Skinfaxi - 01.11.2012, Blaðsíða 9
SKINFAXI – tímarit Ungmennafélags Íslands 9
– Niðurstöður rannsóknanna liggja nú
fyrir. Hvað segja þær í stórum dráttum?
„Þær undirstrika í rauninni það sem við
höfum vitað lengi um forvarnagildi íþrótta.
Það er algjörlega ljóst að ungmenni, sem
eru sterklega tengd íþróttastarfi, eru í
miklu betri málum en önnur. Þau standa
sig betur í skóla, þeim líður betur, þau fá
hærri einkunnir, nota minni vímuefni,
þannig að tengslin eru endalaust jákvæð
þarna á milli. Mestu máli skiptir að krakk-
arnir séu glöð og ánægð en það er það
sem heldur þeim áfram í íþróttunum. Auð-
vitað eru fleiri þættir sem þarna skipta máli
og má nefna góð tengsl við fjölskyldu, for-
eldra og jafningjahóp. Það sem er hins
vegar merkilegt við þetta núna og kemur
glögglega í ljós á línuritum, þegar við ber-
um saman stærstu félögin, er að ánægjan
með íþróttaaðstöðuna skorar frá 38% upp
í 100%. Með þessu móti og því að fá
samanburð beint í andlitið getum við séð
hvar skórinn kreppir. Mikilvægast af öllu
er að aðilar, sem voru í rannsókninni, nýti
niðurstöður, það er algjört lykilatriði. Við
höfum talað fyrir því í mörg ár að þeir sem
vinna á vettvangi með ungmennum þurfi
að fá upplýsingar strax. Það þýðir ekki að
koma með 2–3 ára niðurstöður og segja:
Svona var þetta árið 2009. Þess vegna
leggjum við gríðarlegt kapp á að koma
upplýsingunum út eins fljótt og hægt er.
Sveitarfélög, sem í búa um 80% lands-
manna, eru komin með niðurstöður innan
þriggja mánaða,“ sagði Jón Sigfússon.
Aðspurður, hvort álíka könnun hefði
verið unnin innan Norðurlandanna eða
annars staðar, sagði Jón svo ekki vera. Hann
sagði þó að samanburður við aðrar þjóðir
væri til í ýmsum þáttum. Jón taldi að Ísland
væri eina landið í Evrópu sem legði fyrir
þýðisrannsóknir á hverju einasta ári. Hann
sagði að það sem réði því að þetta væri
hægt væru nemendur sjálfir. Þeir og skól-
arnir væru stærstu samstarfsaðilarnir en
frá þeim fengju þeir sem vinna rannsókn-
ina upplýsingarnar um hvað ungmennin
vilja og hvernig þeim líður.
„Við erum tilbúin að halda svona rann-
sóknum áfram en það fer samt allt eftir
óskum og vilja hreyfinganna sjálfra. Það
kallar á talsverðan undirbúning hjá okkur
að setja inn þessa spurningaklasa. Við von-
um að þetta haldi áfram en það er ekki
okkar að ákveða það,“ sagði Jón Sigfússon
hjá Rannsóknum og greiningu í spjalli við
Skinfaxa.
Mikilvægast af öllu
er að aðilar, sem voru
í rannsókninni, nýti
niðurstöður, það er
algjört lykilatriði.