Morgunblaðið - 12.01.2012, Blaðsíða 28
28 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 12. JANÚAR 2012
konu minni,“ sagði ég við hana.
Það reyndist rétt og þegar ég
kynntist henni betur sá ég að
þær frænkur voru ekki bara lík-
ar í útliti heldur einnig í viðmóti
og fasi.
Við Magnea tókum að okkur
miðasölu á knattspyrnuleikjum
hjá Val fyrir tveimur árum. Það
var í raun ekki af áhuga á knatt-
spyrnu sem við stóðum vaktina,
því við vissum varla hvað rang-
staða var, en þetta starf, eins og
mörg önnur störf hjá íþrótta-
félögum, er unnið í þágu félags-
ins. Við göntuðumst með að nóg
væri að þekkja rauða litinn á
búningi Valsmanna. Við áttum
saman margar góðar stundir við
miðasölu og í félagslífi hjá félag-
inu og margt var spjallað þegar
tími gafst.
Magnea var góður kennari.
Ég varð oft vitni að því þegar
gamlir nemendur hennar komu
og heilsuðu henni, jafnvel nem-
endur sem hún hafði kennt fyrir
áratugum fyrir norðan. Hún
þekkti þá alla og gaman var að
sjá hlýtt bros hennar og glampa í
augum. Þá sá ég hvað henni þótti
vænt um nemendur sína og að
hver nemandi skipti hana máli.
Magnea talaði oft um Ragnar
bróður sinn sem nú er nýlega
látinn. Greinilegt var að kært
var með þeim systkinum. Mér
hefur verið sagt að í æsku hafi
þau Raggi og Magga, eins og
þau voru kölluð, alltaf verið
nefnd í einu svo náin voru þau og
nú hafa þau bæði kvatt með
stuttu millibili. Ég sendi foreldr-
um þeirra og fjölskyldu allri
innilegar samúðarkveðjur.
Magnea Hrönn var traust, hlý
og orðvör kona. Við áttum sam-
an margar góðar stundir og oft
var mikið hlegið að skemmtileg-
um sögum og atburðum. Ég
kveð Valsvinkonu mína með
miklum söknuði.
Við Höskuldur sendum Jóni
vini okkar, Kristínu og Guðríði
ásamt fjölskyldum, okkar dýpstu
samúðarkveðjur.
Helena.
Þegar Magnea Hrönn Stef-
ánsdóttir íslensku- og umsjónar-
kennari á unglingastigi Háteigs-
skóla lést miðvikudaginn 4.
janúar var höggvið stórt skarð í
samstarfshópinn. Það tekur mik-
ið í þegar kennara á hátindi fer-
ils síns er kippt út úr umhverfi
þar sem ríkir einhugur, metn-
aður og starfsgleði. Starfsgleði
sem er, meðal annarra, viðkom-
andi kennara að þakka. Magnea
skapaði öryggi í kringum sig
með hógværð, ósérhlífni og góðu
skipulagi. Starfsgleði Magneu
var hófstillt en svo innileg og
merkingarbær að glettið bros
hennar hlýjaði öllum um hjarta-
rætur. Ljóslifandi situr hún í
minningu okkar við kaffiborðið
og leggur varlega en örugglega
gott eitt til málanna í hverju um-
ræðuefni.
Allir sem störfuðu með Magn-
eu fundu að í hennar höndum
voru verkin klár og auðvelt var
að fletta upp hjá henni upplýs-
ingum um fundi eða fyrri verk-
efni til að kanna hvernig til hefði
tekist. Það var í hillu og auðvelt
að finna ef Magnea var spurð.
Magnea hóf störf við skólann
haustið 1999 og sýndi strax að
veganestið sem hún kom með að
norðan var mikið og gott. Hún
blómstraði sem íslenskukennari
á unglingastigi, sýndi nemend-
um hlýju, umhyggju og mildan
en ákveðinn aga. Það var eins og
nemendur væru börnin hennar.
Háttsemi Magneu og framkoma
við nemendur var þannig að
nemendur báru virðingu fyrir
greininni og henni svo að þeir
náðu að jafnaði frábærum ár-
angri. Ef einhver hefði það al-
vald að skapa góða kennara þá
hefði Magnea verið í þeirra hópi.
Þegar nemendur úr 9. og 10.
bekkjunum tóku þátt í Skrekk,
sem sýndur var á Skjá einum í
haust, þá tóku þeir upp hjá sér að
biðja þulina um að skila kveðju
til Magneu í veikindum hennar.
Það segir mikið um nemendur og
viðhorf þeirra að þeir skyldu
hugsa til kennara síns í íslensku
þegar þeir áttu að ganga inn á
svið og keppa í hæfileikakeppni
grunnskólanna. Á slíkum stund-
um gerir maður fremur ráð fyrir
að unglingar séu fyrst og fremst
uppteknir af sjálfum sér en það
var öðru nær og það segir sína
sögu. Í framhaldi af sigri Há-
teigsskóla í keppninni kom ítrek-
að fram í viðtölum við nemendur
sá hugur sem þeir báru til Magn-
eu og það var mikill styrkur fyrir
hana í veikindum hennar.
Magnea sýndi mikla hetjulund
og skyldurækni við nemendur
sína og samstarfsmenn. Fárveik
kom hún í skólann 20. desember
og tók þátt í hátíðarstund nem-
enda í Háteigskirkju. Þar faðm-
aði hún innilega nánast hvert
einasta barn, tók kveðju þeirra
og þakkaði fyrir umhyggju
þeirra og óskaði gleðilegra jóla.
Hún þurfti að fara heim til að
hvíla sig en kom síðan aftur síð-
degis sama dag til að vera með
starfsfólki í hátíðarmatnum.
Þrátt fyrir mikil veikindi hennar
var öll hennar ásýnd hæversk,
sterk og svo ótrúlega stór. Nær-
vera hennar jók okkur bjartsýni
en svo fór á annan veg.
Það er við hæfi að vitna í nem-
anda hennar sem varð að sitja
með kennara afsíðis þegar andlát
Magneu var tilkynnt og rætt í
bekknum: „Hún dó í þeirri full-
vissu að það elskuðu hana allir.“
Við vottum fjölskyldu Magn-
eu, eiginmanni Jóni Höskulds-
syni og fjölskyldu djúpa samúð
okkar.
F. h. starfsfólks Háteigsskóla,
Ásgeir Beinteinsson
skólastjóri.
Við Magnea ólumst upp á Ak-
ureyri og ég kynntist henni vel
þegar við settumst saman á
skólabekk í MA. Árin þar liðu
hratt og voru skemmtileg. Við
fórum síðan báðar í gegnum
kennaranámið í KHÍ og áttum
þannig þátt í því að spádómur
okkar góða kennara Gísla Jóns-
sonar rættist en hann sá fljótt að
í A-bekknum voru mörg kenn-
araefnin. Við skólasysturnar vor-
um nú ekki eins vissar og hann,
ætluðum á þessum árum örugg-
lega flestar að læra eitthvað allt
annað.
Þegar ég hóf störf við Há-
teigsskóla var ég svo heppin að
hitta fyrir Magneu og verða sam-
kennari hennar sl. 5 ár. Það var
ótrúlega notalegt að hitta hana
aftur með sitt fallega bros og
njóta nærveru hennar og styrks
alla daga upp frá því. Magnea
var svo skemmtileg og jákvæð.
Henni varð aldrei misdægurt
fram að veikindunum í haust,
mætti alltaf snemma á morgnana
og tók á móti okkur hinum, af-
slöppuð og hress.
Magnea sá um alla íslensku-
kennslu unglinganna í Háteigs-
skóla til margra ára. Faglega var
hún mjög sterk og hæfileiki
hennar til að ná því besta fram
hjá öllum var einstakur. Hún
náði persónulegu sambandi við
hvern og einn og hugsaði um alla
nemendur sína eins og þeir væru
hennar eigin börn. Sem dæmi um
væntumþykju nemenda má
nefna að þau tileinkuðu henni
sigur sinn í Skrekk, hæfileika-
keppni grunnskólanna 2011. Ég
veit að það snart Magneu mjög
að heyra það. Dóttir mín Sunna
Mjöll og Inga Rán systurdóttir
mín nutu þess einnig vel að hafa
Magneu sem kennara og senda
hlýjar kveðjur. Þeim eins og öll-
um þótti mjög vænt um Magneu.
Söknuðurinn er mikill en styrk-
inn er að finna í ljúfri minningu.
Við Einar sendum okkar
dýpstu samúðarkveðjur til Jóns,
skólabróður okkar, foreldra
Magneu og fjölskyldu vegna
þessa sviplega fráfalls.
Helena Pálsdóttir.
Mig langar fyrir hönd 10.
bekkjar að skrifa nokkur orð til
minningar um kennarann Magn-
eu Hrönn sem mörg okkar hafa
þekkt frá því í 3. bekk.
Magnea var æðislegur kenn-
ari og ég held að allir í bekknum
geti tekið undir það. Hún kvart-
aði aldrei þótt eitthvað bjátaði á
og hvarflaði ekki að neinum að
hún myndi kveðja okkur svona
fljótt.
Magnea hélt oftast ró sinni en
þaggaði niður í okkur þegar
henni þótti nóg komið. Hún
gerði miklar kröfur og vildi að
við skiluðum verkefnum eins vel
og okkur var unnt. En ef eitt-
hvað kom upp á þannig að við
gátum ekki skilað á tilsettum
tíma þá sýndi hún okkur mikinn
skilning og skilafrestur var auð-
sóttur. Ef viðfangsefnið var ekki
það skemmtilegasta þá gerði
hún það alltaf auðveldara og
áhugaverðara og finnst okkur að
engum kennara hafi tekist það
eins vel og henni.
Það var alltaf stutt í húmorinn
hjá henni Magneu, ef einhver
var t.d. með leiðindi í bekknum
þá átti hún ávallt frábært mótsv-
ar sem gerði viðkomandi alveg
kjaftstopp en olli hláturskasti
hjá restinni. Við munum líka ef-
laust flest eftir því þegar hún
sagði okkur söguna af því þegar
hún handleggsbrotnaði og var
með þvílíkar skrúfur í hendinni
og þurfti að kenna þannig í
nokkurn tíma, þá lærði hún að
skrifa með vinstri, sem er nú
aðdáunarvert, eftir það þýddi
ekkert að kvarta yfir íþrótta-
meiðslum á hægri hendi og erf-
iðleikum sem því fylgdi í tímum
hjá henni.
Hún var líka alltaf til staðar
fyrir okkur og hefur stutt marga
í gegnum erfið tímabil. Ég veit
einnig að Magnea var svo stolt af
okkur og tók þótt í ánægju okkar
þegar við unnum Skrekk núna í
nóvember og vorum við öll þakk-
lát fyrir að geta glatt hana í veik-
indum hennar með því að til-
einka henni sigurinn.
Elsku Magnea, í farteski okk-
ar út í lífið munum við taka svo
margt sem þú kenndir okkur.
Bæði hvað varðar íslenskt mál
og bókmenntir en ekki síður það
sem góð manneskja og frábær
kennari hefur miðlað til nem-
enda sinna.
Við söknum þín sárt. Íslenska
er ekki söm án þín.
Fyrir hönd 10. bekkjar í Há-
teigsskóla,
Rúna Oddsdóttir.
Þegar ég settist niður og ætl-
aði að skrifa gerði ég mér grein
fyrir því að það er alls ekki svo
auðvelt að koma því sem manni
liggur á hjarta á blað. Það er svo
margt sem maður vill koma á
framfæri.
Stundum er þó bara einfald-
ast að segja að við söknum henn-
ar sárt. Magnea var æðislegur
kennari sem ég mun aldrei
gleyma. Hún setti gott fordæmi
með því að vera ætíð góð og þol-
inmóð. Ég hreinlega dáist að því
hversu róleg hún var, upp að
ákveðnu marki auðvitað. Hún
hélt alltaf ró sinni og lét engan
vaða yfir sig. Mér fannst hún
alltaf skemmtilega hnyttin og
langar mig að nefna eitt dæmi.
Við vorum að fara yfir efni í
Englum alheimsins og allir voru
að vinna í spurningunum sem því
fylgdu. Einn nemandi spurði:
„En hvað sagði Guð honum að
gera?“ Magnea svaraði þá: „Að
fara út að hjóla! Nei, hvað held-
urðu, lastu ekki kaflann væni?“
Þetta er bara eitt dæmi af mörg-
um. Magnea var skilningsrík í
fari sínu. Veturinn 2010 missti ég
afa minn og það var skelfileg lífs-
reynsla. Magnea ásamt öðrum
kennurum var svo yndisleg að
votta mér samúð og var til staðar
ef svo mætti segja. Hún lét sig
varða um aðra nemendur og var
yndisleg alveg í gegn.
Ég held ég hafi aldrei heyrt
neinn nemanda nefna eitthvað
neikvætt í fari hennar, hún var
að vísu rosalega hæg á lykla-
borði.
Það tók að sjálfsögðu mjög á
að sjá heilsu hennar fara í sífellu
versnandi. Hún var gríðarlega
sterk, rétt eins og Magneu var
einni lagið.
Hún var alla tíð bjartsýn á
framtíð sína og trúði ekki öðru
en að henni myndi batna. Því
þótti öllum sjálfsagt að elsku
Magnea okkar myndi snúa aftur
hress á ný, annað væri ólíkt
henni.
Það tók því rosalega á að
frétta af andláti hennar. Hjartað
tók kipp og allt virtist dofna að
innan og tárakirtlarnir tóku við.
Það vildi enginn trúa þessu.
Ég sakna alls í fari Magneu.
Ég mun sakna skírmæltu radd-
arinnar hennar. Ég mun sakna
þess að heyra hana fara yfir
skammstafanir fornafna. Ég
mun sakna þess að sjá hana
teikna upp á töfluna hvernig for-
síðan á ritgerðinni okkar átti að
líta út, og ég mun jafnvel sakna
orðflokkagreiningarinnar sem
hún fór svo listilega vel yfir með
okkur.
Ég trúi því að Magnea sé
ennþá að fylgjast með okkur og
sjái okkur útskrifast líkt og hún
lofaði.
Hvíldu í friði, elsku besta
Magnea Hrönn. Ég er ekki ein
þegar ég segi að ég sakni þín gíf-
urlega mikið.
Það er bara ekki það sama að
læra íslensku án þín.
Steinunn Ólína Haf-
liðadóttir, 10. HB.
Elsku Magnea.
Ég man eitt sinn þegar ís-
lenskutíminn var að klárast og
þú baðst mig um að vera aðeins
eftir og þá vildirðu bara hrósa
mér, þú gerðir það svo innilega
að ég monta mig oft og mörgum
sinnum af því. Þú varst alltaf svo
skilningsrík við okkur öll, þótt
við gætum verið algjörir vand-
ræðagemlingar stundum. Þegar
ég kom á unglingastigið, að byrja
í áttunda bekk og hrædd við alla
unglingana, fannst mér alltaf svo
notalegt að koma í stofuna þína
því nærvera þín var einstök, þú
varst einstök. Ég veit fyrir víst
og vona að allir finni það líka, að
þú lifir áfram í hjörtum okkar
allra, sem vorum svo heppin að fá
að þekkja manneskju eins og þig.
Ég er svo þakklát fyrir allt sem
þú kenndir mér og ólýsanlega
þakklát fyrir að hafa fengið að
sjá og knúsa þig í síðasta sinn,
áður en þú þurftir að yfirgefa
okkur hér. Því gleymi ég aldrei.
Ég á eftir að sakna þín og er þeg-
ar byrjuð að sakna þín. Við minn-
umst þín á hverjum degi á fal-
legan hátt og munum aldrei
gleyma þér. Þú mátt sko vera
stolt yfir því að hafa verið besti
íslenskukennarinn á öllu Íslandi.
Þú varst og verður alltaf ein-
stök og falleg sál.
Hver minning dýrmæt perla að liðnum
lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka
hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem
gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að
kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Megi englar Guðs vernda þig
og umvefja.
Ég sendi fjölskyldu þinni inni-
legar samúðarkveðjur, og megi
Guð gefa þeim styrk á þessum
erfiðu tímum.
Við hittumst aftur síðar,
Magnea Hrönn.
Þinn stolti nemandi,
Alena Elísa da Silva.
Magnea Hrönn
Stefánsdóttir
Ég kynntist Einari Olgeirs-
syni skömmu eftir að hann
flutti til Húsavíkur 1975. Það
var mikill hugur í Húsvíkingum
á þessum árum. Þeir höfðu
reist glæsilegt félagheimili í lok
sjöunda áratugarins og byggðu
síðan hótel samfast því. Það
voru ekki margir staðir á
landsbyggðinni sem gátu státað
af glæsilegri aðstöðu fyrir
ferðamenn. Einar var þá þegar
með meira en 20 ára reynslu úr
hótel- og veitingabransanum og
hafði verið aðstoðarhótelstjóri
á Hótel Sögu næstu 10 árin á
undan.
Strax varð ljóst að Einar var
enginn venjulegur maður á
þessu sviði. Hann var hug-
myndaríkur með afbrigðum og
óragur við að hrinda hugmynd-
um sínum í framkvæmd. Hann
var gæddur ríkum persónutöfr-
um og eldmóði og hreif fólk
með sér. Hann kom heldur ekki
einn til Húsavíkur. Emilía
(Milla) kona hans tók þátt í æv-
intýrinu og síðar börn þeirra
hjóna ásamt gömlum vildarvini,
Gústav Axel Guðmundssyni,
matreiðslumanni.
Það var mikill glæsibragur
yfir Hótel Húsavík á þessum
árum. Hver ráðstefnan rak
aðra, meðal annars alþjóðlegar
ráðstefnur á vegum hins op-
inbera. Og til dæmis lýsti Gylfi
heitinn Gíslason þáverandi
menntamálaráðherra því nán-
ast sem upplifun að koma til
Húsavíkur, njóta móttökunnar
á hótelinu og ekki síður leið-
sagnar Ingvars heitins Þórar-
inssonar í Húsavíkurkirkju auk
framlags margra „alþýðulista-
manna“, sem Einar með næmi
sínu hafði þefað uppi og tókst
að virkja hótelgestum til
ómældrar ánægju. Þarna var
hin íslenska strandmenning í
hávegum höfð, án þess að hún
væri því nafni nefnd á þeim
tíma. Á undanförnum árum
hafa nokkrir haldið því fram að
hvalaskoðunin hafi komið
Húsavík á kortið sem ferða-
mannabæ. Það kann að vera
rétt ef litið er aðeins nokkur ár
til baka. En í mínum huga og
margra annarra var það fyrst
og fremst Einar Olgeirsson og
samstarfsfólk hans sem kom
Húsavík á kortið sem ferða-
mannabæ og Húsavík hefur
ávallt notið orðspors þeirra síð-
an.
Allar stundir með Einari og
Millu voru skemmtilegar,
ferskar og flögrandi, slíkt var
hugmyndaflugið. Einar hafði
mjög gott skopskyn og var
hláturmildur með afbrigðum,
næmur og lá ekki á skoðunum
sínum. Greiðvikinn og góður
vinur sem alltaf var gott að
hitta. Og við héldum alltaf sam-
bandi þótt samfundir yrðu fáir
með árunum vegna fjarlægðar.
Einars er því sárt saknað.
Við Kata þökkum af alhug
fyrir allar gömlu, góðu sam-
verustundirnar og sendum Em-
ilíu, börnum þeirra ásamt öðr-
um aðstandendum, okkar
dýpstu samúð vegna fráfalls
Einars. Minning hans mun
lengi lifa.
Gísli G. Auðunsson
Heiðursmaðurinn Einar Ol-
geirsson var einn þeirra sem
settu mark á íslenska ferða-
Einar Olgeirsson
✝ Einar Olgeirs-son, Sóltúni 11,
fæddist í Reykjavík
2. desember 1934.
Hann lést á sjúkra-
húsinu í Volda,
Noregi, 21. desem-
ber 2011.
Útför Einars fór
fram frá Bústaða-
kirkju 3. janúar
2012.
þjónustu og fleyttu
henni áfram til
þess nútíma sem
við nú þekkjum.
Á sjöunda ára-
tug síðustu aldar
var það án efa veit-
inga- og gistihúsa-
iðnaðurinn sem dró
ferðaþjónustuna
áfram. Til marks
um framfarir þess
tíma má nefna að á
átta ára bili frá 1962 til 1970
voru fjögur af stærstu og
glæsilegustu hótelum landsins
reist: Saga, Holt, Loftleiðir og
Esja. Þetta var ekki bara fyrir
þörf á auknu og bættu gisti-
rými, ekki síður var að hér var
að springa út mikill metnaður
og sjálfstraust sem sáð var til
með aukinni fagmennsku í
framreiðslu og matreiðslu. Úr
þessum suðupotti framþróunar
kom Einar Olgeirsson, fram-
reiðslumaðurinn sem hafði
þjónað konungum, forsetum og
borgurum af öllum stigum á
Gullfossi og bestu veitingahús-
um bæjarins og lært það af
bestu vertum að enginn gestur
er svo aumur að hann verð-
skuldi ekki góða þjónustu jafn-
vel þótt það kosti að bera á
borð „Schnitzel Derby“, sem
mörgum borgurum hins hverf-
andi sveitasamfélags geðjaðist
best að sögn Einars.
Við Einar kynntumst árið
1981 þegar við báðir hófum
störf hjá Flugleiðum. Ég sem
ungur og minna reyndur milli-
stjórnandi, Einar sem hótel-
stjóri á Hótel Esju hlaðinn
reynslu gestgjafans. Sex árum
áður hafði Einar tekið að sér
stjórn Hótels Húsavíkur og fór
það svo vel úr hendi að eftir
var tekið. Einar heillaði mig
fljótt með þeim brennandi
áhuga og ákefð sem hann gekk
með til sinna verka. Þegar starf
hótelstjóra Lofteiða, stærsta
hótelsins, losnaði 1985 var Ein-
ar fenginn til að færa sig um
set og stjórnaði hann hótelinu
næstu tvö árin, þar til hann
færði sig aftur yfir í „rólegheit-
in“ á Esju eftir að hafa fengið
nokkuð alvarlega heilsuaðvör-
un.
Ég lenti í þeirri aðstöðu
1988, en þá heyrði hótelrekstur
Flugleiða undir mig, að vanta
hótelsstjóra á Loftleiðir. Eins
og svo oft áraði ekki vel og þörf
fyrir að spara. Mér datt í hug
að fá Einar til að stjórna báð-
um hótelunum, Esju og Loft-
leiðum. Óvissa nagaði mig þó
þar sem Einar hafði lengi verið
veill fyrir hjarta og óvíst hvað á
hann væri leggjandi. Ég ákvað
þó að bera málið varlega upp
og það var eins og við manninn
mælt, Einar treysti sér ekki að-
eins í verkefnið, hann skyldi
taka það enda kannaðist hann
ekki við nein heilsufarsvanda-
mál.
Loftleiðir voru í brýnni þörf
fyrir endurnýjun eftir 22 ára
rekstur og Einar einhentist í
það af sinni ákefð. Herbergi
voru endurnýjuð og ný ráð-
stefnuaðstaða, sú besta í bæn-
um, var byggð. Í hamagang-
inum fékk Einar reyndar nýtt
hjartaáfall, sem auðvitað varð
samvisku okkar félaga hans
enn meira áfall. Morguninn eft-
ir þegar við Sigurður Helgason
heimsóttum hann á spítalann
með boð um rólegra starfsum-
hverfi, sat Einar uppi við dogg
með farsíma sem hann hafði
sennilega ekki fengið að lækn-
isráði, gefandi fyrirmæli í allar
áttir. Rólega starfsumhverfið
varð greinilega að bíða um
sinn. Það var gaman að vinna
með Einari og fyrir það er ég
þakklátur.
Ég sendi eiginkonu og fjöl-
skyldu Einars mínar innileg-
ustu samúðarkveðjur.
Pétur J. Eiríksson.