Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.03.1992, Blaðsíða 8

Læknablaðið - 15.03.1992, Blaðsíða 8
82 LÆKNABLAÐIÐ Aðeins í einu tilfelli var vitað með vissu um uppruna sýkingarinnar og var um hópsýkingu að ræða hér á landi af völdum S. thompson. Fimm manna fjölskylda sýktist eftir að hafa borðað súrmat. Sami stofn ræktaðist frá öllum fjölskyldumeðlimum og úr sýnum sem tekin voru úr súrmetistunnunni. Auk þess fengust upplýsingar um tvær aðrar hópsýkingar. Sú fyrri kom upp á Spáni í lokahófi á vegum ferðaskrifstofu og reyndist vera af völdum S. enteritidis. Greiningin var staðfest með ræktun hjá níu einstaklingum en þar að auki veiktust nokkrir til viðbótar sem einnig höfðu tekið þátt í sömu matarveislu. Þetta fólk átti það sameiginlegt að hafa borðað majónessósu en matvælin voru ekki send í ræktun. I seinni hópsýkingunni veiktust þrír einstaklingar, sem töldu fullvíst að þeir hefðu smitast af eggjaköku sem þeir neyttu á veitingahúsi í Englandi. Fjörutíu og níu einstaklingar töldu sig hafa veikst á veitingahúsi, 11 á heimili en hinir höfðu enga hugmynd um sýkingarstað eða upplýsingar vantaði. Einkenni og fylgikvillar: Algengustu einkenni voru niðurgangur hjá 116 (89.2%) sem varaði að meðaltali í 12 daga, hita fengu 84 (64.6%) að meðaltali í 1.8 dag, kviðverki fengu 79 (60.4%) að meðaltali í 5.3 daga og ógleði/uppköst 52 (40%) að meðatali í 3.9 daga. Flestir kvörtuðu einnig um slappleika samfara veikindunum og ýmis önnur einkenni sem ekki verður getið nánar. Flelstu fylgikvillar voru gallblöðrubólga hjá þremur einstaklingum (2.3%), liðbólgur (reactive arthritis) hjá tveimur (1.5%) og voru báðir með HLA B27 vefjafiokk og voru verstir í hnjám og ökklum. Þeir fengu liðeinkenni um viku eftir byrjun niðurgangsins og áttu í þessum veikindum í meira en hálft ár. Einn sjúklingur fékk eggjaleiðarabólgu sem var talin orsökuð af salmonellu (ekki staðfest, þar sem ekki hafði verið ræktað frá eggjaleiðurum og bakterían hafði aðeins fundist í saur). Þar að auki var einn sjúklingur með brengluð lifrarpróf sem var talið orsakað af inneiturefnum (endotoxin). Sjö (5.4%) sjúklingar lögðust inn á sjúkrahús vegna vessaþurrðar (dehydration), 10 (7.7%) léttust um meira en fimm kg„ mest 20 kg. Sjúklingurinn sem eingöngu var með jákvæða blóðræktun en neikvæða saurræktun var fluttur utan af landi eftir slys. Hann var í losti við komu á sjúkrahús með háan hita og ræktaðist salmonella úr blóði aðeins í þetta eina skipti. Mánuði síðar var tekin bólgin gallblaðra. Hann neitaði einkennum um niðurgang en hafði verið á Spáni hálfu ári áður. Ræktanir frá fjölskyldu hans voru neikvæðar. Veikindi og meðferð: Sextíu og tveir (66.7%) einstaklingar voru frá vinnu í einn til 210 daga (miðgildi 21 dagar) samtals í 1719 daga. Á sjúkrahús lögðust 36 (27.7%) í einn til 19 daga, (meðaltal 6.4 dagar), alls 230 legudaga. Tuttugu og fimm (69.4%) lágu inni í viku eða skemur. Fæstir sjúklinganna fengu sýklalyf, helst þeir sem lögðust inn á sjúkrahús. Flestir fengu síprófloxasín eða 19, ampisillín fengu sex, trímetóprím-súlfa sex og önnur lyf fengu tveir. Þar að auki voru þrír sem vissu ekki hvaða lyf þeir höfðu fengið. Eftir að niðurgangi lauk var aðeins 40 (30.8%) einstaklingum fylgt eftir með saurræktunum þannig að þrjár eða fleiri neikvæðar saurræktanir fengust í röð. Þeir voru jákvæðir í fjóra til 168 daga (meðaltal 37.2 dagar). Átta (6.2%) urðu jákvæðir aftur eftir eina til tvær neikvæðar ræktanir, einkum ef stuttur tími var á milli sýnatöku (< 1 vika). Meirihlutinn skilaði of fáum sýnum og voru 23 (17.7%) með eina neikvæða ræktun, en með tvær voru 15(11.5%). UMRÆÐA Það er athyglisvert hve fáir smitast af salmonellum hér á landi og að flestir sýkjast erlendis, aðallega í sólarlöndum. S. enteritidis hefur farið mjög vaxandi víða á Vesturlöndum og varð þrjátíuföld aukning í Belfast 1987 og 1988 (1,2,7-9). Sýkt egg sem hefur verið blandað í matvæli eru algeng orsök (1,2,8,10). Árið 1989 ollu fersk egg frá Danmörku stærstu hópsýkingu sem vitað er um í Bretlandi (11). Flest undanfarin ár hefur S. typhimurium verið algengust hér á landi (6) eins og í öðrum löndum en nú er S. enteritidis komin í fyrsta sætið en einungis í einu tilfelli var smitið innlent. Þetta gæti bent til þess að S. enteriditis hafi ekki náð fótfestu hér á landi.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.