Húnavaka - 01.05.1987, Page 92
90
HUNAVAKA
fyrir þessu ferðalagi, sögðu að Fljótsdalsheiðin væri ekki runnin enn og
væri því ófær nema þaulkunnugum mönnum. Þeir sögðu að ég mundi
fljótlega snúa við þótt ég reyndi þetta. En einum manni leist vel á
þetta ferðalag og hvatti mig til að halda fast við áform mitt. Það var
Ari læknir á Brekku.
Síðustu nóttina í Fljótsdalnum gisti ég á Melum. Þar átti heima,
Páll Eyjólfsson, skólabróðir minn. Reyndar var varla hægt að segja að
ég væri þar um nóttina, því að klukkan rúmlega tvö lögðum við Páll af
stað. Hann ætlaði að fylgja mér á hestum upp á heiðarbrúnina eða
þangað sem sæmilegt væri að komast á hestum. Alautt var niður í
dalnum og upp á brúnir.
Við fórum eins og leið liggur inn fyrir Bessastaði og þar upp heiðina.
Ekki vorum við komnir langt upp fyrir brúnina þegar skaflar voru í
öllum lautum. Þeir voru greiðfærir þvi að frost var þarna uppi þótt
frostlaust væri niðri í dalnum. Það var með tilliti til þess, sem þessi
tími sólarhringsins var valinn til ferðar. Þegar ofar dró fór að verða
meira krap í snjónum og hélt það ekki hestum þó að frost væri. Þá sneri
Páll við með hestana. Ég var orðinn einn og annað hvort að duga eða
drepast. Hélt ég nú áfram vegslóðann, en alltaf varð meira og meira
krap í snjónum þangað til þetta var eitt krapahaf. Eg sá þá að ekki færi
ég langt í þessu færi.
Ari læknir hafði gefið mér þau ráð ef heiðin væri ófær að ekki væri
um annað að ræða en fara norður á heiðina, þá kæmi ég að stöðuvatni,
en úr því rynni lækur suður á heiðina. Þar sem lækurinn rynni úr
vatninu væri hægt að komast yfir. Ég breytti nú um stefnu og hélt í
norður. Þarna hækkaði landið nokkuð og færðin skánaði og eftir
skemmri tíma en ég bjóst við kom ég að læknum. Hann var allmikið
vatnsfall, en ekkert krap í ósnum og með því að vaða í boga inn í
vatnið var ágætt yfirferðar þarna. Þegar ég kom dálítið vestur fyrir
lækinn settist ég niður, hvíldi mig og virti fyrir mér landslagið. Þarna
var ég ekki alveg ókunnugur, því að ég fór í göngur haustið áður og fór
þessa sömu leið til að byrja með. Það voru Ranagöngur. Nú kannaðist
ég við þetta allt, Ranann, Eyvindarfjöll og afstöðuna að Hákonar-
stöðum á Jökuldal, en það var minn fyrsti áfangi. Ég sá líka hvernig
stóð á þessu krapaflóði. Lækurinn, sem ég fór yfir er afrennsli tveggja
vatna og önnur vötn eru framar á heiðinni. Afrennsli þessara vatna
hafa svo grunna farvegi að þeir stíflast og þá fer að hækka í vötnunum
af leysingu. Síðan rennur vatnið út á flata heiðina ofan á snjónum og