Bændablaðið - 04.07.2013, Side 20
20 Bændablaðið | Fimmtudagur 4. júlí 2013
Hálendisvegir eru enn vart annað en illfærir troðningar þrátt fyrir áratuga umræður:
Þurfum að rífa okkur upp úr andlegu eymdarástandi
– sagði Trausti Valsson prófessor á málþingi sem haldið var um uppbyggingu Kjalvegar
Í tíð Sturlu Böðvarssonar sem
samgönguráðhera voru fimm
vegir á hálendi Íslands í fyrsta sinn
teknir út og taldir til grunnnets
samgangna. Þetta eru Kaldidalur,
Fagradalsvegur, Kjalvegur,
Sprengisandsleið og Fjallabaksleið
nyrðri. Þó að komið sé fram á mitt
ár 2013 eru þessar leiðir enn ekki
annað en illa færir troðningar með
þeirri undantekningu að nokkuð
hefur verið unnið í veginum um
Kaldadal en sú vinna hefur að
nokkru leyti verið unnin fyrir gýg
þar sem ekki tókst að klára að setja
bundið slitlag á veginn.
Á málþingi sem haldið var á Hótel
Sögu fyrir skömmu kom fram að um
Kjalveg færu á hverju ári um 30
þúsund ferðamenn og mikill hugur
væri í ferðaþjónustuaðilum að efla
ferðamennsku á þessum slóðum, ekki
síst inn í Kerlingarfjöll og líka norður
í land. Ástand vegarins er hins vegar
þannig að rútufyrirtæki eru farin að
veigra sér við að senda bíla sína inn
á Kjalveg vegna skemmda og mikils
viðhaldskostnaðar á bílunum.
Hugmyndaríkur prófessor
Trausti Valsson, prófessor í
skipulagsfræðum við Háskóla
Íslands, hefur allt frá árinu 1975
skrifað fjölmargar greinar og viðrað
ýmsar áhugaverðar hugmyndir
um vegalagningu um hálendi
Íslands. Einni þeirra hugmynda um
framtíðarhöfuðborg á hálendi Íslands,
á skurðarpunkti samgangna út um allt
land, var m.a. slegið upp á forsíðu
Tímans 1. maí 1977.
Á málþinginu ræddi hann um
ávinning sem hlotist gæti fyrir
ferðaþjónustuna og byggðir landsins
af uppbyggingu hálendisvega. Sagði
hann að hugmyndin skemmtilega
um borg á hálendinu væri svo
sem ekkert útilokuð með hlýnandi
veðurfari. Benti hann á að nú væri
t.d. ekki hægt að stunda skíðaiðkun í
Kerlingarfjöllum fram á sumar vegna
snjóleysis. Þá hefði sáralítill snjór
verið á Kjalvegi í vetur, en vandinn í
vor hefði verið aurbleyta.
Sat Trausti m.a. í nefnd um málið
á sínum tíma og skrifaði skýrslu um
hálendisvegi sem samgönguneytið
birti í nóvember 1988. Hefur hann
einnig skrifað tólf bækur þar sem
talsvert er fjallað um þessa vegi.
Einnig hefur hann ritað um 50 greinar
um hálendisvegina.
Sagði Trausti að meginhugsunin
í hugmyndum sínum um byggða-
stefnuna hefði verið að rjúfa þann
fjarlægðahring sem umkringdi
höfuðborgarsvæðið og ferðamenn
færu helst ekki út fyrir. Benti hann
á að með góðum vegi um Kjöl og
hugsanlegu fjallahóteli á Hveravöllum
gætu ferðamenn t.d. farið þaðan á
rúmum hálftíma í sólina á Norðurlandi
eða í rigninguna á Suðurlandi.
Sagði hann að Vegagerðin hefði
sýnt þessum hugmyndum hans mikinn
áhuga og gaf Vegagerðin m.a. út bók
Trausta sem heitir Vegakerfið og
ferðamálin.
Gagnrýndi ofuráherslu á verndun
Trausti gagnrýndi harðlega í máli
sínu hvernig staðið hefði verið að
vinnu við gerð svæðisskiplags á
hálendinu þar sem skoðum eitilharðra
náttúruverndarsinna hefði verið mjög
haldið á lofti. Sveitarstjórnarmenn
gagnrýndu það reyndar einnig
harðlega þegar Samvinnunefnd
miðhálendisins var lögð niður
með gildistöku skipulagslaga 1.
janúar 2011. Þá voru skipulagsmál
hálendisins flutt frá sveitarstjórnum
til Skipulagsstofnunar. Samkvæmt
lögunum var gert ráð fyrir að
þáverandi umhverfisráðherra legði
fram þingsályktunartillögu á árinu
2012 um landsskipulagsstefnu.
Skipulagsstofnun var gert að gæta
þess að aðalskipulag sveitarfélaga
væri í samræmi við svæðisskipulag
miðhálendis Íslands.
Sagði Trausti að haustið 2012
hefði komið fram tillaga um
landsskipulagsstefnu sem hefði
verið útvötnuð hugmynd um
landsskipulag í ljósi þess að gildistími
svæðisskipulagsins rynni út 2015.
Undir lok Alþingis í vor hefði
Svandís Svavarsdóttir svo lagt fram
tillögu í þinginu þar sem gríðarlegar
verndunaráherslur hefðu verið inni og
enn meiri en í svæðisskipulagi. Sagði
Trausti að sem betur fer hafi þetta ekki
komist í gegn um þingið. Skrifaði
Trausti grein í Morgunblaðið í apríl þar
sem sagði að landsskipulagsstefnan
nýja þýddi mikla þróunarfjötra. Þar
kom fram að samkvæmt fyrirliggjandi
hugmyndum yrði allt miðhálendi
Íslands eitt samfellt verndunarsvæði.
Benti Trausti á að í reglugerð með
nýju skipulagslögunum hefði
umhverfisráðherra nánast verið falið
alræðisvald við að móta landsskipulag
framtíðarinnar. „Svandís lagði
upp línurnar, - verndun, verndun,
verndun.“
Þurfum að rífa okkur upp úr
andlegu eymdarástandi
Á málþinginu rifjaði Trausti upp sögu
gömlu samgönguleiðanna á milli
landshluta sem lágu m.a. yfir hálendið
og voru stystu og eðli legustu leiðirnar
á milli landshluta. Á miðöldum hefði
kjarkur þjóðarinnar minkað. Þá hefðu
menn séð drauga í hverju horni og vart
þorað af bæ. Við það hefði umferð yfir
hálendið dregist mjög saman.
„Mér finnst það sama hafa svolítið
verið að gerast nú eftir kreppuna.
Íslendingar eru yfirleitt kjarkmikil og
kraftmikil þjóð en nú er alltaf verið
að skýla sér á bak við hugsanleg
átök og sagt: Nei, nei , nei, þetta er
ekki hægt, þetta er svo hættulegt. Við
þurfum einhvern veginn að reyna
að rífa okkur upp úr þessu andlega
eymdarástandi eins og Fjölnismenn
hjálpuðu til við að gera á nítjándu öld.
Þá var m.a. Fjallvegafélagið stofnað
til að endurbyggja fjallvegina og það
varðaði vegina upp á nýtt. Smám
saman komust þessar leiðir aftur til
notkunar.“ /HKr.
Samgöngumál
Trausti Valsson, prófessor í skipulagsfræðum, bendir hér á Fjallabaksleið nyrðri, sem ásamt Sprengisandsleið, Kjalvegi og Kaldadalsleið er talið mikilvægt
að lagfæra hið bráðasta vegna aukinnar umferðar ferðamanna. Myndir / HKr.
Af forsíðu Tímans 1. maí 1977. Þar var fjallað um skemmtilega hugmynd
Trausta um borg á mótum samgönguleiða um allt land á hálendi Íslands.
Trausti Valsson prófessor.
SÁRASPREY FYRIR ÖLL DÝR
· Einstaklega græðandi
· Hægir á blæðingu
· Dregur úr sársauka og kláða
· Myndar filmu og hlífir sári
· Vinnur gegn bakteríu- og
sveppamyndun
· Íslensk framleiðsla
NÝSKÖPUNARVERÐLAUN
ÍSLANDS 2012
Siglufjörður · Sími 460 6900 · info@primex.is · www.primex.is
Fæst hjá
dýralæknum,
hesta- og búvöru-
verslunum
um land allt