Morgunblaðið - 29.09.2012, Síða 44
44 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 29. SEPTEMBER 2012
Kæru borgaryf-
irvöld.
Öll gerum við annað
slagið mistök. Auðvitað
er það aldrei ætl-
unarverk okkar að gera
mistök og sem betur
fer eru mörg mistök
afturkræf. En, sum
mistök eru hinsvegar
óafturkræf og þess eðl-
is að maður
iðrast þeirra um
ókomna tíð.
Niðurrif húsa við Hljómalindarreit
er dæmi um slíkt, mistök sem aldrei
verða tekin aftur. Verði af fyrirhug-
uðum breytingum á reitnum er nán-
ast öruggt að því fylgir eftirsjá. Það
gerist kannski ekki í dag eða á morg-
un, en þegar fallegur garðurinn er
horfinn, menningin er dauð og stein-
steypt torgið stendur autt og yfirgef-
ið í kuldanum, mun fólk naga sig í
handarbakið og spyrja: „Hvað höfum
við gert?“
Í Hjartagarðinum kemur saman
fólk á öllum aldri og úr öllum þjóð-
félagshópum til þess að njóta góðra
stunda. Þar skiptir engu hver þú ert
eða hvað þú gerir, allir eru velkomn-
ir. Hvergi í Reykjavík má finna svæði
sem iðar jafn mikið af lífi og í Hjarta-
garðinum. Hvergi má finna viðlíka já-
kvæðni, gleði og hamingju saman
komna. Hvergi er maður jafn vel-
kominn og í þessari vin í eyðimörk-
inni.
Staðreyndin er að skjólríkir, sól-
ríkir staðir eru vandfundnir í borg-
inni og þá sér í lagi í miðborginni. Al-
menningsgarðar í borginni eru fáir
og fæstir þeirra bjóða upp á mikla sól
eða skjól. Í þeim görðum
sem við þó höfum er yfirleitt vinda-
samt, kalt og litla afþreyingu að
finna. Jafnvel þó bætt hafi verið úr
afþreyingu og skemmtanagildi á
Klambratúni er túnið enn of vinda-
samt fyrir flesta, auk þess sem af-
þreyingin er fremur takmörkuð við
fjölskyldu- og barnafólk. Sem er vel,
það höfðar hinsvegar ekki til
allra.
Í Hjartagarðinum má finna eitt-
hvað fyrir alla. Börn,
fullorðna, jafnt konur
sem karla. Komið hefur
verið fyrir leiktækjum
fyrir börn, aðstöðu fyrir
alls konar listamenn og
sjálfboðaliðar hafa
komið upp hjóla-
brettaaðstöðu fyrir
brettafólk. Á sumrin
ríkir taumlaus gleði
með lifandi tónlist,
myndlist og börnum að
leik. Gleði og líf sem
smitar út frá sér og
eykur ánægju borg-
arbúa og teygir sig langt út fyrir
landsteinana.
Á hverjum degi koma ferðamenn í
garðinn sem eiga ekki til orð yfir því
hve yndislegur hann sé. Fæstir hafa
séð nokkuð þessu líkt og lýsa honum
sem paradís á jörðu. Fjölbreytileiki
mannflórunnar, menningin og kær-
leikurinn sem þar ríkir vekur strax
athygli fólks og það furðar sig á því
að garðinum hafi ekki verið gefinn
meiri gaumur í ferðahandbókum og
upplýsingabæklingum.
„Hvernig stendur á því að við höf-
um ekki heyrt um þennan garð?“ –
spyr fólk sig „og hver sér um svæð-
ið?“ fylgir oftast.
Þegar fólk heyrir að flest í garð-
inum sé í höndum sjálfboðaliða-
fólksins í garðinum, á það ekki til orð.
Hvernig má vera að til sé garður sem
gerður er af fólkinu, fyrir fólkið?
Hvernig tekst fólki að halda öllu
hreinu með því einu að treysta á sjálf-
boðavinnu og náungakærleika? Svör-
in hef ég ekki á reiðum höndum,
hvorki fyrir ykkur né ferðamennina.
En það er eitthvað við garðinn, eitt-
hvað í loftinu, menningunni og eitt-
hvað í fólkinu.
Þrátt fyrir vinsældir garðsins hér-
lendis sem erlendis er útlit fyrir að
stemningin hverfi. Fyrirhugaðar
breytingar á skipulagi reitsins munu
ganga af því góða starfi, sem farið
hefur fram í garðinum, dauðu. Öll
hjólabretta- og myndlistaraðstaða
hverfur og í staðinn kemur stein-
steypt torg með ljósastaurum sem
mynda eiga einhverskonar spíral á
torginu. Ljósastaura sem efast má
um að dragi að marga ferðmenn eða
auðgi borgina lífi, hversu tignarlegir
sem þeir koma til með að vera. Hér
eiga hagsmunir heildarinnar að víkja
fyrir hagsmunum fárra, með alvar-
legum afleiðingum fyrir borgarbúa.
Enginn er að segja að það megi
ekki gera upp hús við Hverfisgötu
eða flikka upp á götumynd, en það
hlýtur að vera til önnur leið að því
göfuga markmiði en með tortímingu
blómlegasta svæðis miðborgarinnar.
Það hljóta að vera til lausnir á þessu
vandamáli, sem allir geta sammælst
um. Ég hvet borgaryfirvöld til þess
að fara vandlega yfir málið og reyna
að miðla málum. Einhverskonar
milliveg hlýtur að mega finna með
samráði og samvinnu allra.
Kæru vinir, ég hvet ykkur til þess
að stíga varlega til jarðar og forðast
afdrifaríkar og óafturkræfar ákvarð-
anir. Munið að þið starfið ekki ein-
ungis í umboði núverandi íbúa heldur
einnig í umboði allra framtíðaríbúa.
Takið ekki skammtímahagsmuni
fárra fram yfir langtímahagsmuni
heildarinnar.
Látið ekki tortímingu fallegasta
svæðis miðborgarinnar vera ykkar
helsta minnisvarða. Ekki láta minn-
ast ykkar fyrir niðurrif menningar og
lista vegna gróðahyggju fárra
manna. Látið fremur minnast ykkar
fyrir eitthvað jákvætt, fallegt og ynd-
islegt. Takið fólk fram yfir pening og
menningu fram yfir steinsteypu. Til
Íslands koma ferðamenn til að kynn-
ast fólkinu, menningunni og nátt-
úrunni. Hingað kemur fólk ekki til
þess að skoða hótelbyggingar, versl-
unarmiðstöðvar og ljósastaura.
Með von í hjarta um yfirvegaða og
skynsama ákvörðunartöku.
Bestu, bestu kveðjur.
Vegna fyrir hugaðra
breytinga á Hljómalindarreit
Eftir Hauk Ísbjörn
Jóhannsson » Í Hjartagarðinn
kemur fólk á öllum
aldri til þess að njóta
góðra stunda saman.
Þar skiptir engu hver
þú ert eða hvað þú gerir,
allir eru velkomnir.
Haukur Ísbjörn
Jóhannsson
Höfundur er Reykvíkingur
og háskólanemi.
Fyrir nokkrum árum
var nafni guð-
fræðideildar Háskóla
Íslands breytt í Guð-
fræði- og trúar-
bragðafræðideild og
hún gerð að hluta hug-
vísindasviðs. Ekki er
mér fyllilega ljóst hvað
vakti fyrir þeim sem
breyttu nafninu.
Kennslugreinin almenn
trúarbragðafræði hafði verið kennd í
guðfræðideild allt frá árinu 1945 án þess
að menn fyndu sig knúna til að breyta
nafni deildarinnar. Er einhver eðlis-
munur á guðfræði og trúarbragðafræð-
um? Felur þessi nafnbreyting kannske í
sér að guðfræðideild vilji leggja aukna
áherslu á skilin milli hinnar „réttu“ ev-
angelísk-lúthersku guðfræði og guð-
fræði eða trúarbragðafræði allra hinna?
Merkingarþættir orðsins guð
Margt hefur verið ritað um notkunina
á orðinu guð og hafa menn ekki verið á
eitt sáttir. Margir guðfræðingar telja
sig ekki geta byggt á hefðbundnum yfir-
náttúrulegum teisma sem felst í því að
menn skoða guð á persónulegum nótum
og sjá guðdóm handan náttúrunnar sem
grípur inn í atburðarásina endrum og
eins. Ýmsir telja slík viðhorf vera rótina
að illdeilum og skilningsleysi milli
manna í heiminum. Svonefndir panen-
teistar (eða: guð í öllu) sjá guð sem anda
eða afl sem nær yfir allt og er ekki að-
greindur frá þeim heimi sem við þekkj-
um – sem veruleika innra með okkur en
samt handan hversdags okkar. Margir
kristnir guðfræðingar hafa reynt að
skilgreina þetta merkingarsvið sem
grundvöll tilverunnar (Ground of being)
og með öðrum slíkum hugtökum.
Guðfræði – skilgreiningar
Gablers
Þýski guðfræðingurinn Johann Phil-
ipp Gabler gerði á sínum tíma grein-
armun á hreinni guðfræði og sannri
guðfræði.
Hrein guðfræði fjallar um grunn-
þætti mannlegrar hugsunar sem eru
sameiginlegir öllum mönnum (eins-
konar algildismerkingarfræði), hvernig
eigi að skilgreina þá, bera þá saman og
flokka. Guðfræði í þrengri merkingu
eða hrein guðfræði átti að fjalla um þá
þætti í trúarviðhorfum og breytni
manna sem eru ekki háðir stað og stund
heldur haldast óbreyttir.
Sönn guðfræði fjallar hins vegar um
trúar- og tilvistarviðhorf manna við
ákveðnar aðstæður. Biblíuguðfræðin er
söguleg rannsókn á átrúnaðinum sem
er að finna í biblíunni þar sem guðfræð-
ingurinn reynir að greina texta bibl-
íunnar í merkingarþætti eftir upphaf-
legum aðstæðum þeirra til þess að
túlkendur í samtíð geti metið innihald
þeirra og tekið afstöðu til þeirra. Á
sama hátt má t.d. tala um guðfræði
Platons og Epiktetosar eða um guð-
fræði höfunda ákveðinna Íslend-
ingasagna, rannsaka og skilgreina
grundvallarþætti í trúar/tilvist-
arviðhorfum þeirra og bera þá saman
við hliðstæða þætti hjá öðrum. Slíkar
rannsóknir hljóta m.a. að byggjast á að-
ferðum mál- og þekkingarvísinda og
bókmennta- og félagsvísinda.
Guðfræði – kennslugrein
í háskóla
Guðfræði er ekki bundin við ákveðin
rit sem hafa fengið staðfestingu ein-
hvers trúarhóps. Umfjöllun um innihald
biblíunnar er ekki guðfræði vegna þess
að ritið tilheyrir helgiritasafni biblíunn-
ar heldur vegna þess að þar er fjallað
um tilvistarleg atriði, stef sem snerta
þann sem les – hrein guðfræði skír-
skotar til tilvistarlegs skilnings manns-
ins. Það er hægt að tala um guðfræði
einstakra rita Nýja testamentisins og
annarra frumkristinna bókmennta,
bera saman viðhorf og stef sem þar
koma fyrir og hvað sé líkt og hvað ólíkt.
Guðfræði felst ekki í að setja fram bind-
andi kenningar sem menn geta lesið úr
viðkomandi ritum heldur felst guð-
fræðin fyrst og fremst í að gera menn
læsa á texta sem fjalla um
trúarleg og tilvistarleg
viðhorf manna. Guð-
fræðin felst í að færa
frumtextann yfir á skilj-
anlegt mál, raða efniviðn-
um í kerfi og benda mönn-
um á aðferðir við að lesa
hann og meta hann. Áður
en hægt er að ráðast í að
rannsaka guðfræði rita
Nýja eða Gamla testa-
mentisins, þ.e.a.s. þær til-
vistar/ trúarspurningar
sem þar er að finna, þarf að greina
texta eftir merkingarsviðum og bera þá
saman. Sama er að segja um guðfræði
annarra trúarbragða. Tilraunir til að
setja upp merkingarkerfi mannlegrar
hugsunar er harla erfitt verkefni. Viss-
ar tilraunir hafa verið gerðar með af-
mörkuð svið. Benda má t.d. á greiningu
Eugene A. Nida á 92 merkingarsviðum
í Nýja testamentinu, greiningu á merk-
ingarsviðum í fornenskum textum eftir
Jane Roberts og Christian Kay og
þriggja binda ritverk Jacobs Neusner
um guðfræðileg merkingarsvið innan
rabbínsk gyðingdóms. Einnig má tala
um lögmál og lög sem merkingarsvið,
sbr. merka grein dr. Jóns Ma. Ásgeirs-
sonar prófessors í Ritröð Guð-
fræðistofnunar nr. 32 um munnlegar og
ritaðar lagahefðir innan gyðingdóms og
í frumkristni. Að tengja grunnstefin
boð og bönn við líf einstaklings getur
reynst flókið verkefni en snertir grund-
vallaratriði í samfélagi manna á hverj-
um tíma. Meginverkefni guðfræðinnar
er ef til vill ekki það að spyrja hvort þau
eigi upptök utan mannlífsins eða hvort
þau séu tilbúningur manna, heldur að
bera saman aðferðir við að fjalla um
spurninguna í mismunandi sam-
félögum, sýna fram á textavensl og
hvernig megi vinna með efnið. Þannig
ætti verkefnið að auka skilning á lífi
ólíkra samfélaga og draga úr fordómum
milli manna.
Þýðingarfræði og guðfræði
Aðferðir þýðingarfræði og guðfræði
eru hliðstæðar. Þær felast í að reyna að
koma merkingunni á skiljanlegt mál og
fá menn til að tileinka sér og vinna með
innihaldið. Hætta er á að merking text-
ans festist við umbúðirnar og umbúð-
irnar móti að einhverju leyti innihaldið.
Vandinn felst í að halda kjarnanum frá
umbúðunum og vinna með hann og
stilla honum upp við nýjar aðstæður.
Það er brýnt að texti Nýja testament-
isins og annarra trúartexta sé á skilj-
anlegu máli þannig að lesandinn geti til-
einkað sér hann. Sumar biblíuþýðingar
einkennast af einskonar orðabókarþýð-
ingum þar sem orð er þýtt með orði en
margar nýrri þýðingar eru byggðar á
greiningu textans í merkingarsvið þar
sem reynt er að fylgja þeim fremur en
einhverjum torskildum trúfræðiform-
úlum og kirkjujátningum.
Grunnnám í guðfræði þarf að miðast
að því að æfa stúdenta í að geta lesið
trúar- og tilvistartexta og heimfært þá
að eigin aðstæðum fremur en að merk-
ing þeirra liggi fyrir áður en lestur og
túlkun þeirra hefst. Þetta á reyndar við
um alla lestrarkennslu.
Samfélag kirkja og guðfræði
Brýnt er að Háskóli Íslands meti
stöðu sína og guðfræðideild skilgreini
hlutverk sitt innan íslensks þjóðfélags
nú þegar mikið er rætt um að breyta
eldri stjórnarskrá eða semja nýja. Með
því að greina á milli evangelískrar-
lútherskrar guðfræði og annarra trúar-
bragðafræða og einskorða grunnnámið
í guðfræðideild við evangelíska-
lútherska guðfræði hlýtur sú spurning
að vakna hvort slíkt nám eigi ekki frem-
ur heima innan evangelískrar-
lútherskrar kirkju.
Er guðfræði
háskólagrein?
Eftir Jón
Sveinbjörnsson
Jón Sveinbjörnsson
» Það er brýnt að texti
Nýja testamentisins
og annarra trúartexta
sé á skiljanlegu máli.
Höfundur kenndi við guðfræðideild
Háskóla Íslands á síðustu öld.
Árin segja sitt1979-2012
BISTRO
Laugarásvegi 1 | 104 Reykjavík | Sími: 553 1620 | laugaas.is