Bæjarins besta - 29.01.2009, Blaðsíða 4
4 FIMMTUDAGUR 29. JANÚAR 2009
Vel heppnað þorrablót GÍ
Nemendur í 10. bekk Grunnskólans á Ísafirði, foreldrar þeirra, aðrir
gestir og kennarar skemmtu sér hið besta á þorrablóti sem haldið var á
bóndadaginn í skólanum. „Blótið heppnaðist mjög vel eins og alltaf.
Mikið var dansað undir öruggri stjórn Evu Friðþjófsdóttur og
foreldrarnir stóðu sig vel í skemmtiatriðum. Þetta er örugglega besta
þorrablótið í bænum þar sem ekkert áfengi er haft um hönd“, segir
Bergljót Halldórsdóttir umsjónarkennari í GÍ. Blótið er ein af elstu
hefðum skólastarfsins og með þeim skemmtilegustu að margra mati, því
það má telja það eins konar manndómsvígslu að hafa upplifað að snæða
þorramat með ættingjum sínum, hlustað á gamanvísur um náungann
og horft á heimatilbúið skaup áður en flogið er úr öruggum faðmi
grunnskólans á vit fullorðinsáranna og átthagablóta.
Að borðhaldi loknu var slegið upp balli og dansaðir gömlu dansarnir
en unga fólkið hafði æft gömlu dansana að undanförnu undir leiðsögn
Evu Friðþjófsdóttur danskennara auk þess sem nokkrir foreldrar þáðu
danstíma.
Að vanda voru þeir sem gátu hvattir til að skarta þjóðbúningum.