Húnavaka - 01.05.1987, Page 51
HUNAVAKA
49
svar að svo komnu. Stjórninni var nú falið að grennslast eftir með
hvaða kjörum Skagastrandarverslun fengist keypt. Varð það nú úr, að
formaður sleppti starfi því, er hann var ráðinn til hjá Sambandinu og
hélt áfram störfum sínum við félagið. Á stjórnarfundi 13. september
afréð stjórnin að kaupa fasteignir Höephners eftir að hafa talað við
Hemmert verslunarstjóra og grennslast eftir verði og skilmálum. En
17. nóvember var undirritaður kaupsamningur, þar sem E. Hemmert
seldi fyrir hönd Höephners erfingja, verslunarfélaginu fasteignir
þeirra á Skagaströnd og Kálfshamarsnesi. Voru þar í verslunarhús öll
á Skagaströnd, íbúðarhús og tún og rúmlega hálf jörðin Kálfshamar,
ásamt byggingum á Kálfshamarsnesi. Kaupverðið var kr. 55.000,00.
Skyldu kr. 20.000,00 útborgast við undirskrift samnings en eftirstöðv-
ar með jöfnum afborgunum á fimm árum. Misjafnt var litið á þessi
kaup. Enginn neitaði því, að félaginu væri það heppilegt, að ná
eignarhaldi á þessum fasteignum, svo mjög sem hægra var að reka
verslun á Skagaströnd en Hólanesi. En hitt deildu menn um hvort rétt
hefði verið að vinda að því svo skjótt, og eins það, hvort eignir þessar
væru ekki of borgaðar. Verðhrunið var nú komið i ljós, og sjáanleg
fjárkreppa fyrir dyrum í náinni framtíð. Þá urðu og margir til að álasa
stjórninni og þá sérstaklega Benedikt Magnússyni, sem fastast hafði
hvatt til kaupanna, fyrir það að bera ekki þetta mál undir félagsmenn
á deildafundum, áður en því væri til lykta ráðið. Varð það til þess
að tveir stjórnarnefndarmennirnir Ólafur Lárusson og Benedikt
Magnússon mættu á deildafundum í febrúar 1921 og skýrðu þar
ástæður allar til gerða sinna um þetta. Urðu umræður langar á sum-
um deildafundum, en alls staðar voru kaupin samþykkt.
Félagið seldi nú hreppnum verslunarhús sitt á Hólanesi fyrir kr.
15.000,00. Sláturskýlið stóð fyrst um sinn kyrrt á Hólanesi, og var ekki
flutt ofan á Skagaströnd fyrri en sumarið 1925. Húsakostur var nú
allmikill, en er fiskverkun félagsins jókst varð enn skortur á húsrúmi.
Nálægt nýjári 1921 áætlaði stjórnin verð á gjaldeyrisvöru eins og
venja var til áður en reikningar voru gefnir út. Verðfallið var þá
gífurlegt og mjög tregt um afurðasölu. En þrátt fyrir það, að áætlað
var gætilega reyndist þó of hátt gefið fyrir innlagðar vörur, einkum
kjöt. Verðið var sniðið eftir því sem gekk í verslunum nærlendis eða
nokkru hærra. Flest kaupfélög tóku það ráð að innkalla árið eftir það
sem ofborgað var. Auðvitað var það ekki vinsælt, en vitanlega rétt og
ekki hættulegt þar sem viðskiptamenn höfðu nægilegan félagsþroska.
4