Morgunblaðið - 15.03.2014, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 15.03.2014, Blaðsíða 28
28 UMRÆÐAN MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 15. MARS 2014 Fermingartilboð Lín Design Laugavegi 176 Glerártorgi Akureyri www.lindesign.is 7.990 kr 8.990 kr 9.990 kr 3 verð á rúmfötum Hvar ertu lögð!“ spurði Sigga Gunnu á leið niður tröppurnar.Stelpurnar voru svo seinheppnar að íslenskukennarinn heyrðitil þeirra og fór að skellihlæja. Þær voru góða stund að átta sigen svo kafroðnaði Gunna en Sigga sagðist hafa átt við bílinn en ekki Gunnu. Þær voru nógu skýrar til að átta sig á hvernig hægt væri að misskilja spurninguna. Þessi skrýtna setning var í þolmynd og sú sagnmynd ryður sér æ meira til rúms á kostnað germyndar sem yfirleitt er þjálli og fer betur í íslensku máli. Hún leggur áherslu á þann sem framkvæmir en ekki þann sem fyrir verknaðinum verður. Sá fyrri er nefndur gerandi en sá síðari þolandi. Setn- ingarnar: Gunna lagði bílnum og bílnum var lagt af Gunnu merkja vitanlega það sama en ekki fer milli mála hvor þeirra hljómar betur. Auðvitað væri með góðu móti hægt að segja: Bílnum var lagt en þá væri Gunna úr sög- unni. Stundum grípa menn til þolmyndar til að ljá máli sínu virðuleikablæ og oft vegna áhrifa frá ensku þar sem hún er algeng og þjál. Hins vegar er hún dyntótt í íslensku máli og getur vald- ið meinlegum misskilningi eins og t.d. í setningunum: Öll þessi ber voru tínd af gamalli konu eða bí- ræfinn þjófur var tekinn af lögreglunni. Í fyrra tilvikinu mætti ætla að ein- hver hefði plokkað berin utan af konunni og í því síðara að einhverjir hefðu komið þessum bíræfna til hjálpar og náð honum af löggunni. Ekki er ólíklegt að sumir lesendur hafi gleymt því hver er munurinn á germynd og þolmynd og sumir hafa kannski aldrei gert sér hann ljósan en tala samt kórrétt. Því er til að svara að germynd er ein sögn með persónu- endingu, t.d. Sigga spurði Gunnu, en þolmynd er mynduð af tveimur sögn- um, hjálparsögn og aðalsögn, t.d. Gunna var spurð (af Siggu). Hjálpar- sögnin er langoftast sögnin að vera, en stundum að verða. Þessar ágætu sagnir geta hins vegar gengið í samband með öðrum sem hafa engan þol- anda og geta því ekki myndað þolmynd. Ég er ekki svo ofstækisfull að ég sé algerlega á móti þolmyndinni og oft er hún nauðsynleg, einkum ef gerandans er ekki getið svo sem: Sagan var lesin í útvarpið eða óperan var endurflutt vegna fjölda áskorana. Oft er hún samt óþörf og ýmsar íslenskar sagnir harðneita að láta setja sig í þá stöðu. Þannig eru t.d. sagnirnar sofa, þorna og hanga enda hafa þær engan þol- anda þótt maður geti verið vel sofinn, þvotturinn sé þornaður og kjötið sé vel hangið. En eins og þolmyndin er í rauninni einföld og skýr í notkun hefur mörg- um tekist að klúðra henni ískyggilega eins og dæmið um Gunnu og Siggu sýnir. Í máli barna og unglinga og jafnvel fullorðinna heyrast setningar eins og: Það var sagt okkur, það var barið mig, það var skammað okkur og ég lýg því ekki að eitt sinn sagði við mig ung og hrygg stúlka: „Það var nauðg- að mér.“ Þarna er gerandanum sleppt, kannski af misskilinni kurteisi, og gervifrumlagið það sett í staðinn. Slíkur óskapnaður er stundum kallaður geld þolmynd og þótt við getum kennt enskum áhrifum um ýmislegt sem af- laga fer kannast ég ekki við slík fordæmi þaðan. Ég hætti mér ekki út á þann hála ís að útskýra uppruna þessa geldingsháttar og kannski er erfitt að gefa fullnægjandi útskýringu á því hvað er rangt við slíka málnotkun, úr því að gervifumlagið er talið gott og gilt með mörgum sögnum, t,d, sitja, standa og sofa. Munurinn er einkum sá að slíkar sagnir taka ekki með sér þolanda eins og sögnin að leggja. Trúlega hefði mér varla stokkið bros ef hún Sigga mín hefði sagt: Það var lagt bílnum við skólann af Gunnu. Um gelda og ógelda þolmynd Tungutak Guðrún Egilson gudrun@verslo.is Það er kominn tími til að við endurmetum frágrunni stöðu okkar í samfélagi þjóðanna og þarmeð áherzlur í utanríkismálum okkar. Margtkemur til. Fyrst ber að nefna að viðræðum okkar við Evrópusam- bandið um aðild er í raun lokið, þótt ekki liggi fyrir end- anleg niðurstaða um hvernig það verður gert með form- legum hætti. Í annan stað er ljóst að framtíðarþróun Evrópusam- bandsins er ekki á beinni og breiðri braut. Þar eru tvö meginöfl að verki. Annars vegar þeir sem sjá fyrir sér Bandaríki Evrópu. Hins vegar þeir sem vilja staldra við á þeirri vegferð og jafnvel snúa að einhverju leyti við. Kannski gefa kosningar til Evrópuþingsins í maí vísbend- ingar um stöðu þessara meginfylkinga. Í þriðja lagi fer ekki á milli mála, að Evrópuríkin standa nú frammi fyrir nýjum vandamálum. Í fyrsta skipti frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari – að átökunum á Balk- anskaga á síðasta áratug 20. aldar frá- töldum – er nú reynt að breyta landa- mærum ríkja í Evrópu með valdi. Þá er átt við Krímskaga og að sumu leyti austurhluta Úkraínu. Rökin sem Rússar nota minna óhugnanlega á rökin sem Hitler notaði fyrir innlimun héraða í Tékkóslóvakíu og Austurríki í Þýzkaland fyrir stríð, eins og bæði Hillary Clinton og Gary Kasparov hafa minnt á. Í fjórða lagi fer ekki á milli mála, að það sem að okkur Íslendingum snýr frá sumum nágrannaþjóðum okkar hin síðari ár er ekki beinlínis vinsamlegt. Þá er átt við við- brögð Norðurlandaþjóðanna og sumra annarra Evrópu- ríkja vegna vandamála okkar haustið 2008 svo og nýjustu fréttir af makríldeilunni. Í fimmta lagi hefur verið ljóst í nokkur ár að nauðsyn- legt væri fyrir okkur að efla á ný tengslin við Bandaríkin og breikka samstarfið við Kanada og Grænland vegna uppbyggingar norðurslóða á þessari öld. En jafnframt eru nú að koma til sögunnar ný álitamál, sem við komumst ekki hjá að fylgjast með og skoða utan- ríkispólitíska hagsmuni okkar í því samhengi. Á fyrstu áratugunum eftir fall Sovétríkjanna var bjart- sýni ríkjandi um að gott samstarf gæti tekizt á milli Rúss- lands, sem byggi við lýðræði, og annarra Vesturlanda- þjóða. Samskipti Rússa og Atlantshafsbandalagsins urðu býsna náin og um skeið talað um að Rússland mundi hugs- anlega gerast aðili að Atlantshafsbandalaginu sem yrði þá eins konar öryggisbandalag allra Evrópuþjóða. Slíkar umræður heyra sögunni til. Ljóst er að eftirfar- andi er að gerast í Rússlandi: Lýðræðið hefur ekki haldið áfram að þróast með eðlilegum hætti. Steinar eru lagðir í götu stjórnarandstæðinga. Ljóst var af samtali Þóru Arn- órsdóttur við Gary Kasparov fyrir nokkrum dögum að hann er ekki á leið til Rússlands. Það er rússneski auð- maðurinn Khodorkovsky, sem leystur var úr haldi fyrir Ólympíuleikana, ekki heldur. Hvorugur hefur trú á að þeir mundu lengi ganga lausir. Samhliða hafa Rússar unnið markvisst að því að efla herstyrk sinn og það á ekki bara við í suðurhluta landsins og á landamærum Úkraínu. Það á líka við í Norður- Rússlandi. Þar er verið að opna herstöðvar á ný á Kóla- skaga sem búið var að loka og yfirlýst stefna rússneskra stjórnvalda er að efla hernaðarlega nærveru Rússa á norðurslóðum. Fyrir nokkrum dögum var athygli vakin á því á Norðurlöndum, að undanfarið hafa 150 þúsund rúss- neskir hermenn verið við æfingar í námunda við landa- mæri Eystrasaltsríkjanna og Finnlands. Loks vinna þeir skipulega að því að byggja upp annað efnahagsbandalag í Evrópu og Mið-Asíu, sem byggist á Rússlandi, Hvíta-Rússlandi, Kas- akstan og fleiri ríkjum, og þar átti Úkraína að gegna lykilhlutverki. Þegar allt þetta er lagt saman er nú spurt og ekki að ástæðulausu, bæði í bókum og blöðum, hvort nýtt kalt stríð geti verið í aðsigi. Slíkt kalt stríð mundi augljóslega hafa áhrif á uppbygg- ingu norðurslóða eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur réttilega bent á í tengslum við stöðu mála í Úkraínu. Það er nauðsynlegt fyrir okkur, eyjarskeggja langt norður í höfum, að átta okkur á þessari stóru mynd, að gera okkur grein fyrir hvað geti gerzt í námunda við okk- ur og haft áhrif á okkar stöðu. Og með hvaða hætti við get- um bezt tryggt öryggi okkar. Það blasir við að það verður bezt gert með því að endur- nýja náin tengsl við Bandaríki Norður-Ameríku. Þau tengsl voru lykill að vel heppnaðri vegferð okkar á fyrstu áratugum lýðveldisins og þá ekki sízt hvernig við náðum fullum yfirráðum yfir auðlindum hafsins við Íslands strendur. Svo komu hnökrar á þau samskipti, sem tengd- ust brottför varnarliðsins og hvernig að því var staðið. Það er ljóst að nýjar kynslóðir áhrifamanna í Bandaríkjunum undir lok síðustu aldar misskildu Íslendinga í grundvall- aratriðum. Donald Rumsfeld, þáverandi varnarmálaráð- herra Bandaríkjanna, hefur bersýnilega haldið að við vild- um halda varnarliðinu hér af fjárhagslegum ástæðum. Því fór víðs fjarri. Nú er tímabært og nauðsynlegt að gera þessa gömlu sögu upp. Við þurfum að einbeita okkur að því að byggja upp tengslin við Bandaríkin á ný, annars vegar til þess að styrkja stöðu okkar sem þátttakendur í uppbyggingu norðurslóða og hins vegar af öryggisástæðum vegna óvissrar stöðu í okkar heimshluta af framangreindum ástæðum og byggja þar á varnarsamningnum, sem enn er til staðar. Þetta þarf að gera með áberandi hætti, svo að ekki fari á milli mála, hvorki í Washington né í Evrópu, hvert hugur okkar stefnir. Endurmat á stöðu okkar í samfélagi þjóðanna Tengslin við Bandaríki Norður-Ameríku þarf að byggja upp á ný Af innlendum vettvangi … Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is Hér rifjaði ég upp á dögunumnokkur helstu afrek UBS, stærsta banka Sviss, sem stjórnvöld þar í landi björguðu frá falli í upp- hafi hinnar alþjóðlegu lánsfjár- kreppu. Skömmu áður höfðu fjár- festar í Singapúr og Mið-Austur- löndum bjargað bankanum frá falli. UBS reyndi að eyða skjölum um skuldir við dánarbú gyðinga og samdi um stóra greiðslu til samtaka gyðinga fyrir vikið. Einnig hefur bankinn orðið að greiða stórsektir vegna tilrauna til að hagræða vöxt- um og aðstoða auðuga Bandaríkja- menn við peningaþvætti. Ég get því ekki sagt, eins og ágætur maður, sem andmælti mér umsvifalaust í tölvuskeyti, að UBS sé reistur á „aldagömlu fjármálaviti“ Svisslendinga. Bankinn nýtur þess, að allir vilja geyma fé í Sviss, svo að hann þarf að greiða litla sem enga vexti. Engu að síður varð tvisvar að bjarga honum frá falli, jafnt fyrir og eftir kreppu! Og þótt hann fari illa með dánarbú gyðinga, hagræði vöxt- um og aðstoði viðskiptavini við pen- ingaþvætti dettur engum í hug að setja hann á lista um hryðjuverka- samtök, eins og Landsbankinn mátti sætta sig við. En tökum þá annan banka, sem líka var bjargað frá falli í upphafi hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu, RBS, Royal Bank of Scotland. Hann hafði þegar fyrir kreppuna sætt harðri gagnrýni fyrir að reisa sér veglegar höfuðstöðvar í Edinborg og dýrar bækistöðvar í Bandaríkj- unum, leigja einkaþotur undir bankastjórana, gera við þá rausn- arlega kaupauka- og lífeyrissamn- inga og greiða frægu fólki stórfé fyr- ir að koma fram fyrir hönd bankans. (Kannast einhverjir við þetta fram- ferði?) Í ljós kom í upphafi krepp- unnar, að RBS var að falla. Breska ríkið varð að leggja honum til 45 milljarða punda í eigið fé – níu þús- und milljarða íslenskra króna – og leggja honum til 275 milljarða punda í lausafé. Þessar upphæðir hefðu verið rúmlega tvöföld landsfram- leiðsla Skotlands á ári. Og engir kórdrengir stjórna RBS fremur en UBS. Í febrúar 2013 greiddi RBS 612 milljón dala sekt fyrir þátt sinn í að hagræða vöxtum. Í desember 2013 greiddi RBS 100 milljón dala sekt fyrir að hafa átt ólögleg viðskipti við Íran og Súdan, en bæði ríki voru á sama lista og Landsbankinn yfir hryðjuverka- samtök. Hvers vegna var hinum gömlu og traustu bönkum Heritable Bank og Singer & Friedlander í Lundúnum ekki bjargað frá falli, heldur ævintýramönnunum, sem stjórnuðu RBS? Vegna þess að þeir voru báðir í eigu Íslendinga? Og eiga Íslendingar að hneigja sig fyrir RBS, en gera lítið úr íslenskum bönkum? Hafa orð skáldsins snúist við og hljóða nú: „Bara ef lúsin er- lend er, er þér bitið sómi“? Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar Hannes H. Gissurarson hannesgi@hi.is Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð Bara ef lúsin erlend er

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.