Bændablaðið - 14.11.2013, Blaðsíða 16

Bændablaðið - 14.11.2013, Blaðsíða 16
16 Bændablaðið | Fimmtudagur 14. nóvember 2013 Formaður Landssambands kúabænda segir að marka verði framtíðarstefnu fyrir greinina: Verð á greiðslumarki hefur hækkað um 40 krónur á lítra – markmið með tilboðsmarkaði með greiðslumark mjólkur um lækkun á verði hefur ekki náðst Verð á greiðslumarki mjólkur hefur hækkað um 14 prósent eða um 40 krónur á lítra frá því að hinn svonefndi kvótamarkaður var settur á fót fyrir tæpum þremur árum. Tilboðsmarkaður með greiðslumark mjólkur var í fyrsta sinn haldinn 1. desember 2010 eftir að lokað var á bein viðskipti með greiðslumark í maí sama ár. Markaðurinn var settur á að ósk Landssambands kúabænda og eitt meginmarkmiðið með honum átti að vera að lækka verð á mjólkurkvóta. Jafnvægisverð greiðslumarks sem náðist á fyrsta kvótamarkaðnum reyndist vera 280 krónur. Nú, tæpum þremur árum seinna, er verðið 320 krónur á lítra og því ljóst að markmiðið með markaðnum hefur ekki náðst. 1. nóvember síðastliðinn fór fram tilboðsmarkaður með greiðslu- mark mjólkur. Þar kom fram jafnvægisverð, 320 krónur fyrir hvern lítra mjólkur, sem er sama verð og á síðasta markaði í apríl síðastliðnum. Greiðslumark sem viðskipti náðu til voru tæplega 875.000 lítrar. Framboð var umtalsvert meira nú en á síðasta markaði en nú var boðið til sölu greiðslumark sem uppá tæpa 1.035.000 lítra. Það er aukning um 45 prósent frá síðasta markaði. Að sama skapi dró verulega úr eftirspurn og var hún einungis tæp 41 prósent af því sem óskað var eftir á síðasta markaði. Árið 2005 fór verð á greiðslumarki hæst í rúmar 400 krónur en hafði lækkað og var nálægt 300 krónum árin áður en tilboðs markaðurinn var settur á laggirnar. Eins og áður segir lækkaði verð á fyrsta tilboðs- markaðnum í desember 2010 niður í 280 krónur en hefur stigið jafnt og þétt síðan. Hátt verð kemur á óvart Í lok september síðastliðnum ákváðu afurðastöðvar í mjólkur iðnaði að greiða bændum fullt afurðastöðvar- verð fyrir alla umframmjólk síðustu þrjá mánuði þessa árs. Var þetta gert vegna gríðarlegrara söluaukningar í ýmsum vöruflokkum, einkum þeim sem unnir eru úr fituhluta mjólkur, svo sem smjöri og rjóma. Því kom það ýmsum á óvart að svo hátt verð væri boðið í greiðslumark á síðasta uppboðsmarkaði. Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda (LK), segir að hann hafi fastlega átt von á að verðið myndi lækka. „Mér fannst í raun alveg eins líklegt að ekki yrðu viðskipti á þessum markaði. Við höfðum meðal annars fjallað um það á haustfundum LK að það væru tæplega tilefni til þess fyrir bændur að kaupa kvóta háu verði núna. Það væri full ástæða til þess að doka við og sjá til hvað gerðist fram eftir næsta ári og taka þá frekar skrefið á næsta kvótamarkaði í apríl ef tilhneigingin sem við höfum verið að sjá í markaðsmálum og framleiðslu myndi breytast eitthvað. Ég skil sjónarmið seljenda fullkomlega, þeir eru að sækjast eftir því að selja á sem bestu verði en ég varð vissulega hissa á því hversu hátt verð kaupendur voru tilbúnir að greiða.“ Eftirspurn dregist saman – Rúmir milljón lítrar voru boðnir til sölu, sem er aukning frá síðasta markaði um 45 prósent. Eftirspurnin dregst hins vegar talsvert saman. Er skýringin á þeim samdrætti sú að bændur eru að bíða vegna þessara ástæðna sem við nefnum hér að ofan? „Ég hugsa að það sé nú þannig. Ég dreg þá ályktun að það sé talsverður hópur sem hefur ákveðið að doka við. Svo er annað að það er hefur verið nokkur samdráttur í framleiðslunni sem getur valdið því að dregur úr eftirspurnarþrýstingnum. Framboðið er hins vegar meira eins og þú segir og það er þróun sem við áttum von á. Ég var búinn að heyra um slíkt utan af mér. Það hefur verið fremur lítil sala á greiðslumarki frá hruni og þegar horft er til lengri tíma tilhneigingar þá fannst mér að það hlyti að koma að því að losnaði um. Nú er búið að vinna talsvert mikið í skuldamálum bænda og því þótti mér ekki ólíklegt að meira framboð yrði nú.“ – Hefur þú áhyggjur af því að meira framboð sé núna vegna þess að bændur séu að selja kvóta vegna skulda eða telur þú að aðrar ástæður séu að baki? „Ég er nokkuð viss um að það eru margar ástæður þar að baki. Bændur hafa í gegnum tíðina selt af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna fjárhagsástæðna og það gerðist líka fyrir efnahagshrunið.“ Mjólk vantar „Svo virðist sem einhver hópur bænda telji að virði kvótans þetta mikið. Sjálfur er ég ekki endilega sannfærður um að svo sé á þessum tímapunkti. Sértu að kaupa greiðslumark hlýtur þú að velta fyrir þér ýmsum þáttum, meðal annars áhrifum á sjóðstreymi til skemmri tíma og eins langtímaáhrifum. Það er ekki sjálfgefið að það fyrirkomulag sem við búum við varðandi starfsumhverfi greinarinnar muni verða óbreytt á komandi árum. Við höfum búið við tiltölulega lítt breytt kerfi undanfarna þrjá áratugi, þó með örlitlum tilfæringum, en ekki eðlisbreytingum. Þetta er kerfi sem í grunninn er hugsað til að tryggja bændum lágmarksverð og þar með að verja afkomu framleiðenda. Í aðstæðum sem þessum þegar vaxandi eftirspurn er eftir mjólk þarf hugsanlega ekki lengur að vera sama bremsa á framleiðslu og verið hefur. Við höfum að vísu séð nokkra tilhneigingu síðustu tvær vikur til aukinnar framleiðslu og ég vona að það þýði að við séum búin að snúa þeirra þróun við, að minnst kosti að sinni,“ segir Sigurður um ástæður þess að verð á greiðslumarki hafi haldist jafn hátt og raun ber vitni nú. Kúm fækkar – En nautgripum hefur verið að fækka í landinu. Hlýtur ekki að taka tíma að auka framleiðslu á nýjan leik? „Jú, gripum hefur verið að fækka jafnt og þétt. Ef við horfum tuttugu ár aftur í tímann hefur kúm fækkað nálægt um eitt prósent á ári. Mig minnir að hér hafi verið 34.000 kýr þegar Landssamband kúabænda var stofnað 1986 en núna eru þær um 24.000. Auðvitað hefur framleiðsla eftir hverja árskú aukist með kynbótum, bættum aðbúnaði en fyrst og fremst bættri fóðrun. Ef við hins vegar náum ekki vexti í fjölda kúa á næstunni, þá munum við að öllum líkindum ekki ná að sinna markaðnum á næstu árum, haldi hann áfram að vaxa eins og verið hefur undanfarin ár. Það á sérstaklega við um fituhluta mjólkur en eftirspurn eftir henni hefur verið að aukast síðasta áratug og orðið algjör sprenging í því nú upp á síðkastið. Einn áhrifaþáttur varðandi framboð mjólkur er að allra síðustu ár hefur skilaverð fyrir umframmjólk verið mjög lágt. Nú er hins vegar að koma á daginn að við þurftum á þessari mjólk að halda. Við þurfum að velta fyrir okkur hvernig við getum á hverjum tíma fullnægt þörfum innanlandsmarkaðar og hvernig við förum að því um leið að hámarka virði þeirrar mjólkur sem nauðsynleg er til að mæta framleiðslu og sölusveiflum.“ Vonbrigði að verð lækki ekki Þegar kvótamarkaðurinn var settur á laggirnar 2010 var það gert að eindreginni ósk Landssambands kúabænda. Eitt langtíma markmiðið með honum var að lækka verð á greiðslumarki en það hafði verið í kringum 300 krónur á lítra árin á undan. Verðið lækkaði í 280 krónur á fyrsta kvótamarkaðnum en er nú 320 krónur á lítra. Á þremur árum hefur lítrinn því hækkað um 40 krónur. Það er því ekki hægt að segja að markmiðið um lækkun hafi náðst. Sigurður segir að það séu vissulega vonbrigði. „Jú, það má alveg segja að þetta séu vonbrigði fyrir greinina. Ég tel þó að náðst hafi ákveðinn áfangi í því að halda aftur af hækkunum. Með kvótamarkaðnum er verið að taka upp aðferð þar sem allir sitja við sama borð hvað varðar viðskipti og hvað varðar verð, auk þess sem gegnsæi viðskiptanna er aukið. Sé hinsvegar horft til þeirra sex kvótamarkaða sem haldnir hafa verið og eftirspurnin þar skoðuð er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að verð hafi hækkað.“ Fjölga ætti kvótamarkaðsdögum – En er ekki ljóst að einungis tveir kvótamarkaðir á ári hamla því að þessi markmið náist? Þyrftu þeir ekki að vera fleiri? „Jú, og við höfum marg ítrekað óskir okkar um að fá þeim fjölgað. Það hefur einfaldlega ekki náðst fram. Það hafa hins vegar ekki komið fram afgerandi efasemdir um aðferðina í grunninn og staðreyndin er reyndar sú að þær aðstæður sem ríkt hafa síðustu ár hafa ekki verið kvótamarkaðnum hliðholl.. Menn þekkja annmarkana en hingað til hafa fulltrúar á aðalfundum Landssambands kúabænda ekki viljað falla frá þessari aðferð.“ Óvissa um framtíð kerfisins Sigurður bendir jafnframt á að ákveðin óvissa sé framundan varðandi það starfsumhverfi sem kúabændur hafa búið við. Búvörusamningar renni út árið 2016 og óvíst sé hvert framhaldið verði. „Við vitum ekki hvað er framundan varðandi fyrirkomulagið sjálft, greiðslumarkskerfið. Ég er ekki að gefa mér að það verði að stefnu stjórnvalda að leggja kvótakerfið af en það gætu verið gerðar breytingar sem lúta til að mynda að fyrirkomulagi stuðningsgreiðslanna. Munu þær eftir árið 2016, þegar búvörusamningur í mjólk rennur sitt skeið, áfram fylgja greiðslumarkinu eins og verið hefur? Það er ekki sjálfgefið.“ Kallar eftir vilja stjórnvalda Nauðsynlegt er að mati Sigurðar að setjast niður og fjalla um framtíða mjólkurframleiðslu í landinu. „Hvert ætlum við með þessa grein? Við þurfum að þjóna markaðnum og skapa sem mest verðmæti með sem hagkvæmustum hætti. Verður það best gert með sama hætti og undangengna þrjá áratugi eða er ástæða til að gera einhvers konar breytingar? Í þessu samhengi tel ég mikilvægt að velta upp spurningunni um hvað stjórnvöld vilji. Hver er stefna stjórnvalda í því að efla og breikka landbúnaðinn, kalla þar fram vöxt? Þetta er eitthvað sem við þurfum að setja niður fyrir okkur, og því fyrr, því betra.“ – Þurfa þá ekki kúabændur að kalla eftir samræðu við stjórnvöld um þessi mál? „Við skrifuðum undir framlengingu á búvörusamningum síðastliðið haust og því fylgdi bókun um að unnin yrði greining á stöðu greinarinnar og skyldi henni lokið fyrir komandi áramót. Það hefur reyndra dregist að koma þessari vinnu í gang. Við höfum hins vegar fundað með ráðherra og hann hefur áhuga á þessu máli, við finnum það. Ég er því heldur bjartsýnn á að farið verði í þessa vinnu fyrr en seinna. Frumkvæðið að stefnumótunarvinnu fyrir greinina liggur hins vegar hjá stjórnvöldum eins og staðan er núna og við bíðum spennt eftir því hverju fram vindur.“ /fr Tilboðsmarkaður með greiðslumark mjólkur var í fyrsta sinn haldinn 1. desember 2010 eftir að lokað var á bein viðskipti með greiðslumark í maí sama ár. Kúm hefur fækkað jafnt og þétt á Íslandi undanfarna áratugi, um eitt prósent á ári. Við stofnun Landssambands kúabænda árið 1986 voru um 34.000 kýr í landinu en núna eru þær um 25.000. Sigurður Loftsson Eftirspurn eftir smjöri hefur stór- aukist undanfarin misseri.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.