Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 15.11.2006, Page 7

Læknablaðið - 15.11.2006, Page 7
RITSTJÓRNAR Geðsjúkdómar í fjölmiðlum Hræðsla við geðsjúka hefur fylgt mannkyninu frá alda öðli. Óttinn við sturlun, taumlaust örlyndi eða lamandi þunglyndi er djúpstæður í mannlegu eðli. Á sama hátt virðast fleiri hafa skoðanir á geðsjúkdómum og meðferð þeirra en nokkrum öðrum sjúkdómaflokki. Pað gleymist stundum í hita umræðunnar að heilinn er hluti líkamans og gerður af sömu byggingarefnum og hjarta, bein og blóð eftir forskrift erfðaefnis hvers og eins. Meðferð geð- og taugasjúkdóma lýtur sömu rannsóknarkröfum innan læknisfræði og með- ferð sjúkdóma í hjarta, beini eða blóði. Hún felst í samtölum, fræðslu, lyfjagjöf, hvatningu til lík- amsræktar, og beinum áhrifum á líkamsstarfsemi með rafmagni, segulörvun eða skurðaðgerðum. Af þessum meðferðarúrræðum eru mestar kröfur gerðar til lyfja. Endanleg reynsla af notkun tiltek- ins lyfs, sem oftast er 12-15 ár í þróun, og annarra meðferðarúrræða ákvarðast á löngum tíma, oft 5 til 10 árum, eftir að notkun þeirra hefst. Það vekur ávallt athygli undirritaðs í daglegu starfi á geðdeildum að í hópi þeirra sem eru mjög tortryggnir gagnvart geðlyfjum eru iðulega fíkniefnaneytendur, notendur ólöglegra stera og smáskammtalækninga. Þessir hópar eiga það sam- merkt að byggja notkun sína á trú og tilfinningu en ekki á rannsóknum og vita oftast lítið um uppruna og öryggi efnanna sem þeir nota. Líkt og í öðrum greinum læknisfræði hefur mikil þróun orðið innan geðlækninga á síðastliðn- um 50 árum. Fordómar hafa til skamms tíma verið miklir meðal íslendinga enda umræðan tabú í fjöl- skyldum og þekking almennt lítil á geðsjúkdómum hér á landi á síðustu öld. Fræðsluátak Landlæknis um þunglyndi í janúar árið 2000 lyfti Grettistaki til að opna umræðuna. í kjölfar þess fylgdu geðrækt- arverkefni og netsíður sem hafa náð eyrum og augum almennings. Fordómar hafa verið á hröðu undanhaldi, einkum hjá yngra fólki, en erfitt hefur reynst að breyta viðhorfum eldra fólks, sérstaklega til geðrofssjúkdóma svo sem geðklofa. Djúpstæð persónuleg reynsla getur þó breytt rótgrónum viðhorfum. Aðstandendur sem missa ástvin úr sjálfsvígi eða krabbameini mótast til langs tíma, jafnvel fyrir lífstíð, við þá reynslu og meta með- ferðarúrræði og meðferðaraðila oft á annan hátt en aðstandendur þeirra sem hlutu góðan bata. Sama gildir um aðstandendur sem horfa á ættingja, maka eða vin hverfa í heim geðrofs, fíkniefna eða átröskunar árum eða áratugum saman þrátt fyrir meðferðartilraunir. Morgunblaðið hefur fyrir tilstuðlan núverandi ritstjóra borið höfuð og herðar yfir aðra íslenska fjölmiðla í efnistökum um geðheilbrigðismál á síðari árum. Nýr Kastljósþáttur með breyttri áhöfn vakti þó athygli fyrr á árinu fyrir vel unna umfjöllun um búsetumál og réttindi geðfatlaðra, skattamál og fleiri mikilvæg málefni. Hins vegar áttu fáir auðvelt með að skilja tilganginn með Kastljósþætti um einstakling sem hélt því fram að hún gæti „talað við stofnfrumuna“ sína og breytt þannig erfðaefni og eiginleikum sínum. Var nema von að blóðsjúkdómalæknir sem fenginn var til andmæla spyrði „hvaða stofnfrumu?" um leið og hann reyndi að halda andlitinu. Enn færri geta skilið hvers vegna sami þáttur var endursýndur í sumar, einn örfárra Kastljósþátta. Var það ef til vill vegna „mikilla viðbragða“ eða var fræðslugildi þáttarins óumdeilt? Raunar virðist óhlutlæg um- fjöllun og fræðsla vega æ minna í flestum fjölmiðl- um ef efnið þykir „krassandi“, það er kallar fram mikil viðbrögð. Umfjöllun Kastljóss um geðsjúkdóma og geðlyf dagana 2.-5. október var því miður ekki nægilega vönduð. Þar gleymdist á köflum að aðgát skal höfð í nærveru sálar og er undirritaður þar ekki að vísa til geðlækna heldur langveikra einstaklinga með geðrofssjúkdóma. Svo virtist sem þættinum hefði borist vísindalegur hvalreki þegar á fjörur frétta- manns rak fjögurra ára gamla bók bandaríska blaðamannsins Roberts Whitaker Mad in America (1). Nálgun Whitakers á myndbandinu sem sýnt var í Kastljósi verður því miður best flokkuð sem skrum. Hann fléttaði saman eðlilegri umfjöllun um ýmiss konar óvissu, til dæmis skort á tvíblindum langtímarannsóknum á lyfleysu og geðrofslyfjum í meðferð geðklofasjúkdóms, og tilvitnunum, sem hann tók úr samhengi og notaði til að álykta um orsakasamhengi. Hið eina sem hann byggði afgerandi ályktanir sínar á var óábyrg notkun á hugtakinu tölfræðileg fylgni og útúrsnúningar sem þjóna skoðunum hans. Markmiðið virtist vera að sá fræjum tortryggni gagnvart geðlæknum og lang- vinnri meðferð með geðrofslyfjum þótt hann gráti sjálfsagt ekki ef sala bókarinnar eykst fyrir vikið. íslenskir læknar fá litlu breytt um samkeppni fjölmiðla um áhorf og auglýsingasölu með æsi- fréttum. Ofangreind dæmi eiga hins vegar að vera okkur læknum hvatning til að fræða almenning í ræðu og riti um þekkingu okkar, á hvaða rann- sóknarkröfum hún byggir og hvernig má nota hana til að bæta heilsu landsmanna í sviptivindum lífsins. Landsmenn eiga það skilið. 1. Ritdómur: www.medscape.com/viewarticle/432570 G R E I N A R Engilbert Sigurðsson engilbs@landspitali. is Mental disorders in the nicdia Engilbert Sigurðsson, Consultant Psychiatrist and Honorary Senior Lecturer Division of Psychiatry Landspitali University Hospital Hringbraut, 101 Reykjavík Iceland. Engilbert Sigurðsson er geðlæknir og faraldsfræðingur, hann er klínískur dósent í geðlæknisfræði við Háskóla íslands og yfirlæknir við geðsvið Landspítala. Hann situr í ritstjórn Læknablaðsins. Læknablaðið 2006/92 755

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.