Morgunblaðið - 11.04.2015, Qupperneq 20
20 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 11. APRÍL 2015
BAKSVIÐ
Guðmundur Magnússon
gudmundur@mbl.is
„Skjölin sýna að dönsk stjórnvöld
fylgdust náið með þessu máli og
höfðu upplýsingar um það beint úr
íslenska stjórnkerfinu. Sendiherra
Dana á Íslandi taldi að ekki væri um
byltingartilraun að ræða heldur
ungæðislegt uppþot sem lögreglan
ætti að geta ráðið við ef hún sýndi
myndugleika. Hann lagðist eindreg-
ið gegn því að
danskir hermenn
skiptu sér af at-
burðunum,“ segir
Skafti Ingimars-
son sagnfræð-
ingur. Hann hef-
ur fundið á
ríkisskjalasafn-
inu í Kaupmanna-
höfn áður ókunn
skjöl um svokall-
að „drengsmál“ eða „hvíta stríðið“ í
Reykjavík árið 1921. Flutti Skafti
fyrirlestur um efnið hjá Sagnfræð-
ingafélaginu á þriðjudaginn.
Óhætt er að segja að um sé að
ræða sé eitt þekktasta pólitíska
átakamál hér á landi á öldinni sem
leið. Mikið hefur verið um það skrif-
að. Málavextir voru í stuttu máli þeir
að Ólafur Friðriksson, ritstjóri Al-
þýðublaðsins, sótti þetta ár al-
þjóðaþing kommúnista í Moskvu og
kom þaðan með fimmtán ára gamlan
föðurlausan og fátækan pilt af gyð-
ingaættum, Nathan Friedman að
nafni. Hugðist Ólafur koma honum
til manns á Íslandi. Fljótlega eftir
heimkomuna uppgötvaðist að dreng-
urinn var haldinn sjaldgæfum, smit-
andi augnsjúkdómi er „trakóma“
nefndist, sem ekki hafði áður orðið
vart hér á landi. Ráðlögðu læknar að
hann færi þegar úr landi og fengi
meðferð í Danmörku. Fékk Ólafur
boð um að stjórnvöld myndu standa
straum af upphaldi hans í Kaup-
mannahöfn í nokkra mánuði. Ólafur
taldi styrkinn hins vegar ekki nægan
og vildi fá hærri upphæð. Þá taldi
Ólafur einnig að orð og athafnir yfir-
valda færu ekki saman, en engin til-
raun var gerð af hálfu yfirvalda til
þess að hefta samneyti drengsins við
aðra menn, né að setja hann í
sóttkví. Varð þetta til þess að Ólafur
sannfærðist um að um pólitískar of-
sóknir á hendur sér væri að ræða og
ákvað að hlíta ekki fyrirmælum
stjórnvalda um að drengurinn færi
úr landi. Þegar lögreglan gerði til-
raun til að sækja Friedman 18. nóv-
ember hafði Ólafur safnað fjölmennu
liði til varnar við heimili sitt að Suð-
urgötu 14. Í framhaldinu kom til
harðra átaka sem lauk með því að
lögreglan og aðstoðarmenn hennar
létu undan síga.
Kaflaskil í íslenskri stjórn-
málasögu
Skafti sagði í fyrirlestrinum að
þarna hefðu orðið ákveðin kaflaskil í
stjórnmálasögu þjóðarinnar á 20.
öld. Sú staðreynd að hópur stuðn-
ingsmanna Ólafs greip til aðgerða
gegn yfirvöldum og hafði í fullu tré
við lögregluna sýndi hve ríkisvaldið
stóð á veikum grunni í íslensku sam-
félagi. Yfirvöld hafi í raun verið sem
lömuð og lögreglan ráðþrota. Þegar
þetta gerðist hefði danskt varðskip,
Islands Falk, legið í höfn og lög-
reglustjóranum í Reykjavík, Jóni
Hermannssyni, hefði nú hugkvæmst
að kanna möguleika á stuðningi
skipherrans við frekari aðgerðir.
Skjöl sýna að Broberg skipherra
leitaði eftir heimild yfirboðara sinna
í flotamálaráðuneytinu til að aðstoða
lögregluna. „Ef löglegt ráðuneyti
hér fer fram á aðstoð herliðs gegn
byltingarmönnum, á ég þá að sker-
ast í leikinn?“ spurði hann í skeyti
19. nóvember. Skafti segir að svo
virðist sem hann hafi fengið jáyrði.
Skjölin sem Skafti gróf upp sýna
að fyrirspurnin var send án vitundar
og vilja danska sendiherrans í
Reykjavík, J. E. Böggild, sem mælt
hafði eindregið gegn þátttöku þegar
skipherrann bar málið undir hann.
Skjölin sýna ennfremur að Böggild
taldi skipherrann hafa þverbrotið
allar hefðir og venjur sem giltu um
samskipti danskra og íslenskra
stjórnvalda. Í skeytum til danska ut-
anríkisráðuneytisins lýsti Böggild
furðu á framgöngu skipherrans og
lagði ríka áherslu á að danskir sjólið-
ar yrðu ekki settir á land í Reykja-
vík. Slíkt gæti stefnt samskiptum
ríkjanna í hættu, enda myndu Ís-
lendingar líta á það sem erlenda
íhlutun. Ekki væri um byltingartil-
raun að ræða heldur ungæðislegt
upphlaup. Væri engin ástæða til að
ætla annað en að lögreglan og vara-
lið hennar gætu komið á röð og reglu
í höfuðstaðnum. Sendiherrann fór
einnig á fund Jóns Magnússonar,
forsætisráðherra, og kemur fram í
skjölunum að ráðherrann hafi upp-
lýst að Jón Hermannsson, lögreglu-
stjóri, hefði að eigin frumkvæði leit-
að eftir aðstoð skipherrans á Islands
Falk. Forsætisráðherra hefði verið
óánægður með þetta tiltæki og sagt
ljóst að ríkisstjórnin mundi ekki
nema í ýtrustu neyð fara fram á
vopnaða danska aðstoð, þar sem hér
væri um íslenskt innanríkismál að
ræða. Þó hefði ráðherrann fagnað
upplýsingum skipherrans um að
hann hefði fengið heimild frá yfir-
boðurum sínum til aðstoðar.
Skafti telur að ummæli Jóns
Magnússonar varpi ljósi á það hvers
vegna Jóhann P. Jónsson skipherra
var settur aðstoðarlögreglustjóri í
Reykjavík til að stýra næstu aðgerð-
um gegn Ólafi Friðrikssyni sem
fram fóru 23. nóvember. Stjórnin
hafi ekki treyst Jóni Hermannssyni
lögreglustjóra til að stýra aðgerðum.
Þá telur Skafti að samtalið við sendi-
herrann hafi ýtt á eftir því að málið
yrði tafarlaust til lykta leitt á inn-
lendum vettvangi. Það gerðist með
útboði fjölmenns varaliðs sem
stormaði með lögreglunni að húsi
Ólafs þar sem aðeins um tuttugu
manna hópur var til varnar og var
yfirbugaður.
Klofningur
Greining danska sendiherrans á
ástandinu á Íslandi er athyglisverð.
Í skeyti til danska forsætisráðherra
Dana 25. nóvember, þegar atburð-
irnir voru yfirstaðir, segir hann að
hinar harkalegu aðgerðir sem rík-
isstjórnin greip til marki upphaf
klofnings í hinu litla íslenska sam-
félagi, á milli „borgarastéttarinnar“
annars vegar og jafnaðarmanna hins
vegar. Hingað til hafi stéttaskipting
ekki þekkst í þessu lýðræðislega
samfélagi, stéttarígur væri óþekktur
og fyrst nú á síðastliðnum árum að
farið hafi að bera á auðmannastétt.
Eftir sé að koma í ljós hve djúp-
stæður þessi klofningur eigi eftir að
verða og hvaða áhrif atburðirnir
muni hafa á framtíðarþróun stjórn-
mála á Íslandi.
„Upphaf klofnings í íslensku
Áður ókunn skjöl um „hvíta stríðið“ í Reykjavík 1921 koma í leitirnar Lögreglan var yfirbuguð
Leitað var liðsinnis danska hersins Ekki byltingartilraun að mati danska sendiherrans
Ljósmynd/Brauðstrit og barátta eftir Benedikt Sigurðsson.
Herlið Dátar á danska varðskipinu Islands Falk munda byssustingi á Siglu-
firði í byrjun síðustu aldar. Ekki varð af þátttöku þeirra í „hvíta stríðinu.“
Ljósmynd/Óskar Gíslason. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Yfirbugaður Ríkisvaldið sýnir mátt sinn. Fjölmenn fylking lögreglu og
varaliðs stormar að húsi Ólafs Friðrikssonar við Suðurgötu 23. nóv. 1921.
Skafti Ingimarsson