Húnavaka - 01.05.1987, Page 29
HÚNAVAKA
27
manni sem vildi kasta fé sínu svona? Mjög fáir þekktu þennan mann,
en þó voru nokkrir sem vildu fullvissa aðra um að öllu væri óhætt með
Tryggva, hann myndi traustur maður. Og við hann var samið og
reyndist hann í fyllsta máta trausts verður.
Það má segja að þáttaskil hafi orðið í veiðifélaginu þegar hús þess,
Flóðvangur, var byggt sumarið 1964.
Enskur maður, J. A. Cooper gerði það tilboð haustið 1963 að fengi
hann ána til 10 ára skyldi hann greiða 825.000 á ári og auk þess eina
milljón strax ef félagið vildi byggja hús yfir veiðimennina sem á
þessum tíma urðu að búa á Blönduósi. Ákveðið var að taka þessu
tilboði. Guðmundur í Ási var formaður félagsins, hafði tekið við for-
mennsku 1948. Þegar til tals kom að byggja hús yfir veiðimennina
fannst honum, ásamt fleirum, að mjög heppilegt væri að húsið mætti
jafnframt nota sem félagsheimili fyrir Ás- og Sveinsstaðahrepp utan
veiðitíma. I báðum hreppunum voru lítil samkomuhús sem voru orðin
alls ófullnægjandi. Leitað var til beggja hreppsnefndanna um slíkt
samstarf. Eftir að haldnir höfðu verið almennir hreppsfundir um
málið, þar sem menn voru þó alls ekki á eitt sáttir, gengu hrepps-
nefndirnar til samstarfs við veiðifélagið um undirbúning. Teikninga
að slíku húsi var aflað. Eftir var þó að semja um rekstur hússins, fá
samþykki Félagsheimilasjóðs um framlag og fleira.
Stjórn veiðifélagsins fór síðan til Reykjavíkur eftir áramótin til móts
við væntanlegan leigutaka, J. A. Cooper, til að ganga frá samningum.
Mér fannst þetta stórkostlegur samningur. Umtal um hann vakti líka
athygli svo að blaðaljósmyndarar voru sendir til að taka af okkur
myndir við undirritun. í blöðunum var þetta talinn einhver hag-
stæðasti leigusamningur sem gerður hafði verið um íslenska veiðiá. 1
þessari ferð fengum við lofun fyrir þátttöku Félagsheimilasjóðs að svo
miklu leyti sem húsið yrði notað sem slíkt. Einnig fengum við betur
útfærðar teikningar.
Þegar við komum norður aftur og lögðum þessi gögn fyrir hrepps-
nefndirnar, virtust þær vera allri byggingu andsnúnar, settu alls konar
skilyrði sem útilokað var fyrir veiðifélagið að ganga að. Þannig lauk
þessum viðræðum og fór Guðmundur strax til Reykjavíkur að fá
teikningum breytt til samræmis við þarfir veiðifélagsins. Húsið varð
að vísu nokkru stærra en félaginu var nauðsyn, eða 300 m2 enda hafa
þar verið haldnir nokkuð fjölmennir fundir og samsæti sem ekki hefur
verið pláss fyrir annars staðar í þessum sveitum.