Morgunblaðið - 15.10.2014, Qupperneq 27
MINNINGAR 27
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 15. OKTÓBER 2014
ekki endilega í orð, heldur þetta
óræða og ósagða, þetta sem veg-
ur þyngra og er merkilegra en
mörg orð, það að vera heil og
sönn og vanda sig í lífinu. Hún
kallaði fram hið góða í okkur og
þegar maður tínir þetta allt
saman, horfir yfir farinn veg og
minningarnar um hana þá liggur
þetta allt svo ljóst fyrir. Við
finnum enn fyrir ljósi hennar,
birtan sem hún setti út lýsir
enn. Við geymum minningarnar
í hjörtum okkar og erum óend-
anlega þakklátar fyrir allar góðu
stundirnar sem við áttum með
henni.
Við vottum fjölskyldu, að-
standendum og vinum Maríu
okkar dýpstu samúð.
Signý Hafsteinsdóttir,
Björg Jakobína (Bína) og
Auður Þráinsdætur.
Það er liðinn tæpur aldar-
fjórðungur síðan við flest hittum
Maríu fyrst á landvarðanám-
skeiði í Skaftafelli. Mörg unnum
við svo með Gísla í Skaftafelli
næstu ár og kynnin við Maríu
héldust þar sem hún og Gísli
fóru að stinga saman nefjum.
Þarna myndaðist þéttur og
sterkur hópur sem haldið hefur
saman síðan, þar á meðal Gísli
og María. Hópurinn hittist
reglulega og frá aldamótum hafa
árleg mót á Skaganum og ferða-
lög okkar hingað og þangað um
landið verið fastur punktur í til-
verunni. Börnunum hefur fjölg-
að, tengslin eflst og alltaf ríkt
tilhlökkun fyrir næstu ferð.
Á sinn rólega hátt var María
iðulega hrókur mikils fagnaðar í
hópnum. Með lúmskum húmor
og hnyttnum athugasemdum gat
hún fengið okkur hin til að velt-
ast um af hlátri. Hún hafði svo
einstaklega góða nærveru, alltaf
afslöppuð en með á nótunum og
fljót að sjá fyndnu hliðar mann-
lífsins. Hvort sem um var að
ræða þjóðmálin eða bara okkur
samferðafélagana. Meinstríðin á
sinn hlýja hátt en aldrei mein-
leg. Hún var náttúrubarn sem
naut þess að vera úti í öllum
veðrum eins og vaninn var í
okkar ferðum. Hún naut þess
svo líka að slaka á og þá helst
með góða bók í hönd.
Síðasta vetur ákváðum við
stelpurnar að stofna hljómsveit.
María tók strax vel í að vera
með enda hafði hana frá unga
aldri langað til að spila á
trommur. Í hljómsveitinni barði
hún húðir og rappaði af mikilli
innlifun. Þar eins og annars
staðar var hún frábær félagi. Já-
kvæð, uppbyggileg, hugmynda-
rík, skapandi og góður texta-
smiður. Síðast en ekki síst alltaf
með húmorinn í lagi. Þrátt fyrir
erfið veikindi bar hún sig vel.
Hugurinn var kraftmikill þó lík-
aminn yrði veikari. Anton Helgi
segir í ljóði sem hljómsveitin
gerði lag við: … allt getur gerst/
meðan enn leynist bílskúr/baka
til í hausnum á mér/og band
sem djöflast frameftir. Það
sannaði María svo sannarlega.
Nú hefur María kvatt og eftir
sitjum við full af sorg og sökn-
uði, skarð er fyrir skildi í okkar
hópi. Mestur er missir Gísla og
barnanna. Hugur okkar er hjá
þeim og fjölskyldunni allri á
þessum erfiðu tímum. Hlý minn-
ing Maríu lifir áfram með okkur
sem þekktum hana.
Anna og Ólafur Páll,
Glóey og Scott, Sigurborg
og Kristinn, Eydís og
Þröstur, Hildur og
Aðalsteinn og börn.
Margs er að minnast þegar
góð vinkona kveður. Við vorum
svo heppin að kynnast henni
Maríu fyrir mörgum árum og
eigum margar góðar minningar
frá samverustundum. María var
mikið náttúrubarn og þær voru
ófáar sumarbústaðaferðirnar
sem við fórum saman fjölskyld-
urnar. Það var sama hvert á
land ferðinni var heitið, ef við
fengum bústað var alltaf okkar
fyrsta hugsun að athuga hvort
Gilli og María væru laus til að
koma með okkur. Ferðirnar ein-
kenndust af endalausu spjalli,
gönguferðir voru ómissandi,
vöfflur og rjómi, bros, hlýja,
hlátur, rólegheit og góður mat-
ur. María þekkti flest fjöll með
nafni, okkur fannst hún þekkja
hvern krók og kima Íslands. Svo
hafði hún ótrúlegan áhuga á
veðrinu. Textavarpið kom iðu-
lega við sögu í bústaðaferðum,
Gaui fór á fótboltasíðurnar og
María á veðursíðurnar. Svo var
spáð og spekúlerað um úrslit í
leikjum, stöðu í deildum, færð á
vegum og fjölda bíla yfir heiðar
síðasta klukkutímann, allt í
bland. Góðir tímar.
María hefur barist við
krabbamein síðustu ár og það
var ótrúlegt að fylgjast með því
æðruleysi sem hún og Gilli
sýndu. Þau stóðu saman, próf-
uðu margar leiðir, kannski hefur
það gefið lengri tíma. Í gegnum
allt hafa þau kunnað að njóta
lífsins og tímans sem þau fengu
saman fjölskyldan. Börnin hafa
alltaf verið í fyrsta sæti og bera
þau þess öll merki í dag, ótrú-
lega flott og dugleg börn. Hjört-
ur, Ágústa og Una Sóley voru
heppin með foreldra og sem bet-
ur fer hafa þau sterkan föður til
að styðja þau áfram veginn og
dásamlega fjölskyldu. Við vott-
um Gilla, Ágústu, Hirti, Unu,
sem og foreldrum Maríu og
systkinum og tengdafjölskyldu
okkar innilegustu samúð. Þökk-
um fyrir tímann sem við fengum
með þessari einstöku konu.
Það er komið að kveðjustund
í bili. Vonandi hittumst við síðar,
kæra, hvar sem það verður, þá
vitum við að þar verður tekinn
göngutúr, endalaust spjall, bros-
að og hlegið.
Vala, Guðjón, Viktor, Arn-
ór, Orri og Snorri Valur.
María okkar hefur fengið
hvíldina sína. Allt frá því að okk-
ur var ljóst í hvað stefndi var
hugsun okkar, hvað lífið væri
ósanngjarnt og spurningin kom
aftur og aftur upp í hugann; af
hverju? María var lífsglöð,
hress, yndisleg að spjalla við og
vera í návist við. María var
æðrulaus með eindæmum, rétt
eins og í bardaga sínum við
mein sín. María var alltaf tilbúin
að hlusta, var umburðarlynd en
ákveðin á sínu og vel upplýst.
Dóttir okkar var ekki gömul
þegar hún spurði okkur að ein-
hverju og þegar hún sá að við
vorum að vandræðast með svar-
ið sagði hún; hringið í Maríu,
hún veit allt. „Væri ekki ráð,
María mín, að þú tækir upp
nafnið „Gúggla“?“ spurði Brynj-
ar eitt sinn. María þekkti lykt-
ina af rigningu og sagði „nú er
hún að koma“. Þekking hennar
á flestu var þannig að við vorum
oftar en ekki skák og mát.
Kynni okkar af Maríu urðu náin
og mikil eftir að Gísli og María
fluttu suður eftir dvöl sína á
Reykhólum. Við vorum í göngu-
færi hvert við annað. Við tókum
ófáa göngutúrana saman með
Ágústu Mjöll og Hirti Snæ
skottandi á milli okkar. Við vor-
um oft boðin í föstudagssnarlið.
Minnisstæðastar eru líklega
speltpitsurnar sem maður var
alls óvanur á þeim tíma og
kamillute á eftir. Í einum af
þeim göngutúrum kom upp sú
hugmynd að skella sér upp á
Hvannadalshnjúk eftir fáeina
daga. Legið var í héluðu tjaldi í
Skaftafelli og farið upp með
Gísla. Í annað skipti skruppum
við á Ísafjörð saman, eða þann-
ig, þar sem Gísli og María flugu
með krakkana en við komum
keyrandi á Pajeronum þeirra.
Páskaegg voru borðuð í næstum
öll mál, eins og reyndar í öllum
hinum páskaferðunum, og var
hlegið að öllu og engu. Okkur
hjónunum þótti vænt um að fá
Maríu, Gísla og krakkana til
okkar til Færeyja og er minn-
isstæð sú staðreynd að allir hafi
fengið uppsölu nema hann Gísli
sem bjargaði sér með eplinu.
Sumarfrísferð okkar saman til
Dýrafjarðar hér um árið ásamt
Jóa og Ólöfu þar sem spjallað
var um náttúruna og lífsins lög-
mál á meðan horft var á kvöld-
sólina setjast er fögur minning
um góða tíma. Þakklát erum við
fyrir ferð okkar fyrr á árinu
með sama vinafólki norður í
land þar sem skíðað var í Tinda-
stóli. Allt saman yndislegar
minningar um góða vinkonu.
Það er sárt að kveðja en við
minnumst kærrar vinkonu með
þakklæti og virðingu í huga. Við
færum Gísla, Ágústu Mjöll,
Hirti Snæ, Unu Sóleyju og öðr-
um vandamönnum okkar inni-
legustu samúðarkveðjur.
Brynjar og Guðrún.
Okkur þjóðfræðivinkonurnar
langar til að minnast elsku Mar-
íu, sem fallin er frá langt fyrir
aldur fram. Við kynntumst Mar-
íu þegar við sátum saman í nám-
skeiðinu Inngangur að þjóð-
fræði, haustið 2002. Hópurinn
sem sat í þessum tímum var lít-
ill og fljótlega urðum við fjórar
mjög góðir kunningjar. Sumarið
eftir fyrsta vetur okkar í þjóð-
fræðinni bundumst við síðan
tryggum vináttuböndum en þá
fórum við saman í tveggja daga
gönguferð yfir Kjalveginn. Þessi
ferð reyndist okkur miserfið en
María hjálpaði þeim sem áttu
bágt hvort sem það var með
áheitum á Strandarkirkju, að-
stoð við að reima gönguskó eða
bara að vera skemmtileg og láta
okkur gleyma sorgum okkar.
Þó að María hafi verið mikill
útivistargarpur og vináttubönd
okkar hafi myndast í gönguferð
um hálendi Íslands er ekki hægt
að segja að útivist og fjallgöng-
ur hafi einkennt hópinn. Fyrstu
árin eftir að við kynntumst vor-
um við í námi og stunduðum
fremur félagslífið en útivist. Þau
voru ófá partíin sem við þrædd-
um saman og oftar en ekki var
farið niður í bæ og dansað fram
á rauða nótt þar sem hinn
óborganlegi dansstíll Maríu fékk
að njóta sín. María hafði ein-
staklega góða nærveru og öllum
leið vel í kringum hana. Hún gat
talað við alla og oft var hún með
hálfgerða sálfræðiþjónustu í
þessum skemmtiferðum fyrir þá
sem þurftu ráðleggingar varð-
andi ástamál eða annað sem upp
kom.
María var góður vinur og
áhugasöm um allt sem við hinar
tókum okkur fyrir hendur. Á
góðum stundum samgladdist
hún innilega en gaf góð ráð ef
eitthvað amaði að. Okkur er það
sérstaklega minnisstætt þegar
við útskrifuðumst úr þjóðfræð-
inni að þá bauð María okkur í
óvissuferð til þess að fagna
áfanganum. Hún sótti okkur á
fjölskyldujeppanum og brunaði
með okkur í sumarbústað á
Þingvöllum þar sem við gistum
eina nótt. Á leiðinni stoppuðum
við víða, skoðuðum fugla og
fengum heitt kakó sem María
var með á brúsa. Síðan var
spjallað fram á rauða nótt í bú-
staðnum.
Þegar fram liðu stundir gætt-
um við þess að hittast reglulega.
Við hittumst oftast í heimahús-
um og gæddum okkur á dýr-
indis kræsingum. Tvær úr hópn-
um eignuðust síðan barn um
svipað leyti og Una Sóley fædd-
ist og eftir það urðu samkom-
urnar að allsherjar barnafjöri
líka. Minningarnar um þessar
samkomur ylja okkur nú um
hjartarætur en þar var farið yfir
málefni líðandi stundar. María
var alveg einstaklega fordóma-
laus manneskja en jafnframt
mjög forvitin um menn og mál-
efni. Á þessum fundum var okk-
ur ekkert mannlegt óviðkomandi
og enduðu þeir oft á því að grip-
ið var í tölvu til að gúgla hina og
þessa sem verið var að ræða eða
fletta fólki upp í Íslendingabók.
Án Maríu verða samkomurnar
aldrei samar en minningu henn-
ar verður haldið á lofti um
ókomna tíð.
Með sorg í hjarta kveðjum við
Maríu en jafnframt með miklu
þakklæti yfir að hafa fengið að
kynnast þessari einstöku konu
og fyrir þann heiður að hafa
fengið að kalla hana vinkonu.
Fjölskyldu Maríu vottum við
okkar dýpstu samúð á þessum
erfiðu tímum og þá sérstaklega
Gísla, Ágústu, Hirti og Unu Sól-
eyju, þeirra er missirinn mestur.
Steinunn Guðmundardóttir,
Lilja Björk Vilhelmsdóttir
og Dagbjört Guðmunds-
dóttir.
„Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og
hvað mér er útmælt af dögum; lát
mig sjá, hversu skammær ég er. Sjá,
örfáar þverhendur hefir þú gjört daga
mína.“
Lífið er stutt þegar litið er til
baka. Það er mismunandi hvað
okkur er útmælt af dögum og
það er mismunandi hvernig við
förum með þá daga sem við
fáum að lifa. Vegir liggja saman
og vegir liggja í sundur. Vegir
okkar Maríu lágu saman á Þing-
völlum fyrir næstum tuttugu ár-
um þegar við unnum þar saman
við Þjóðgarðinn og bjuggum
undir sama þaki í Gjábakka.
Það voru yndislegir sumar-
dagar sem við áttum á Þingvöll-
um og margar bjartar sumar-
nætur sem var vakað fram á
nótt og spjallað saman í eldhús-
inu í gamla húsinu á Gjábakka.
Þar var sungið um fugla og
bjarkir og þar var líka dansað
við R.E.M. og bjart vatnið,
Hrafnabjörgin og Arnarfellið
rammaði okkur inn í þá fegurstu
mynd sem hægt er að finna í ís-
lenskri sveit.
María var góður félagi. Hún
var einlægur náttúruunnandi og
þekkti blóm og fugla, jarðfræði
og sögu. Það lá þess vegna alveg
einstaklega vel fyrir henni að
vera landvörður og í því starfi
nýttist vel eðlislægur hæfileiki
hennar til að miðla öðrum af
þekkingu sinni. María átti rætur
í Þingvallasveit og af þeim sök-
um fannst okkur vinnufélögun-
um við fá með sérstökum hætti
innsýn inn í sögu sveitarinnar
áður en Þjóðgarðurinn var
stofnsettur. Það var margt
kúnstugt sem kom upp á þess-
um vinsæla veiði- og útilegustað
okkar Íslendinga. María var lag-
in við að leysa úr ýmsum vanda
og þar hjálpaði til hennar fágæti
hæfileiki til að sjá spaugilegu
hliðar mannlífsins.
Haustið ’96 fóru Gísli og
María til Noregs og við hjónin
til Danmerkur. Við María skrif-
uðumst á í gegnum tölvupóst.
María gekk með tvíburana og
við áttum einnig von á okkar
frumburði; það var því dýrmætt
að geta deilt reynslunni af með-
göngunum hvor með annarri.
Árin liðu og aldrei bjuggum við í
nágrenni hvor við aðra og vin-
áttunni mest viðhaldið með jóla-
kortum. Því var gleðin mikil
þegar örlögin höguðu því þannig
að við María lágum saman á
fæðingardeildinni eftir nokkuð
erfiðar meðgöngur í mars 2007.
Við fengum tækifæri til að
dvelja saman í rúmlega sólar-
hring með litlu börnunum okkar
og mennirnir okkar komu og
fóru og snerust í kringum okkur
eins og þeim frekast var unnt.
Það var dýrmætur tími að fá að
vera í þessum aðstæðum með
Maríu sem alltaf var svo skyn-
söm og jarðbundin og íhugul.
Það má líkja lífi okkar mann-
anna við gönguferð. Stundum er
gangan upp í mót og í annan
tíma höfum við meðvind sem
léttir okkur ferðina. Á ferðalög-
um erum við misheppin með
samferðafólk. Sumt samferða-
fólk verður okkur eftirminnilegt
og hefur á okkur djúp áhrif.
Aðrir skilja eftir sig grynnri
spor.
Ég hygg að ég geti fullyrt að
á sinni allt of stuttu ævi hafði
María djúp áhrif á alla sem
henni kynntust. Ég veit að það
sýndi sig m.a. í því hvernig hún
tókst á við sín erfiðu veikindi.
Við Jón Ásgeir erum þakklát
fyrir að hafa kynnst Maríu
Gunnarsdóttur og vottum Gísla,
Ágústu, Hirti, Unu og öðrum
ástvinum djúpa samúð.
Elínborg Sturludóttir.
María Sigrún Gunnarsdóttir
var ráðin til kennslustarfa í
Réttarholtsskóla haustið 2000 og
starfaði þar allar götur síðan á
meðan heilsa og kraftar entust.
María var búin mörgum þeim
kostum sem prýða mega góðan
kennara. Hún var ákaflega
vandvirk og lagði mikla alúð í
undirbúning og framkvæmd
kennslu sinnar en ekki var síður
mikils um vert hversu lagin hún
var við að mynda traust og inni-
haldsríkt samband við nemend-
ur sína. María var jafnlynd og
hæglát í allri framkomu en æv-
inlega glaðvær, hlý og traust;
setti sig vel inn í aðstæður um-
sjónarnemenda sinna og studdi
þá með ráðum og dáð.
María var fjölhæfur og hug-
myndaríkur kennari. Meðal
áhugamála hennar var útivist og
meðan heilsa hennar leyfði
kenndi hún valgrein í skólanum
sem hafði það að markmiði að
vekja áhuga nemenda á íslenskri
náttúru, ferðalögum og heilsu-
samlegri útiveru. Í ferðum með
okkur samstarfsfólki hennar
nutum við góðs af frásagnar-
gleði hennar og þekkingu á
landi og sögu.
Með sorg í hjarta höfum við
fylgst með baráttu Maríu við
þann sjúkdóm sem nú hefur lagt
hana að velli. Við minnumst
hennar með þakklæti og virð-
ingu og sendum börnum hennar,
eiginmanni, foreldrum, systkin-
um og öðrum ástvinum okkar
innilegustu samúðarkveðjur.
Fyrir hönd starfsfólks Rétt-
arholtsskóla,
Hilmar Hilmarsson.
Fyrir rúmum tuttugu árum
stofnaði lítill hópur ferðafélag
með það að markmiði að ferðast
saman um landið í viku á hverju
sumri, sama hvernig viðraði og
helst á hjóli. Hópurinn stækkaði
smám saman þegar börnunum
fjölgaði. Ógleymanlegir skipu-
lagsfundir voru haldnir, hjóla-
og gönguleiðir skoðaðar á landa-
korti, skipulagið sett fyrir næstu
ferð og ferðirnar urðu margar.
Breiðdalur, Langanes, Aðaldal-
ur, Skagafjörður, Hrafnseyri,
Lokinhamradalur, Reykhólar,
Þingvellir, Reykjavík, Eyrar-
bakki, Djúpivogur og öræfi.
Hjólandi, gangandi og brosandi.
Saman lentum við í ótal æv-
intýrum.
Sváfum í tjöldum, syntum í
sjónum, elduðum á hlóðum og
gengum yfir fjöll og firnindi.
Við mættum sól og blíðu, roki
og rigningu og stórstormi. Við
sáum fálka og erni, hvali og seli,
eldgos og náttúruundur. Það er
ómetanlegt að hafa fengið að
upplifa alla þessa staði og ótal
fleiri með þér, elsku María.
Fróðari, skemmtilegri og ynd-
islegri ferðafélaga er ekki hægt
að hugsa sér. Elsku Gísli, Hjört-
ur, Ágústa, Una og fjölskylda.
Hugur okkar er hjá ykkur.
Minning um einstaka vinkonu
lifir.
Elsa Þórey Eysteinsdóttir
og Þorbjörg Sandholt.
Komið er að kveðjustund,
stund sem kemur alltof snemma.
Eftir sitjum við og rifjum upp
margar góðar minningar um
heilsteypta vinkonu sem í svo
mörgu var á undan sinni samtíð.
María okkar var mikill náttúru-
unnandi, hugði að umgengi við
landið, endurnýtingu og fleiru
sem fáir voru uppteknir af fyrir
25 árum. Hún var mjög með-
vituð um heilbrigði, naut útivist-
ar og hafði hollustu í fyrirrúmi.
Snemma kom í ljós að hún fór
eigin leiðir í lífinu, enda fylgin
sér og óháð tískustraumum
hvers tíma. María hafði mikla
ánægju af ferðalögðum bæði
innanlands og utan. Hún var
óhrædd við að takast á við nýja
hluti og vílaði ekki fyrir sér
flutninga milli landshluta eða
landa. María var líka mikill
húmoristi og hélt kímnigáfunni
allar stundir fram í andlátið.
Hún hafði jákvætt viðhorf til
lífsins og náungans, var for-
dómalaus og minnti okkur
reglulega á að ekki eru allir eins
í þessum heimi.
Elsku Gísli, Ágústa, Hjörtur,
Una Sóley og fjölskylda, hugur
okkar er hjá ykkur í þeirri
miklu sorg sem nú hefur knúið
dyra. Minning um góða vinkonu
og yndislega manneskju mun
lifa um ókomin ár og hlýja okk-
ur í sorginni.
Vinkonur úr Kennó,
Arnbjörg, Ágústa,
Guðríður, Hanna María,
Hildur Elín, Hulda og Olga.
Við kynntumst Maríu þegar
við byrjuðum allar að kenna í
Réttó haustið 2000. Litlar
mannabreytingar höfðu átt sér
stað í kennarahópnum í tölu-
verðan tíma þegar við fjórar
hófum þar störf og var gjarnan
talað um okkur sem „nýju kenn-
arana“. Þrátt fyrir að vera tölu-
vert ólíkar innbyrðis myndaðist
strax vinátta okkar á milli. Sú
dýrmæta vinátta hefur haldist
alla tíð, þó svo að stundum hafi
liðið langt á milli samveru-
stunda.
Það er svo margs að minnast
en ofarlega í huga okkar er
húmorinn og gleðin sem fylgdi
Maríu. Hún hafði svo gaman af
góðum sögum og sagði sjálf svo
skemmtilega frá að auðvelt var
að gleyma tímanum í spjalli.
María gaf sér líka tíma í spjall
og samverustundir og það fylgdi
henni einhver stóísk ró sem var
svo notaleg og heillandi.
María var samkvæm sjálfri
sér og aðdáunarvert hversu
óhrædd hún var við að haga sér
ofurlítið á skjön við norm sam-
félagsins. Áður en í tísku komst
að hjóla hvert sem er var María
til að mynda mætt með hjálm á
höfði, klædd í útivistarfatnað og
gjarnan í einhverju fallegu og
sérviskulegu „prjónaríi“. Ómál-
uð og falleg og algerlega sama
um hvort öðrum þætti hún
púkaleg eða skrítin. Fyrir vikið
var hún auðvitað einmitt svöl.
Það átti vel við Maríu að vera
í rólegheitum uppi í sveit, til
dæmis á Þingvöllum þar sem
hún virtist gersamlega í sínu
„náttúrulega umhverfi“. Nátt-
úruverndarsinninn og útivistar-
manneskjan María hafði líka frá
mörgu skemmtilegu að segja
þegar hún rakti ferðalög fjöl-
skyldunnar um Ísland. Oft voru
sögurnar hnyttnar og gerði hún
iðulega góðlátlegt grín að sjálfri
sér.
Það kom okkur ekki á óvart
að María skyldi velja að stúdera
þjóðfræði. Hún hafði einlægan
áhuga á fólki og menningu, sög-
um og siðum. Hún gaf sér tíma
til að hlusta á fólk og var áhuga-
söm, forvitin, laus við fordóma
og opin fyrir nýjum hugmynd-
um. Hvort sem umræðuefnið
var kennsla og uppeldi, tónlist
eða náttúruvernd, þá hafði
María ætíð eitthvað ferskt og
skemmtilegt til málanna að
leggja.
Við erum heppnar og þakk-
látar fyrir að hafa fengið að
kynnast Maríu. Við munum
sakna hennar og geyma allar
góðu minningarnar um þessa
kæru vinkonu. Hugur okkar er
hjá fjölskyldu Maríu og við
sendum þeim innilegar samúð-
arkveðjur.
Þórdís, Ingibjörg Lilja
og Ragnheiður.