Ský - 01.08.2007, Page 41
ský 1
elva: Lögin sem komu út á diskinum okkar Herra ég get tjúttað eru allt þekkt
erlend dægurlög sem við snerum yfir á íslensku. Það leynist mikil kaldhæðni í
að þýða svona beint en okkur finnst það mjög fyndið. Þegar við semjum sjálfar
erum við held ég allar að semja. Við erum auðvitað misflinkar en æfingin
skapar meistarann stendur einhvers staðar. Eins og er æfum við ekki mikið. Við
æfðum vel fyrir túrinn okkar út á land til að fylgja disknum eftir. Hópurinn
samanstendur af fimm drottningum, karríer-konum sem allar eru á fullu í alls
konar vinnum þannig að oft reynist erfitt að ná okkur saman til að spila. Það
breytir svosem ekki miklu fyrir okkur, þess meira fjör er þegar við náum loks
saman. Við gætum verið að spila miklu meira ef við vildum, ef við værum
ekki alltaf svona uppteknar. Þetta er fínt eins og þetta er og við njótum hverrar
sekúndu þegar við hittumst.
Hafið þið ekki lent í skemmtilegum atvikum á tónlistarferlinum?
elva: Þau eru nokkur en við vorum til dæmis að spila í afmælisveislu í
sumar og skiptum um hljóðfæri eftir eitthvert lagið. Katla sest við trommurnar
og spyr mig af hverju þessi kápa liggi ofan á trommunum. Ég man ég svaraði
henni að ég hefði ekki hugmynd um það, nema hvað, svo byrjar lagið og það
heyrist óvenjulágt í trommunum, eiginlega bara ekkert svo mér er litið á Kötlu
sem djöflast á trommunum en kápan liggur þar ennþá kyrr og óhreyfð. Við
náðum að tala um þetta eftir lagið og þá kom ástæðan í ljós. Vigga hafði verið
á trommunum í laginu á undan og verið kalt á fótleggjunum svo hún lagði yfir
þá kápuna. Svo þegar við skiptum um hljóðfæri, gleymdi Vigga að taka með sér
kápuna og lagði hana svona frá sér. Aumingja Katla hélt að kápan væri þarna til
að dempa trommurnar svo hún lét að sjálfögðu bara vaða.
katla: Jú, við höfum heldur betur lent í skondnum atvikum, á sviði sem og
utan sviðs. Eitt sinn slitnaði bassastrengur hjá Elvu Ósk í Stapanum í Keflavík.
Hún var ekki með neinn aukastreng og við sátum í bakherberginu í miklum
vangaveltum. Pásan orðin helst til löng og við að reyna að finna út hvort
hægt væri að spila á þrjá strengi. Það gekk ekki upp svo sá slitni var þræddur
upp og þannig var spilað eftir hlé. Ekki var það nú hljóð sem sagði sex og við
hálfskömmustulegar það sem eftir lifði.
Þannig að það er greinilega ýmislegt óvænt sem getur gerst?
elva: Já, það má nú segja og það finnst okkur bara skemmtilegt. Við eigum
aðdáendur á öllum aldri og það er svo gaman. Stúdíóvinnan á Herra ég get
tjúttað var frábær því upptökustjórinn Gunni Árna er besti vinur okkar og oftast
kallaður sjötti heimilistónninn af okkur stelpunum. Það fylgir þessum stelpum
svo mikil gleði að ég gæti talið endalaust upp fyndin og eftirminnileg atvik.
katla: Ég er alveg sammála Elvu í því, Heimilistónar eru ein stór skemmtun
frá A til Ö.
Hvaða þýðingu hefur það fyrir ykkur að vera í hljómsveitinni?
katla: Það er rosalega gaman í þessari hljómsveit og þetta samstarf veitir
mikla lífsfyllingu fyrir mig. Við erum allar góðar vinkonur og höfum upplifað
ótrúlega hluti í þessu samstarfi.
elva: Það hefur mikla þýðingu fyrir mig að vera í Heimilistónum. Við erum
miklar vinkonur og fáum mikið út úr því að hittast. Við gerum bara það sem
okkur finnst skemmtilegt. Andinn er mjög jákvæður og það er alltaf fjör og mikil
gleði í kringum okkur, sem sagt BARA jákvætt. Svo er líka svo gott að kúpla frá
dramatíkinni í leiklistinni og geta fengið útrás í tónlist og hlátri. sky,