Húnavaka - 01.05.1987, Side 42
40
HUNAVAKA
verðs allar eignir félagsins og skrásetja. Gerðu þeir það Ólafur
Björnsson og Brynjólfur Lýðsson á Ytri-Ey. Nokkru fyrr, 6. janúar, var
almennur félagsfundur á Bergi. Á þeim fundi voru samþykktar laga-
breytingar sem fyrr segir og gengu þegar í gildi. Samkvæmt þeim voru
á fundinum kosnir fimm fulltrúar er sitja skyldu aðalfund og eiga þar
atkvæðisrétt ásamt stjórn og endurskoðendum. Fyrstir fulltrúar voru
þeir Benedikt Benediktsson á Kálfshamarsnesi, Björn Árnason á
Syðri-Ey, Guðjón Einarsson á Harrastöðum, Sigurður Jónsson á Haf-
ursstöðum og Benóný Ólafsson á Skeggjastöðum.
Félagið efldist nú óðum og gerðist stjórnin og forgöngumennirnir
djarfari og einbeittari í framsókninni. Kom það fram í því að nú var
tekið að brjóta upp á ýmsum nýmælum, sem að vísu voru í aðsigi eða
að komast á hjá sumum kaupfélögum á landinu, þeim sem lengst voru
komin að þroska. Þannig kom það til umræðu á stjórnarfundi 21.
desember 1909, að breyta sölufyrirkomulagi þannig, að ákvæðisverð
væri lagt á vörur og arði síðan skipt við reikningslok. Var þessi háttur
þá upptekinn í Kaupfélagi Eyfirðinga og gafst þar vel þegar í byrjun
sem kunnugt er. Var þetta atriði rætt kappsamlega á næsta aðalfundi
(14. mars 1910). Ekki leist mönnum ráðlegt þar, að hverfa að þeim
verslunarháttum og varð ofan á að halda enn við pöntunarfyrir-
komulagið. Var þá og enn lengur deilt um það í ræðu og riti hvort
skipulagið væri í rauninni hagkvæmara. Þá var og brotið upp á því, að
félagið kæmi upp sparisjóðsdeild. Var það einkum Ólafur Björnsson er
barðist fyrir því máli og var það lengi á dagskrá hjá félaginu. Urðu
þær lyktir á um það mál, að stofnuð var innlánsdeild árið 1919 eins og
síðar segir. — Sambandskaupfélag Islands eins og það var nefnt í
fyrstu var þá að hefjast á legg og þótti þar, sem það var, hylla undir
höfuðvígi og brjóstvörn kaupfélaganna, sem þá voru mörg lítilsmeg-
andi og háð sundrungaröflum á ýmsa vegu. Kom nú til orða að
Verslunarfélagið gengi inn í Sambandið, en af því varð ekki að svo
búnu og drógst það til ársins 1917. En félagið tók að sér útsölu á
Tímariti kaupfélaganna og seldist það nokkuð meðal félagsmanna.
Á aðalfundi 1910 urðu formannaskipti í félaginu. Ólafur Björnsson
lét af, en Benedikt Fr. Magnússon á Spákonufelli tók við. Hann hafði
verið varaformaður árið áður. Skyldi hann hafa í kaup 23A% af árs-
umsetningu félagsins og hafa ábyrgð á vörurýrnun.
Endurskoðun reikninga höfðu á hendi oftast þeir Björn á Syðri-Ey
og sr. Jón Pálsson á Höskuldsstöðum. Meðan allt var í byrjun og