Bændablaðið - 04.07.2013, Qupperneq 30
30 Bændablaðið | Fimmtudagur 4. júlí 2013
Utan úr heimi
Undanfarin ár hefur tækninni fleytt
fram á sviði ræktunar nautgripa og
reglulega koma fram á sjónarsviðið
nýjungar á þessu sviði sem geta leitt
til enn meiri framþróunar. Þróunin
á þessu sviði er svo hröð að erfitt
getur verið að fylgjast með öllu
því sem gerist en hér verður gerð
tilraun til þess að draga saman
a.m.k. suma þætti sem mikið hafa
verið í umræðunni erlendis síðustu
ár.
Kyngreint sæði
Þegar rætt er um nýjungar á sviði
ræktunar nautgripa er nú e.t.v. verið
að bera í bakkafullan lækinn að
nefna kyngreiningu á sæði, enda
hefur kyngreint nautasæði verið til
sölu í heiminum í rúm 10 ár. Þetta
er þó nefnt hér þar sem aðferðin
hefur ekki enn verið tekin í notkun
hér á landi. Óhætt er að fullyrða að
kyngreining á sæði hafi hreinlega
valdið byltingu í nautgriparækt
og er nú undantekningarlítið hægt
að fá kyngreint sæði allra helstu
afurðakynja nautgripa, bæði sæði
sem inniheldur hátt hlutfall X-litninga
og hentar því í mjólkurframleiðslu
en einnig sæði sem inniheldur hátt
hlutfall Y-litninga og hentar því í
holdanautaframleiðslu. Öryggið á
völdu kyni er um 85% sem hefur
gert það að verkum að bændur
geta gjörbreytt ræktunaráherslum
sínum. Í upphafi þótti þessi
aðferð nokkuð óörugg vegna hás
endursæðingarhlufalls en bæði með
betri vinnsluaðferðum og bættri tækni
við beiðslisgreiningar, s.s. notkun á
margs konar tölvubúnaði, gengur
miklu betur að fá kýrnar til þess að
festa fang.
Erfðapróf gripa
Önnur aðferð, og mun nær okkur í
tíma en kyngreining á sæði, er notkun
á sk. erfðaprófi en sú aðferð byggir
á því skoða erfðamengi gripanna út
frá blóðprófi strax á smákálfinum og
út frá þekktum stærðum er hægt að
segja til um hvort gripurinn beri þær
arfgerðir sem séu eftirsóknarverðar.
Þessi aðferð hefur farið hratt yfir
sviðið á liðnum 4-5 árum og er talin
geta aukið framfarir í ræktuninni
um 50-100%. Skýrist það af því að
ættliðabilið verður miklu styttra enda
hægt að velja bæði nautin kornung
og nautsmæður sem kvígukálfa. Þá
sparar aðferðin auk þess fjármuni þar
sem hægt er að fækka verulega þeim
nautum sem sett eru í afkvæmaprófun.
Vandamálið við þessa aðferð er þó
sú staðreynd að erfitt getur verið að
nýta staðla þekktra kúakynja hér á
landi þar sem stofninn hefur verið
einangraður lengi og því mögulega
lítt skyldur helstu afurðastofnum.
Líkurnar á því að þau próf sem eru
notuð erlendis nái að fanga þann
breytileika í arfgerð sem verið er að
leita að eru því hugsanlega litlar en
þó er það ekki víst.
Sæði með lengri líftíma
Fyrir tveimur árum var kynnt til
sögunnar ný aðferð við frystingu á
sæði sem stóreykur líftíma sæðisins
eftir sæðingu. Aðferðin byggir á því
að draga úr hreyfigetu sáðfrumanna
fyrir frystingu og þar með að spara
þeim mikla orku. Þessi aðferð þykir
henta einstaklega vel þar sem langt
er á milli bæja og því um langan veg
að fara fyrir frjótækninn. Skýringin
felst einfaldlega í því að sáðfrumurnar
lifa sólarhring lengur í legi kúnna
en fyrir þessa nýju aðferð og fyrir
vikið er kórréttur sæðingatími ekki
eins mikilvægur og áður. Auk þess
sýnir hin stutta reynsla af notkuninni
að uppbeiðsli eru verulega minni en
þegar hefðbundið sæði er notað.
Sæðið sótthreinsað!
Það nýjasta á markaðinum er svo sk.
sótthreinsun á sæði en þá er mótefnum
hreinlega blandað við sæðið svo
tryggt sé að ekki geti borist neinir
sjúkdómar með því. Fyrir vikið er
hægt að stækka mögulegt áhrifasvæði
kynbótanauta til nánast allra landa
heimsins enda ótti við meinta
sjúkdóma við sæðingu óþarfur.
Einræktaðar kýr
Undanfarin ár hafa orðið miklar
framfarir í einræktun gripa (oft
kallað klónun) en einræktun felst
í því að gripum er fjölgað sem eru
erfðafræðilega nákvæmlega eins. Þessi
aðferð er auðvitað vel þekkt í jarðrækt
s.s. þegar teknir eru græðlingar af
plöntum og þeir svo látnir vaxa upp en
að fjölga skepnum með þessum hætti
er nokkuð nýtt af nálinni. Fyrsta þekkta
tilfellið var þegar skoskir vísindamenn
einræktuðu kindina Dollý árið 1997 en
síðar hefur orðið mikil þróun á þessu
sviði og í dag eru til þúsundir gripa
sem hafa verið einræktaðir. Það eru
auðvitað fyrst og fremst afburðagripir
sem eru einræktaðir enda þeir taldir
hafa erfðafræðilega eiginleika sem eru
eftirsóknarverðir.
Einræktun umdeild
Aðferð þessi er þó afar umdeild
og er þess skemmst að minnast að
mikið fjaðrafok varð í Bretlandi
sumarið 2010 þegar í ljós kom að
þar hafði naut farið í sláturhús sem
var undan klónaðri kú, en sam-
kvæmt reglum Evrópusambandsins
var slíkt óheimilt. Skoskur kúabóndi
hafði keypti tvo fósturvísa úr
frægri einræktaðri verðlaunakú frá
Pennsylvaniu fylki í Bandaríkjunum
og fékk hann afburða gott naut sem
hann notaði svo til þess að kynbæta
hjörð sína. Þegar fjölmiðlar komust
í málið kom í ljós að þá þegar voru
yfir 100 nautgripir fæddir sem áttu
ættir að rekja til umræddrar einrækt-
aðrar kýr. Breska matvælaeftirlitið
gaf þegar út yfirlýsingu um að
neytendum stafaði engin hætta af
neyslu kjöts eða mjólkurvara frá
einræktuðum gripum, en þrátt fyrir
það var umræðan svo þung að flestar
ef ekki allar afurðastöðvar gáfu út
ábyrgðaryfirlýsingu um að ekki væri
tekið á móti afurðum frá einrækt-
uðum gripum.
Afurðir einræktaðra gripa
Í dag er staðan þannig að flestum
bændum í heiminum stendur til
boða að nýta einræktaða gripi í
framleiðslu sinni, enda hefur verið
varið miklum fjármunum og tíma
vísindamanna í rannsóknir á bæði
kjöti og mjólk frá einræktuðum
gripum og hefur ekki verið hægt
að sýna fram á að þær afurðir séu á
einhvern hátt lakari en hefðbundnar
afurðir. Því er afar líklegt að einhvers
staðar í heiminum séu neytendur að
gæða sér á mjólk, mjólkurafurðum
eða nautakjöti frá gripum sem eiga
ættir sínar að rekja til einræktaðra
kynbótagripa.
Erfðabreyttar kýr
Oft virðist sem að fólk rugli saman
einræktun og erfðabreytingu, sem er
klárlega ekki sami hlutur. Svo virðist
sem fréttir um erfðabreyttar kýr
berist æ oftar nú orðið. Þannig hefur
t.d. kínverskum vísindamönnum
tekist að rækta kvígu sem er
erfðabreytt með þeim hætti að hún
ætti ekki að geta framleitt mjólk
með hefðbundnum mjólkursykri
heldur annarri gerð sykurs. Kvíga
þessi fæddist á rannsóknastofu í
Mongólíu fyrir ári en þegar hún
var á fósturvísastigi var sprautað
í fóstrið sérstöku ensími sem olli
breytingum á erfðum þess með
framangreindum hætti. Fleiri slíkar
tilraunir hafa verið gerðar í Kína
og hefur þannig tekist að framleiða
kýr sem eru hraustari en aðrar kýr
og veikjast t.d. ekki af hefðbundum
júgurbólgubakteríum.
Kýr með mennsku erfðaefni
Annað dæmi um erfðabreytingu
má taka til en vísindamenn við
rannsóknarstofnun landbúnaðarins
í Argentínu stóðu á bak við það
undarlega verkefni að bæta
mennskum genum inn í fósturvísi.
Útkoman varð sú að kvíga fæddist
sem framleiðir mjólk sem inniheldur
próteingerðir sem eru í brjóstamjólk
en ekki í hefðbundinni kúamjólk.
Mjólk þessi er væntanlega enn
umdeildari en mjólk frá kúm sem
eru einræktaðar enda hljóta að vakna
siðferðislegar spurningar um það
hvort heimila eigi sölu á dýraafurðum
frá skepnum sem eru með erfðaefni
úr fólki, sem og því hvort heimila eigi
yfirhöfuð slíkar skepnur.
Ofurkýr ekki á næstunni
Trúlega verður bið á því að einhvers
konar erfðabreyttar ofurkýr verði
allsráðandi í heiminum á næstunni
enda eru gripirnir í dag fyrst og
fremst á rannsóknarbúgörðum. Í
ljósi þess hve mikið er unnið á þessu
sviði í dag, sér í lagi í löndum utan
Evrópu, er þó líklegt að á komandi
árum þurfi að taka upplýsta afstöðu
til þess hvort heimila eigi not á
gripum sem hefur verið erfðabreytt
með einum eða öðrum hætti. Vonandi
munum við hins vegar sjá fljótlega
í notkun hér á landi þær almennu
aðferðir sem notaðar eru víðast í
dag við hefðbundið kynbótastarf í
nautgriparækt erlendis.
Snorri Sigurðsson
sns@vfl.dk
Nautgriparæktarsviði
Þekkingarsetri landbúnaðarins
í Danmörku
Hröð þróun ræktunarmöguleika nautgripa
Evrópusambandshópur lífrænna landbúnaðarhreyfinga:
Gagnrýnir harðlega ófullnægjandi breytingar á CAP
landbúnaðarstefnu ESB varðandi aukna sjálfbærni
– fjármagn skorti til að styðja fögur áform – nýtt samkomulag sagt ryðja grænum landbúnaði til hliðar og tryggja ekki sjálfbærni
Evrópusambandshópur lífrænna
landbúnaðarhreyfinga, IFOAM
– EU Group, gagnrýnir harðlega
samkomulag milli samninganefndar
og Evrópuþingsins um breytingar
á landbúnaðarstefnu ESB fyrir
árin 2014 til 2020. (Common
Agricultural Policy (CAP) 2014-
2020). Segir hópurinn að skortur
sé á ákveðnum skrefum í átt til
meiri sjálfbærni í landbúnaði undir
stefnu CAP.
Þessi gagnrýni er þvert á
hástefndar yfirlýsingar ESB um að
verið sé að gera miklar endurbætur
á CAP-landbúnaðarstefnunni í átt til
aukinnar sjálfbærni, sem m.a. hefur
verið endurómað gagnrýnislaust í
íslenskum fjölmiðlum að undan förnu.
Í fréttatilkynningu hópsins, þar
sem Ólafur Dýrmundsson situr
m.a. fyrir hönd lífrænna ræktenda á
Íslandi, segir m.a.:
„Evrópusambandshópur lífrænna
landbúnaðarhreyfinga, IFOAM
– EU Group, gagnrýnir harðlega
skort á metnaði í samkomulaginu.
Á meðan grænni landbúnaður hafi
verið viðurkenndur sem hugmynd,
þá gerir samkomulagið ekki ráð fyrir
nauðsynlegum breytingum í átt til
grænni og sanngjarnari landbúnaðar
á dreifbýlli svæðum.“
Formaður Evrópusambandshóps
lífrænna landbúnaðarhreyfinga
er einnig harðorður í frétta-
tilkynningunni:
„Í kynning á Stoð 1 (Pillar 1)
sem fjallar um grænni landbúnað,
er aðeins fjallað um fyrsta skrefið
til að stýra greiðslum til bættrar
framkvæmdar, en skuldbindingar
eru allt of veikar. Á meðan þar er
viðurkenning á lífrænni ræktun sem
grænum landbúnaði og góðu skrefi
til að staðfesta frumkvöðlahlutverk
lífrænnar ræktunar í sjálfbærni
landbúnaðar, þá inniheldur
samkomulagið einnig umdeilda
skoðun og undanþágur fyrir lélegri
framkvæmd í umhverfismálum
sem ryður grænum landbúnaði til
hliðar,“ segir Christopher Stopes,
formaður hópsins. „Samkomulagið
er einnig langt frá því að tryggja
sanngirni meðal bænda og því er
stefnan í stuðningsgreiðslum CAP
enn ófullnægjandi.“
Jan Plagge, sem er formaður
bændahóps IFOAM – EU Group,
segist fagna því að gert sé ráð fyrir
að minnst 30% af fjármagni í „Stoð
2“ verði úthlutað að stærstum hluta til
að efla umhverfisþætti. „Hins vegar er
þetta ekki framför heldur áframhald á
þeirri stöðnun sem ríkir í þeim efnum.“
Segir hann að þau fáu jákvæðu skref
með skýrum skilaboðum um að nýir
samstarfsaðilar í nýsköpun verði að
styðja breytingar í átt til vistvænnar
nálgunar geti því aðeins haft áhrif
að til komi umtalsverðar nýjar
fjárveitingar inn í Stoð 2. Án þess sé
aðildarríkjum ESB gert ómögulegt að
framkvæma breytingar í átt til meiri
sjálfbærni í landbúnaði.
Thomas Fertl, varaformaður
IFOAM – EU Group, segir að
lífrænir bændur og almenningur
þurfi á komandi mánuðum að
beita öllum ráðum til að þrýsta á
stjórni aðildarríkja ESB til knýja
fram breytingar. Færa þurfi 15%
af fjármagni Stoðar 1 í Stoð 2 og
tryggja síðan að yfir 50% af fjármagni
Stoðar 2 verði nýtt til að styðja
við umhverfisvænan og lífrænan
landbúnað og setja vistvæn gildi í
forgang í dreifbýlum héruðum.
/HKr.
Samkomulag um breytingar á CAP-landbúnaðarstefnu ESB er sagt algjörlega
ófullnægjandi hvað varðar aukningu á sjálfbærni í landbúnaði. Mynd / HKr.