Málfríður - 15.10.2005, Page 15
MÁLFRÍÐUR 15
menningarlíf í Lübeck. Fjallað var um félagslega
þjónustu, atvinnuleysi o. fl. Spunnust oft líflegar
umræður um efni fyrirlestranna og menn fóru að
bera saman bækur sínar um ástand þessara mála
í sínum löndum, t. d. eftir umfjöllun um ýmislegt
tengt félagslegri þjónustu. Allt voru þetta fróðleg
erindi og umræður sem færðu menn nær raunveru-
leika þýsks samtíma.
Farið var í tvær skoðunarferðir til borganna Brem-
en, Wismar og Schwerin með tilheyrandi fræðslu
um staðina og heimsóknum í söfn og kirkjur, auk
þess sem fólk gat einnig skoðað borgirnar upp á
eigin spýtur.
Sérlega gaman var að fara í skólaheimsóknir og
fróðlegt að fylgjast með kennurunum vinna við það
sama og við íslensku kennararnir erum að kljást
við hér heima. Fylgst var með kennlsustundum frá
5. bekk og upp úr, auk þess sem tækifæri gafst til að
ræða við skólastjórnendur og kennara.
Á námskeiðum DAG í Lübeck búa þátttakendur
ávallt hjá fjölskyldum í bænum. Þó dagskrá nám-
skeiðsins væri stíf gafst oft tími til að setjast niður
með gestgjöfunum og spjalla. Kostirnir við að búa
hjá fjölskyldu eru þeir að þátttakendur komast í
náið samband við fólkið á staðnum og geta því
betur tengst því sem um er að vera. Einnig gefst á
þennan hátt tækifæri til að eiga mikil samskipti við
fólk á þýsku. Það vakti reyndar athygli mína hvað
Finnarnir og Svíarnir voru duglegir að tala þýsku
sín í milli í stað þess að grípa til síns eigin máls þegar
þeir voru saman í hóp, þannig að segja má að á nám-
skeiðinu hafi eingöngu verið töluð þýska.
Það er gott að eiga þess kost að sækja námskeið
sem þetta og óhætt er að segja að Lübeckbúar hafi
verið afar góðir heim að sækja. Námskeiðið var
sérlega vel skipulagt og fjölbreytt, þannig að margt
mátti læra á þessum tveimur vikum. Nauðsynlegt
er fyrir tungumálakennara að dvelja í viðkomandi
landi af og til um tíma, taka þátt í daglegu lífi fólks-
ins og tala málið. Auk þess er svo gaman að vera
innan um og kynnast starfsfélögum í öðrum lönd-
um, í þessu tilfelli frá hinum Norðurlöndunum. Á
námskeiði sem þessu safnast í reynslusarpinn og
þátttakendur voru reynslunni ríkari eftir dvölina í
Lübeck og tilbúnir í kennsluna á ný með heilmikið
af nýjum hugmyndum í farteskinu.
Mig langar að lokum að nota hér tækifærið og
hvetja þýskukennara til að nýta sér þýskukennara-
námskeið DAG í Lübeck og njóta alls þess sem þar
er boðið upp á.
Frá Félagi þýskukennara
Af FÞ er það helst að frétta, að hartnær þriðj-
ungur starfandi félagsmanna fór sl. sumar til
Graz í Austurríki og var þar viðstaddur 13. þing
Alþjóða þýsku kennarasambandsins (IDV). Vakti
fjöldi Íslendinganna nokkra eftirtekt á þinginu og
munaði sáralitlu að dr. Oddný G. Sverrisdóttir,
sem fer fyrir þýskudeildinni í HÍ, yrði kosin
gjaldkeri heimssamtakanna. Í framhaldinu hefur
þess svo verið farið á leit við FÞ, að það standi
að Internationale Deutscholympiade, sem fyrir-
huguð er í fimmta sinn árið 2007, en sú fjórða var
haldin í Póllandi vorið 2005 og komst Ísland þar
vel á blað eins og sjá má á slóðinni http://www.
ido2005.deutsch.info.pl/ido2005/. Ekki er vitað,
þegar þetta er ritað, hvort FÞ sér sér fært að sjá um
mótið hér á landi árið 2007, en vissulega væri það
góð auglýsing fyrir land og þjóð.
Fulltrúar framhaldsskólanna í þýskukennara-
stétt hittust 4. nóv. sl., en sú hefð skapaðist í tíð
deild ar-/fagstjórnar að boða þá á sameiginlegan
fund á haustdögum eða í vetrarbyrjun.
Aðalfundur FÞ verður væntanlega haldinn í
mars á næsta ári. Munu þá allmargir ganga úr
stjórn skv. endurnýjunarreglum félagsins, þar með
talinn núverandi formaður, sem brátt hefur setið í
fjögur ár í embætti.
Stefnt er að því að halda árlega Þýskuþraut í
febrúar 2006.
Félag Þýzkukennara heldur úti póstlista, sem
opinn er öllum starfandi þýskukennurum á land-
inu, sem óska eftir að vera skráðir á honum.
Umsóknir um slíkt berist til thordis@msund.is.
F. h. FÞ
Ingis Ingason, formaður