Morgunblaðið - 13.09.2012, Page 42
42 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 13. SEPTEMBER 2012
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
„Ég hef aldrei komið til Íslands og
finnst það mjög spennandi,“ segir
bandaríski barítónsöngvarinn
Thomas Hampson en hann mun
halda tónleika, ásamt píanóleik-
aranum Wolfram Rieger, í Eldborg-
arsal Hörpu, 6. febrúar á næsta ári.
Spurður að því hvort hann hafi heyrt
af nýja tónlistarhúsinu í Reykjavík
segist hann hafa heyrt heilmikið um
það og húsið sé ein af ástæðum þess
að hann hafi ákveðið að halda tón-
leika á Íslandi.
Hampson hefur notið mikillar vel-
gengni um árabil og telst til helstu
stjarna óperuheimsins í dag, hefur
sungið burðarhlutverk í virtum óp-
eruhúsum á borð við Metropolitan-
óperuna í New York, La Scala í Míl-
anó og Staatsoper í Vínarborg.
Hann hefur sungið inn á um 150
plötur, fimm sinnum hlotið hol-
lensku Edison-verðlaunin fyrir
framúrskarandi árangur í tónlist,
Grammy-verðlaun, frönsku Grand
Prix du Disque-verðlaunin og þýsku
Echo-verðlaunin sem söngvari árs-
ins, svo fátt eitt sé nefnt. Þá er hann
einnig stofnandi The Hampsong Fo-
undation, stofnunar sem hefur það
að markmiði að kynna og efla söng-
list í Bandaríkjunum og á heimsvísu
og samskipti ólíkra menningar-
samfélaga. Hampson er 57 ára og
þreytti frumraun sína á óperusviði
árið 1974. Afrekaskráin er því orðin
æði löng.
Blaðamaður sló á þráðinn til
Hampsons í byrjun viku og ræddi
við hann um sönglistina og tón-
leikana.
Ólíkar áskoranir
– Hvenær ákvaðstu að gerast óp-
erusöngvari?
„Jeminn eini, það er langt síðan.
Óperan valdi mig eiginlega, á marga
vegu. Ég nam reyndar lögfræði,
hafði hug á því að fara út í al-
þjóðalögfræði en komst að því að ég
hafði ástríðu fyrir tónlist og fé-
lagsvísindum,“ svarar Hampson.
Hann hafi ekki haft neina löngun á
æskuárum sínum til þess að verða
óperusöngvari eða koma fram á sviði
en heillast síðar af söng og því sem
hægt væri að miðla með list í sínum
margbreytilegu formum.
– Mér skilst að þú hafir þokast
meira í áttina að Wagner-hlut-
verkum undanfarið?
„Nei, reyndar ekki. Ef eitthvað er
hef ég frekar verið að víkka þekk-
ingu mína á Verdi,“ segir Hampson
en vissulega taki hann enn að sér
Wagner-hlutverk, t.d. í Parsifal. Það
séu takmörk fyrir því hversu mikið
hann geti bætt við sig í Wagner en
hugsanlega muni hann, eftir fimm til
tíu ár, syngja hlutverk Hans Sachs í
óperu Wagners, Die Meistersinger
von Nürnberg.
– Hvaða hlutverk myndir þú segja
að hefði verið mesta áskorunin fyrir
þig á ferlinum?
„Þetta er góð spurning,“ svarar
Hampson og þarf ekki að hugsa sig
lengi um. „Dr. Faust eftir Ferruccio
Busoni, það er mikil áskorun, ég var
að syngja Mandryka í Arabella (eftir
Richard Strauss), það hlutverk er
mikil áskorun hvað söng varðar,“
nefnir Hampson. Þá sé það mikil
áskorun að túlka ákveðnar persónur
óperuverka, t.d. Macbeth, Iago og
Boccanegra í óperu Verdis, Mac-
beth.
– Hvers konar barítón ertu?
Hampson skellihlær og segir
spurninguna mjög góða. „Að öllu
gamni slepptu þá held ég að ég sé í
grunninn lýrískur barítón með mikla
dramatíska möguleika,“ svarar
Hampson. Rödd hans sé það sem á
þýsku sé kallað „strahlend“, kraft-
mikil og tær og krafturinn meiri á
hærri nótunum. Röddin sé samt sem
áður ágætlega djúp.
Röddin er tungumál
– Nú ertu þekktur af því að geta
sungið í ýmsum stíl, t.d. ljóðasöng,
óperu og söngleikjatónlist.
„Ég tek tónlistina sem tungumál
mjög alvarlega. Ef ég nýt tónlistar-
innar, kann að meta hana og tel mig
geta sungið hana þá syng ég hana.
Ég einbeiti mér fullkomlega að því
sem ég er að syngja hverju sinni og
engu öðru, að röddin sé það tungu-
mál tónlistarinnar sem hún þarf að
vera,“ segir Hampson. Þá skipti
engu hvort hann sé að syngja verk
eftir Cole Porter, George Gershwin,
Richard Wagner eða Gustav Mahler.
Hann sé fyrst og fremst hrifinn af
ólíkum sálfræðilegum nálgunum
tónlistarinnar og einbeiti sér að því
að túlka þær ólíku leiðir listarinnar
sem farnar hafi verið í því að sýna
fólki hvað það þýði að vera lifandi.
– Eru einhver markmið sem þú
hefur sett þér sem listamaður sem
þú hefur ekki enn náð, ef svo mætti
að orði komast?
„Ég er ekki viss um að það séu
einhver ákveðin markmið ef við er-
um að tala um óuppfyllta drauma.
Ég hef verið afar lánsamur og
markmið mín og draumar núna eru
að halda heilsu og halda áfram
þessari könnun minni. Mér finnst
ég syngja betur núna en nokkru
sinni, mér finnst ég búa yfir
ákveðnum krafti og þroska sem ég
geti jafnvel nýtt mér í verkum sem
ég hef sungið nokkuð lengi,“ segir
Hampson. Hann hlakki til þess að
syngja ákveðin hlutverk sem bíði
hans, hann muni t.d. árið 2014
syngja í fyrsta sinn í óperunni Woy-
zeck eftir Alban Berg og einnig tak-
ast á við Don Giovanni og Brúðkaup
Fígarós eftir Mozart, svo eitthvað
sé nefnt. Verkin séu mörg sem
hann langi að glíma við á næstu ár-
um.
„Mér finnst ég ekki ófullnægður,
ég vil bara halda mínu striki,“ bætir
Hampson við kíminn. Hann sé í
sínu besta formi hvað varðar
þroska, kraft og sjálfstraust. Þetta
haldist í hendur. „Ég vona að ég
geti haldið þeim glugga opnum sem
lengst,“ segir Hampson og hlær.
Lög og aríur í bland
Hvað efnisskrána á tónleikunum
í Eldborg varðar segir Hampson að
hún sé ekki tilbúin. Hann muni
syngja þekkt lög og aríur í bland,
t.d. eftir Schubert, Liszt og Wag-
ner, líklega á þremur eða fjórum
tungumálum. Efnisskráin muni
höfða til unnenda góðrar tónlistar
fyrst og fremst, sé ekki samin með
óperunnendur eina í huga.
Þroski, kraftur og sjálfstraust
Ljósmynd/Dario Acosta
Eftirsóttur Thomas Hampson þreytti frumraun sína í óperu árið 1974 og af-
rekaskráin er löng. Hampson er á 57. aldursári og hefur komið fram í mörg-
um þekktustu óperuhúsum heims, m.a. La Scala og Metropolitan.
Barítónsöngvarinn Thomas Hampson heldur tónleika í Eldborg í febrúar á næsta ári Einn eftir-
sóttasti barítónsöngvari heims Finnst hann syngja betur nú en nokkru sinni og er fullur ástríðu
Frekari fróðleik um Hampson og
stofnun hans, The Hampsong Fo-
undation, má finna á vefsíðunni
hampsongfoundation.org.
Miðasala á tónleika Hampsons fer
fram á harpa.is og midi.is.
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Með þessari sýningu langaði okkur
að minnast þess að 40 ár eru liðin frá
stofnun Myndhöggvarafélagsins, en
félagið var stofnað í kjölfar útimynd-
listarsýninganna fimm á Skólavörðu-
holti á árunum 1967-1972,“ segir
Inga Ragnarsdóttir, einn skipuleggj-
enda, um sýninguna Minning um
myndlist sem sýnd er í Listasafni
ASÍ um þessar mundir og stendur út
mánuðinn.
„Frumkvöðlarnir að þessum sýn-
ingum á Skólavörðuholtinu voru
Ragnar Kjartansson og Jón Gunnar
Árnason, en þeir voru báðir nem-
endur Ásmundar Sveinssonar, en
hugmyndin að þessum útisýningum
var komin frá honum,“ segir Inga og
bendir á að sýningarnar hafi verið
víðfeðmar. „Alls tóku þátt 45 lista-
menn á aldrinum 17-75 ára. Þarna
sýndu hlið við hlið eldri kynslóð
virtra listamanna, ungir róttækir
listamenn, listnemar og áhugamenn,“
segir Inga og bendir á að það hafi
verið algjör nýjung á sínum tíma að
sýna í opinberu rými. „Í rauninni
skapaðist þarna nýr vettvangur fyrir
myndlist á Íslandi, sem haldist hefur
allar götur síðan,“ segir Inga og
bendir á að a.m.k. sjö verk sem upp-
haflega voru á útimyndlistarsýning-
unum séu enn til sýnis í opinberu
rými.
Leggja undir sig allt húsið
Að sögn Ingu voru á útimynd-
listarsýningunum fimm sýnd a.m.k.
um 130 verk. Spurð hvernig hafi
gengið að hafa uppi á þessum verkum
aftur til sýningarhalds nú segir Inga
það hafa kostað mikla vinnu. „Þegar
við lögðum upp með sýninguna gerð-
um við okkur grein fyrir að mörg ef
ekki flest verkanna væru týnd og
töpuð, en gera má ráð fyrir að rúm-
lega 60% verkanna séu ónýt,“ segir
Inga og bendir á að þetta útskýri
m.a. heitið á sýningunni.
„Þannig eru mörg af frægustu
verkunum töpuð, eins og t.d. Súper-
þvottavélin hennar Rósku, Flugan
hans Magnúsar Tómassonar og
Brauðið hans Kristjáns Guðmunds-
sonar. Við ætluðum því alltaf að
byggja sýninguna að stórum hluta á
einkaljósmyndasafni og úrklippu-
safni Ragnars Kjartanssonar,“ segir
Inga og tekur fram að fundist hafi
myndir af um 90% verkanna í safni
Ragnars. „Þegar við fórum að leita að
verkum kom það okkur þægilega á
óvart hvað við fundum mikið, en á
sýningunni eru 25 verk. Það er sér-
lega gaman að geta rifjað upp verk
listamanna sem vel voru þekktir þá,
en fáir muna eftir í dag,“ segir Inga
og nefnir í því samhengi verk eftir
Jón B. Jónasson og Inga Hrafn
Hauksson. „Við vorum t.d. af-
skaplega stolt af því að finna verk
hans, Fallinn víxill, sem var á sínum
tíma eitt frægasta verkið og gerði
Inga Hrafn að þeirri stórstjörnu sem
hann varð í myndlistarlífinu þá.“
Sýningin Minning um myndlist
leggur undir sig allt Listasafn ASÍ
sem og garðinn umhverfis húsið. „Við
höfum ekki jafnmikið útisvæði og þá,
enda hefur leikskólinn Grænaborg
risið á því svæði þar sem útisýning-
arnar sjálfar voru á sínum tíma. Við
sýnum því verkin í Gryfjunni og stóra
salnum, í eldhúsinu má sjá ljós-
myndasýningu af verkunum, á göng-
unum eru myndir, blaðaúrklippur og
upphaflegu sýningarskránar auk
þess sem öndvegisverk eftir Sigurjón
Ólafsson, Hallstein Sigurðsson og
fleiri eru úti á svölum. Í Arinstofunni
er síðan sýnd ný heimildarmynd eftir
okkur Katrínu Agnesi Klar sem
byggist á viðtölum við nokkra af þeim
listamönnum sem tóku þátt í úti-
myndlistarsýningunum. Þannig er
hægt að fá smá innsýn í sýningarnar
eins og þær voru á sínum tíma,“ segir
Inga og tekur fram að Myndlistaskól-
inn í Reykjavík hafi stutt gerð heim-
ildarmyndarinnar.
Þess má að lokum geta að Lista-
safn ASÍ er opið alla daga nema
mánudaga milli kl. 13-17 og er að-
gangur ókeypis.
Minning um
myndlist
Morgunblaðið/Ómar
Sólstafir Inga Ragnarsdóttir hjá verki Jóns Gunnars Árnasonar sem nefnist Sólstafir og er eitt fyrsta þrívídd-
arverkið sem listamaðurinn vann í ryðfrítt stál. Segir hún mikinn feng í því að geta sýnt verkið á sýningunni.
Mörg verkanna voru týnd eða ónýt