Bændablaðið - 05.09.2013, Side 25

Bændablaðið - 05.09.2013, Side 25
25Bændablaðið | Fimmtudagur 5. september 2013 Ranka í Kotinu Þegar búið var að skoða íbúðina hjá Helgu, sem eina helst líkist listasafni, þá var kvatt og haldið sem leið lá að heimsækja systur hennar Ragnhildi sem býr í Gýgjarhólskoti, eða Rönku í Kotinu eins og hún kallar sig. Gýgjarhólskot er aðeins ofar í sveitinni og reyndar er þar farið úr Hrunamannahreppnum yfir Hvítá og yfir í Bláskógabyggð. Þar skortir ekki húmorinn Ragnhildur Magnúsdóttir er mikil hagleikskona en segir að hún hafi aldrei snert á því að tálga fyrr en á námskeiðinu hjá bróður sínum Guðmundi. „Þá vissu menn eiginlega ekki hvernig haga ætti námskeiðinu svo að við systurnar fórnuðum okkur í þetta.“ Námskeiðið hefur greinilega borið mikinn árangur því munirnir sem Ranka hefur tálgað út eru hreint með ólíkindum. Þá fékk hún m.a. viðurkenningu sem Handverksmaður ársins 2006 frá félaginu Handverki. Hún tálgar oft persónur og hefur stundum að fyrirmynd fólkið í sveitinni. Þá tálgar hún skemmti- legar myndir sem lýsa málsháttum og atburðum sem átt hafa sér stað m.a. við smölun. Út úr þessum myndum skín húmorinn í gegn sem gerir þær enn meira lifandi en ella. Ranka hefur komið sér upp vinnu- stofu í litlu húsi við Gýgjarhólskot sem er líka hagleiksverk í sjálfu sér. Það hús smíðaði Guðmundur bróðir hennar. Ranka hafði því miður ekki tíma til að fara í gegnum verk sína þar sem verið var að fara í jarðarför. Hún gat þó gefið blaðamanni smá innsýn í það sem hún hefur verið að fást við og með henni var sonarsonurinn Skírnir Eiríksson. Hann var að skera út og tálga myndarlega ketti. Án efa á nafn Skírnis eftir að heyrast í framtíðinni þegar minnst verður á hagleiksfjöl- skylduna á Suðurlandi. Systirin Anna málar af mikilli list Þriðja systirin, Anna Magnúsdóttir, býr í Bjarkarhlíð á Flúðum og er gift Helga Guðmundssyni. Hennar sérgrein er málverkið. Hún málar ekki aðeins á striga, heldur einnig á stein, tré og önnur efni. Þau hjón eru greinilega með græna fingur eins og kallað er og ber garðurinn við hús þeirra þess glöggt vitni. Fengu þau hjón t.d. viðurkenningu frá minningar sjóði Rögnu Sigurðardóttur frá Kjarri árið 2010 fyrir fallegan, vel skipulagðan og vel hirtan heimilisgarð í þéttbýli. Sagði Helgi að Anna væri eins og systkini hennar og gæti aldrei setið auðum höndum. Kreppan varð líka til góðs „Ég held að kóngaeðlið í okkur Íslendingum hafi gert það að verkum að í kreppunni spratt fólk upp til að gera ótrúlegustu hluti. Ég er viss um að einmitt út af þessum hremm- ingum verður til hellings afrakstur. Við svona áföll fara menn nefnilega að líta sér nær,“ sagði Helgi. Hann var þó sammála komumanni um að einstaklingseðlið geti verið tvíbent. Þar sem margir kóngar komi saman á sama blettinum og standi allir fast á sínu, geti stundum orðið vandræði. Sérstaklega þegar peninga- hyggjan væri með í spilinu. Listfengið býr í öllum Anna sagði vissulega gaman að vita af slíku listfengi í sinni fjölskyldu. „Ég held þó að slíkt búi í öllum. Það þar bara að ná því upp á yfir- borðið. Þegar ég var að byrja að mála hafði ég ekki mikla trú á sjálfri mér. Svo fór fólk að koma og vildi fá mynd og mynd og þá efldist sjálfstraustið. Æfingin skiptir líka miklu máli.“ Anna segir að þær systur hafi sóst talsvert í að læra aðferðafræðina við það sem þær voru að fást við. Því hafi þær m.a. sett upp einskonar skóla í bílskúrnum hjá henni fyrir nokkrar konur þar sem fengin var fagmenneskja til leiðsagnar. Í dag segist Anna alltaf hafa nóg að gera og sé með opna sýningu í skúrnum þegar hún er heimavið. „Það er ekki verra að geta selt eitthvað upp í kostnað og ég þarf ekki að kvarta yfir því.“ Flúðir – paradís á jörð Anna er vel í sveit sett á Flúðum að koma sinni list á framfæri. Þar fer um hlaðið aragrúi ferðamanna allt árið um kring og fer stöðugt vaxandi. Þá segir hún að veðurfarslega séu Flúðir paradís á jörð. „Við Helgi erum búin að búa allan okkar búskap hér á Flúðum og fluttum inn í þetta hús rétt fyrir jólin 1969. Ég þekki svo sem lítið annað, hér er gott samfélag og notalegt að búa. Mér finnst gott að vera hér í þessu litla landbúnaðarsamfélagi enda var maður alinn upp í nánum tengslum við náttúruna. Með bættum samgöngum og nýrri brú yfir Hvítá er maður svo ekki nema tíu mínútur að skreppa yfir í Reykholt.“ Tálgunarkunnáttan frá Guðmundi Anna segir að Guðmundur bróðir þeirra systra sé ekki síðri hagleiksmaður en þær. Þaðan sé kunnátta systra hennar í tálgun komin. Hann er húsasmiður og alltaf að vinna og segir Anna að sér finnist að hann gefi sér allt of lítinn tíma í að sinna listinni. Það lá því beinast við að skreppa yfir til Guðmundar, sem býr í næsta nágrenni við Önnu. Lærði tálgun í Svíþjóð Guðmundur Magnússon býr ásamt konu sinni Önnu Björk Matthíasdóttur í Steinahlíð á Flúðum. Tóku þau komufólki vel, en Guðmundur er mikill athafnamaður og ekki heiglum hent að hitta á hann heima við og allra síst verklausan. Hann sagðist hafa lært tálgun í Svíþjóð. Guðmundur var lengi smíðakennari á Flúðum. Veturinn 1997–98 fór hann til Svíþjóðar og Danmerkur í námsleyfi frá smíðakennarastarfinu í Flúðaskóla og kynnti sér ferskar viðarnytjar og tálgutækni. „Ég var mest á námskeiðum í Danmörku og var að koma af einu námskeiði í Grænlandi og átti pantað á öðru námskeiði í Svíþjóð. Þá var vika á milli námskeiðanna og velti ég fyrir mér hvað ég gæti gert á meðan. Því hringdi ég í skólann í Svíþjóð og var tjáð að þar væri að fara í gang vikunámskeið sem hét „Tálgað með hníf og exi“ og ég skellti mér á það. Mér fannst þetta spennandi. Þetta byggist mikið á tækni og að maður beri sig þannig að maður geti ekki skorið sig. Maður þarf að aga sig svolítið til að ná tökum á þessu til að byrja með, en þetta hefur gengið vel hjá fólki. Svo er það bara þannig að ef þú hlýðir ekki aðferðinni, þá refsar hnífurinn þér.“ Guðmundur segir mjög gott að tálga úr hráu birki. Ýmsar aðferðir séu síðan til við að þurrka það án þess að það springi og þar á meðal er að nota örbylgjuofn. Þó að sólarhringurinn sé sennilega oftast of stuttur fyrir Guðmund gefur hann sér þó einstaka sinnum tíma til að tálga. Afraksturinn af því gat m.a. að líta á trésmíðaverkstæðinu við heimili hans. Í samstarfi með Ólafi Oddssyni Segir Guðmundur að Ólafur Oddsson frá Hálsi í Kjós hafi mikið verið með honum í námskeiðahaldinu. Þeir kynntust á skógardeginum í Haukadalsskógi og hófu upp úr því samstarf um námskeiðin Lesið í skóginn – tálgað í tré. Byrjað var með tveggja daga námskeið sem Skógrækt ríkisins stóð fyrir í Haukadalsskógi í janúar 1999. Þátttakendur voru 15 manns úr uppsveitum Árnessýslu. Ólafur hélt utan um dagskrá og sá um skógarhlutann í námskeiðinu en mestur tími fór í ferskar viðarnytjar og tálgun. Guðmundur hóf að kenna tálgutækni í smíðakennslu Flúðaskóla haustið 1998 og var því kominn með nokkra reynslu þegar námskeiðið var haldið. Í framhaldinu hefur Guðmundur komið að fjölda námskeiða og verkefna sem tengjast skógrækt og skógarnytjum víða um land. Má þar nefna Hallormsstað, Hrafnagil í Eyjafirði, Reykjavík og Flúðir. „Fyrir utan námskeiðin Lesið í skóginn með skólum, sem nú eru í gangi um allt land, er ég búinn að vera með um 90 námskeið.“ Hafsjór af fróðleik Guðmundur er hafsjór fróðleiks um tré og mismunandi eiginleika trjá tegunda. Hann bendir m.a. á að grisjunarviður sem nú fæst úr íslenskum skóg, sérstaklega lerki, sé tilvalinn til að nýta í tréskífur sem síðan megi nota í vegg- og þess vegna þakklæðningar. Segir hann mikinn misskilning að tréskífur séu lélegt efni til utanhússklæðningar á Íslandi. Því sé það sóun á góðu efni að selja þetta allt sem brennsluefni fyrir málmblendiverksmiðjuna á Grundartanga. „Ég er sjóðandi illur að við skulum brenna allan þennan grisjunarvið.“ Guðmundur á sjálfur vél til að framleiða slíkar tréskífur og segir hann galdurinn ekki síst liggja í því að hafa skífurnar ekki of þykkar. Það komi í veg fyrir að sveppagróður nái að dafna í viðnum og valda því að hann fúni. Benti hann á dæmi um þakskífur úr tré á Íslandi sem hefðu verið á annað hundrað ára. Þær væru enn heilar og hefðu bara verið teknar niður vegna þess að naglarnir ryðguðu í burtu. Fúinn myndaðist einfaldlega ef loftun skorti á viðnum, það væri t.d. ástæða fyrir saggamyndun og sveppagróðri í nýlegum húsum sem mikið hefði verið fjallað um í fréttum m.a. á Austurlandi. Ekki alltaf í sama farinu og aðrir Guðmundur var líka einn af frumkvöðlum stofnunar fyrirtækisins Límtrés á Flúðum árið 1982. Vélbúnaður var keyptur úr verksmiðju sem var hætt starfsemi í Danmörku. Samdi Guðmundur þá við danskan framleiðslustjóra þeirrar verksmiðju að hjálpa við að koma starfseminni í gang á Flúðum. Framleiðsla hófst síðan fyrir 30 árum, 18. júní 1983. Eftir sameingar og uppstokkun á félaginu sem þá hét Límtré Vírnet ehf. og í kjölfar gjaldþrots BM Vallár sem var orðið eigandi fyrirtækisins, yfirtóku Hömlur ehf. eignarhaldsfélag Landsbankansfélagið félagið. Það var síðan selt aftur nýjum eigendum að hluta árið 2010 og er Guðmundur nú í hópi fjölmargra hluthafa. Þar nýtur hann sín m.a. við þróun nýrra byggingaaðferða. „Maður er alltaf að leita að einhverju til að vera ekki í alveg sama farinu,“ segir Guðmundur. /HKr.Guðmundur Magnússon er smiður og fyrrverandi kennari og á heiðurinn af því að hafa kennt systrum sínum að tálga. Ragnheiður, eða Ranka í Kotinu eins og hún kallar sig, hefur ekki slegið slöku við eftir að bróðir hennar kenndi henni réttu handtökin við að tálga. Skírni Eiríkssyni, sonarsyni Ragnheiðar, gengur vel að læra handbrögðin við tálgunina hjá ömmu sinni. Það er mikill húmor í verkunum hjá Ragnheiði og skemmtilegar sögur á bak við hlutina eins og þennan gangnamann sem sofnaði út frá bokkunni.

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.