Fréttablaðið - 13.04.2013, Blaðsíða 26
13. apríl 2013 LAUGARDAGUR| HELGIN | 26
Mér fannst þetta frábær hugmynd þegar ég heyrði um þetta leik-rit fyrst. Og það kom á daginn að
það hitti mjög í mark hjá Dönum,
sýningin var vinsæl þar í landi og
vann til Reumert-verðlauna árið
2010 þegar hún var sett á svið
fyrst,“ segir Charlotte Böving
um leikritið Kvennafræðarann,
eða Kvinde kend din krop eins og
það nefnist á frummálinu dönsku.
Handbókin sem leikritið byggir
á er mjög þekkt í Danmörku, hún
kom fyrst út á áttunda áratugnum
og síðan þá hefur hver kynslóð
kvenna fengið sína útgáfu af bók-
inni. „Kvinde kend din krop var
mjög pólitísk bók þegar hún kom
fyrst út, skilaboðin að konur ættu
sinn líkama sjálfar voru undir-
liggjandi í þessari beinskeyttu
bók sem sjokkeraði marga,“ segir
Charlotte, sem sjálf fékk bók-
ina að gjöf frá móður sinni. „Það
er hefð að stelpur fái þessa bók
kannski sextán ára gamlar.
Bókin hefur svo komið út á um
það bil tíu ára fresti og umfjöll-
unarefnin taka mið af breyttum
tíðaranda. Í nýjustu bókinni er til
dæmis tekið á lýtaaðgerðum sem
hafa aukist mjög mikið eins og við
vitum.“ Bókin kom út á Íslandi
endursamin árið 1985 undir heit-
inu Nýi kvennafræðarinn, og
fjöldi annarra bóka um svipað
efni hafa komið út hér á landi.
En þótt slíkar bækur séu yfirleitt
frekar þurrar þá er leikritið mjög
fyndið og safaríkt.
Ekkert grín en samt fyndið
„Danir hafa oft lag á að snúa hlut-
unum upp í grín. Í þessu leikriti
erum við að fjalla um ýmislegt
sem varðar kvenlíkamann og líf
konunnar. Meðfram er líka fjallað
smávegis um karlinn, en samt ekki
of mikið! Ýmis umfjöllunarefni
leikritsins eru alvarleg, þannig að
þetta er kannski ekki dæmigert
gamanleikrit, þótt það sé á köflum
bráðfyndið. Markmið mitt var líka
að setja ást og aðeins meiri dýpt
inn í leikgerðina sem ég hef aðlag-
að aðeins að íslenskum aðstæðum.“
Í leiksýningunni er fjallað af
ástríki og gamansemi um helstu
efnisþætti bókarinnar, meðal
annars um það að verða ástfang-
in, um tíðahring kvenna, fæðingar-
þunglyndi, fjögur stig fullnæg-
ingar, breytingaskeið, unglinga,
stress, lýtaaðgerðir og kynlífs-
stellingar. Í sýningunni er fjallað
á berorðan hátt um þessa hluti og
fleiri, og hún er því kannski ekki
við hæfi barna að sögn Charlotte.
Tveir leikarar leika í sýning-
unni, þau Maríanna Clara Lúthers-
dóttir og Jóhann G. Jóhannsson.
Þau skipta bæði margsinnis um
hlutverk í sýningunni og sum
þeirra eru í óvenjulegri kantin-
um. „Þegar við erum að fjalla um
tíðahringinn þá leikur Jóhann til
dæmis leg,“ segir Charlotte og
kímir. „Þess má annars geta að
leikritið er þannig uppbyggt að
þau skiptast á að ávarpa áhorfend-
ur og leika.“
Vill fleiri konur á svið
Charlotte hefur í störfum sínum
sem leikkona, leikstjóri og höf-
undur gjarnan kannað heim
kvenna. „Ég hef tekið það svolít-
ið að mér að fjalla um konur. Það
er ekki af því að mig langi ekki
til að gera leikrit sem snúast um
karla. Það eru bara svo margir í
því. Ég vil sjá fleiri konur á sviði
og miklu fleiri verk sem snúast um
konur. Við erum helmingur mann-
kyns, því er svo einkennilegt að
hlutföllin í leikhúsinu séu svona
ójöfn,“ segir Charlotte og rifjar
upp breska rannsókn þar sem í ljós
kom að karlar ættu 70% hlutdeild í
bresku leikhúsi og konur 30%.
Og við þetta má bæta að þegar
litið er á leikárið í stóru leikhús-
unum tveimur, Þjóðleikhúsinu
og Borgarleikhúsinu kemur í ljós
að karlar eru í aðalhlutverki í sjö
nýjum frumsýningum vetrarins
en konur aðeins þremur. Af sextán
sýningum skrifa konur þrjár
sýningar sem eru sýndar í Þjóð-
leikhúsinu en í Borgarleikhúsinu
var í vetur ekkert langt verk eftir
konu tekið til sýningar, en þess má
geta að tvö verk af þremur í leik-
sýningunni Núna, sem frumsýnd
var síðastliðinn föstudag, eru eftir
konur. Borgarleikhúsið stendur
sig betur en Þjóðleikhúsið í kynja-
hlutverkum aðalhlutverka.
Ættum að umskrifa klassíkina
„Ég veit ekki hvað ég hef horft á
mörg leikrit sem fjalla um sam-
band föður og sonar, ég er pínu
þreytt á því. Við getum kall-
að eftir fleiri leikritum sem eru
skrifuð fyrir konur. En í nútíman-
um ættum við ekki að vera feimin
við það að umskrifa klassísk leik-
rit þannig að konur fari með hlut-
verk karla,“ segir Charlotte.
En aftur að Kvennafræðaran-
um. Heldurðu að karlmenn hafi
gaman af þessu verki eða er það
bara fyrir konur? „Ég fór á BLAM
eftir Kristján Ingimarsson um
daginn. Sú sýning var leikin af
fjórum karlmönnum þar sem
farið var inn í ímyndaðan heim
karlmannsins. Ég hafði rosalega
gaman af henni. Ég held að þetta
svari spurningunni. Góðar sýning-
ar höfða til allra. “
Tek að mér að fjalla um konur
Charlotte Böving hefur unnið að því undanfarið að setja á svið leikritið Kvennafræðarann, sem byggt er á danskri handbók
fyrir konur. Charlotte hefur í störfum sínu kannað heim kvenna og segir það baráttumál sitt að fá fleiri konur á svið.
Charlotte hefur sjálf komið að leikhúsinu með fjölbreyttum hætti á sínum
ferli. Hún var fastráðin leikkona við Aarhus teater að loknu námi í leiklist
og þar fór hún meðal annars með hlutverk Ariel í Ofviðrinu eftir Shake-
speare, Maríu í Sjúk æska eftir Brückner og Víólu í Þrettándakvöldi Shake-
speares. Hún lék við ýmis leikhús í Kaupmannahöfn á árunum 1996 til
1999, meðal annars Katrine í Die Fremdenführerin eftir Botho Strauss og
Toru í Bildmakarna eftir Per Olov Enquist. Hún segir það hafa skipt mjög
miklu máli að hafa fengist við svona fjölbreytt hlutverk nýútskrifuð. „Ég
fékk svo góða reynslu, ég var ekkert smá heppin.“
➜ Búið á Íslandi frá árinu 2000
Charlotte hefur búið á Íslandi frá árinu 2000, að undanskildum þremur
árum er hún bjó í Kaupmannahöfn. Hún hefur skrifað, leikstýrt og fram-
leitt ýmis verk hér á Íslandi. Má þar nefna Ævintýrið um Rauðhettu og
úlfinn, Þetta er lífið, Mamma mamma og Bláa gullið. Charlotte fékk
Grímuna – Íslensku leiklistarverðlaunin fyrir leik sinn í Ófögru veröld.
Sýningin Litla skrímslið systir mín, sem hún leikstýrði hjá Tíu fingrum,
fékk Grímuna sem barnasýning ársins árið 2012.
Hefur leikið og leikstýrt
CHARLOTTE BÖVING Ýmislegt sem varðar kvenlíkamann og líf konunnar er til umfjöllunar í leikritinu Kvennafræðaranum. Hér má sjá Charlotte á sviði Kassans þar sem
leikritið verður sýnt. Leikmyndin sem glittir í er verk Ilmar Stefánsdóttur. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
Sigríður
Björg Tómasdóttir
sigridur@frettabladid.is