Morgunblaðið - 30.06.2014, Síða 17
17
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 30. JÚNÍ 2014
Heyannir Það er fremur sjaldgæf sjón að sjá fólk raka með hrífum í sveitum landsins þótt það sé enn gert þar sem ekki er hægt að nota vélar. Kona rakar hér tún í Djúpadal við Eystri-Rangá.
Eggert
Hagfræðingar og sagn-
fræðingar eru ekki sammála
um margt en flestir fallast á
þá staðreynd að meginhluti
hagvaxtar frá annarri heims-
styrjöld hefur orðið vegna
þéttbýlismyndunar. Að þétt-
býlismyndun er samofin
framþróun hagkerfis þar
sem framleiðsluþættir leita í
þann farveg sem þjónar best
óskum neytenda.
Á hátíðisdögum minnast
stjórnmálamenn gjarnan á
tvö hugtök, „framfarir“ og „byggðastefnu“
sem þó eru í raun ámóta þversagnakennd og
„jákvæð mismunun“. Byggðastefna byggist á
því að skattleggja fólk og fyrirbyggja þar
með að fólk geti varið sínum fjármunum í
það sem það telur að þjóni best sínum þörf-
um yfir í verkefni sem stjórnmálamenn telja
að þjóni best hagsmunum sínum. Byggð á
auðvitað að þróast með hagkerfinu en ekki
öfugt. Þróun byggðar þarf því enga stefnu
og síst af öllu frá stjórnmálamönnum. Op-
inber byggðastefna snýst um að halda byggð
á stöðum þar sem fólk vill ekki búa, hvort
heldur er vegna framfara á sviði atvinnu-
mála eða þéttbýlisþróunar. Hin undirliggj-
andi „stefna“ stjórnmálamanna er hinsvegar
endurkjör á fjögurra ára fresti og þar skiptir
miklu máli að pakka hugtakinu um byggða-
stefnu í fallegar umbúðir sem styggja ekki
þéttbýliskjósendur en umbuna dreifbýli
vegna misvægis atkvæða. Eins og með önnur
fögur fyrirheit stjórnmálamanna átta kjós-
endur sig illa á að loforð stjórnmálamanna í
dag er skattur á morgun. Galdurinn við „vel
heppnaða“ byggðastefnu eins og aðra fyr-
irgreiðslupólitík er að ávinningurinn renni til
fámenns en vel skilgreinds hóps kjósenda
sem geta endurgoldið stjórnmálamanninum
greiðann en kostnaðurinn dreifist á stóran
hóp kjósenda sem hver um sig hefur lítinn
hag af því að berjast gegn álögunum.
Stundum er rætt um að aðskilja fjárfest-
ingabankastarfsemi frá viðskiptabönkum eða
aðskilja sparibaukinn frá spilavítinu til að
draga úr áhættu skattgreiðenda við að
ábyrgjast innistæður. Í nafni byggðastefnu
rekur hið opinbera fjárfestingabanka á
Sauðárkróki sem sjaldan er talað um að að-
skilja þurfi frá sparibauk skattgreiðenda.
Reyndar mætti segja að áhættan af rekstri
Byggðastofnunar sé engin því nán-
ast engin útlán fást endurgreidd og
því tapið „öruggt“. Sérstaða
Byggðastofnunar er nefnilega út-
lán til verkefna sem eru svo galin
að einungis stjórnmálamenn fást til
að lána fé, nánar tiltekið annarra
manna fé.
Hinir rangnefndu verndartollar í
landbúnaði eru svo sömuleiðis sér-
hönnuð vopn gegn framþróun og
því að neytendur fái notið hlutfalls-
legra yfirburða þeirra sem fram-
leiða matvæli með hagkvæmustum
hætti. Byggðastefna er í raun ekki
bara stefna um að viðhalda óhagræði og
hindra framfarir heldur einföld kosn-
ingabrella sem kjósendur sjá því miður ekki
í gegnum. Andstæðingar eru svo útmálaðir
hatursmenn íslensks landbúnaðar og dreif-
býlis sem vilji leggja landsbyggðina í eyði.
Staðreynd málsins er hinsvegar sú að
stefnuleysi í byggðaþróun, öðru nafni mark-
aðsbúskapur, hefur reynst landsbyggðinni
og þjóðinni best. Það er ekki vegna afskipta
stjórnmálamanna heldur þrátt fyrir slíkt að
ferðaþjónusta blómstrar, að kornrækt er að
hefjast í stórum stíl og að landvinnsla í út-
gerð er aftur á uppleið svo nokkur dæmi séu
tekin. Einkaframtakið lætur ekki sitt eftir
liggja í byggðaþróun. Vert er að minnast á
lofsvert framtak Haga sem nú reka dómsmál
gegn ríkisvaldinu til að hnekkja samsæri
stjórnmálamanna gegn neytendum. Líklega
væri eina von ríkisvaldsins að fá alla dómara
landsins úrskurðaða vanhæfa enda allir
neytendur. Fáir átta sig svo á að Hagar og
Bónus reka verslanir um land allt, þar sem
verð er samræmt sem er lofsvert dæmi um
einkarekna byggðastefnu sem ekki er á
kostnað skattgreiðenda. Sú staðreynd sýnir
að markaðsbúskapur þarf síður en svo að
rýra kjör dreifbýlis.
Eftir Arnar Sigurðsson
» Staðreynd málsins er
hinsvegar sú að stefnuleysi
í byggðaþróun, öðru nafni
markaðsbúskapur, hefur
reynst landsbyggðinni og
þjóðinni best.
Arnar
Sigurðsson
Höfundur starfar á fjármálamarkaði.
Byggðastefna
Fyrir nokkrum misserum kom
upp umræða í fjölmiðlum um
stöðu einstaklinga með sjaldgæf-
an sjúkdóm sem hægt var að
meðhöndla með dýrum lyfjum.
Þá var haft eftir ráðherra heil-
brigðismála: „ … það er aldrei
hugsað um peninga þegar fólk er
að ræða um líf“. Því miður vitum
við að þessi yfirlýsing ráðherrans
var full-brött. Staðreyndin er sú
að kostnaður vegna heilbrigð-
isþjónustu fer vaxandi af ýmsum
ástæðum. Þjóðin stækkar, eldist
hratt og meðferðarúrræði verða flóknari og
dýrari en skila um leið meiri og betri árangri og
lengra lífi. En hver á að meta hvað aukin lífs-
gæði eða lengra líf má kosta? Eiga allir sjúk-
dómar að njóta sama forgangs eða á að byggja
forgangsröðun á viðmiðum eins og aldri, alvar-
leika veikinda, batahorfum, kostnaði, fé-
lagslegri stöðu og lífsstíl?
Hvar á að draga mörkin?
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, var í
ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu
viku, þar sem málefni spítalans voru rædd.
Meðal annars bar á góma forgangsröðun vegna
kostnaðarsamra lyfjameðferða, sem Páll segir
réttilega vera erfitt viðfangsefni en verði engu
að síður að ræða og marka stefnu um.
„Hvar á að draga mörkin, eða á að draga
mörkin?“ spyr Páll. „Þetta er ekki eitthvað sem
Landspítalinn getur einn ákveðið eða Sjúkra-
tryggingar. Það þarf aðkomu stjórnvalda og al-
mennings, umræðu sem er einnig byggð á sið-
fræðilegum grunni. Hvernig á að
forgangsraða?“ Páll bendir á að spítalinn
standi í vaxandi mæli frammi fyrir því að þurfa
að veita dýrar lyfjameðferðir við sjaldgæfum
sjúkdómum sem heilbrigðisyfirvöld þurfi að
marka stefnu um hvernig eigi að taka á.
Páll bendir réttilega á að þar sem hvorki er
búið að ræða málið né móta heildstæða stefnu
sé erfitt að segja nei, ef ljóst er að viðkomandi
lyf bjargar mannslífi. Páll tekur dæmi og spyr:
ef lyfjameðferð einstaklings kostar meira en að
reka heilaskurðlækningar á Landspítala í eitt
ár, hvort eigi þá að leggja heilaskurðlækningar
niður til að mæta lyfjagjöfinni. Ef ekki, þá þarf
meira fjármagn og það þarf að huga að for-
gangsröðun sem þarf að grund-
vallast á þremur þáttum. Í fyrsta
lagi á kostnaði, í öðru lagi á
sterkum faglegum rökum og í
þriðja lagi á siðferðilegum þátt-
um. „Það verður að ríkja sátt um
þau grunngildi samfélagsins. Ef
ætlunin er að hafna meðferð, þá
verður að liggja fyrir á hvaða
grunni það er gert.“
Hvernig viljum við
forgangsraða?
Samskonar sjónarmið komu
fram í byrjun vikunnar hjá Katr-
ínu E. Hjörleifsdóttur, sviðsstjóra hjá Sjúkra-
tryggingum Íslands, í tilefni af útkomu árlegr-
ar skýrslu stofnunarinnar um lyfjamál. Katrín
segir ýmislegt hægt að gera til að draga úr
kostnaði en að fyrst þurfi að átta sig á „hvar
við Íslendingar viljum staðsetja okkur meðal
þjóðanna og hvernig við viljum forgangsraða í
heilbrigðiskerfinu“.
Frumtök taka heilshugar undir sjónarmið
þeirra beggja. Nauðsynlegt er að móta heild-
stæða og skýra stefnu í heilbrigðismálum al-
mennt. Stjórnvöld verða að draga vagninn en
kalla alla hagsmunaaðila að umræðunni. End-
urskoða þarf umgjörð lyfjamála á Íslandi í
heild sinni. Hvernig má það t.d. vera að litla
sem enga athygli veki þegar yfirlæknar LSH
segja opinberlega að síðustu ár hafi upptaka
nýrra lyfja, þar með talið krabbameinslyfja,
verið mjög takmörkuð hér á landi? Ísland er
því miður að dragast aftur úr þegar kemur að
meðferðarúrræðum og það er alvarlegt mál
sem þarfnast umræðu í samfélaginu með þver-
faglegri aðkomu vísindasamfélagsins, stjórn-
málamanna og almennings.
Eftir Jakob Fal Garðarsson
»Meðferðarúrræði verða
flóknari og dýrari en skila
meiri og betri árangri og
lengra lífi. Hver á að meta
hvað aukin lífsgæði eða lengra
líf má kosta?
Jakob Falur
Garðarsson
Höfundur er framkvæmdastjóri
Frumtaka, www.frumtok.is.
Við þurfum skýra stefnu
í heilbrigðismálum