Húsbyggingar og mannvirkjagerð 1945-1986 - 01.04.1988, Blaðsíða 24
22
Ekki er gerð tilraun til ítarlegri atvinnugreinaflokkunar en
hinnar svonefndu tveggja stafa ISIC-flokkunar, en samkvæmt henni
er atvinnustarfseminni skipt upp í 27 flokka auk opinberrar starfsemi
og ýmissar annarrar félagslegrar starfsemi eins og velferðarstofnana
o.fl. Flokkun Framlagningarskrárinnar eftir atvinnugreinum fer fram
með þeim hætti að skráin er samkeyrð við launamiðaskrá, en í
launamiðaskrá kemur meðal annars fram nafnnúmer og
atvinnugreinarnúmer hvers þess aðila sem einhvern atvinnurekstur
stundar. í Framlagningarskránni kemur fram nafnnúmer eiganda
hverrar sérmetinnar eignar og er því hægt að sýna sambandið milli
eignamats og atvinnugreinar með því að fara í gegnum nafnnúmerið
í báðum skránum. Áður en sú tenging fer fram er bæði
Framlagningarskrá og Launamiðaskrá endurraðað, þannig að öllum
eignum er raðað eftir nafnnúmeri eiganda. Með sama hætti er
launagreiðslum raðað eftir nafnnúmeri launagreiðanda, þ.e.
atvinnufyrirtækis. Launagreiðandi er síðan auðkenndur með því
tveggja stafa ISIC-númeri sem á við þá atvinnugrein sem hann
greiðir hæsta launafjárhæð í, ef hann á annað borð starfar í fleiri en
einni atvinnugrein. Af þessu leiðir hins vegar að allar eignir
fyrirtækja með mjög margþættan rekstur teljast til þeirrar starfsemi,
sem stærst er. Vert er að hafa þennan fyrirvara í huga þegar
niðurstöður eru skoðaðar.
Eins og áður segir var öllum íbúðarhúsum haldið utan við
atvinnugreinaflokkun Framlagningarskrárinnar og þau talin til
flokksins "utan avinnurekstrar" í töflu 4.1. Hins vegar var unnin upp
úr Framlagningarskránni sérstök flokkun íbúðarhúsa eftir
byggingarári, og er sú flokkun sýnd í töflu 4.3. Hér er þó rétt að
geta þess að með byggingarári hjá Fasteignamatinu er nú miðað við
það ár þegar hús verður fokhelt, og hefur svo verið frá ársbyrjun
1978. Fyrir þann tíma miðaðist byggingarár við árið sem húsið var
tekið í notkun.
í fimmta hluta talnaefnisins er áherslan lögð á að sýna
byggingarástand íbúðarhúsnæðis í smíðum í árslok 1985 og 1986.
Þannig er sýndur fjöldi íbúða og rúmmetrafjöldi þeirra á hinum
ýmsu byggingarstigum, þ.e. "grunni lokið", "uppsteypt", "tilbúið undir
tréverk", o.s.frv.. Þessar tölur eru unnar upp úr þeim skýrslum sem
byggingarfulltrúarnir senda Þjóðhagsstofnun. Ætlunin er að nota þær
við samanburð á tölum Fasteignamatsins, meðal annars vegna
fyrirhugaðra breytinga á tilhögun skýrslugerðarinnar, en þeim
breytingum er nánar lýst í grein 2.4 hér á undan. Einnig og ekki
síður má nefna, að mikilsvert er að hafa haldgóðar upplýsingar um
byggingarstig íbúða í smíðum við mat á horfunum í atvinnugreininni
á hverjum tíma.
J