Húsbyggingar og mannvirkjagerð 1945-1986 - 01.04.1988, Blaðsíða 26
24
Hlutfallsleg skipting íbúðarhúsa
árin 1940, 1950 og 1960 eftir aldri
Allt landið
1940 1950 1960
0-9 ára 26,0 31,1 31,0
10-19 ára 28,9 20,8 23,9
20-29 ára 14,7 20,3 13,7
30-39 ára 16,3 9,3 14,2
40-49 ára 7,7 10,1 6,0
50 ára eða meir 6,4 8,4 11,2
Yfirlitið sýnir að um helmingur húsanna er innan við 20 ára árið
1950 og þetta hlutfall hefur örlítið hækkað tíu árum síðar. Af aldri
húsanna kemur fram að bygging íbúðarhúsa hefur verið verulega
misjöfn frá einum áratug til annars. Sýnilega er byggt mun minna á
kreppuárunum 1931-40 en árin 1921-30. Þjóðinni fjölgaði þó
verulega og búferlaflutningar voru miklir. Eins virðist hafa dregið úr
íbúðarhúsabyggingum áratuginn 1911-20 eða um fyrra stríð.
Fljótt eftir komu hersins hingað til lands vorið 1940 hvarf
atvinnuleysi kreppuáranna og fjárráð alls almennings jukust verulega.
Af þessu leiddi m.a. aukinn áhugi á byggingu íbúðarhúsa og kom
hann fljótt í ljós. Á stríðsárunum 1941-1945 voru byggð töluvert
fleiri íbúðarhús en árin 1946-1950 samkvæmt húsnæðisskýrslum
Hagstofunnar.
í stríðslok áttu íslendingar drjúgan gjaldeyrisvarasjóð. En fleiri
hugsuðu sér til hreyfings en íbúðabyggjendur, og eftir tvö ár var
sjóðurinn uppurinn og óhjákvæmilegt að rifa seglin. Á miðju ári
1947 var Fjárhagsráð stofnað og m.a. tekin upp bein skömmtun á
þilplötum, timbri, sementi og járni, og enga byggingu mátti hefja
nema byggjandi fengi veitt fjárfestingarleyfi. Leyft var að halda
áfram smíði þeirra húsa sem komin voru nokkuð á veg þegar
Fjárhagsráð var stofnað.
í skrá Framkvæmdabankans um fullgerðar íbúðir árin 1945-1953
(sjá töflu 7.2), kemur fram, að þær eru flestar árin 1947, eða 1120,
en fer síðan fækkandi til ársins 1951, en þá eru þær ekki nema 661.
Eftir það tekur fullgerðum íbúðum aftur að fjölga, en sú fjölgun átti
aðallega rætur að rekja til breytinga, sem urðu á útgáfu
fjárfestingarleyfa.
Síðari hluta árs 1951 var heimiluð bygging svonefndra
smáíbúðarhúsa, sem máttu stærst vera 80 fermetrar á einni hæð og
með risi ekki yfir þrjá metra. Fjárfestingarleyfi var skilyrðislaust
veitt til byggingar þessara húsa, þegar um var sótt og lögð fram
viðurkennd teikning. Smáíbúðarhúsin urðu allmörg, einkum í
Reykjavík. í árslok 1953 voru t.d. 569 íbúðir í smíðum í Reykjavík,
61 í fjölbýlishúsum, 266 i smáíbúðarhúsum og 242 í öðrum
fábýlishúsum.