Tímarit Máls og menningar - 01.06.1993, Side 91
— Ó, líkneskið mitt, ó vinir mínir, svo langt er á milli okkar, það er
meira en hugsun og loft.
Geng upp í móti, aðra leið en ég kom. Uppi við dalbrún er fyrir mér
veggur. Finn hvergi hlið en loks rof í vegginn, og er við það aftur kominn
upp á sandinn.
Hitti þar spúitista með þreifara, klofna spýtu, að leita uppi álagabletti.
Hann finnur hálfgóða, góða, slæma og hlutlausa örlagabletti í sandinum.
Þetta er góður maður, hann sendir guði bænaskrár afvegaleidds fólks.
— Hér dó merkur hestur, segir hann.
Hann sleppir orðinu og leggur eyra sitt á sandinn. Ásjóna hans segir
mér hann heyri, svo ég gjöri eins og fer að heyra.
Heyrist hófadynur, hvítur hestur kemur á stökki eftir línunni mitt á
milli Hofsjökuls og Langjökuls.
Hér hef ég ekkert að gera, svo ég kveð hann með kurteislegum
heillaóskum, eins og rétt mun að gera á svo fáfarinni leið.
— Vona þú finnir alls konar bletti, líka vonda, þeir koma sér vel. Vona
að með ykkur hestinum takist uppbyggileg kynni.
Tala nú af reynslu, eins og leiðinlega þroskað miðaldra fólk sem
fílósóferar lífið, og skilur allt milt og ánægt. Tala við þennan ágæta
þreifara um gildi hins daglega dauða, en hann skilur ekki, hann er ekki
eins heppinn og ég að hafa lent í slæmum villum. Ég reyni að milda áhrif
orða minna, hef hrætt hann og ruglað.
— Bið forsjónina að upplýsa þig, með ... með mátulegu tjóni.
Segir örfoka beinagrind, eins gott ég sá mig ekki sjálfan segja þetta.
Ég svo skininn að ráða öðrum heilt!
Sem ég skrölti til byggða, fýkur hold úr uppblæstrinum á grindina smám
saman, uns skröltið hverfur og sól vermir aftur kinn. Þegar ég geng
sauðalaus inn heimadalinn syngur séra Hallgrímur fyrir mig.
Fyrir blóð lambsins blíða
búinn er hann að stríða
og sælan sigur vann.
TMM 1993:2
89