Morgunblaðið - 20.07.2012, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 20.07.2012, Blaðsíða 6
SVIÐSLJÓS Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Flugfélagið Mýflug sérhæfir sig í leigu- og sjúkraflugi hér á landi. Frá árinu 2006 hefur félagið sinnt sjúkra- flugi samkvæmt samningi við vel- ferðarráðuneytið og sinnir það nú nær öllu sjúkraflugi innan Íslands. Núgildandi samningur við Mýflug rennur út um næstu áramót en líkt og Morgunblaðið greindi frá í gær hefur Landhelgisgæsla Íslands lýst yfir áhuga á að taka að sér allt sjúkraflug hér á landi. Rökin munu m.a. vera hagræðingin sem því fylgir að hafa allt sjúkraflug á einni hendi. Reisa þyrfti nýtt skýli „Ég tel okkur hafa sinnt þessu ágætlega, það hefur a.m.k. verið lítið um kvartanir,“ segir Leifur Hall- grímsson, framkvæmdastjóri Mý- flugs, og bætir við að hann stórefist um hagkvæmni þess að láta Land- helgisgæsluna annast allt sjúkraflug. „Mér er það stórlega til efs að Land- helgisgæslan hafi burði til þess að gera þetta ódýrara en við,“ segir Leifur og bendir á að væntanlega þurfi að reisa nýtt flugskýli á Akur- eyri fyrir tækjabúnað Gæslunnar og það kann að kosta um hálfan milljarð króna. Fleiri krónur í kassann Fari svo að höfuðstöðvar flug- deildar Gæslunnar verði fluttar norður til Akureyrar er ljóst að fjöldi starfsmanna yrði að flytjast búferl- um. „Þá þarf eflaust að þjálfa nýtt starfsfólk því einhverjir munu vænt- anlega ekki fást til að flytja norður. Svo fljótt á litið sé ég ekki alveg hag- ræðinguna.“ Leifur segir Mýflug sinna að með- altali um 400-500 sjúkraflugsbeiðn- um á ári samanborið við þyrlur Landhelgisgæslunnar sem sinni um 10-15 prósentum þess fjölda. Vert er að taka sérstaklega fram að hér er ekki átt við björgunarflug þyrlu- sveita. „En ég skil vel að Gæslan vilji efla sína flugdeild. Þeir eru náttúrlega að reyna að afla sér fleiri verkefna og fá fleiri krónur í kassann.“ Fulltrúar frá Landhelgisgæslunni, ISAVIA, innanríkis- og velferðar- ráðuneyti hafa farið yfir útreikninga og skoðað hugsanlega hagkvæmni þess að Gæslan taki alfarið yfir sjúkraflugið en niðurstaða liggur ekki fyrir. Ekki fengust upplýsingar frá Landhelgisgæslu Íslands þegar eftir þeim var leitað við gerð fréttar. Efast um að Gæsl- an geti gert betur  Mýflug sinnir að jafnaði 400-500 ferðum í sjúkraflugi á ári Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson Sjúkraflug Mikilvægur þáttur í starfsemi Mýflugs er að sinna nauðsynlegu sjúkraflugi hér á landi. Til að sinna verkefninu notast félagið við hraðfleyga og öfluga sjúkraflugvél af gerðinni Beechcraft King Air 200. 6 FRÉTTIRInnlent MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 20. JÚLÍ 2012 Páll Fannar Einarsson pfe@mbl.is „Í grófum dráttum er staðan svipuð og frá seinasta lundaralli. Við leggj- um af stað í dag [fimmtudag] í seinna rallið og munum athuga hvernig ungarnir hafa það. Það gefur okkur ágætis mynd af varpárangri. Við kláruðum Vestmannaeyjar í gær [miðvikudag] og pysjurnar eru að- eins byrjaðar að afreka en það er engin skriða komin af stað ennþá,“ segir Erpur Snær Hansen, sviðs- stjóri vistfræðirannsókna hjá Nátt- úrustofnun Íslands. Erpur telur lundavarpið í ár vera afar slæmt, en hann lauk nýverið við talningu í Vestmannaeyjum. „Þetta er bara það sem við bjuggumst við á Vestur- og Suðurlandi frá Papey til Breiðafjarðar,“ segir Erpur. Ekki óhætt að veiða Á fundi umhverfis- og skipulags- ráðs Vestmannaeyja á miðvikudag var tekin sú ákvörðun að leyfa ekki lundaveiðar í sumar, en Erpur er hjartanlega sammála þeirri ákvörð- un. „Seinustu sjö árgangar hafa ver- ið mjög slæmir og stofninn hefur minnkað um allt að helming í Eyjum. Þegar ástandið er svona þá verðum við að bíða eftir því að varpárang- urinn fari upp fyrir meðallag nokkur ár í röð svo hann nái að jafna sig,“ segir Erpur, en hann telur að ekki sé óhætt að hefja veiðar á lundanum fyrr en sá árangur hefur náðst. Erpur er ekki sammála þeirri skoðun að veiðar í háf hafi engin áhrif á stofn lunda, en hann segir að hlutfall veiða í háf sé hærra en menn geri sér grein fyrir. „Um 14% af hverjum árgangi hefur hingað til far- ið í háfinn í Vestmannaeyjum og um 30% þeirra sem lenda í háfinum eru fullorðnir fuglar. Veiðarnar eru það miklar að þær eru á mörkum sjálf- bærni,“ segir Erpur. Lífslíkur fullorðins lunda eru um 87% og ef hann er ekki veiddur hækka þær í 95%. Að mati Erps skiptir hvert prósent miklu máli. Eitt prósent styttir lífslíkurnar um nokkur ár. „Þegar við erum komin með svona mikinn mismun þá erum við farin að hirða alla umframfram- leiðslu,“ segir hann, en að sögn Erps koma fljótlega út útreikningar sem sýna fram á að veiðar hafi mikil áhrif á stofninn. Telur lunda- varpið afar slæmt í ár  Stofninn hefur minnkað um helming Morgunblaðið/Ómar Lundi Um 14% af hverjum árgangi í Eyjum hafa farið í háfinn. Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Von er á mikilli úrkomu um helgina um mestallt landið. Bænd- ur á Norður- og Suðurlandi taka rigningunni fagnandi, enda hefur verið mikil þurrkatíð ríkjandi að undanförnu líkt og komið hefur fram í fréttum. Sveinn Sigurmundsson, fram- kvæmdastjóri Búnaðarsambands Suðurlands, segir að úrkoman um helgina verði afar kærkomin. „Það er búið að vera ákaflega þurrt, eins og allar tölur segja til um, og það vantar orðið víða vatn. Litlir lækir eru orðnir uppþornaðir og drykkjarvatn er farið að verða af skornum skammti sums staðar. Það verður því kærkomið að fá rigningu,“ segir hann. Nýlega voru í fréttum nefnd dæmi þess að tún hefðu hreinlega skemmst eða brunnið vegna þurrkanna. Sveinn segir að það séu einhver dæmi um bruna á tún- um á Suðurlandi, sérstaklega þar sem jarðvegur sé grunnur eða sendinn og þar sem síðdegisskúrir hafa fallið lítið niður. Rigning vel þegin „Það er ekki jafnt hvernig þeir hafa fallið niður, sums staðar hefur kannski rignt í tvo tíma en á sama tíma ekki komið dropi úr lofti annars staðar. Það hefur ver- ið frekar til fjalla þar sem rign- ingin hefur komið, en minna við láglendið eins og t.d. í Landeyjum og neðst niðri í Flóa,“ segir Sveinn. Hann segir að bændur séu þó ekki endilega óhressir með góða veðrið í sumar: „Þetta hefur verið góðviðri í sumar svona heilt yfir, en það hefur vantað vætuna. Það þarf að vökva allt, ekki bara lífsblómið.“ Ólafur G. Vagnsson, héraðsráðunautur á Akureyri, seg- ir að rigningin sé mjög vel þegin eftir viðvarandi þurrkatíð. „Þetta mun hafa afskaplega góð áhrif um nánast allt Norðurland, en þar hefur verið afar takmörkuð úr- koma þó að auðvitað sé það breyti- legt frá einu héraði til annars. Þegar litið er á heildina hefur vantað verulega úrkomu, þannig að þetta gæti gert virkilega góða hluti.“ Ólafur segir að sums staðar sé hugsanlegt að vætan komi of seint. „Það er í einhverjum tilfellum sem þurrkurinn er orðinn það mikill að grös hafa eiginlega hálfvisnað og ná kannski ekki að jafna sig þó að það komi úrkoma, en það eru bara undantekningartilfelli. Heilt yfir mun þetta stórbæta ástandið.“ Bændur taka helgarveðrinu fagnandi Morgunblaðið/Sigurður Sigmundsson Heyjað Víða hefur heyskapur gengið illa vegna þurrkatímabils.  Langri þurrkatíð loksins að ljúka  Hugsanlega of seint sums staðar Þurrkar til vandræða » Afar þurrt hefur verið á landinu síðustu vikurnar. » Grasspretta hefur verið lítil og bændur hafa beðið tjón vegna þessa, t.d. vegna þess að áburður á túnin er dýr, en afraksturinn lítill. » Dæmi eru um að tún hafi brunnið á Hrútafirði, Suð- urnesjum, við Fljótin og í Skagafirði. Sú hugmynd hefur nokkrum sinnum komið upp að flytja höfuðstöðvar Landhelgisgæsl- unnar, ásamt þyrlubjörg- unarsveit, til Suðurnesja. Á sínum tíma myndaðist talsverð umræða um málið og kom m.a. fram nokkur óánægja með hugmyndina. Bendir Leifur Hallgrímsson, framkvæmda- stjóri Mýflugs, því á að telja megi líklegt að einhver óánægja muni koma upp verði af hugmyndum þess efnis að flytja sveitina norður til Ak- ureyrar. Þá fengust þær upplýsingar hjá Sjúkratryggingum Íslands að velferðarráðuneyti hafi snú- ið sér til fjármálaráðuneytis og greint frá áhuga á því að fram- lengja gildandi samning við Mýflug til eins árs, eða ársloka 2013. Vilji til að framlengja ÁÐUR VILJAÐ FLYTJA Kríuvarpið hefur ekki verið gott undanfarin ár, en að sögn Erps hefur fuglinn virkilega fengið að finna fyrir því seinustu ár. „Henni hefur fækkað mikið undanfarin ár. Við erum með nokkur risavörp á landinu og krían er að koma upp ungum mjög víða. Ástandið er samt eitthvað að skána og það eru góðar blikur á lofti,“ segir hann. Fýllinn hefur einnig komið illa út í suðurhluta landsins og hefur hann verið á niðurleið í þónokkurn tíma í öllu N-Atlantshafinu. „Það hefur verið svo hlýtt í sumar að þeir hafa bara grillast greyin. Þeir þola illa langvarandi hita og ég tel að meirihluti varpsins hafi drep- ist,“ segir Erpur en fuglinn hefur þó komist ágætlega af fyrir norðan þar sem hann getur fundið skjól fyrir sólinni. Ástandið víða slæmt SJÓFUGLAR

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.