Húnavaka - 01.05.1987, Page 81
HUNAVAKA
79
Marbæli á Langholti, skörungur mikill. Voru þau Lárus og Sigríður
foreldrar Ólafs kaupfélagsstjóra á Skagaströnd.
Dóttur átti Árni áður en hann giftist. Hún hét Hólmfríður, var með
föður sínum og stjúpu á Torfustöðum og giftist ekki. Svo bar við að
vetrarlagi að þar kom gestur og beiddist gistingar, Gunnar Gunnars-
son að nafni, skagfirskur að ætterni, reikunarmaður, og þá ungur.
Honum var heimiluð gistingin og setti Árni hann við að flétta
hnappeldur. Hafði hann fléttað tvær er kominn var fjóstími. Bauðst
hann þá til að fylgja Hólmfríði í fjósið og þá hún það með þökkum.
Ferð Gunnars í fjósið bar þann árangur er frá leið að Hólmfríður tók
að þykkna undir belti. Hún ól meybarn og lét heita Sigrúnu. Þá var
Hólmfríður meira en hálffertug. Árni ól upp dótturdóttur sína. En það
sagði hann að engin vinna hefði orðið sér eins dýr og sú þegar Gunnar
fléttaði hnappeldurnar. Árni lést á Torfustöðum 2. september 1878,
hálfáttræður. Þorbjörg kona hans dó 29. janúar 1880 og var þá komin
að Eiríksstöðum.
2. Guðmundur Þorkelsson, Fossum
Árið 1873 kom í Fossa Guðmundur Þorkelsson. Var hann sunn-
lenskur í föðurætt, en móðir hans Arnþrúður dóttir Guðmundar
Helgasonar á Grund og þar var hann fæddur. Guðmundur var hár
vexti en grannur, svartur á brún og brá og greppleitur, fjörmaður
mikill. Liðtækur til allrar vinnu, einkum sláttar. Átti hann fáa líka við
orfið og sló hann flestum meira og flestum betur. Hafði hann ætíð
mjóa skára, en bar ljáinn ótt og gerði afar breið ljáför. Mátti kalla
hann hlypi eftir ljánum þegar hann sló á sléttu. Heldur þótti hann
skröpumenni, ölkær og kvensamur, gleðimaður, gestrisinn og greið-
ugur. Ekki var hann talinn mikill vitsmunamaður og þóttist það ekki
heldur. Stundum orti hann þegar hann var drukkinn en ekki var það
gert í þeim tilgangi að fá laun fyrir og er hér lítið sýnishorn af kveðskap
hans.
Eitt sinn kom hann úr kaupstað og kom að Hvammi í Svartárdal.
Bjó þar þá Sigurður Sölvason. Hafði hann skegg mikið. Hann var
vínmaður og veitti Guðmundur Sigurði óspart. Tafðist burtför Guð-
mundar. Vildi hann komast af stað og kvað þá vísu þessa.