Bændablaðið - 04.07.2013, Blaðsíða 22
22 Bændablaðið | Fimmtudagur 4. júlí 2013
Silva, grænn matsölustaður á Syðra-Laugalandi í Eyjafjarðarsveit:
Grænmetis- og hráfæðisstaður í
blómlegu landbúnaðarhéraði
Silva er grænn matsölustaður á
Syðra-Laugalandi í Eyjafjarðar-
sveit, en þar standa gestum
til boða bæði grænmetis- og
hráfæðisréttir, matarmiklar
súpur ásamt hollum kökum
og eftirréttum, þeytingar,
nýpressaðir safar, hveitigras- og
engiferskot. Þá má nefna að á
Silvu er kaffi, te og kakó ávallt
lagað úr lífrænum afurðum.
„Við leggjum áherslu á góðan og
fjölbreyttan matseðil með réttum sem
framleiddir eru úr úrvals hráefni,“
segir Kristín Kolbeinsdóttir, sem
á Silvu ásamt eiginmanni sínum
Gretti Hjörleifssyni. Kristín er
framkvæmdastjóri og sér alfarið
um reksturinn en Grettir er verktaki
og vinnur fyrir bændur, m.a. við
heyskap, og þá hefur mikið verið
að gera við jarðvinnslu undanfarnar
vikur.
Kristín segir að Silva hafi
sérstöðu hvað það varðar að vera eini
veitingastaðurinn utan höfuðborgar-
svæðisins sem bjóði eingöngu
grænmetis- og hráfæðisrétti. Réttir
af því tagi standi gestum ýmissa
veitingahúsa á landsbyggðinni
vissulega til boða, en þá í bland
við aðra rétti þar sem kjöt og fiskur
koma við sögu. Veitingastaðurinn
Silva var opnaður 19. maí í fyrravor
og segir Kristín að reksturinn hafi
gengið framar björtustu vonum.
Það sama megi segja um það sem
af er þessu sumri, sífellt fleiri gestir
sæki staðinn heim. „Það hefur verið
ágætt að gera hjá okkur í allt sumar
og útlitið gott,“ segir hún.
Veitingastaðurinn er opinn alla
daga frá kl. 11.00-21.00 yfir sumar-
tímann en á veturna er opið fyrir
hópa og reynt að koma til móts við
þarfir og óskir hvers hóps hverju
sinni.
Með eigin grænmetisgarð
sunnan við hús
„Mörgum þótti einkennilegt að
setja upp svona matsölustað í miðju
blómlegu landbúnaðarhéraði, en
auðvitað er grænmetisrækt líka
hluti af íslenskum landbúnaði og
við kaupum mikið af því hráefni
sem við notum í okkar matargerð
frá garðyrkjustöðinni Brúnalaug
sem er hér steinsnar frá. Þar er
stunduð vistvæn grænmetisrækt og
afraksturinn er úrvals hráefni,“ segir
Kristín. Hún kveðst leggja mikla
áherslu á að kaupa hráefni úr héraði
og hafa sem allra mest heimafengið.
Sjálf ræktar hún heilmikið
grænmeti í garði sunnan við hús
sitt, þar er ræktað salat sem og kál,
næpur og radísur og annað grænmeti
sem auðvelt er og þægilegt í ræktun.
Kryddjurtir er þar einnig að finna,
sem og jarðarberjaplöntur, og til
„Það hefur verið mikið að gera hjá okkur í allt sumar og útlitið er ljómandi gott,“ segir Kristín Kolbeinsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Silvu. Mörgum þótti einkennilegt að setja upp
grænmetis- og hráfæðismatsölustað í miðju blómlegu landbúnaðarhéraði en reksturinn hefur gengið vel. Myndir / MÞÞ
Grænmetisgarður er á skjólgóðu svæði sunnan við húsið en þar ræktar Kristín ýmiss konar grænmeti sem notað er í matseld á Silvu.