Húnavaka - 01.05.1987, Page 16
14
HUNAVAKA
að taka inn hesta, fór hann þetta bara labbandi og skokkaði út eftir að
morgni og heim aftur að kvöldi. Sjálfsagt hefur ekkert verið talað um
að hann fengi ferðapeninga eða eitthvað því um líkt. Hann var mjög
léttur á fæti, og skokkaði alltaf öðru hvoru. Hann sagðist einu sinni
hafa orðið samferða fullorðnum manni hérna úr sveitinni sem
þrammaði alltaf svona jafnt og þétt. Þeir voru mikið lengur á leiðinni
en hann var vanur, en aldrei sagðist hann hafa orðið jafn þreyttur á
þessari leið og að verða manninum samferða því að þá gat hann ekki
haldið sínum venjulega ferðahraða.
Það var ýmislegt annað sem hann vann fyrir samvinnufélögin,
meðal annars var það nokkuð mörg ár sem hann var markaðshaldari,
keypti hross. Þá voru þau seld til Englands og notuð í kolanámum þar.
Kaupfélagið stóð fyrir þessum kaupum hérna og hann var markaðs-
haldari fyrir það, mældi hrossin, skráði og því um líkt. Verðið var
fyrirfram ákveðið. Það fór eftir hvað hrossin voru gömul, þau máttu
vera frá þriggja til átta vetra. Einnig var farið eftir stærðinni, það var
bandmál og miðaðist við hæð á herðakamb. Einnig þurfti að skoða
upp í þau og sannprófa að aldur væri réttur. Hrossasalan var virkilega
mikil tekjulind fyrir bændur meðan þessi markaður stóð. Markaðir
voru auglýstir á vissum stöðum, og þangað komu menn með sín hross.
Eg man eftir því að hann tók mig einu sinni með sér í slíka ferð upp að
Kagaðarhóli. Þar hafði þá verið auglýstur markaður, sá austasti í
sýslunni í það skiptið, en síðan ætlaði hann að halda áfram vestur og
reka til Reykjavíkur. Einhverra hluta vegna vantaði hann rekstrar-
mann þarna, ég var þá stráklingur og þótti þetta ákaflega skemmtileg
ferð. Þegar við komum að Kagaðarhóli voru margir komnir þar með
hross og voru mörg þeirra keypt þennan dag líklega 70-90, og held ég
að þau hafi flest verið úr Svínavatns- og Torfalækjarhreppi sem við
rákum svo hér vestur og hingað heim að kvöldi. Síðan var markaður
hér daginn eftir fyrir Vatnsdal og Þing og að honum loknum var
haldið áfram með hópinn sem var orðinn æði stór vestur sýslu og
suður.
Veistu hvað þessi hrossasala stóð lengi?
Ég er ekki viss um það. Ég hef heyrt talað um að Coghill sauða-
kaupmaður hafi keypt hér eitthvað af hrossum. Það er það fyrsta sem
ég hef heyrt að hafi verið flutt út héðan. Síðan held ég að þessi
útflutningur hafi legið niðri yfir stríðsárin. Þegar þessi viðskipti voru
tekin upp að nýju eftir stríðið held ég að maður að nafni Guðmundur