Litli Bergþór - 01.12.2012, Blaðsíða 23

Litli Bergþór - 01.12.2012, Blaðsíða 23
Litli-Bergþór 23 umsjónarmenn og höfðu greiðasölu. „Við vorum þar mörg góð ár“ sagði Erica í endurminningum sínum. Sigmundur Benediktsson, Eyfirðingur sem ég talaði við, man eftir þeim hjónum í bragganum, þar sem haldin voru böll sem þóttu nýstárleg. Þar skaust hin dökkeyga, smávaxna Erica á milli dansfólksins og stráði yfir það „Konfetti“-pappírsræmum. Það hafði ekki tíðkast í Eyjafirði þó mörg erlend áhrif hefðu borist til Akureyrar gegnum tíðina. Þessir góðu dagar á Melgerðismelum tóku enda eins og aðrir dagar. Flugið fluttist inn til Akureyrar 1955. Þá var bragg- inn rifinn og hjónin byggðu sér lítið hús, sem þau nefndu Melbrekku. Anders var eins og áður sagði 15 árum eldri en Erica og heilsan fór að bila. Síðustu þrjú árin sem hann lifði var hann á sjúkrahúsinu á Akureyri og lést þar 30. júní 1959. Erica auglýsti látið og jarðarför- ina rækilega. Fyrst auglýsir hún í Morgunblaðinu: „Hjartkær eiginmaður minn og faðir A.C.Höyer, Mel- brekku, áður Hveradölum, lést á sjúkrahúsi Akureyrar 30. júní. Jarðsett verður frá Fossvogskirkju 8. júlí kl. 2“. Þá er önnur auglýsing þar sem bálförin er auglýst frá Fossvogskapellu þann 7. júlí og undir stendur Erica Höyer og synir. Síðan er í Degi 16. september auglýst minningarathöfn um Carl Höyer Jóhannesson umsjónarmann, sem fari fram daginn eftir frá Möðru- vallakirkju. Síðast kemur þakkartilkynning, einnig í Degi, þar sem Erica þakkar öllum sem studdu hana við útförina; sr. Pétri Sigurgeirssyni fyrir ræðu og liðveislu, söngkór fyrir aðstoð og kvenfélagskonum fyrir gefnar veitingar. Það hafa margir lagt þessari erlendu konu lið og hún var vel kynnt hjá þeim sem umgengust hana. Erica átti mörg ár eftir ólifuð sem ekkja á Akur- eyri. Hún stundaði saumaskap meðan heilsa leyfði, eignaðist vinkonur sem ortu til hennar í minninga- grein þegar hennar tími kom. Seinustu tvö árin átti hún heima á dvalarheimilinu Hlíð, en hún lést 9. maí 1982, fyrir aðeins 30 árum. Annar Kúrlendingur, Wolf von Seefeld, minnist hennar í grein í Íslendingaþáttum Tímans, og nefndi m.a. að hún hafi verið þrítyngd, jafnvíg á þýsku, lettnesku og rússnesku. Íslenskan hennar var ekki alveg eftir málfræðinni sagði hann, en kom beint frá hjartanu. Wolf, sem seinna varð Úlfur Friðriksson, var líka flóttamaður úr stríðunum tveim, fæddur 1912 í Kúrlandi og kom til starfa hjá föður mínum 1955. Hann var fornfræðingur og sagnfræðingur, en hafði „lent í garðyrkju“ upp úr stríðinu. Mér fannst hann vera gamalmenni er ég sótti hann á rútuna þá um sumarið, en þá hefur hann verið 43 ára. Það var þó seigt í karli, því að hann varð 97 ára, mikill Íslend- ingur og skrifaði bækur, bæði um íslenska hestinn og minningabrot úr Hólavallakirkjugarði. Nú hef ég verið að stikla á stóru í lífi útileguhjón- anna Höyer. Ekki koma öll kurl til grafar með þeirra líf, en þau voru hluti af íslenskri sögu á umbrota- og framfaraskeiði þjóðarinnar og áttu sinn hlut, ekki síður en hinir, sem hér voru bornir og barnfæddir. Erica gaf Íslendingum góðan vitnisburð í minning- arbrotum, sem hún var beðin um að skrifa í jólablað Dags 1957: „Helstu kostir Íslendinga eru heilbrigð skynsemi þeirra og jafnaðargeð. Þeir rasa ekki um ráð fram, þeir gera ekki vanhugsaða hluti í reiðiköst- um. Svo eru Íslendingar óþreytandi að hjálpa þeim sem miður mega sín og gestrisni þeirra er frábær“. Þetta er ekki slæmur vitnisburður hjá gestinum glögga, sem bjó hér í yfir 40 ár. Þau hjónin hvíla í Möðruvallakirkjugarði í Eyjafirði, hlið við hlið, eins og í tjaldinu í Hveradölum forðum. En nú gildir einu þó að rigni. Heimildir: Árni Óla: Erill og ferill blaðamanns hjá Morgunblaðinu um hálfa öld, (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1963). Ásgeir Guðmundsson: Berlínarblús. Íslenskir meðreiðarsveinar og fórnarlömb þýskra nasista, (Reykjavík: Skjaldborg, 1996). Danmarks Historie, Kjersgaard, Erik, önnur útáfa, 1997. Erica Höyer: Anna Iwanowna, (Reykjavík: Ísafoldarprent- smiðja, [1942]). Hallir gróðurs háar rísa, Haraldur Sigurðsson, 1995. Grete Grönbech: Árin okkar Gunnlaugs, ([Reykjavík]: Almenna bókafélagið, 1979). Garðyrkjuritið, 1953. Íslendingaþættir Tímans, maí 1982. Íslensk dagblöð á ýmsum tímum. Sunnlenskar byggðir 3 : Laugardalur, Grímsnes, Þingvallasveit, Grafningur, Ölfus, Hveragerði og Selvogur, Páll Lýðs- son bjó undir prentun, ([Selfoss]: Búnaðarsamband Suðurlands, 1983). Höyer við heimili sitt í Hveradölum. Mynd í eigu MS. Á hljóðri stundu vort hjartans mál er helgað minningu þinni. Sem færir vinunum frið í sál því falslaus voru þín kynni. Þú fyrirmynd varst þó færir hljóð svo falslaus til munns og handa. Þó værirðu stundum vegamóð, samt varstu jafnt glöð í anda. Þér erfið var stundum ævitíð með ör eftir sár í hjarta. Þú lifðir hvern dag svo ljúf og blíð í listgáfu perlur skarta. Á ævinnar morgni sólin seig í söknuði ástar þinnar. Er vinurinn eini helsár hneig í hlýjan faðm brúðar sinnar. En förunaut aftur Guð þér gaf og glöð vildir þakkir gjalda. Þó leynt bærir sár, þín lund bar af svo létt, gegnum jarðvist kalda. Nú opnast þér vina, himinn hlýr þú huga oft þangað renndir. Ei furða það var þótt vopnagnýr oft vekti þér sára kennir. (J.S)

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.