Tímarit Máls og menningar - 01.06.1993, Side 8
Þú skorar önnur og betri mörk, gamli minn, sagði hann. Nú ertu orðinn
eineygur á báðum.
Þeir ráku upp roknahlátur og hann hló líka. Gjallandi hláturinn
hljómaði óeðlilega í eyrum hans.
Hann kvaddi félaga sína leiður og fór heim til foreldra sinna.
Komdu, sagði móðir hans. Hvað? Það blæðir úr þér.
Hún bleytti fingur á tungubroddinum og strauk um sárið.
Þetta er ekkert, sagði hún en hann vissi að það var ósatt. Þá sagði faðir
hans:
Eigum við ekki að skoða húsið sem þið fáið þegar þið farið að búa?
Þeir gengu saman eftir veginum. Þetta var lítið timburhús sem afi hans
og amma höfðu átt. Nú átti hann að flytja í það þegar konan kæmi með
bamið.
Þótt hann hefði aldrei átt heima í húsinu, bara komið þangað í heim-
sókn var hann sleginn tómleik. Öll húsgögn voru komin á haugana. Faðir
hans settist stirðlega á gólfið með bakið að veggnum í svefnherberginu.
Hérna fæddist ég, sagði hann.
Við þessu var ekkert að segja. Hann beið eftir að faðir hans segði
eitthvað fleira, en hann sagði ekkert. Svo staulaðist hann á fætur. Þeir
skoðuðu eldhúsið. Afi hans og amma virtust hafa gengið vel frá öllu áður
en þau dóu. Að vísu hefði þurft að mála, liturinn var orðinn gamall og
óþægilega gulur. Þeir voru komnir aftur inn í svefnherbergið og faðir
hans hafði sest á gólfið á sama stað og sagði:
Sérðu blettina á veggnum? Rúmið var þama. Þetta er eftir höfuðið á
þeim. Svo þú verður að mála. Þú gerir það á morgun, málningin verður
þá orðin þurr áður en konan kemur og engin málningarlykt.
Hann svaraði engu.
Það er dáldið skrýtið að koma í autt hús þar sem maður fæddist og
foreldrar manns áttu heima, sagði faðir hans.
Finnst þér það? spurði hann til að segja eitthvað.
Einhvem tíma átt þú eftir að koma í húsið heima og segja það sama
við son þinn, svaraði faðir hans.
Við skulum vona það, sagði hann.
Maður skilur bara eftir sig skít, hélt faðir hans áfram. Láttu þá strákinn
mála í hólf og gólf eða gerðu það sjálfur áður en hann flytur inn. Þótt
ekki væri nema ein lausleg yfirferð með hvítri málningu mundi það
breyta öllu.
6
TMM 1993:2