SunnudagsMogginn - 19.02.2012, Page 26

SunnudagsMogginn - 19.02.2012, Page 26
26 19. febrúar 2012 ákvað hann að hætta í tónlistinni og snúa sér að öðru. „Ég kom ekki nálægt trommum aftur fyrr en nýlega að ég keypti mér sett. Ég er búinn að ná tvöfalda bítinu aftur,“ segir hann hróðugur. Gunnar stofnaði umboðssölu með hljóðfæri og hljómtæki ásamt eiginkonu sinni á þeim tíma, Bryn- hildi Áslaugu Egilson. „Konan mín var vinkona Rúna Júl og mikill aðdáandi Hljóma, þannig að við blasti að kalla búðina Hljómbæ. Við fundum lítið húsnæði efst á Hverfisgötunni og létum slag standa. Við renndum al- veg blint í sjóinn, byrjuðum með einn bassahátalara, gítar og bassa sem ég átti, bara svo búðin væri ekki galtóm,“ segir Gunnar hlæjandi. Næsta skref var að auglýsa í blöðunum og urðu við- brögð langt framar vonum. „Það fylltist allt hjá okkur og oft var biðröð út á götu. Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið. Það var greinilega þörf fyrir þjón- ustu af þessu tagi. Þetta spurðist hratt út og fljótlega voru stór nöfn í bransanum farin að versla við okkur. Búðin gekk mjög vel og ég er ákaflega stoltur af þessu framtaki.“ Opnaði kvikmyndahús í Kópavogi Hljómbæ óx hratt fiskur um hrygg og að tveimur árum liðnum færði Gunnar út kvíarnar, festi kaup á sýning- arvél í Lundúnum, með það fyrir augum að opna kvik- myndahús í Reykjavík. Ekki fannst hentugt húsnæði í höfuðborginni og á endanum tók Gunnar, ásamt við- skiptafélaga sínum, á leigu fokhelt húsnæði á Smiðju- vegi 1 í Kópavogi. Borgarbíó varð að veruleika. „Við þurftum að innrétta allt frá grunni, kaupa inn sæti frá útlöndum og svo framvegis og þetta varð mun dýrara en við höfðum gert ráð fyrir. Samt náðum við að opna.“ Risarnir United Artists og Warner réðu lögum og lof- um á markaðnum hér heima og Borgarbíó varð að veðja á smærri myndir. Samt fór reksturinn bærilega af stað, að sögn Gunnars. Vatnaskil urðu þegar Gunnar og félagi hans fengu óvenjulega hugmynd. „Við vorum með unglingamynd sem við kölluðum „Rúntinn“, alls ekki merkilega mynd, og datt í hug að auglýsa hana í sjónvarpinu. Við höfðum aldrei komið inn í stúdíó en lásum sjálfir inn á auglýsinguna og fífluðumst eitthvað. Það skipti engum togum að allt varð vitlaust, tugir þúsunda sáu mynd- ina.“ Upp frá þessu gekk Borgarbíó ágætlega og tryggði sér meðal annars réttinn á einhverjum Warner-myndum. Það var ekki vel séð af öllum hér heima, að sögn Gunn- ars. Annars var mest lagt upp úr „öðruvísi“ myndum. „Við vildum ekki vera eins og allir hinir, ætli sá taktur hafi ekki alltaf átt ágætlega við mig,“ segir hann kím- inn. Þrívíddar- og lyktarmyndir Að fjórum árum liðnum slitnaði upp úr samstarfi Gunnars og viðskiptafélaga hans með þeim afleiðingum að Borgarbíói var lokað. Bæjaryfirvöld í Kópavogi lögðu þó að Gunnari að halda rekstri áfram og úr varð að hann stofnaði Bæjarbíó á rústum Borgarbíós. Þegar þarna er komið sögu hafði hann lokað Hljómbæ til að einbeita sér að bíórekstrinum. Eitt af því sem Bæjarbíó gerði var að dusta rykið af gamalli tækni, þrívíddinni. „Þrívídd hafði ekki sést hér á landi síðan 13 draugar var sýnd í Stjörnubíói forðum daga og mér fannst upplagt að panta slíka mynd, vestr- ann Coming At Ya. Fyrstu dagana gerðist lítið. Ég hafði lagt út í mikinn kostnað, þrívíddargleraugun voru mun veglegri þá en nú, og brá því á það ráð að tala við blöð- in. Úr varð að blaðamaður kom og fjallaði um fram- takið á síðum blaðs síns. Ekki þurfti meira til, á bilinu 30 til 40 þúsund manns sáu myndina eftir það. Mikill er máttur fjölmiðlanna. Sumir halda að þrívíddin sé glæný tækni, það er öðru nær.“ Önnur nýbreytni sem Bæjarbíó bryddaði upp á var að sýna „lyktarmyndina“ Polyester. Virkaði galdurinn þannig að á uppgefnum stöðum í myndinni lögðu áhorfendur nefið við þar til gert lyktarspjald og þefuðu af ákveðnum númerum á spjaldinu til að auka við upp- lifunina af glápinu. „Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið gert aftur,“ segir Gunnar. Vonandi hafa leikararnir ekki leyst vind? Af öðru sem mæltist vel fyrir hjá Bæjarbíói voru myndir listamannsins Andys Warhols og svo létt- erótískar myndir á síðkvöldum. „Þá fylltist allt,“ segir Gunnar sem var vakinn og sofinn yfir bíóinu. „Þegar ég var búinn að rífa af miðunum hjá fólki hljóp ég upp í sýningarherbergi og setti vélina af stað.“ Að sögn Gunnars var alltaf á brattann að sækja fyrir Bæjarbíó og eftir þrjú eða fjögur ár brustu forsendur fyrir rekstrinum. Gunnar segir það að vonum hafa verið vonbrigði en hann iðrist einskis. „Ég gerði þetta á mín- um forsendum og stóð og féll með því eins og öðru sem ég hef tekið mér fyrir hendur í lífinu. Þetta var gríð- arleg vinna en umfram allt mikil og góð lífsreynsla.“ Grunnurinn lagður í Vogum Eftir bíóævintýrið í Kópavogi flutti Gunnar búferlum í Voga á Vatnsleysuströnd. Hann réð sig til starfa hjá ör- yggisfyrirtækinu Vara en kvikmyndirnar toguðu áfram í hann. „Þarna var vídeóæðið runnið á þjóðina og þar sem ég átti þokkalegt einkasafn, um hundrað myndir, ákvað ég að prófa að opna vídeóleigu á heimili mínu í Vogunum. Viðtökur voru strax mjög góðar og segja má að þarna hafi grunnur að Laugarásvídeói verið lagður.“ Árið var 1986 og Gunnar kannaði möguleika á því að flytja leiguna til Reykjavíkur. Fann húsnæði á Laug- arásvegi 1, þar sem ÁTVR hafði verið til húsa, sem hon- um fannst raunar of stórt en samdi við eigandann, Ragnar Aðalsteinsson kaupmann, um að leigja helming þess gegn því að hann hólfaði rýmið af sjálfur. Um sömu mundir var verið að loka vídeóleigu í Álf- heimunum og Gunnar keypti safnið, um 300 myndir. Hann átti því alls 571 mynd þegar hann opnaði Laug- arársvídeó en auk þess lítinn kókkæli og tvo kassa af Prins Póló. „Mér var ekki spáð langlífi,“ rifjar hann upp, „þeir bjartsýnustu gáfu mér hálft ár, í mesta lagi ár. Rökin voru þau að aðallega byggi eldra fólk í hverf- inu auk þess sem Stöð 2 var komin til sögunnar. Víd- eóleigur voru að leggja upp laupana út um allan bæ.“ Viðskiptin fóru rólega af stað og Gunnar þorði ekki að segja starfi sínu hjá Vara lausu. Hann vann því tutt- ugu tíma á sólarhring fyrsta kastið og þurfti að selja bíl- inn sinn til að eiga fyrir húsaleigunni. Ekki bætti úr skák að Gunnar skildi við eiginkonu sína árið 1987 og flutti þá inn í litla íbúð í sama húsi og leigan. Þar bjó hann í tvö ár. Að því kom að Gunnar tók djarfa ákvörðun sem varð til þess að gæfan snerist á sveif með honum. „Á þessum tíma gekk allt út á nýjustu myndirnar, allir vildu leigja þær. Í stað þess að kaupa 6-7 einstök af þeim keypti ég 12-15 eintök sem þýddi að myndin var eiginlega alltaf inni þegar kúnninn kom til að leigja hana. Fyrir vikið fór hann ánægður út. Þetta skipti sköpum í rekstr- inum.“ Hver kannast ekki við að hafa komið á vídeóleigu en farið tómhentur heim vegna þess að myndin sem átti að leigja var ekki inni? Ömurlegt! Fastakúnnar fóru að spyrja um „költara“ Vinsældir Laugarásvídeós jukust hratt og Gunnar réð annan starfsmann sem vann hjá honum í fjöldamörg ár. Viðskiptin gengu vel enda þótt Laugarásvídeó væri ein- göngu vídeóleiga fyrstu árin, það kom til af því að sæl- gætissjoppa var beint á móti leigunni á Laugarásveg- inum og Gunnar kunni ekki við að hefja samkeppni við hana. Einn góðan veðurdag var sjoppan hins vegar fjar- lægð af sökkli sínum og ekið á brott. Gunnar lét ekki segja sér það tvisvar, heldur fyllti leiguna af sælgæti, snakki, gosdrykkjum og sígarettum. „Það er sjálfsögð þjónusta að bjóða upp á eitthvað með myndunum svo fólk þurfi ekki að fara á fleiri staði.“ Þess má geta að Laugarásvídeó hefur aldrei auglýst starfsemi sína, hún hefur bara spurst út. Lengi vel hverfðist allt um nýjar myndir. Smám sam- an breyttist það. Fastakúnnar og aðrir fóru að spyrja um gamalt efni af ýmsu tagi, „költara“ eins og Gunnar kall- ar það. Hægt og bítandi fór hann því að kaupa gamalt efni inn og í dag snúast viðskiptin að verulegu leyti um það. „Sjónvarpsstöðvum hefur fjölgað, VOD-ið komið til sögunnar, að ekki sé talað um netið. Fólk er í aukn- um mæli farið að hala niður nýjum myndum á netinu, jafnvel áður en þær koma í bíó. Við þessu hef ég þurft að bregðast og það hef ég gert með því að sanka að mér fjölbreyttu eldra efni sem ekki er hægt að nálgast ann- ars staðar. Nýjar myndir eru í mesta lagi 15-20% af út- leigunni í dag.“ Rétturinn er enginn réttur Gunnar fylgist að vonum vel með fréttum af niðurhali og mögulegum viðurlögum við því. „Nýjustu fregnir Gunnar Jósefsson er í senn stimamjúkur og vel að sér um kvikmyndir.

x

SunnudagsMogginn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.