Bændablaðið - 05.09.2013, Page 4
Bændablaðið | Fimmtudagur 5. september 20134
Fréttir
Bændur frá Vesturlandi og austur í
Vopnafjörð héldu í göngur í síðustu
viku, margir hverjir mun fyrr en
áætlað var. Ástæðan var sú að
aftakaveðri var spáð um landið,
einkum norðanlands, í byrjun
vikunnar. Útlitið miðað við spána
var ekki ósvipað því sem gerðist
fyrir ári þegar óþverraveður gekk
yfir landið norðanvert og mikill
fjárskaði varð. Þegar spár sem
bentu til illviðris fóru að hrannast
upp ákváðu bændur því að taka
enga áhættu og smala því fé sem
hægt væri af fjalli.
Fyrstu spár bentu til þess að
mjög slæmt veður yrði á norðan-
og austanverðu landinu um síðustu
helgi. Búist var við aftakaveðri með
mikilli úrkomu, rigningu á láglendi
en slyddu og snjókomu til fjalla. Þá
var spáð vindhraða allt upp í 23 m/s.
Eftir því sem leið á vikuna bentu spár
til að veðrið myndi færast til vesturs
og verða hvað verst á Ströndum og
Norðurlandi vestra.
Veðrið var skaplegt
Þegar til kom varð veðrið ekkert í
líkingu við það sem búist var við.
Skipti þar verulegu máli að ekki varð
jafn kalt og spár gerðu ráð fyrir auk
þess sem ekki varð eins mikil úrkoma.
Hins vegar voru bændur þá þegar
búnir að smala og rétta mjög víða.
Stór svæði smöluð
Bændur á því svæði sem verst fór út
úr illviðrinu sem gekk yfir í fyrra,
einkum í Þingeyjarsýslum, voru ekki
í rónni og má segja að víðast hvar á
því svæði hafi verið smalað eins og
hægt var, með tilliti til þess mann-
skaps sem fékkst og þess tíma sem
gafst. Slíkt hið sama á við um stóran
hluta Húnavatnssýslna, Skagafjörð
og Eyjafjörð. Borgfirðingar hugðust
smala Holtavörðuheiði en með skán-
andi veðurspá var ákveðið að hverfa
frá þeirri fyrirætlan.
Mikill einhugur
Misvel gekk að manna göngur,
enda farið af stað í miðri viku og
áður en ætlað var. Dæmi voru um
að sveitarfélög sendu út beiðni
um aðstoð til almennings og var
slíkum beiðnum almennt mjög vel
tekið. Þá aðstoðuðu björgunarsveitir
við leitir í einhverjum tilvikum.
Atvinnurekendur sýndu mikinn
skilning og hliðruðu til fyrir sína
starfsmenn svo þeir hefðu tök á að
aðstoða við smölun. Sömu sögu er að
segja af skólum sem gáfu nemendum
frí til að halda í smalamennsku.
Reynslan frá í fyrra nýtt
Það er almenn skoðun manna
að öll skipulagning hafi verið til
fyrirmyndar vegna yfirvofandi
náttúruvár. Almannavarnarnefndir
komu saman víðs vegar um landið
og Almannavarnardeild ríkis-
lögreglustjóra aðstoðaði við að veita
upplýsingar og samhæfa verkefni.
Fjallskilanefndir og sveitarstjórnir
gengu fumlaust til verka og bændur
sömuleiðis. Er það mál manna að
reynsla síðasta árs hafi skilað sér
mjög vel nú þar sem þeir annmarkar
sem þá voru á aðgerðum voru sniðnir
af.
Eftir því sem Bændablaðið hefur
fregnað gekk smalamennska víðast
hvar vel. Helsta umkvörtunarefni
gangnamanna var að fé hefði verið
mjög hátt og algjörlega áhugalaust
um að koma til byggða og því
seinrækt. Veður var enda víðast hvar
með miklum ágætum og gróður á
afrétti með eindæmum mikill og
góður. Fé þykir enda koma vel af
fjalli þrátt fyrir að vera talsvert fyrr á
ferðinni en venja er til, í það minnsta
sum staðar. /fr
Smalað snemma vegna ill-
viðrisspár sem ekki rættist
Sigurður Páll Tryggvason bóndi á Þverá í Brúnagöngum með þreyttan
„sumrung“ á bakinu. Mynd / Atli Vigfússon
Sumrungurinn seig í
Það var heitt í veðri þegar farið
var í Brúnagöngur í Reykjaheiði
og sögðu bændur að göngurnar
hefðu verið erfiðar. Féð sótti í að
leggjast og leita í aðrar áttir í stað
þess að renna heimfúst niður í átt
að réttinni. Greinilega ekki á því
að veðrið væri að versna.
Sigurður Páll Tryggvason bóndi
á Þverá sagði að þetta hefðu verið
einhverjar þær erfiðustu göngur sem
hann hefði farið í. Í göngunum fannst
„sumrungur“ sem ekki gat fylgt
rekstrinum alveg til Skógaréttar og
tók Sigurður Páll á það ráð að bera
sumrunginn, sem líklega er fæddur
í byrjun ágúst. Þó að sumrungar séu
ekki þungir að hausti getur verið
fyrirhafnarsamt að halda á þeim mjög
lengi. Þessi seig í en Siggi Palli lét
ekki sitt eftir liggja og til Skógaréttar
kom hann lambinu sem auðvitað var
ómarkað, en glöggir menn fundu út
eigandann. /Atli Vigfússon
Sigurður Einar Þorkelsson í Höfða I, Grýtubakkahreppi. Hann er sonur Ástu Flosadóttur, skólastjóra Grenivíkurskóla
eftir réttir í Grýtubakkahreppi síðastliðinn laugardag. Mynd / Sigríður Björg Haraldsdóttir
Mynd / Aðalsteinn Á. Baldursson á Húsavík
Réttað var í Þverárrétt í
Eyjafjarðarsveit í úrhellisrigningu
30. ágúst, en komið var með
féð að réttinni skömmu fyrir
myrkur kvöldið áður. Ríflega
1.800 vetrarfóðraðar kindur eru
í þeim hluta sveitarinnar, gamla
Öngulsstaðahreppnum sem
Þverárrétt tilheyrir.
Orri Óttarsson fjallskilastjóri
segir að hluti þeirra, allt að 400
kindur, komi niður í aðrar réttir í
Eyjafjarðarsveit og eins sé algengt
að fé fari yfir í Fnjóskadal.
„Það gekk allt saman vel, við
vorum mun fyrr á ferðinni en áætlað
var, einum níu dögum, en fyrstu
göngur áttu að vera um aðra helgi.
Við líkt og aðrir Norðlendingar
fórum fyrr af stað vegna slæmrar
veðurspár og eiginlega þykir mér
kraftaverki líkast að tekist hafi að
fullmanna göngur á virkum degi með
tveggja daga fyrirvara,“ sagði Orri.
Fyrirhugað var að fara í fyrstu
göngur laugardaginn 7. september
næstkomandi. Vanalega er réttað í
Þverárrétt á sunnudegi og jafnan er
þar margt um manninn, en þar sem
réttardag bar upp á virkan dag og að
auki rigndi vel og duglega var hinn
almenni réttargestur víðsfjarri góðu
gamni að þessu sinni.
Orri segir að vel hafi smalast, en
féð var ekki heimfúst enda miklir
góðviðrisdagar meðan á göngum
stóð.
„Það gekk fremur hægt en hafðist
allt á endanum. Það háttar þannig
til hjá okkur að hér eru ótal litlir
þverdalir sem fara þarf inni í og það
er mjög tímafrekt. Það væsti ekki um
kindurnar og því hefur þeim eflaust
ekki þótt liggja mjög á að koma til
byggða,“ segir Orri.
Best þykir honum að fara í
göngur eftir að eitt kuldakast hefur
gengið yfir og eilítið gránað í fjöll,
féð er þá komið dálítið neðar og
nær byggð og ekki eins seinlegt og
raunin varð nú að smala því. „Miðað
við aðstæður myndi ég segja að vel
hafi smalast, en eitthvað af kindum
héðan af svæðinu mun skila sér í
aðrar réttir, það er vaninn.“
/MÞÞ
Réttað í úrhellisrigningu
í Þverárrétt
Smalað á Jórunnarstaðaafrétti í Fjörðum. Mynd / Björn Ingólfsson
Fagurbleikur regngallinn virðist hafa dugað vel.