Bændablaðið - 05.09.2013, Qupperneq 32
32 Bændablaðið | Fimmtudagur 5. september 2013
Fróðleiksbásinn
Vilmundur Hansen garðyrkjufræðingur
Hér er þráðurinn tekin upp þar
sem frá var horfið í síðasta blaði
og haldið áfram að fjalla um
ættkvíslir barrtrjáa og tegundir
innan þeirra sem hafa reynst vel
hér á landi eða lofa góðu.
Fura (Pinus)
Ættkvísl sem telur ríflega 100 teg-
undir sem vaxa á öllu norðurhveli,
niður með vesturströnd Norður-
Ameríku, allt að Panamaskurði
og austurströnd Kína, til Malasíu
og í Himalaja-fjöllum. Hávaxin
tré eða runnar og margar tegundir
með djúpa stólparót og þola því illa
flutning eftir að þær hafa komið
sér fyrir. Langlífar plöntur og er
P. longaeva, sem vex í Colorado í
Norður-Ameríku, líklega með elstu
lífverum jarðar tæplega 5.000 ára.
Margar furur dafna vel hér á landi,
bæði sem skógar- og garðplöntur.
Furur eru að mestu lausar við
sjúkdóma og meindýr. Furulús leggst
eingöngu á tveggja nála furur og
lýsir sér sem litlir hvítir vaxhnoðrar
á berkinum. Greinaþurrksveppur
veldur því að barrið verður brúnt
og barrfestan visnar.
Bergfura (P. uncinata). Ýmsir
telja hana undirtegund fjallafuru
og að hún eigi að vera P. mugo
uncinata. Upprunnin í fjöllum
Pýreneaskagans í Suðvestur-
Evrópu. Einstofna tré sem getur
náð 25 metra hæð. Börkurinn
grófur og gráleitur. Krónan breið
og ávöl. Greinarnar langar, sverar
og uppsveigðar á endunum. Tveggja
nála. Barrið dökk- eða grágrænt,
breitt, þéttstætt og fínsagtennt.
Könglarnir dökkbrúnir og glansandi,
egg- eða keilulaga. Myndar frjó fræ
hérlendis. Harðgert tré sem dafnar
í margs konar jarðvegi en kýs hann
sendinn og meðalþurran. Vindþolin
og sólelsk tegund.
Broddfura (P. aristata). Heimkynni
í Norður-Ameríku, hátt til fjalla í
Colorado, Nýju-Mexíkó og Arizona.
Einstofna tré sem nær um 25 metra
hæð. Börkurinn rauðbrúnn og
grófur. Greinarnar þéttstæðar með
fáum hliðargreinum og uppsveigðar.
Fimm nála. Barrið þétt, hart við-
komu og með áberandi hvítum har-
pix-ögnum. Könglar bláleitir, stilk-
lausir og egglaga. Sólelsk en þolir
hálfskugga. Þrífst best í sendnum
og sæmilega frjósömum jarðvegi.
Nokkuð saltþolin og brennur sjaldan
í vorsól.
Fjallafura (P. mugo). Vex villt hátt
til fjalla í Mið- og Suður-Evrópu.
Breytileg í vextinum en yfirleitt
margstofna runni sem getur orðið
6 metrar á hæð og 300 ára. Stofninn
dökkgrár eða grábrúnn. Greinarnar
hlykkjóttar og uppsveigðar. Tveggja
nála. Barrið sveigt eða snúið, krans-
stætt, stinnt og oddmjótt. Könglar
egglaga. Gerir ekki miklar kröfur
til jarðvegs en dafnar best í þurrum
og frjósömum jarðvegi.
Dvergfura (P. mugo var pumilio).
Jarðlægt afbrigði. Til að halda
dvergfuru þéttri og fallegri er gott
að klípa helminginn af ársprotanum
eftir að hann er fullsprottinn en áður
er barrið fer að vaxa út frá honum.
Klettafura (P. albicaulis).
Upprunnin á vesturströnd Norður-
Ameríku og nær þar allt að 30
metra hæð og yfir 1.000 ára aldri.
Oft margstofna með brúnan börk
sem flagnar með aldrinum. Greinar
útstæðar. Fimm nála. Barrið dökk-
grænt. Könglar egg- eða hnattlaga.
Þrífst ágætlega í rýrum og grýttum
jarðvegi. Fræ klettafuru eru stór, án
vængja og sæt á bragðið.
Lindifura (P. sibirica). Mikil
útbreiðsla frá Úralfjöllum til
Síberíu, Lapplands og Norður-
Asíu. Nær 40 metra hæð og 500
ára aldri. Stofninn mjúkur og grá-
grænn í fyrstu en verður gráleitur
og langsprunginn með aldrinum.
Beinvaxinn með keilu- eða súlu-
laga krónu. Greinarnar kransstæðar,
láréttar, stuttar og með margar smá-
greinar. Fimm nála. Barrið þrístrent,
dökkgrænt á einni hlið en ljóst á
tveimur, stinnt og fíntennt. Myndar
ekki köngla fyrr en á 60. til 80.
aldursári og það tekur þá þrjú ár að
þroskast. Hefur myndað frjó fræ hér.
Fallegt tré í stórum garði þar sem
það fær nóg pláss. Sólelskt en þrífst
ágætlega í hálfskugga. Þrífst best í
rakaheldum og frjósömum jarðvegi.
Sembrafura (P. cembra). Evrópsk
tegund sem vex villt í Alpa- og
Karpata-fjöllum. Krækluvaxinn
smárunni við gróðurmörk en getur
náð 25 metra hæð. Börkurinn grá-
leitur og sléttur í fyrstu en verður
grábrúnn og hrjúfur með aldrinum.
Greinar gulbrúnar en dökkna. Fimm
nála. Barrið beint og stinnt og fellur
af á 3. til 6. ári. Könglar egglaga.
Fræin stór og vel æt. Skugga- og
vindþolin.
Skógarfura (P. sylvestris). Tegund
með mikla útbreiðslu um stóran
hluta Evrasíu. Getur orðið 40 metra
há og 600 ára. Vöxturinn marg-
breytilegur, stofninn yfirleitt bein-
vaxinn og grannur en getur einnig
verið kræklóttur og boginn. Krónan
aflöng og hvelfd en breytileg eftir
vaxtarstað. Börkurinn grárauður
eða rauðbrúnn. Greinarnar krans-
stæðar í fyrstu en síðan óreglulegar.
Tveggja nála. Barrið ljós- eða grá-
grænt, sagtennt og hvassydd. Gulnar
yfir veturinn og endist á trjánum
í 2 til 3 ár. Könglarnir stakir eða
2 til 3 saman hangandi á stuttum
stilkum. Gulbrúnir eða grámattir
og egg- eða keilulaga. Harðgerð
tegund sem dafnar vel, hvort sem
er í djúpum og lausum eða grunnum
og sendnum jarðvegi. Sólelsk og
þrífst illa í skugga.
Fundist hafa steingervingar í
Breiðavíkurlögunum á Tjörnesi sem
sýna að skógarfura hefur vaxið á
Íslandi á seinni hluta tertíer-tíma-
bilsins.
Stafafura (P. contorta). Heimkynni
í Norður-Ameríku þar sem plantan
nær 40 metra hæð og 600 ára aldri.
Uppmjó með keilulaga krónu.
Börkurinn rauð- eða gulbrúnn.
Tveggja nála. Barrið dökk- eða gul-
grænt, útstætt, þétt, undið og hvasst
í oddinn. Endist á trénu í 2 til 5 ár.
Könglar egglaga og eru á trénu í
2 til 3 ár. Harðgerð og nægjusöm
tegund sem hefur reynst vel hér.
Þrífst best í frjósömum jarðvegi og
sól en þolir hálfskugga. Vinsælt og
barrheldið jólatré.
Sveigfura (P. flexilis). Upprunnin
í fjalllendi í vestanverðri Norður-
Ameríku. Nær 25 metra hæð og
mörg hundruð ára aldri. Stofninn
beinn eða kræklóttur eftir vaxtar-
skilyrðum. Krónan keilulaga í
fyrstu en flatvaxin með tímanum.
Börkurinn sléttur og ljósgrár í fyrstu
en verður síðar svarbrúnn og hrjúf-
ur. Greinarnar stuttar og sveigjan-
legar, uppbrettar til endanna. Fimm
nála. Barrið dökkgrænt, þétt og
hvassydd, beint eða eilítið sveigt.
Könglar langir og breiðir, egglaga,
grænir í fyrstu eða verða brúnir við
þroska. Nægjusöm og þolir hálf-
skugga en þrífst best í sól, rökum
og leirblendnum jarðvegi. Vind- og
þokkalega sandþolin.
Barrið gefur græna og rauða tóna
sé það notað til litunar. Fræin þykja
bragðgóð og nýttu indíánar það í
súpur og til brauðgerðar.
Lerki (Larix)
Ættkvísl með 10 tegundum á
norðurhveli, í Síberíu, til fjalla
í norðvestan- og norðaustan-
verðri Norður-Ameríku, Alpa- og
Himalajafjöllum. Stofninn grannur
og greinarnar óreglulegar. Barrið
mjúkt og ólíkt flestum barrviðum
fellir lerki barrið á haustin. Flestar
tegundir eru sólelskar og dafna vel
í sendnum jarðvegi en þola illa
sjávarloft.
Helstu skaðvaldar á lerki eru
sveppir. Lerkiáta leggst á leiðsluvef
barkarins þannig að greinar eða tré
fölna og drepast. Lerkibarrfellir
veldur því að endar barrsins visna
svo það verður brúnt og fellur af
að lokum. Barrviðaráta veldur því
að einstakar greinar visna á miðju
sumri en í öðrum tilfellum leggst
sveppurinn á stofn trésins og drepur
þann hluta þess sem er fyrir ofan
sýkinguna.
Dáríulerki (L. gmelini). Uppruni
í austanverðri Síberíu þar sem það
nær 35 metra hæð. Stofninn beinn
eða kræklóttur. Börkurinn grábrúnn
eða grár með rauðum tóni, verður
hrjúfur með aldrinum. Barrið ljós-
grænt en gulnar á haustin. Könglar
egglaga. Hefur reynst misjafnlega.
Evrópulerki (L. decidua).
Heimkynni til fjalla í Mið-Evrópu
þar sem það nær 45 metra hæð og
700 ára aldri. Börkurinn rauðbrúnn
eða ljósgrár og hrjúfur viðkomu.
Barrið ljósgrænt og flatt, 30 til 40
saman í knippi, og gulnar á haustin.
Könglar ljósbrúnir og egglaga.
Fallegt garðtré í stórum görðum.
Þrífst best á sólríkum stað og í
sendnum eða meðalrökum jarðvegi.
Grasafræðingar skipta
Evrópulerki í tvær deildir sem síðan
er skipt í nokkur afbrigði.
Fjallalerki (L. lyalli). Upprunnið í
Klettafjöllum Norður-Ameríku þar
sem það nær tæplega 30 metra hæð
og allt að 1.200 ára aldri. Krónan
mjó og greinarnar láréttar og óreglu-
legar á stofninum. Börkurinn sléttur
og grár í fyrstu en verður brúnn og
hrjúfur með aldrinum. Barrið blá-
grænt og stinnt, 30 til 40 í knippi.
Verður gulllitað á haustin og er kall-
að gulllerki í heimkynnum sínum.
Könglar egglaga, dökkfjólubrúnir
og með áberandi broddum. Þrífst
ágætlega hér en er hægvaxta.
Japanslerki (L. kaempferi).
Vex villt í fjalllendi í Norður-
Japan og nær ríflega 30 metra hæð.
Stofninn beinvaxinn og krónan
breið. Börkurinn grár með rauðum
tóni, verður grófur og hrjúfur með
tímanum. Greinarnar láréttar en
uppsveigðar í endann. Barrið grá-
grænt, 20 til 35 í knippi. Könglar
breiðir og egglaga, fjólubláir í
fyrstu en verða brúnir þegar þeir
þroskast. Sólelskt tré og dafnar
best í léttum og þurrum jarðvegi.
Sjaldgæft hér og lítið reynt.
Í Japan er vinsælt að búa til
bonsai-tré úr Japanslerki og er
tréð stundum kallað peningalerki
þar í landi.
Mýralerki (L. laricina).
Heimkynni í mýrlendi Norður-
Ameríku, frá Labrador til Alaska.
Einstofna og nær 35 metra hæð
og 300 ára aldri. Börkurinn silfur-
grár en dökknar og flagnar með
aldrinum. Ræturnar liggja grunnt.
Greinarnar stuttar og láréttar út frá
stofninum. Barrið fölblágrænt og
fíntennt, 12 til 30 saman í knippi.
Könglar litlir og egglaga, uppréttir
á stuttum stilk. Dafnar best inn til
landsins, sólelskt og kýs rakan
jarðveg.
Indíánar smíðuðu snjóþrúgur
úr greinunum en örvar og kanóa
úr viðnum. Ræturnar voru not-
aðar í vefnað. Úr berkinum var
gert smyrsli sem borið var á kal,
brunasár og gyllinæð. Smyrslið
þótti einnig gott gegn þunglyndi.
Barrið notuðu þeir í dýnur, kodda
og yfirbreiðslur.
Sifjalerki (L. × marchinsii).
Kynblendingur milli Evrópu- og
Japanslerkis sem uppgötvaðist í
Skotlandi árið 1910. Hefur náð
tæplega 50 metra hæð og 800 ára
aldri. Beinvaxið tré sem sýnir ein-
kenni beggja foreldra en vex hraðar
en þeir. Dafnar ágætlega hér en er
krækluvaxið.
Síberíulerki (L. sibirica). Uppruni
í Síberíu og Rússlandi austan
Úralfjalla, þar sem það þrífst jafn-
vel í sífrera, og nær 45 metra hæð.
Krónan keilulaga og ljós yfirlitum.
Börkurinn rauðbrúnn og hrjúfur.
Greinarnar langar og útréttar.
Barrið áberandi mjúkt, 15 til 30 í
knippi, og gulnar á haustin. Könglar
stilkstuttir og egglaga. Harðgerð og
fljótvaxin tegund sem hefur náð
tæplega 20 metra hæð hér. Fallegt
tré í stórum görðum þar sem það
fær að njóta sín. Sólelskt og þolir
illa sjávarloft. Gerir ekki miklar
kröfur en dafnar best í sendnum
og kalkríkum jarðvegi, pH 5,5 til
6,0, og í sambýli við rótarsvepp
sem kallast lerkisúlungur (Suillus
grevillei). Þolir vel klippingu.
Innfæddir í Síberíu þurrkuðu
og muldu börk Síberíulerkis og
blönduðu honum saman við deig til
að fá í það lyftingu. Í Rússlandi eru
framleiddir hanskar úr lerkiberki
sem þykja mýkri en mýkstu leður-
hanskar.
Rússalerki (L. sukaczewi).
Heimkynni í Rússlandi vestan
Úralfjalla. Líkist Síberíulerki og
telja margir grasafræðingar að um
sömu tegund sé að ræða. Könglar
og fræ Rússalerkis eru stærri en
Síberíulerkis en börkur þess síðar-
nefnda er mun grófari á gömlum
trjám. Dafnar við sömu skilyrði og
Síberíulerki hér á landi.
Garðyrkja & ræktun
Grænt í garðinum allt árið Barrtré – annar hluti
Skógarfura er með mikla útbreiðslu um stóran hluta Evrasíu. Getur orðið
40 metra há og 600 ára.
Síberíulerki.