Bændablaðið - 07.03.2013, Blaðsíða 28

Bændablaðið - 07.03.2013, Blaðsíða 28
28 | búnaðarþing 2013 BLAÐAUKI BÆNDABLAÐSINS 7. MARS 2013 Landbúnaðarverðlaunin 2013 voru veitt við setningu búnaðar- þings síðastliðinn sunnudag. Að þessu sinni hlutu bændurnir í Laxárdal II og handverkshópur- inn Handverkskonur milli heiða verðlaunin, sem Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvega- og nýsköp- unarráðherra veitti. Í Laxárdal II búa hjónin María Guðný Guðnadóttir og Hörður Harðarson félagsbúi ásamt syni sínum Björgvini Þór og tengda- dótturinni Petrínu Þórunni Jónsdóttur auk barna þeirra. Í Laxárdal er rekið stórt svínabú sem hefur þá sérstöðu að stór hluti fóðurs er heimafenginn. Um 75 prósent af öllu fóðri sem svínin í Laxárdal fá eru ræktuð í Gunnarsholt þar sem Laxárdalsbændur leigja um 300 hektara lands undir kornrækt, einkum bygg. Bændur í Laxárdal hljóta Landbúnaðarverðlaunin fyrir myndarskap, dugnað, framsýni og nýsköpun í íslenskum landbúnaði. Handverkskonur milli heiða eru félagsskapur sem stofnaður var í mars 1992 af konum í Bárðardal, Ljósavatnshreppi og af bæjum í Reykdælahreppi vestan Fljótsheiðar. Strax í næsta mánuði bættust konur í Hálshreppi við og þá varð til nafnið á félaginu; Handverkskonur milli heiða. Tildrögin að þessum félags- skap má rekja til þess að eftirspurn var eftir minjagripum – vörum úr heimabyggð, ekta íslenska minja- gripum og öðru handverki. Það varð úr að nokkrar konur tóku sig saman um að láta reyna á það hvort vilji væri fyrir því að stofna félagsskap til að vinna að íslensku handverki og selja það við Goðafoss. Nú er félags- svæðið öll Þingeyjarsveit. Árið 1993 stofnuðu Handverks- konur milli heiða hlutafélagið Goðafossmarkað ehf. sem annast sölu á vörum handverkskvenna og fleira fólks úr héraði. Hlutafélagið er að stærstum hluta í eigu félags- kvenna. Nú 21 ári síðar eru Handverks- konur milli heiða enn að auka og bæta framleiðsluna. Fjölbreytnin vex og verslunin er vinsæll áningar- staður ferðamanna vegna þeirra fjölbreyttu og fallegu vöru sem fæst á Goðafoss markaði. Handverks- konur hljóta Landbúnaðar verðlaunin fyrir dugmikið starf við útbreiðslu íslensks handverks og atvinnuþróun í dreifbýli. /fr Landbúnaðarverðlaunin 2013: Laxárdalur II og Handverkskonur milli heiða verðlaunaðar Steingrímur J. Sigfússon, atvinnumála- og nýsköpunarráðherra, ásamt handhöfum Landbúnaðarverðlauna 2013. Óveðrið norðanlands: Björgunarsveitum þakkað fyrir aðstoð Við setningu Búnaðarþings 2013 var Slysavarnarfélaginu Landsbjörg veittur fimm millj- óna króna styrkur sem þökk fyrir ómetanlega aðstoð í hamfara- veðrinu sem gekk yfir Norðurland síðast liðið haust. Peningarnir eru hluti afraksturs söfnunarinnar Gengið til góðs sem hrint var af stað eftir óveðrið en þar var fjármunum safnað til að bæta bændum tjón sem þeir urðu fyrir á fé sínu. Talið er að um 10.000 fjár hafi farist í veðurhamnum. Gríðarlegur fjöldi fólks, bænda og annarra lagði þá nótt við dag við björgunarstörf. Seint verður hlutur björgunar- sveitanna þakkaður nógsamlega við þau störf en félagar þeirra lögðu á sig gríðarlega mikla vinnu við að aðstoða bændur. Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og formaður starfshóps söfnunarinnar, og Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, veittu fulltrúum Landsbjargar ávísun sem þökk fyrir þeirra ómetanlega framlag til björgunarstarfanna. /fr Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og formaður starfs hóps söfnunarinnar, og Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka sauðfjár- bænda, veittu fulltrúum Landsbjargar ávísun sem þökk fyrir ómetanlegt framlag þeirra til björgunarstarfanna. Mynd / HKr. Búnaðarþing samþykkti að beina því til Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins að efla ráðgjöf við ábúendaskipti á bújörðum. Við ábúendaskipti á bújörðum þarf að formfesta ýmsa þætti, hvort sem um er að ræða kaup eða sölu, leigu, lán, eða blandaðar leiðir. Þegar ábúendaskipti eiga sér stað getur öflug ráðgjöf án efa skilið milli þess hvort ferlið gengur upp eða ekki, segir meðal annars í greinargerð með ályktuninni. Ítrekað hefur verið fjallað um ýmis vandkvæði við nýliðun og ábúendaskipti í landbúnaði. Ljóst er að eitt stærsta vandamálið í þeim efnum er sá mikli kostnaður sem nýliðar þurfa að leggja út í við upphaf búskapar. Í ályktun Búnaðarþings nú felast ekki leiðir til að draga úr þeim kostnaði heldur að nýta þá þekkingu á mismunandi leiðum sem til staðar er. Með því mætti auðvelda ábúenda- skipti en þó er ljóst að eftir sem áður verður kostnaðurinn þyngsta þrautin. Í ályktuninni kemur fram að draga skuli saman þekkingu ráðunauta, og eftir atvikum lögfræðinga, er varðar mismunandi fyrirkomulag við ábú- endaskipti. Skilgreina þurfi kosti og galla mismunandi rekstrarforma, leigusamninga og annarra samninga. /fr Efla á ráðgjöf við ábúendaskipti Fimm stjórnarmenn Bænda- samtaka Íslands viku úr stjórn nú á Búnaðarþingi 2013. Fjórir þeirra höfðu setið samfleytt í níu ár en sá fimmti í þrjú ár. Því varð mikil endurnýjun í stjórn eins og getið er annars staðar í blaðinu. Áður en kosningar til stjórnar fóru fram voru stjórnarmönnunum fráfarandi veittar þakkir fyrir störf þeirra í þágu bænda. Áður höfðu Haraldi Benediktssyni, fráfarandi formanni, verið færðar þakkir fyrir sín störf. Sveinn Ingvarsson í Reykjahlíð, varaformaður, þakkaði fyrir þann stuðning sem hann hefði átt hjá bændum síðustu níu ár sem stjórnarmaður. Hann gerði að umtalsefni að að sú stjórn sem mynduð var fyrir níu árum, við formannskjör Haraldar, hefði að sumu leyti verið mynduð við erfiðar kringumstæður. Nokkur átök voru um stjórnarmenn þá og var farin sáttaleið til að setja niður deilur. Þrátt fyrir þetta sagði Sveinn að mikil eindrægni hefði alla tíð einkennt starf stjórnanna þessi níu ár og raunar hefði ekki nema einu sinni komið til þess að greidd væru atkvæði innan stjórnarinnar. Sveinn sagðist ganga þakklátur og ánægður frá borði en þó vissulega með söknuði. Jóhannes Sigfússon á Gunnars- stöðum þakkaði sömuleiðis fyrir samstarf síðustu ára. Hann nefndi að það væri ekki sjálfgefið að þeir sem byggju langt frá vettvangi, eins og í hans tilfelli, ættu þess kost að taka þátt í félagsstarfi af þessu tagi þar sem meginþungi starfsins færi fram í Reykjavík. Jóhannes sagði hins vegar að hann hefði aldrei þurft að líða fyrir búsetu sína og það væri afar mikils virði. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að allir gætu tekið þátt óháð búsetu og hvatti Bændasamtökin til þess að halda áfram á sömu braut hvað það varðar. Sigurbjartur Pálsson í Skarði kvaddi eftir átján ára veru á búnaðar- þingi. Sigurbjartur tók fyrst sæti árið 1995 eftir sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í Bændasamtök Íslands. Hann sagði að það væri söknuður að því að hverfa nú frá, eftir níu ára stjórnarsetu, en tíminn hefði verið góður og gefandi. Hann nefndi raunar að oft hefði hann kosið að vinna að öðrum verkefnum en hefðu komið í fangið á stjórn á þessum tíma og vísaði þar til þeirrar miklu vinnu sem fylgt hefði aðildar- umsókninni að Evrópusambandinu. Árni Brynjólfsson á Vöðlum sagði að stjórnarseta síðustu þriggja ára hefði verið sér afar góð og mikil reynsla. Hann tók undir með Jóhannesi hvað varðaði mikilvægi þess að allir hefðu kost á að sinna störfum sem þessum óháð búsetu. Þrátt fyrir að hann hefði aldrei fundið fyrir öðru en því að hliðrað væri til eftir fremsta megni vegna þess hversu langt væri fyrir hann að sækja fundi væri því ekki að leyna að fjarlægðin frá höfuðstöðvunum í Reykjavík væri stærsta ástæðan fyrir því að hann hefði ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu né setu á búnaðarþingi. Lífið væri of stutt fyrir allar þær bílferðir sem starfið krefðist. /fr Fráfarandi stjórnarmenn BÍ talið frá vinstri: Jóhannes Sigfússon á Gunnarsstöðum, Sigurbjartur Pálsson í Skarði, Sveinn Ingvarsson í Reykjahlíð og Árni Brynjólfsson á Vöðlum. Mynd / HKr. Stjórnarmenn kvöddu með söknuðiFrá setningu búnaðarþings

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.