Vesturbæjarblaðið - 01.06.2007, Síða 12

Vesturbæjarblaðið - 01.06.2007, Síða 12
12 Vesturbæjarblaðið JÚNÍ 2007 Bernskuminningar úr Vesturbænum Kjaftahornið fann sér leynistíga og uppskerur Hér með biðst ég afsökunar á öllum rabarbörunum, gulrót- unum og radísunum sem ég tók ófrjálsri hendi í görðum Vestur- bæjar í gamla daga. Ég er Arna Schram, blaðamaður og formað- ur Blaðamannafélags Íslands. Vesturbærinn er mitt heimili, mitt þorp, minn griðarstaður. Hér hef ég dvalið lengstan hluta ævi minnar. Ég geri mér þó grein fyrir því að heimskt er heimaalið barn. Því hef ég nú af og til farið út fyrir „túngarðinn” minn. Til dæmis hef ég búið í Danmörku og í Kanada. Og já jafnvel í því merka bæjarfélagi; Seltjarnar- nesi. En alltaf hefur mér fundist gott að koma heim - í Vesturbæ- inn. Hér tók ég mín fyrstu skref, hér eignaðist ég mína traustu æskuvini og hér kom ég frá námi í Danmörku, til að eignast barnið mitt. Og hér ætla ég að rækta garðinn minn þegar ég er orðin gömul. Fyrstu æviárin mín, eða allt til fjögurra ára aldurs, bjó ég á Kaplaskjólsveginum, í einni blokkinni á móti KR-vellinum. Í minningunni var alltaf sól og ég að leika mér í garðinum fyr- ir framan blokkirnar. Stundum stalst ég þó yfir götuna á heima- völl Vesturbæjarliðsins. Þar fannst mér gaman að fylgjast með æfingum strákanna. Já ég endurtek: Æfingum strákanna, því stelpur voru ekki í fótbolta hjá KR þegar ég var lítil. Ég lét mér því nægja hliðarlínuna - á þeim tíma - seinna ákvað ég þó að blanda mér í leikinn -þótt um aðra leiki en fótbolta væri að ræða. En það er önnur saga. Ég var þó ekki alltaf góða og þæga stelpan, sem lék sér bara í garðinum eða horfði á fótbolta. Eitt sinn, sennilega við þriggja ára aldur, ákvað ég nefnilega að strjúka að heiman. Mér fannst ég þurfa að skoða betur hinn stóra heim, sem beið mín - spennandi, en um leið ógnvekjandi - fyrir utan, KR-blokkirnar. Ég verð þó að játa - og það er ekki auðvelt í ljósi þess að ég hef alltaf talið mig mjög sjálfstæða - að ég var ekki ein um þessa ákvörðun. Að henni kom nefnilega líka strákur, í næstu blokk, lítt eldri en ég, sennilega um fimm til sex ára. “Flóttinn mikli” Flóttinn mikli fólst í því að smjúga sér í gegnum gat á stórri girðingu austan KR-blokkanna, og kanna svæðið í austari hluta borgarinnar. Strákurinn hafði fundið þessa flóttaleið og skipu- lagði förina. Ég var til í allt en lét hann um „smáatriðin.” Eini undir- búningur minn fólst í því að fara í alltof stóra klossa af mömmu - ekki man ég hvers vegna. Senni- lega hefur mér fundist vissara að vera vel búin til fótanna og slá þar með aðra flugu í sama höggi, það er að hafa eitthvað til minningar um hana móður mína og mitt fyrra líf, ef illa færi. Skemmst er frá því að segja að „flóttinn mikli” endaði í Vestur- bæjarlauginni, skammt frá heima- slóðum. Ekki ofaní henni, heldur inni í húsinu, þar sem afgreiðsl- an er. Ég man þetta eins og það hefði gerst í gær. Ég skoðaði af miklum áhuga þessi nýstárlegu húsakynni sundlaugarinnar, kíkti í gegnum glerið og sá fólkið busla í lauginni. Á þessum tíma- punkti var fylgdarsveinn minn, strákurinn í næsta húsi, horfinn. Ekki veit ég hvað varð um hann - enda kippti ég mér lítið upp við það - ég gleymdi mér í mínum eigin ævintýraheimi. Eða allt þar til kona, í hvítum sloppi, fór að skipta sér óþarf- lega mikið af mér - að því er mér fannst. Þar var komin starfs- kona sundlaugarinnar. Hún fór að spyrja mig um nafn, hverjir foreldrar mínir væru og hvar ég ætti heima. Ég man ég hugsaði eitthvað á þessa leið: Hvað í ver- öldinni kemur henni við hvað ég heiti og hvað ég er að gera hér. Ég hef þó sennilega svarað henni samviskulega, þrátt fyrir allt, því næsta sem ég man var að hún leiddi mig að tíkallasíma og hringdi heim og bað mömmu vinsamlegast að koma og ná í barnið sitt, sem væri að þvælast, í alltof stórum klossum, í Vestur- bæjarlauginni. “Flóttinn mikli” endaði því öðruvísi en lagt var af stað með í upphafi. Mamma sótti mig og ég lofaði sjálfri mér því að láta stráka aldrei , aldrei aftur plata mig út í svona misheppnaða ævintýramennsku. Ekkert varð um efndir í þeim efnum. En það er líka enn önnur saga. Kjaftahornið fann sér leynistíga og óvæntar uppskerur í görðum nágrannanna Ekki löngu eftir „flóttan mikla” fluttist ég ásamt fjölskyldu minni á Stýrimannastíg. Tveimur árum seinna hóf ég göngu mína í Vest- urbæjarskólanum, sem þá var til húsa í gamla Stýrimannaskól- anum, efst á Stýrimannastíg. Ég bjó því beint á móti skólanum og þótti það ekki verra. Ekki síst vegna þess að þá þurfti ég ekki að vakna fyrr en eina mínútu í átta - eina mínútu áður en hringt var inn. Sá tími nægði mér til að fara í fötin og hlaupa yfir. Í fyrstu frímínútum skaust ég svo heim og borðaði morgunmat. Mér fannst semsé óþarfi að vakna fyrr en nauðsynlegt var á þeim tíma. Í Vesturbæjarskóla kynntist ég æskuvinkonum mínum: Ýrri, Heiðu, Láru, Dagnýju, Gullu, Stínu, Hönnu og fleirum. Síðar bættust í hópinn: Dídí, Inga Vala og Birna. Við brölluðum ýmis- legt saman og þóttum fjörugar og hugmyndaríkar en helst til málglaðar í skólanum. Kennar- inn okkar, hún Guðrún, kallaði okkur „Kjaftahornið.” Setningar á borð við: “Þið þarna í kjafta- horninu hættið þið nú að tala...” glumdu frá henni daginn út og daginn inn. Eftir á að hyggja dáist ég að þolinmæði hennar gagnvart okk- ur. Við áttum það nefnilega líka til að vera svolítið herskáar ef okkur bauð svo við að horfa. Eitt sinn gengum við til dæmis um götur Vesturbæjarins, ég og Ýrr, sennilega um sjö eða átta ára og sungum: Guðrún í herinn og her- inn burt! Úff, hvað krakkar geta verið vanþakklátir. Það sé ég nú og biðst forláts. Gulræturnar á Öldugötunni Ég hef nú reyndar fleira á sam- viskunni þegar ég lít til baka. Við vinkonurnar vorum alltaf í einhverjum leynifélögum og í samræmi við það bjuggum við til ýmsar leyniferðir um garða Vesturbæjarins. Í þeim ferðum uppgötvuðum við ýmislegt. Meðal annars matjurtargarða nágrannanna. Einn ræktaði til að mynda gulrætur, annar radís- ur og sá þriðji rabarbara. Þegar við þræddum okkar leynistíga meðfram girðingum, uppeftir trjám og milli garða, kipptum við stundum með okkur „nesti” - úr þessum girnilegu matjurtar- görðum. Til dæmis voru gulræturn- ar í garði einum við Öldugötu, smáar og gómsætar, í sérstöku uppáhaldi hjá okkur. Mig grun- ar að eigandinn hafi oftsinnis á þessum tíma furðað sig á lélegri uppskeru. En ástæðan var bara þessi: Þarna voru á ferð litlir óþekktarormar, ungar stúlkur í Vesturbæjarskóla, sem þóttu gulræturnar betra en nokkuð annað. Við reyndum að borða ekki of mikið af uppskerunni - gerðum okkur grein fyrir því að eigandinn ætti að fá eitthvað - en við stóðumst samt ekki alveg freistinguna. Til ræktenda gul- rótanna og reyndar radísanna og rabarbarana vil ég því segja eftirfarandi, þótt kannski sé það þrjátíu árum of seint: Ég biðst forláts á því að hafa tekið uppskeru ykkar ófrjálsri hendi. Vesturbærinn eins og lítið þorp Annað hef ég svo sem ekki á samviskunni frá þessum árum. Þetta var bara frábær tími. Fullt af krökkum alls staðar og nóg að gera. Við gátum leikið okkur endalaust á skólalóðinni við Vest- urbæjarskóla. Í „brennó”, „yfir” og „hringinn í kringum húsið”, eða hvað nú allir þessir leikir hétu. Vesturbærinn var bara eins og lítið þorp. Þar var allt til alls: Góðir leikfélagar, sem var mikilvægast á þessum árum, lítill og sætur Vesturbæjarskóli og hverfabúðir á öllum horn- um: Maggabúð, mjólkurbúðin, fiskibúðin og VBK, þar sem við vinkonurnar keyptum flottustu glansmyndirnar okkar. Af og til vann maður sér inn nokkrar krónur með því að ganga á milli húsa og selja ýmis merki og ann- an varning fyrir einhver góðgerð- arsamtök. Og einstökum sinnum höfðum við vinkonurnar sjálfar frumkvæði að því að leggja góð- um málefnum lið, með tomból- um, hér og hvar í hverfinu. Stundum var maður þó „neydd- ur” í sjálfboðavinnu, ef svo má að orði komast. Ekki fyrir góð- gerðarsamtök heldur fyrir stjórn- málasamtök. Þar var faðir minn á ferð sem fékk mig til að dreifa kosningabæklingum fyrir Sjálf- stæðisflokkinn í Vesturbæjarhús- in. Ég man til dæmis eftir því að hafa borið út kynningarbæklinga Davíðs Oddssonar. Tryggð við Vesturbæinn Í sjálfu sér hefur ekki mikið breyst í Vesturbænum síðan þá. Flestar höfum við æskuvinkon- urnar haldið tryggð við hverfið með einum eða öðrum hætti. Við búum hér margar enn - þótt við höfum dvalið í ýmsum heims- borgum í millitíðinni. Einhverjar hverfabúðir eru enn til staðar - þótt margar þeirra hafi horf- ið og stærri matvöruverslanir komið í staðin. Hér er enn allt morandi af krökkum - þótt þeim sé kannski betur snýtt en í gamla daga. Og já, vel á minnst, pabbi minn, stjórnmálamaðurinn geng- ur um bæinn fyrir kosningar með áróður sinn - þótt það sé reyndar ekki lengur fyrir Sjálfstæðisflokk- inn, heldur fyrir Samfylkinguna. Í stórum dráttum er því allt eins og það á að vera hér í Vesturbæ Reykjavíkur. Með pabba, mömmu og systur, á kosningamynd! Myndin er tekin fyrir Alþingiskosningar 1971 þar er pabbi, Ellert Schram, sem heldur á systur minni, Aldísi Schram, mamma, Anna G. Ásgeirsdóttir, og ég stend á milli foreldra minna. Arna Schram.

x

Vesturbæjarblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Vesturbæjarblaðið
https://timarit.is/publication/1114

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.