Litli Bergþór - 01.12.2012, Blaðsíða 32
32 Litli-Bergþór
Frá Vinum Tungnarétta
Fyrsta skóflustungan.
Veggir brotnir niður.
Félagið, Vinir Tungnarétta, var stofnað þann 3.
febrúar 2012. Tilgangur þess er að afla fjár og sjá
um enduruppbyggingu, viðhald og verndun Tungna-
rétta. Félagar eru 126 og þar af stofnfélagar 101.
Fjáröflunarsamkoma var haldin í Aratungu þann 9.
mars 2012 og fór innkoma fram úr björtustu vonum.
Bæði einstaklingar og fyrirtæki styrktu félagið með
rausnarlegum gjöfum og þökkum við fyrir það. Nú
var hægt að hefjast handa við fyrsta áfanga fram-
kvæmdanna og var fyrsta skóflustungan tekin þann
31. mars 2012. Byrjað var á því að brjóta niður alla
steypu og skipta um jarðveg í og við mannvirkið.
Eftir það hófst mótauppsláttur og steypuvinna sem
lauk fyrir réttir í haust (15. september 2012).
Öll vinna við enduruppbygginguna er unnin í sjálf-
boðavinnu og hafa um 50 manns komið að því verki
bæði með vinnuframlagi og láni á vélum og tækjum.
Vinnustundir eru orðnar u.þ.b. 1500 klst.
Í ágúst tók félagið að sér að sjá um dansleik í
Aratungu í tengslum við viðburðinn „Tvær úr Tung-
unum“ og rann ágóðinn af því í sjóði félagsins.
Ennfremur er verið að vinna mynddisk fyrir Vini
Tungnarétta, sem geymir minningabrot af fjallferð
Tungnamanna 2012. Stefnt er að því að diskurinn
verði kominn í sölu fyrir jól 2012.
Næsta skref verður að hreinsa burt allar gömlu
grindurnar, smíða nýjar, steypa undirstöður undir
grindurnar og koma þeim fyrir. Stefnt er að því að
þessu verði lokið fyrir næstu réttir í september 2013.
Búið er að kaupa allt járn í nýju grindurnar og er
vinna við smíði þeirra hafin. Kostnaður við fram-
kvæmdina er orðinn 5.550.000 kr. og eru til í sjóði
þegar þetta er ritað 2.500.000 kr.
Það væri langur listi að telja upp alla þá sem styrkt
hafa enduruppbygginguna með peningagjöfum, láni
á vélum og tækjum og sjálfboðavinnu. Því vill stjórn
Vina Tungnarétta koma á framfæri kæru þakklæti til
allra þeirra sem hafa gert þessa framkvæmd mögu-
lega, án þeirra hefði þetta ekki verið hægt.
Við óskum ykkur öllum farsældar á komandi vetri.
F.h. stjórnar Vina Tungnarétta
Kolbrún Ósk Sæmundsdóttir, ritari.