Húnavaka - 01.05.1987, Page 31
HUNAVAKA
29
Eins og ég hef rakið nokkuð hér að framan þá hef ég flækst nokkuð
inn í félagsmál þótt ég vilji sjálfur halda því fram að ég hafi ekki sóst
eftir þeim, og ég hef lika verið blessunarlega laus við öll sárindi þótt
aðrir hafi verið settir í störf sem ég hef áður gegnt. — Víst er oft
skemmtilegt að starfa að ýmsum málum og geta þannig tekið virkari
þátt í ýmsu sem er að gerast í samfélaginu. Maður kynnist líka miklu
fleiri mönnum og málefnum en annars væri kostur.
Hefur þú ekki sinnt ýmsu fleiru á félagsmálasviðinu en fram er komið hér að
framan?
Jú, ég var mörg ár í stjórn Búnaðarfélags Sveinsstaðahrepps og
sóknarnefnd Þingeyrakirkju. Allmörg ár í sýslunefnd og nokkuð oft
komið að landsskiptum og þess háttar. Þá hef ég á seinni árum nokkuð
fengist við endurskoðun og reikningshald fyrir ýmsa aðila.
Hvað getur þú sagt mér um trjálundinn hérna suður við veginn?
Þessi lundur var stofnaður af búnaðarfélaginu, kvenfélaginu og
ungmennafélaginu í sveitinni, fyrst og fremst fyrir forgöngu Jóns á
Másstöðum. Það mun hafa verið árið 1942 sem fyrst var plantað í
hann, og þá kom Hákon Guðmundsson þáverandi skógræktarstjóri og
plantaði fyrstu plöntunum.
Jón á Másstöðum nefndi lundinn Ólafslund. Honum fannst leitt að
hafa lundinn nafnlausan og sagði sem svo að það væri eins gott að hafa
nafn afa síns, Ólafs Jónssonar á Sveinsstöðum á honum, en Ólafur var
einn af stofnendum Búnaðarfélags Sveinsstaðahrepps.
Ekki hefur verið plantað reglulega í lundinn, en þó öðru hverju
síðan. Elstu trén eru nú orðin talsvert há.
Var þetta með fyrstu trjálundunum hér um slóðir?
Eitthvað var komið af trjám áður heima við bæi, og frammi á
Haukagili var kominn talsverður skógarlundur sem hafði verið sáð til.
Koofoed Hansen skógræktarstjóri hafði verið á ferð þar stuttu eftir
1920 og sáði þá til lundarins sem dafnaði mjög vel. Einnig sáði hann til
lunda á Eyjólfsstöðum og Hofi.
Hér hafa ýmsir atburðir Islandssögunnar gerst, svo sem Sveinsstaðafundur,
síðasta aftaka í Húnaþingi og fleiri. Verður þú nokkurn tima var við reimleika eða
annað slíktP
Ekki hef ég orðið var við það. Þó var ég viðstaddur þegar bein þeirra
Friðriks og Agnesar voru grafin upp hjá Þrístöpunum og tíndi þau
upp úr gröfunum, en þau hafa aldrei angrað mig neitt.
Matthías Þórðarson þjóðminjavörður var eitt sinn á ferð hér þegar