Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.12.2013, Blaðsíða 14
S
túlka með maga – skáldættarsaga er ný bók eftir
Þórunni Erlu- og Valdimarsdóttur sagnfræðing og
rithöfund. Bókin er sögð í fyrstu persónu af móður
Þórunnar, Erlu, sem fjallar þar um ætt sína og for-
eldra Þórunni og Jón, virðuleg hjón á Víðimel sem
þjáðust af sýfilis. Þórunn er spurð af hverju hún hefði ákveðið
að skrifa sögu móður sinnar og móðurættar.
„Síðasta bók mín er ævisaga Jakobs Frímanns Magnússonar,
félaga míns úr Hlíðaskóla og MH,“ segir Þórunn. „Kobbi sagði
einlæglega frá sinni móður og örlögum hennar og ótrúlega
margt speglaðist í ævi hennar og mömmu. Einkadætur af
skárri borgara fjölskyldu, spiluðu á píanó, urðu stúdentar og
hófu háskólanám. Báðar óléttar kornungar og líf beggja steytti
á skeri skilnaðar. Jakob sagði einlæglega frá öllu, þótt við-
kvæmt væri. Þannig sögur klingja, þær sem segja allt sem ekki
meiðir.“
Hvernig var að kynnast eigin ætt?
„Ég er komin með þrusu sterkar rætur og sit betur í sjálfri
mér því nú veit ég loksins hver ég er og hvaðan ég er komin.
Svona skriftir hafa auk þess lækningamátt. Söguhetjan Erla
Þórdís Jónsdóttir gramsar í bréfum, bókum og skjölum, fer á
flug og er góður penni. Í járnskápnum fann hún ótrúlega fínt
stöff að vinna úr. Örlagasögur, lífsbaráttu, leyndarmál.
Amma og mamma dóu úr skelfilegum sjúkdómum sem að
hluta má rekja til stöðu kvenna á fyrri hluta síðustu aldar. Þótt
þær væru menntaðar lokuðust þær inni sem einkaþjónar eig-
inmanns, sem er ekki gott fyrir heilsuna. Þórunn amma var
kennari, eins og segir frá í Stúlku með fingur, lærði enskar
bókmenntir í London upp úr fyrri heimsstyrjöld og fór alla leið
til Berlínar. Vann sem enskukennari, túlkur og leiðsögumaður
þegar hún kynntist Jóni afa. Hann læsti hana inni á heimilinu
eftir giftinguna, þar sem henni leiddist ógurlega með sitt eina
barn. Líf eftir seinna stríð var lítið skárra. Pabbi þoldi illa að
mamma talaði þegar þau voru innan um karlmenn, þótt hún
væri stúdent og fullgildur maður. Honum fannst hún ætti að
vera eins og konurnar í Önundarfirði, vera stillt og þjóna. Nú
skil ég mína sögu og þjóðarinnar miklu betur.“
Það er greinilega mikil heimildarvinna á bak við þessa bók,
en er mikill skáldskapur í henni?
„Já, já, já, já. Hún er skrifuð sem skáldskapur, til þess að
gleðja. Kjarninn í bókinni er textar fjölskyldunnar, dagbækur
og bréf. Fólk skrifaði svo fín bréf í gamla daga. Erla var fimm
sumur á Gilsbakka sem krakki og skrifaði Þórunni móður sinni
á sumrin og systrunum á Gilsbakka á veturna og þau bréf eru
bara dásamleg. Jón afi skrifaðist á við föður sinn þegar hann
var í námi hér í Reykjavík Kaupmannahafnarbréf hans til Þór-
unnar eru líka dýrindis tímaspegill. Ég hugleiddi að breyta
nöfnum í bókinni og gera hana að algjörri skáldsögu eins og
Stúlku með fingur, en Helga Kress hefur minnt þjóðina ræki-
lega á hve grófur ritstuldur er. Það er plagiarismi að nýta
texta frá öðrum undir skálduðu nafni.“
Þú segir frá því í bókinni að afi þinn og amma í móðurætt
voru með sýfilis. Varstu ekki á einhverjum tímapunkti hikandi
við að segja frá því?
„Nei, og nú veit ég af hverju ég var ekki feimin við það. Ég
komst að því við vinnslu þessarar bókar að ég er komin í bein-
an kvenlegg af Þórunni ljósmóður í Hvítársíðu, langalang-
ömmu minni. Beinn kvenleggur undan ljósmóður getur ekki
verið feimin við klofið. Þetta var mér hugljómun!
Auðvitað er ég kynbæld eins og okkar kynslóð en ég hef
sem unnandi hugmyndasögu og rithöfundur innilega óbeit á
illri bannhelgi. Mér svíður fyrir hönd fólks með alnæmi að það
skuli ekki geta sagt frá veikindum sínum af ótta við viðbrögð
umhverfisins. Það er skelfilegt að geta ekki sagt frá því sem
skiptir öllu máli, það stíflar hugann, heftir eðlilegt flæði, ham-
ingju og hugmyndaflug.“
Lífið gerir
okkur mörg
að hetjum
RITHÖFUNDURINN OG SAGNFRÆÐINGURINN ÞÓRUNN ERLU- OG VALDIMARSDÓTTIR
SEGIR FRÁ NÝRRI BÓK SINNI, STÚLKA MEÐ MAGA, EN MÓÐIR HENNAR OG MÓÐURÆTT
ERU ÞAR Í FORGRUNNI. ÞÓRUNN RÆÐIR UM HLUTSKIPTI KVENNA, ÖMMU SÍNA OG ERFIÐ
VEIKINDI MÓÐUR SINNAR OG TALAR EINNIG UM SKYGGNIGÁFU, SKÁLDSKAP OG SAGNFRÆÐI.
Kolbrún Bergþórsdóttir kolbrun@mbl.is
Erla Þórdís Jónsdóttir. Móðir Þórunnar.
14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 8.12. 2013
Svipmynd