Húnavaka - 01.05.1987, Side 38
36
HUNAVAKA
pöntunardeildar í Vindhælishreppi. Helstir hvatamenn þess voru þeir
sr. Jón og Árni á Þverá. Gekk það fram á fundinum að deildin var
stofnuð, en það gert að skilyrði að vörum er deildin pantaði yrði skipað
upp á Skagaströnd. Deildarstjóri var ráðinn Árni Árnason í Höfða-
hólum. Stóð hann fyrir deildinni til vors 1902. Gekk það greiðlega að
fá vörum deildarinnar skipað upp á Skagaströnd. Kaupfélögin skiptu
þá því nær eingöngu við Zöllner og hafði hann skip í förum til
vöruflutninga. Var Zöllner oft sjálfur með skipi sínu og heimsótti
félagsstjórana. Árið 1899 var vöruvelta deildarinnar kr. 5000,00 og
voru deildarstjóralaunin þá l’/2% eða kr. 75,00 og fæði á aðalfundi en
kaup var ekki borgað sérstaklega fyrir það starf. 1902 var vöruveltan
rúmar 10.000 krónur og deildarstjóralaun þá 2%. Þess var gætt eftir
föngum að ekki stöfnuðust skuldir, hvorki innandeildar eða út á við,
við félagið. Voru auk deildarstjóra fjórir menn í ábyrgð fyrir fullum
skilum deildarinnar gagnvart félaginu. Fyrsta árið voru það þeir Árni
á Þverá, Jóhann á Finnsstöðum, Benóný Ólafsson á Keldulandi og
Steingrímur Jónatansson á Neðstabæ. Pantanir þeirra sem ekki þóttu
öruggir skilamenn voru jafnan bornar undir þá. Kom það ekki fyrir,
að skuldir féllu á ábyrgðarmennina.
Á aðalfundi K.H. 1901 var samþykkt að fá leigða lóð á Hólanesi og
byggja þar skúr yfir vörur deildarinnar. Þótti þá ekki lengur viðun-
andi, að eiga ekki ráð á húsrúmi hvað sem við lá og gekkst deildarstjóri
fyrir þessum framkvæmdum. Skúrinn var byggður vorið 1902, 8x6
álnir og kostaði fullgjör kr. 275,72. Vorið 1905 var skúrinn stækkaður
um helming, eða því sem næst. Uppskipunarbát fékk deildin fyrst
1904, en hafði áður orðið að notast við fiskibáta eða fá lánaða báta hjá
kaupmönnum á Hólanesi eða Skagaströnd og þótti hvorugur kostur
góður.
Vorið 1902 var Ólafur Björnsson á Hofi kosinn deildarstjóri og
mætti hann á aðalfundi kaupfélagsins í janúar 1903. Jukust nú smám
saman viðskipti við deildina en jafnframt veittist örðugra að halda
henni skuldlausri við kaupfélagið. Ekki var laust við að kaupmenn
hefðu horn í siðu þessa félagsskapar, og enda sumir bændur fyrir áhrif
þaðan. Aðalgjaldeyrir þeirra er við félagið skiptu var, eins og fyrr segir,
hross og fé á fæti, Bráðlega var þó farið að taka kjöt og gærur og svo
ull, er skúrarnir voru uppkomnir á Hólanesi. Fé það er tekið var á fæti,
sauðir, veturgamlar og geldar ær, mátti ekki vera léttara en 104 pund
til þess að það væri útflutningshæft. Um aldamótin (1900 eða 1901)