftir kærastanum mínum í gröfina núna fyrir jólin. Hann var tal- inn hafa látist af völdum ofneyslu eitur- lyfja en ég tel að það hafi verið sett á svið. Hann var bara drepinn. Það var bara þannig. Maður er búinn að missa fullt af vinum og sjá á eftir fullt af fólki í gröfina. Fólk hefur farið yfir um af geðveiki. Fyrrverandi kærastinn minn var lokaður inni á Sogni. Ég er búin að lifa rosalega hröðu, hörðu, erfiðu og svörtu lífi.“ Fyrir hvað siturðu inni núna? „Fyrir tvær líkamsárásir og þjófn- aðarbrot. Svo á ég eftir fimmtán mál í kerfinu. Lögfræðingurinn minn og þeir hér eru að reyna að koma mér í meðferðarúrræði því þeim finnst ég ekki alveg eiga heima hér. Ég er náttúr- lega mjög ung. Ég er langyngst hérna.“ Þannig að þér finnst þú ekki alveg passa hingað inn? „Nei, en það að koma hingað inn er samt það besta sem hefur komið fyr- ir mig í lífinu. Annars hefði ég drep- ið einhvern. Ég var orðin það þjáð af paranoju að ég gekk með hníf í vesk- inu. Meira að segja besti vinur minn sagði við mig í síma um daginn að það væri ótrúlegt að ég sæti ekki inni fyrir morð. Að ég hefði ekki stungið ein- hvern. Því siðferðiskennd, samkennd og munurinn á réttu og röngu; þetta var flogið út í buskann. Ég var sið- ferðislega brengluð. Neysluvinir mínir voru hættir að meika mig. Ég var bara drullubúlludjönker. Svakalegt að segja það en þannig var það bara.“ Henni finnst hún dæmd af samfé- laginu og finnst það svo sem ekkert skrýtið. „Ég fann fyrst fyrir því þegar ég fór að ljúga, stela og svíkja. Þegar ég fór að brjóta af mér, að brjótast inn og stela úr búðum. Þegar ég fór að selja dóp í skólanum. Þá var ég rekin úr honum og send í annan skóla. Þegar ég fór að ræna dópsala, stela af vinkonum mín- um eða berja vinkonur mínar. Þegar ég fór að gera hluti sem eru ekki ég. Eins og þessar tvær líkamsárásir sem ég sit inni fyrir. Þetta er ekki ég.“ Hún segist hafa ráðist á stelpu sem hafi setið meðferð með henni, þar á meðal hópmeðferð þar sem stúlkur skiptust á reynslusögum í trúnaði. „Þú getur auðvitað ekki réttlætt að þú lemjir einhvern. En ef þú situr inni með manneskju í þrettán mánuði, kemur svo út í lífið og heyrir að hún sé að segja fólki þessar sögur í partíi niðri í bæ, sögur sem eru mér mjög sárar, þá reiðist ég. Það fyrsta sem kemur upp í hugann á mér þegar ég verð reið er að berja. Þá sé ég bara svart.“ Hvernig sögur ertu að meina? „Sögur um misnotkun, kynferðislegt ofbeldi og nauðganir. Sumir geta bara ekki haldið kjafti. Það er ekki réttlátt að berja einhvern. En þarna á þess- ari stundu var ég í það mikilli neyslu og geðveiki að þetta var það eina sem komst að.“ Miðað við hvernig hún er búin að haga sér í gegnum tíðina finnst henni ekkert skrýtið að hún hafi fengið á sig neikvæðan stimpil í hugum annarra. „Engan veginn. En það eru alltaf tæki- færi. Af hverju ætti ég ekki skilið að fá tækifæri eins og hver annar? Löngu komin á botninn Hefur verið fjallað um þig í fjölmiðlum? „Já, það kom umfjöllun um hrotta- lega líkamsárás í Fossvogskirkjugarði en nafnið mitt var ekki birt í þeirri um- fjöllun. Ég held að það sé það eina sem hefur birst á prenti.“ Hvernig leið þér með það? „Þá var mér bara skítsama. Ég var búin að vera í neyslu í tíu ár. Ég er rétt að komast niður á jörðina núna eftir að ég er allt í einu komin í fangelsi. Þá átt- ar maður sig og hugsa bara „hvað er að frétta?“. Það er svolítið súrt að þurfa að fara í fangelsi til að fatta hvað maður er búinn að vera rosalega geðveikur. Ég var trúlofuð strák, við leigðum saman íbúð og vorum bæði í góðri vinnu en ég náði að fokka því upp með neyslu. Ég er endalaust búin að fokka upp tæki- færunum og ég hef fengið endalaus tækifæri. Ég hef farið í ótal meðferð- ir. Endalausar meðferðir. En alltaf er hausinn á mér með „betri“ hugmyndir en allir aðrir. Vinir mínir sitja flestir á Litla-Hrauni eða Kvíabryggju.“ Eru það vinirnir úr grunnskóla? „Nei, ég á enga vini úr grunnskóla. Þannig að þegar ég kem út í lífið þarf ég að finna mér algerlega nýjan vina- hóp.“ Hvenær verður það? „Ég hef ekki hugmynd. Ég er með fimm mánaða dóm núna og það eru fimmtán mál í kerfinu sem á eftir að dæma í. Það er verið að reyna að koma mér í meðferðarúrræði og einn þriðji af afplánuninni er inni á Vernd. Þetta þarf ekki að vera rosalega langur tími.“ Hvernig líst þér á framhaldið? Finnst þér þú vera farin að spyrna í botninn? „Ég er löngu komin á botninn. Ég er bara að krafsa á botninum. Ég er búin að vera edrú núna í þrjár vikur hérna inni. Stundum langar mig ekk- ert til að vera edrú en stundum þrái ég að vera edrú. Það koma bara dagar. Ég fékk þessa örvæntingartilfinningu þegar ég kom hingað inn. Mig langaði að gera allt til að vera edrú. Svo ýmist dvínar þessi tilfinning eða kemur aft- ur. Auðvitað langar mig að vera edrú, eignast gott líf og heimili með mann- inum mínum. Mig langar að gera góða hluti. Ég er ekkert heimsk stelpa. Ég á mjög auðvelt með að læra. Reyndar er ég með mikinn athyglisbrest. Það háir mér svolítið. Ég var greind með ofvirkni, athyglisbrest og eitthvað sem kallast andstöðuþrjóskuröskun þegar ég var lítil. En ég hef ekki verið á nein- um lyfjum við þessu af því að ég notaði þau lyf bara í eitthvað annað en ég átti að gera.“ Hefurðu áhyggjur af því að fá ekki vinnu þegar vistinni hérna lýkur, af því að þú hefur verið í fangelsi? „Já, mjög miklar.“ Hafa vinir þínir lent í vandræðum með að fá atvinnu eftir afplánun? „Nei, ef ég á að segja eins og er þá Tvítug í fangelsi var ég bara með soranum. Þeir voru ekk- ert að sækja mikið um vinnu. Ég fékk undanþágu til að vinna í byggingarvöru- verslun, þrátt fyrir að ég væri komin með dóm. En svo kom kreppan og þá varð að segja fólki upp. Mig langar mjög mikið að flytja út á land.“ Líður þér vel þar? „Já, mamma býr þar. Ekki það að ég sé að flýja eitthvað eða sé hrædd við neitt. Mig langar bara að komast burt úr þessu umhverfi. Ég þekki ekkert annað. Ég er búin að búa á götunni síðan ég var fimm- tán ára; búa hálft ár á einum stað, síðan með einhverjum kærasta. En mjög mikið á götunni og þá hef ég fengið að gista hjá vinum og í Konukoti. Eitthvað svona sem er ekki ég. Mér finnst ég alltaf vera of fín fyrir þetta. Mig langar bara geðveikt mikið að fá hjálp og fara í meðferð. Lang- ar það mikið innst í hjartanu. En svo er alltaf einhver púki á öxlinni sem segir: Heyrðu, þú getur þetta ekki.“ Vill ekki vera svona Hver er þín skoðun á nafn- og myndbirt- ingu af ungum afbrotamönnum? „Mér finnst það glatað. Vinur minn var einmitt dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir stuttu. Nafnið hans var birt og mynd af honum. Mér fannst þetta rosalega leiðinlegt því að hann á náttúr- lega fjölskyldu og systkini. Einu sinni var annar vinur minn að fletta dagblaði og sá þá allt í einu dóminn sinn í blaðinu; nafnið sitt og allt. Þetta kom honum á óvart.“ Er til í dæminu að fólki þyki svalt að fá umfjöllun um sig í fjölmiðlum? „Jú jú, það er alveg til í dæminu. En persónulega myndi ég ekki vilja láta nafn- ið mitt birtast í einhverju blaði. Ég er líka dæmd í undirheimunum. Af sumum, ekki öllum. Af því að þegar ég er í neyslu þá ræni ég fólk, svík það og sting það í bak- ið. Ég er rosalega undirförul. En það er eitthvað sem ég þarf að breyta hjá sjálfri mér. Ég vil ekki vera svoleiðis. Þetta er ekki ég. Það er bara neyslan sem er búin að skapa einhverja aðra stelpu. Ég vil ekki vera þar og ég vil ekki halda áfram að vera stimpluð sem sú manneskja. Mig langar ekki að vera þekkt fyrir þetta. Mig langar að vera þekkt fyrir eitthvað allt annað. Mig langar að læra ljósmyndun og fara að gera einhverja hluti. Ég hef fullt af áhugamálum sem ég hef ekki sinnt í mörg, mörg ár út af neyslunni. Þannig að það besta sem hefur komið fyrir mig er bara að koma hingað inn og stoppa. Að vera bara hérna inni og hugsa „ókei, nú er ég bara komin í fangelsi“. Mér fannst fangelsi alltaf dálítið ljótt orð. Heavy orð. En that‘s it. Svona er bara líf- ið. Þetta er karma.“ Hún segist vera fyrir löngu komin á botninn en er samt bara tvítug. Hún óttast að sjá nafnið sitt í fjölmiðlum en segir að það besta sem hafi komið fyrir hana hafi verið að lenda í fangelsi. Heiðdís Lilja Mag- núsdóttir ræddi við hana í Kvennafangelsinu í Kópavogi. Þetta er ekki ég. Það er bara neyslan sem er búin að skapa einhverja aðra stelpu. Ég vil ekki vera þar og ég vil ekki halda áfram að vera stimpluð sem sú mann- eskja. Mig langar ekki að vera þekkt fyrir þetta. Kvennafangelsið í Kópavogi. Ljósmynd/ Hari 14 viðtal Helgin 1.-3. apríl 2011

x

Fréttatíminn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttatíminn
https://timarit.is/publication/944

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.